Nýting hliðarafurða úr ylrækt í skordýrafóður 

Heiti verkefnis: Nýting hliðarafurða úr ylrækt í skordýrafóður

Samstarfsaðilar: Landbúnaðarháskóli Íslands

Rannsóknasjóður: Matvælasjóður

Upphafsár: 2023

Tengiliður

Eva Margrét Jónudóttir

Verkefnastjóri

evamargret@matis.is

Framkvæmdar verða fóðurtilraunir þar sem mjölormar fá mismunandi tegundir af fóðri, þ.e. hefðbundið fóður auk gulróta (viðmiðun), hefðbundið fóður auk tómatblaða og hefðbundið fóður auk gúrkublaða. Gerðar verða mælingar á þungmálmum og varnarefnum í lokaafurð ásamt því að mæla önnur óæskileg efni.

Vitað er að í tómatblöðum má finna efni eins og sólanín og tómatín sem gæti takmarkað notkun tómatlaufa í matvæli vegna eitrunaráhrifa. Vert er að kanna hvort mjölormarnir geti brotið þessi efni niður með einhverjum hætti svo þau skili sér ekki í lokaafurð. Því verða gerðar mælingar á þessum efnum sem og aðrar efna- og örverumælingar bæði í fóðri og í lokaafurð mjölormanna.  

Markmið 
Markmið verkefnisins er að kanna möguleika á að nýta hliðarafurðir úr íslenskri ylrækt sem skordýrafóður fyrir mjölorma. Með verkefninu verður lagður grunnur að ræktun og nýtingu skordýra á Íslandi til að framleiða prótein til fóður- og matvælaframleiðslu sem og að styrkja garðyrkjuframleiðslu í landinu með því að auka fullnýtingu innan greinarinnar.  

Rannsóknaspurningar 

  • Er hægt að nýta hliðarafurðir úr ylrækt sem skordýrafóður? 
  • Geta mjölormar brotið niður óæskileg efni sem takmarka notkun hliðarafurða frá ylrækt í fóður eða matvæli? 
  • Er notkun mjölorma sem fóðraðir hafa verið á hliðarafurðum ylræktar í fóður eða matvæli hættulaus með tilliti til óæskilegra efna? 

Helstu afurðir verkefnisins 

  • Upplýsingar um nýtingu hliðarafurða ylræktar, eins og tómat- og gúrkublaða sem fóður fyrir mjölorma 
  • Upplýsingar um efnainnihald, þungmálma, varnarefni og önnur óæskileg efni í hliðarafurðafóðri og mjölormaafurðum 
  • Upplýsingar um áhrif þess að fóðra mjölorma á hliðarafurðum ylræktar í samanburði við hefðbundna fóðrun. 
  • Upplýsingar um næringargildi og öryggi með tilliti til örvera mjölormaafurða sem hægt er að nýta í fóður eða fæðu. 
  • Aukin þekking innanlands á möguleikum við þróun og nýsköpun í þessari nýju og spennandi búgrein sem skordýrarækt kann að vera.