MareFrame var alþjóðlegt rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem stóð yfir á árunum 2014 – 2017. Verkefnið var stutt af sjöundu-rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun (FP7) og var markmið þess að þróa áfram vistkerfisnálgun fyrir stjórn fiskveiða í Evrópu, þar sem vistkerfið í heild er tekið í auknum mæli inn í ákvarðanatöku við stjórn fiskveiða. Í verkefninu voru því þróuð áfram fjölstofnalíkön og leitast við að nýta upplýsingar um efnahagslega- og félagslega hvata inn í módelin.
Íslenskir þátttakendur gegndu lykilhlutverki í MareFrame þar sem Matís stýrði verkefninu, Háskóli Íslands fór með vísindalega stjórn og Hafrannsóknarstofnun leiddi einn af verkpökkunum.
Einnig skipaði íslenskur sjávarútvegur stóran sess í verkefninu, þar sem Ísland var ein af tilvikagreiningunum (case studies) í verkefninu. Sem hluti af því átti sér stað mikilvæg þróun á þrem fjölstofnalíkönum (GADGET, EwE og Atlantis) fyrir íslenskt hafssvæði, en að þeirri vinnu mun Íslenskt samfélag búa til framtíðar.
Yfirgripsmikið samráð fór fram við íslenska hagaðila í verkefninu, sem hjálpaði til við að þróa aðferðafræðina.
Sjá nánar http://mareframe.eu og https://cordis.europa.eu/project/id/613571