Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða miðar að aukinni verðmætasköpun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Staðsetning starfstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi.

Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur hjá Matís segir að meðal algengustu viðfangsefna fyrirtækisins sé þátttaka í vöruþróun og skipulagi verkferla hjá matvælafyrirtækjum. „Helsta leiðarljós Matís er að auka gæði, verðmæti, hollustu og öryggi framleiðslunnar og efla þannig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi og stuðla að betri lýðheilsu.“

Tíu starfsstöðvar

„Meginaðsetur Matís er í Reykjavík en þar að auki eru starfræktar níu starfsstöðvar um allt land. Starfsemin er margvísleg en með sérstakri áherslu á samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. Starfsmannafjöldi Matís er um eitthundrað og innan þess hóps eru margir af helstu sérfræðingum landsins í matvæla- og líftækni auk fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknatengdu nám.“

Páll Gunnar segir að mörg verkefnin séu smá og afmörkuð og eigi því  ekki möguleika á styrkjum hjá samkeppnissjóðunum auk þess sem umsóknafrestur og afgreiðslutími sjóða getur verið það langur að verkefnin lognast út af meðan beðið er..

Nauðsynlegt að bregðast hratt við

„Öflun sjávarfangs er háð árstíðum og ef ekki tekst að koma verkefni í gang á tilteknum tíma getur biðtími orðið langur. Það er því mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við og hefja vinnu strax við mikilvægar verkefnahugmyndir sem vakna.

Undanfarin ár hefur Mátís lagt ríka áherslu á samstarf við einstaklinga og fyrirtæki sem eru að leita leiða til að auka verðmæti eða eru að undirbúa vinnslu nýrra afurða.

Vegna þessa settum við á laggirnar verkefnið Vöruþróunarsetur sjávarafurða með stuðningi Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Innan þess er unnið að fjölbreyttum vöruþróunarverkefnum á sviði sjávarútvegs út um allt land.  Verkefninu er ætlað að mæta þörf íslensks sjávarútvegs fyrir vöruþróun og frekari fullvinnslu. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfseminni hefur mikilvægi þess að geta brugðist við óskum fyrirtækja og einstaklinga um aðstoð við vöruþróun aukist,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Tökum vel á móti öllum

Páll Gunnar segir að verkefni sem rati inn á borð hjá Matís séu oftar en ekki komin frá fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni og hefur efling starfsemi Matís á landsbyggðinni haft mikil áhrif þar á.

„Við tökum sem sagt vel á móti öllum sem hafa góða hugmynd að vöruþróun eða þurfa aðstoð við að koma hugmynd sinni í rétta búning og við getum hafist handa mun fyrr en ef við þyrftum að reyna fjármögnun í gegnum hið hefðbundna sjóðakerfi.

Á þessum tveimur árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur Matís komið að ríflega 50 verkefnum og hafa sum þeirra  þegar skilað vörum og nýrri starfsemi. Má þar nefna afurðir byggðar á þara eins og þaraskyr og  smyrsl. Sem stendur er unnið að þróun fæðubótarefna úr þara, byggþarapasta, reykingu á ufsa, olíu unninni úr humar, heilsusnakki úr sjávarfangi, bættri nýtingu grásleppu, leiðbeiningum fyrir fólk sem búa vill til sinn eigin saltfisk, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Páll Gunnar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson.