Þróun á nýrri hraðvirkri efnagreiningaraðferð

Heiti verkefnis: REIMS

Samstarfsaðilar: Queens University Belfast (N-Ireland), Acesur (Spain), Colryut (Belgium), Colruyt Group Services(Belgium)

Rannsóknasjóður: EIT Food

Upphafsár: 2020

Þjónustuflokkur:

Botnfiskur

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Markmið REIMS er að þróa nýja hraðvirka efnagreiningaraðferð til nýta má til að staðfesta uppruna í verðmætum matvælum sem viðkvæmar eru fyrir matvælasvindli, s.s. hvítfiski og ólífuolíu.

REIMS er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem styrkt er af evrópska samkeppnissjóðnum EIT Food og Matís er þátttakandi í. Þar standa nú yfir rannsóknir á því hvort aðferð sem kölluð er REIMS, en það stendur fyrir Rapid evaporative ionisation mass spectrometry, gagnist við að aðgreina fisktegundir hverja frá annarri hratt og örugglega. Þessi aðferð felur í sér að sýni er tekið og rafstraumi er hleypt á það, en við þann bruna myndast gas sem fer í gegnum massagreini sem aðgreinir tegund sýnisins. Einnig er verið að skoða hvort nota megi REIMS aðferðina til þess að greina hvort fiskur hefur verið frystur og afþíddur fyrir sölu. Verkefnið er leitt af Queens University í Belfast á Norður-Írlandi og aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru ólífuolíuframleiðandinn Acesur á Spáni og belgíska matvælakeðjan Colryut, en tæknin er einnig að koma vel út við að greina gæði ólífuolíu.

Í ljós hefur komið að með REIMS er á einfaldan hátt hægt að greina þorsk frá öðrum hvítfisktegundum, en tilraunir hafa verið gerðar á þorski, ýsu, keilu, löngu og beitarfiski (tilapia og pangasius). Einnig var gerð fjögurra vikna tilraun á þorski sem geymdur var í frysti við -20°C og í ljós kom að hann mátti vel aðgreina frá ferskum þorski með REIMS aðferðinni. Auk þess var þorskur sem hafði verið uppþíddur eftir tvífrystingu borinn saman við þorsk sem hafði verið frystur einu sinni og fram kom augljós munur í niðurstöðunum með aðferðinni.

Ljóst er að þessi tækni gefur góða raun við að greina tegundasvindl og hvort afurðir hafi verið frystar og þíddar fyrir sölu án þess að það sé tilgreint. Vinna við verkefnið mun halda áfram á næsta ári þar sem skoðað verður hvar og hvernig tæknin nýtist við tegundagreiningar í virðiskeðjunni til að koma í veg fyrir tegundasvindl og tryggja rekjanleika afurða og gegnsæi virðiskeðjunnar.