ThermoBlue – Náttúrulegur blár matarlitur

Heiti verkefnis: ThermoBlue - Náttúrulegur blár matarlitur

Samstarfsaðilar: Deutsches Institut für Lebensmitteltechnik (DIL), Döhler, Elea, PepsiCo, Vaxa

Rannsóknasjóður: EIT Food

Upphafsár: 2020

Tengiliður

René Groben

Verkefnastjóri

rene.groben@matis.is

Eins og staðan er í dag  er ekki til náttúrulegur blár matarlitur sem þolir að matvæli séu hituð eða með hátt sýrustig. Í verkefninu ThermoBlue er leitast við að mæta þörfinni sem þarna er til staðar. Að verkefninu stendur hópur hæfra aðila sem allir hafa ákveðna þekkingu til þess að búa til nýja vöru sem er þessum eiginleikum gædd og koma henni á markað.

Í ThermoBlue verkefninu verður náttúrulegt, stöðugt, blátt litarefni þróað úr hitakærum örþörungum sem finnast í heitum íslenskum uppsprettum. Litarefnið verður framleitt með hreinni íslenskri orku í húsakynnum VAXA á Hellisheiði og í Reykjavík. Sjálfbærni, heilnæmi og minnkuð sóun eru áhersluatriði í framleiðslunni. Þörungategundirnar sem nýttar verða í verkefninu vaxa við hátt hitastig og það hefur í för með sér að framleiðslan ætti að vera laus við mengunarvalda.

Neytendur ætlast til þess að matvæli séu náttúruleg, heilsusamleg, og framleidd á sjálfbæran og öruggan hátt. Þessi hitastöðugu, vatnsleysanlegu, próteinkenndu litarefni (jafnan kölluð PBP) sem finnast í hitakærum örþörungum uppfylla þessar kröfur. Það má bæta þessum PBP efnum í flest matvæli, til dæmis í mjólkurvörur og ýmsa drykki, til að auka ánægju neytenda þar sem efnið er algjörlega náttúrulegt en ekki úr gerviefnum eins og flest önnur blá litarefni í mat. Að auki má nota PBP litarefnin í margt fleira en matvæli, svo sem í snyrtivörur, lyf og í líflæknisfræðileg efni.