Fréttir

Sjálfbærni verður súrefni fyrir ferðaþjónustu framtíðarinnar

Á Nýsköpunarvikunni sem fer fram í þessari viku mun Íslenski Ferðaklasinn í samstarfi við Matarauð Íslands, Matís og Hacking Heklu, standa fyrir viðburði sem mun m.a tengja saman tækifæri í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á Norðurlöndunum, hvernig við stöndum saman að auknum gæðum, öryggi og samstarfi þvert á greinar, lönd og virðiskeðjur.

Þar verður einnig skoðuð þróun á sjálfbærni fyrir ferðaþjónustuna og tengingu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en verkefnið var unnið á sumarmánuðum með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Kynningin verður á fimmtudaginn klukkan 10:00 og mun hún fara fram á netinu.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.

Fréttir

Möguleikar hitakærra örvera í íslenskum hverum

Á dögunum birtist ítarleg umfjöllun á vefmiðlinum Euronews um verkefnið Virus-X sem Matís leiðir. Myndskeið fylgir umfjölluninni og þar er meðal annars spjallað við Arnþór Ævarsson verkefnastjóra verkefnsins.

Grundvallarmarkmið VIRUS-X er að einangra erfðaefni hitakærra veira beint úr náttúrulegum sýnum. Það er gert til að raðgreina erfðamengi þeirra, bera kennsl á áhugaverð gen og framleiða viðkomandi gena­afurðir, fyrst og fremst ensím, til frekari skoðunar og hagnýtingar.

Umfjöllunina má finna hér.

Fréttir

Ert þú með hugmynd að verkefni fyrir Matvælasjóð?

Opnað hefur verð fyrir umsóknir í hinn nýstofnaða Matvælasjóð sem styrkir þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla.

Hefur þú verkefnishugmynd sem þú vilt senda inn í sjóðinn og vantar samstarfsaðila til að vinna með? Hlutverk Matís er að styðja við verðmætasköpun og framleiðslu heilnæmra afurða með rannsóknum og nýsköpun. Starfsmenn Matís hafa mikla reynslu af því að móta verkefnahugmyndir í rannsóknasjóði og geta því stutt frumkvöðla og fyrirtæki í því að ná árangri með hugmyndir sínar.

Ef þú hefur áhuga á að vinna með Matís að mótun og framkvæmd verkefnis þá hvetjum við þig til að hafa samband.

Smelltu hér til að hafa samband við okkur!

Fréttir

MAKEathon á Íslandi

Matís mun halda svokallað MAKEathon á fjórum stöðum á Íslandi, frá 10. til 18. september næstkomandi, þar sem áhersla verður lögð á nýtingu hliðarafurða úr sjávarútvegi. Viðburðurinn er hluti af verkefninu MAKE-it! sem er fjármagnað af Evrópusambandinu (EIT Food).

MAKEathon fer fram í Reykjavík, Akureyri, Neskaupstað og á Vestfjörðum (Bolungarvík/Ísafirði). Um er að ræða nýsköpunarkeppni sem leggur áherslu á að búa eitthvað til með höndunum til þess að mæta ákveðinni áskoruninni eða vandamáli. Að þessu sinni mun þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn koma saman til að finna lausnir við eftirfarandi áskorun:  

Hvernig getum við aukið verðmæti á aukahráefni úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari?

Þátttakendur fá að vinna með hráefni, bein og roð af fiski, og fá tækifæri til að „leika sér“ með það og búa til úr því frumgerð að vöru. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við FabLab á Íslandi og gefur þátttakendum frábært tækifæri til að kynnast nýsköpunarumhverfinu betur og jafnframt tækifæri til að þróa eigin vöru.

MAKEathonið í Reykjavík, Akureyri og Neskaupsstað þarf að fara fram að mestu í gegnum netið.* Þátttakendur fá tækifæri til að fara í FabLab og vinna að því að búa til frumgerðina sína. Það er þó valkvæmt og þátttakendum er velkomið að vinna verkefnið að heiman.

Dagskrá MAKEathon (PDF)

MAKEathonið á Bolungarvík/Ísafirði fer fram í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og munu þátttakendur hittast til að vinna verkefnið.*

*Við þá hluta verkefnisins sem þátttakendur hittast eða hitta aðra verður öllum reglum yfirvalda er tengjast samskipti og samkomur vegna COVID-19 fylgt.

MAKEathonin eru opin öllum, engrar sérþekkingu í fiskvinnslu eða öðru er krafist og það er mögulegt að taka þátt og vinna verkefnið samhliða vinnu/skóla.

Til að fylgjast með upplýsingum um MAKEathonin er hægt að fara á Facebook síðu viðburðarins: https://www.facebook.com/MAKEitSEAFOOD.

Fréttir

Hrönn Jörundsdóttir næsti forstjóri MAST

Hrönn Jörundsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Matvælastofnunar frá og með 1. ágúst n.k. 

Alls bárust átján umsóknir um starf forstjóra Matvælastofnunar. Orðsending stjórnarráðsins segir að hæfnisnefnd hafi talið fimm umsækjendur vel hæfa til að gegna forstjórastöðunni. Í kjölfarið boðaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá í viðtal þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda. Var mat ráðherra að Hrönn væri hæfust til að stýra stofnuninni næstu fimm árin.

Hrönn hefur verið stjórnandi hjá MATÍS frá árinu 2016 þar sem hún hefur stýrt fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, stefnumótun, rekstri og ráðgjafarverkefnum. Einnig hefur Hrönn verið formaður áhættumatsnefndar á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru frá árinu 2019. Hún hefur ennfremur sérhæft sig á sviði matvælaöryggis, áhættumats og áhættumiðlunar.

Hún er með BS gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands og lauk MS-prófi í umhverfisefnafræði árið 2002 frá Stokkhólmsháskóla. Árið 2009 lauk hún einnig doktorsgráðu í umhverfisefnafræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur unnið hjá MATÍS undanfarin 11 ár.

Starfsfólk Matís óskar Hrönn velgengni í nýju og spennandi starfi.

Fréttir

Matís hlýtur styrk úr viðbragðssjóði EIT-Food vegna COVID-19

Sérstakur viðbragðssjóður á vegum EIT Food vegna COVID-19, Covid-19 Rapid Response Call for Innovation Projects, var settur á laggirnar í maí síðastliðnum til að flýta fyrir nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu sem gæti nýst til að styðja við matvælaframleiðslu og neytendur í Evrópu meðan á faraldrinum stendur. 

Matís og Algaennovation fengu úthlutað 615,9 þúsund evrur fyrir verkefnið CovidX þar sem ætlunin er að setja á markað fæðubótarefni sem er unnið úr spirulina þörungum. Fæðubótarefnið er sérstaklega hugsað fyrir áhættuhópa COVID-19.

Alls hlutu 13 verkefni styrk úr sjóðnum sem samanstanda af 52 stofnunum og fyrirtækjum. Sjóðurinn er hluti af viðbragðsáætlun Evrópusambandsins vegna COVID-19 faraldursins.

Nánari upplýsingar um verkefnin má finna hér.

Fréttir

Hvaða áhrif hefur COVID-19 faraldurinn haft á matarvenjur þínar?

Nú er Matís með netkönnun, sem er hluti af norænni-baltneskri rannsókn, þar sem ætlunin er að skoða breytingar á matarvenjum og neysluhegðun Íslendinga vegna COVID-19 faraldursins. Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur breytingar á neysluvenjum og viðhorfi til matar á meðan neyðarstig almannavarna var í gildi 6.mars til 25. maí 2020.

Með því að safna þessum gögnum og bera saman niðurstöður mun könnunin varpa ljósi á ýmis vandamál neytenda og áhyggjur í tengslum við matvælaöryggi, fæðuframboð og fæðuaðgengi.

Gögnin verða á engan hátt persónugreinanleg. Niðurstöður könnunarinnar verða bornar saman við kannanir sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum okkar. Þær geta svo nýst til að skoða ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda og matvælaframleiðanda á tímum faraldursins.

Faraldurinn hefur haft áhrif á okkur öll og með mismunandi hætti. Hann hefur haft áhrif á mataræði okkar og heilsu. Hann hefur haft áhrif á okkur andlega og fjárhagslega. Með betri skilningi á öllum þessu þáttum verðum við betur í stakk búin til að takast á við svipaðar aðstæður í framtíðinni.

Þátttaka þín er mikils virði. Þú getur tekið könnunina hér. Hún tekur aðeins 15 mínútur.

Greining á niðurstöðum og samantekt verður svo aðgengileg á vefsíðunni okkar þegar niðurstöður verða klárar.

Fréttir

FAO gefur út rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg í samstarfi við Matís

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) býður nú upp á rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg og viðbrögð við þeim, bæði í formi aðlögunar- og mótvægisaðgerða. Námskeiðið, sem er nú öllum opið í gegnum vefsíðu FAO, var unnið í tengslum við rannsóknarverkefnið ClimeFish sem lauk nú á dögunum. Matís hafði þar yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins sem sneri að aðlögun gegn áhrifum loftslagsbreytinga og gerð aðlögunaráætlana fyrir fiskeldi og fiskveiðar, og átti því stóran þátt í gerð námsefnisins.

Umrætt námskeið byggir á umfangsmikilli vinnu FAO á sviði loftslagsmála innan sjávarútvegsins, auk þess sem helstu niðurstöður ClimeFish verkefnisins eru nýttar. FAO hefur verið leiðandi á þessu sviði og birt fjölmargar skýrslur og samantektir um áhrif loftslagbreytinga á sjávarútveg á heimsvísu og þær áskoranir sem því fylgja. Má þar nefna stóra úttekt frá árinu 2018, sem Matís fjallaði einnig um á vefsíðu sinni. Námskeiðið veitir innsýn inn í áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og fiskveiðar, aðlögunar- og mótvægisaðgerðir, sem og þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til að setja upp aðlögunaraðgerðir til að bregðast við. Allir þeir sem hafa áhuga á að auka skilning sinn á umræddu viðfangsefni geta einfaldlega búið sér til notendaaðgang í gegnum vefsíðu FAO og í framhaldinu tekið námskeiðið, sem tekur um 2 klukkustundir. Námskeiðið er því aðgengilegt öllum en var þó hannað með ákveðna hópa í huga, þ.e. stjórnmálaleiðtoga og aðila innan stjórnsýslunnar, námsmenn, sérfræðinga, verkefnastjóra og fræðslufulltrúa innan sjávarútvegsins.

Uppbygging námskeiðsins er á þá leið að eftir ítarlegun inngang er námsefninu skipt upp í þrjár einingar, þar sem þeirri fyrstu er ætlað að auka almennan skilning á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra innan fiskeldis og fiskveiða, önnur einingin fjallar aðlögun, aðlögunaraðgerðir og gerð aðlögunaráætlana og sú þriðja ræðir mótvægisaðgerðir og hvernig þær geta dregið úr útblæstri innan geirans.

Hægt er að nálgast námskeiðið í rafrænni útgáfu í gegnum heimasíðu FAO, þar sem einnig er hægt að hlaða því niður, endurgjaldslaust. Að námskeiðinu loknu er hægt að nálgast sérstakt viðurkenningarskjal, gegn því að standast stutt lokapróf.

Aðkoma Matís að mati á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi, þróun aðgerðaáætlana, sem og þróun leiðbeininga og kennsluefnis á þeim sviðum, er gott dæmi um hvernig alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar byggir upp þekkingu og innviði sem nýtist íslensku samfélagi.

Nálgast má námskeiðið hér.

Skýrslur

Hollefni í íslensku og innfluttu grænmeti

Útgefið:

11/06/2020

Höfundar:

Ólafur Reykdal, Brynja Einarsdóttir

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Hollefni í íslensku og innfluttu grænmeti

Markmiðið með verkefninu var að leggja fram gögn um hollefni í íslensku grænmeti og bera þau saman við niðurstöður fyrir innflutt grænmeti. Með hollefnum er átt við vítamín og andoxunarefni.

Tekin voru sýni af 13 tegundum grænmetis, samtals 88 sýni. Gerðar voru mælingar á víta-mínunum A-vítamíni, E-vítamíni og fólati. Af andoxunarefnum voru mæld fjölfelól ásamt ORAC- og NPPH-andoxunarvirkni. Í sumum tilfellum var meira af vítamínum í íslensku grænmeti en innfluttu og má nefna sem dæmi A-vítamín og fólat í tómötum. Mikið fólat í blómkáli og rófum vekur athygli. Andoxunarvirkni kom fram fyrir allar grænmetistegundir. Talsverð andoxunarvirkni kom fram fyrir sveppi en í þeim voru A- og E-vítamín ekki mælanleg. Þetta sýnir að fleiri efni en þessi vítamín skipta máli fyrir andoxunarvirknina og má vera að einhver mikilvæg efni séu enn óþekkt. Jafnframt voru gerðar mælingar á trefjum, próteini og fitu. Þessar niðurstöður auðvelda næringargildismerkingar. 

Skoða skýrslu

Fréttir

Vilt þú efla matvælarannsóknir á Íslandi?

Hjá Matís eru stundaðar ýmsar rannsóknir sem flestar snúast um matvæli á einhvern hátt. Okkur vantar fólk til að leggja okkur lið í þessum rannsóknum. 

Þátttaka getur t.d. falist í:

  • Rýnihópavinnu þar sem rætt er um matartengd málefni eða vörur sem eru í þróun.
  • Könnunum þar sem þátttakendur meta vörur heima.
  • Viðhorfskönnunum um matartengd málefni á netinu.
  • Könnunum eða mati á vöru í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12.

Fyrir hverja rannsókn verða þátttakendur valdir af póstlistanum og þeim boðið að taka þátt. Þátttakendur í stærri verkefnum fá umbun í formi smárra gjafa, gjafabréfs, eða þátttöku í happdrætti.

Þátttakandi á póstlista getur hvenær sem er óskað eftir því að upplýsingar um viðkomandi verði fjarlægðar af listanum.

Eftirfarandi þættir eiga við um allar rannsóknir Matís:

  • Þátttakendur njóta fyllsta trúnaðar.
  • Nöfn þátttakenda koma hvergi fram birtingum niðurstaða.
  • Þátttakendum er alltaf í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í viðkomandi rannsókn.
  • Unnið verður með öll gögn í samræmi við persónuverndarlög.

Skráning á neytendalista Matís fer fram hér.

IS