Fréttir

Repju mjöl í fóðri fyrir lax

Repju ræktun, til framleiðslu á repju olíu, hefur aukist verulega á Norðurlöndum undangengin ár og er á góðri leið að verða nytjaplanta í íslenskum landbúnaði. 

Við kald-pressun á olíunni úr repju fræjum fellur til auka afurðin repju mjöl (um 70% af fræinu) sem inniheldur u.þ.b. 32% prótein, 11% olíu auk trefja. Veð á þessu hráefni er hagstætt og því áhugavert að skoða hvort hægt er að nota það í fóðurgerð. Aðeins er hægt að nýta takmarkað af þessari afurð í fóður fyrir hefðbundin húsdýr vegna neikvæðra áhrifa af hinu tiltölulega há innihaldi af ómettaðri fitu í mjölinu. 

Fyrri rannsóknir Matís, Háskólans á Hólum og Fóðurverksmiðjunnar Laxár, hafa sýnt að hægt er að nota allt að 33% repju mjöl í fóður fyrir bleikju án þess að það komi niður á vexti eða fóðurnýtingu.Þar sem markaður fyrir laxafóður er mun stærri en fyrir bleikjufóður er því áhugi fyrir því að skoða hvernig repju mjöl hentar í fóður fyrir lax.

Matís er því að skoða þetta í eldistilraun í Verinu á Sauðárkróki í samstarfi við  Háskólann á Hólum, Fóðurverksmiðjuna Laxá og Emmelev Trading í Danmörku, sem er einn stærsti framleiðandi repjumjöls á Norðurlöndum.

Fréttir

Gæludýr njóta góðs af vinnu Matís um borð í norskum línubátum

Ásbjörn Jónsson, ráðgjafi hjá Matís tekur túr um mánaðarmótin júlí/ágúst með Frøyanes AS, norskum línbáti, til að veita ráðgjöf hvernig nýta má hráefni, sem annars væri hent, til framleiðslu á gæludýrafóðri. Óhætt er að segja að hundar og kettir séu raunverulegir hagaðilar enda gæludýrafóður úr sjávarfangi fyrsta flokks.

Tilgangur ferðarinnar er að aðstoða við fullnýtingu á sjávarfangi. Megin áherslan verður lögð á tækifærin sem fyrir hendi eru með niðursuðu á hliðar hráefni úr afla til notkunar í verðmætara gæludýrafóður. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ásbjörn fer í slíka ferð en hann hefur verið tíður gestur hjá norskum útgerðum og hefur góður rómur verið gerður að þekkingu og vinnubrögðum hans.

Fréttir

FarFish fær 5 milljónir evra til að stuðla að bættri umgengni evrópska fiskveiðiflotans um hafsvæði utan Evrópu

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Í FarFish verkefninu taka þátt 21 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr Evrópu, Afríku og S-Ameríku. Að auki hafa fjöldi alþjóðlegra stofnanna og fulltrúar einstakra ríkja sem málið varðar skuldbundið sig til aðkoma að verkefninu eftir því sem þurfa þykir. Verkefninu er stjórnað af Matís, sem sýndur er mikill heiður með að vera treyst fyrir þessu mikilvæga verkefni.

Verkefnastjóri er Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi virðiskeðju rannsókna hjá Matís, en auk hans mun fjöldi annarra starfsmanna fyrirtækisins koma að verkefninu. Þess má til gamans geta að um 1,5 milljón af þeim 5 milljónum evra sem verkefnið er styrkt um, greiðist til íslenskra þátttakenda.

Matís og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations University Fisheries Training Program/UNU-FTP), sem staðsettur er hér á Íslandi, eru meðal þátttakenda í rannsóknar- og þróunarverkefninu FarFish, sem styrkt er af Horizon 2020 rannsóknaáætlun Evrópu. Verkefninu er ætlað að stuðla að bættri umgengni evrópska fiskveiðiflotans um hafsvæði utan Evrópu, auka þekkingu á þeim fiskistofnum sem flotinn sækir í á þeim svæðum,greina þær virðiskeðjur sem snúa að afla þessara skipa, sem og að auka þekkingu á fiskveiðistjórnun meðal hagaðila sem að þessum veiðum koma; það er bæði meðalviðeigandi strandríkja og evrópskra hagaðila.

,,Um 20% af afla evrópska fiskveiðiflotans er fenginn utanevrópskra hafsvæða. Þessi afli er meðal annars fenginn á alþjóðlegum hafsvæðum og innan lögsögu strandríkja þar sem samningar hafa verið gerðir um aðgengi evrópska flotans. Samningar við strandríki eru með nokkrum hætti, og það sem snýr að þessu verkefni beint er annars vegarsérsamningar milli einstakra útgerða og yfirvalda á hverju svæði fyrir sig og hins vegar samningar sem Evrópusambandið gerir við einstök ríki gegn vilyrði um fjárhagslega styrki til innviðauppbyggingar í sjávarútvegi á þeim slóðum. Þessir samningarhafa verið nokkuð umdeildir, þar sem Evrópusambandið og evrópski flotinn hefur meðal annars verið sakaður um að fara ránshendi um auðlindir fátækra ríkja, sér í lagi við vesturströnd Afríku. Til að bregðast við þessari gagnrýni hefur Horizon 2020 rannsóknaáætlunin ákveðið að styrkja rannsókna- og þróunarstarf sem stuðla á að úrbótum á þessu sviði; þar kemur FarFish verkefnið til sögunar,“segir Jónas Rúnar Viðarsson hjá Matís, sem er þekkingar- og vísindasamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi.

Í FarFish verkefninu verður athyglinni beint að sex hafsvæðum, það er innan lögsagna Grænhöfðaeyja, Máritaníu, Senegal og Seychelleseyja, sem og alþjóðlegra hafsvæða í suðaustur- og suðvestur- Atlantshafi.Safnað verður saman upplýsingum um líffræðilega, vistfræðilega, efnahagslega og félagslega mikilvæga þætti veiðanna og þær upplýsingar gerðar aðgengilegar;fiskveiðistjórnun innan svæðanna verða greind í þaula og komið fram meðtillögur að úrbótum; leitast verður við að auka ábyrgð evrópska flotans þegar kemur að nýtingu og upplýsingagjöf; og byggð verður upp þekking á grundvallaratriðum fiskveiðistjórnunar meðal hagaðila í strandríkjunum og innanevrópska fiskveiðiflotans.

,Ljóst er að hér er um gífurlega mikilvægt málefni að ræða og að ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Þó er einnig mikilvægt að hafa í huga að takist verkefninu að stuðla að einhverskonar framförum í þessum flóknu og oft á tíðum nær stjórnlausu veiðum, þá mun það geta haft úrslitaáhrif á viðgang mikilvægra fiskistofna og lífsviðurværi fjölda manna, jafnt í strandríkjunum landa utan Evrópu sem og í Evrópu.

Fréttir

Ný grein komin út í Icelandic Agricultural Sciences

Ný grein, sú fjórða í röðinni í hefti 30/2017, alþjóðleg vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (IAS) er komin út. 

Þetta er stuttgrein og á íslensku mundi hún nefnast „Athugun á plöntuvali móhumlu (Bombus jonellus) á Suðvesturlandi“. Athugunin var gerð á tveimur stöðum, í Heiðmörk og við Vífilsstaðavatn, sumarið 2016. Fyrri hluta sumars nærðist móhumlan (hunangsflugan, villibýflugan) aðallega á blóðbergi og fjalldalafífil, lítillega á blágresi og sáralítið á nokkrum öðrum plöntutegundum. Seinni part sumars var meira úrval af blómstrandi plöntum og fæðuvalið var þá ekki eins einsleitt. Þá nærðist móhumlan aðallega á engjarós, umfeðmingi, beitilyngi, blóðbergi, skarfífli og gullkolli. Rannsóknin sýndi greinilegan mun á plöntuvali móhumlu milli fyrirparts sumars og síðsumars og að hún nýtir sér fjölbreytni blómplantna mólendisins síðsumars.  

Þessa áhugaverðu grein má nálgast á vef IAS

Fréttir

Fræðslufundur um nýtingu sauða- og geitamjólkur

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Fullyrða má að ónýtt sóknarfæri liggi í nýtingu sauða- og geitamjólkur hér á landi.  Áhugi fyrir mjöltum og vinnslu úr mjólkinni er til staðar, enda möguleikarnir kannski meiri en nokkru sinni áður að bjóða heimaunnar landbúnaðarvörur nú þegar landið okkar er svo vinsæll áningarstaður ferðamanna.  Þá er ekki vanþörf á því að skoða alla möguleika sem kunna að vera fyrir hendi í því að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.

Fyrirhugað er að halda fræðslufund fyrir þá sem hafa hug á því að hefja mjaltir og vinnslu á afurðum úr sauða- og geitamjólk.  Markmið fundarins er að kynna fólki hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og að hverju þarf að huga áður en farið er af stað í slíkt verkefni. Þess má til gamans geta að áhugi á þessum fundi er mun meiri en við áttum von á og nú hafa vel á 30 tug áhugasamra skráð sig á fundinn.

Á fundinum mun Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, greina frá reynslu þeirra bænda í Akurnesi af framkvæmd sauðamjalta.  Óli Þór Hilmarsson hjá MATÍS mun fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar samkvæmt núgildandi reglugerðum.  Þá mun Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækni ráðunautur RML, fjalla um aðstöðu við mjaltir.

Fréttir

Doktorsvörn – áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk

Fimmtudaginn 15. júní ver Godfrey Kawooya Kubiriza doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk (The effects of dietary lipid oxidation on farmed fish).

Hvenær hefst þessi viðburður: 15. júní 2017 – 13:00
Staðsetning viðburðar: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðarsalur

Andmælendur eru dr. Anders Kiessling, prófessor við Swedish University of Agricultural Sciences, Department of Animal Nutrition and Husbandry, Svíþjóð, og Þórarinn Sveinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi er Helgi Thorarensen, prófessor við Háskólann á Hólum, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Aðrir í doktorsnefnd eru Ólafur Sigurgeirsson, lektor við Háskólinn á Hólum, Anne M. Akol, Makerere University í Úganda, Jón Árnason, sérfræðingur hjá Matís, og Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands stýrir vörninni sem fer fram í Hátíðarsal aðalbyggingar hefst klukkan 13:00.

Ágrip af rannsókn

Þótt aðstæður til fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku séu góðar er fiskeldisframleiðsla á svæðinu ennþá fremur lítil. Helsta hindrun frekari vaxtar fiskeldis er skortur á hagkvæmu fóðri, sem framleitt er úr hráefnum af svæðinu. Í doktorsverkefninu voru gerðar tilraunir sem taka á þessu vandamáli: 1) Með því að skilgreina kjöruppsetningu vaxtartilrauna (heppilegasta fjölda fiska og endurtekninga meðferða) og bestu tölfræðiaðferðir til þess að greina gögnin. 2) Könnuð voru áhrif þránunar á lýsi í fóðri á fiska. Niðurstöðurnar benda til þess að þránun hafi ekki áhrif á vöxt Nílarborra (Oreochromis niloticus) í tjörnum þar sem gnægt er af þörungasvifi, ríku af andoxunarefnum. 3) Borin var saman andoxunarvirkni ethoxiquin (EQ), sem mikið er notað í fiskafóðri, og nýrra andoxunarefna: rósmarínolíu (RM; Rosmarinus officinalis) og blöðruþangs (BÞ; Fucus vesiculosus). Niðurstöðurnar benda til þess að RM geti hindrað þránun lýsis jafn vel og EQ auk þess að hvetja til betri vaxtar fiskanna en EQ eða BÞ. 4) Ný hráefni í fiskifóðri, sem framleidd eru í Úganda, voru prófuð. Niðurstöðurnar benda til þess að hagkvæmt sé að nota rækjuna Caradina nilotica, sem er meðafli úr fiskveiðum í Viktoríuvatni, í fóður og skipta þannig út fiskimjöli úr Rastrineobola argentea, sem nýta má beint til manneldis. Niðurstöður þessara tilrauna eru mikilvægt framlag til frekari þróunar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku, einkum framleiðslu fóðurs fyrir eldisfiska.

Um doktorsefnið

Godfrey Kawooya Kubiriza er fæddur 7. ágúst 1979 í Úganda. Foreldrar hans eru Yekosofati Kawooya Kayizzi og Khezia Nakiryowa frá Kikwayi í Mukono-héraði í Úganda. Godfrey er níundi í röð tólf systkina. Hann er lektor við Makerere University í Kampala.

Grunn- og framhaldskólamenntun sína fékk Godfrey í Bishop’s Central Primary School, Namakwa Senior Secondary School og Bishop’s Senior School í Mukono. Árið 2004 lauk hann B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum og fiskeldi frá Makerere University. Hann lauk meistaragráðu með láði árið 2009 frá háskólanum í Malaví, Bunda College, sem naut stuðnings frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Frá 2009 til 2010 var Godfrey styrkþegi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og sérhæfði sig í fiskeldi við Háskólann á Hólum. Leiðbeinendur hans á Íslandi voru Helgi Thorarensen og Ólafur Sigurgeirsson við Háskólann á Hólum og Albert K. Imsland hjá Akvaplan Niva. Lokaverkefni Godfreys á Hólum fjallaði um skipulag tilrauna og tölfræðiúrvinnslu í fiskeldisrannsóknum.

Godfrey hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2011 með námsstyrk frá Sjávarútvegsskólanum. Lokaverkefnið á Hólum var hluti af doktorsverkefninu. Doktorsritgerð Godfreys fjallar um fjölbreytt efni, einkum áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfiska og leiðir til þess að forðast þránun, auk tölfræðiúrvinnslu í vaxtartilraunum. Niðurstöður rannsókna Godfreys eru mikilvægt framlag til frekari uppbyggingar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku.

Fréttir

Fyrirlestrar frá ráðstefnunni „Úrgangur í dag – auðlind á morgun“ nú aðgengilegir

24. maí sl. var haldin ráðstefnan „Úrgangur í dag – auðlind á morgun“ á Grand hótel en ráðstefnan var samstarf UmhverfisstofnunarBændasamtaka ÍslandsFENÚRLandgræðslu ríkisins, MatísNýsköpunarmiðstöðvar ÍslandsSamtaka fyrirtækja í sjávarútvegiSamtaka iðnaðarins og Sjávarklasans.

Ráðstefnan fjallaði um bætta nýtingu lífrænna aukaafurða á Íslandi og var ráðstefnan lokaliður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Norræna lífhagkerfið (NordBio). Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Bæklingur um norræna lífhagkerfið (NordBio)

Fréttir

Matís í samstarf við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís og hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands (LHÍ) skrifuðu í sl. viku undir viljayfirlýsingu sem útlistar áhuga til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á afurðum íslensks lífhagkerfis að markmiði.

Matís og hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ telja að rannsóknir og samstarf geti lagt grunn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í matvælaframleiðslu, hönnun og vöruþróun á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla sem höfða til neytenda á sama tíma og framleiðsla þeirra stuðlar að sjálfbærri þróun í lífhagkerfinu og stuðli að því að nýir kraftar leysist úr læðingi þegar kemur að framþróun íslensks matvælaiðnaðar.

Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum lífhagkerfinu, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni- og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu.  Notendamiðuð hönnun, vara og þjónusta, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, með aukna verðmætasköpun, bætt matvælaöryggi og bætta lýðheilsu að markmiði.  Matís hefur á síðustu árum náð mjög góðum árangri í sókn í alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði, í samstarfi við íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir. 

Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans býður upp á BA-nám í vöruhönnun og alþjóðlegt MA-nám í hönnun. Við deildina er lögð áhersla á nýtingu staðbundinna hráefna til þróunar og nýsköpunar. Deildin hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknarverkefnum á sviði matarhönnunar og vöruþróunar með sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og samfélags að leiðarljósi.

Fréttir

Það er betra að heilreykja makrílafurðir

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Benjamin Aidoo ver meistararitgerð sína í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Ritgerð Benjamins ber heitið „Áhrif mismunandi reykingaraðferða á myndun fjölarómatískra kolvetnissambanda (PAH) og eðlisefnafræðileg gæði í reyktum makrílafurðum“

Nánari staðsetning

  • Matís
  • Vínlandsleið 12
  • 113 Reykjavík
  • 8. júní 2017 kl. 14
  • Fundarsalur 312

Effects of different smoking methods on the formation of polycyclic aromatic hydrocarbons (PAHs) and physicochemical quality in smoked Atlantic mackerel products

Áhrif mismunandi reykingaraðferða á myndun fjölarómatískra kolvetnissambanda (PAH) og eðlisefnafræðileg gæði í reyktum makrílafurðum

Rannsökuð voru áhrif mismunandi reykingaraðferðar og hitastigs á myndun fjölarómatísk kolvetni (PAH) í reyktum makríl. Einnig voru áhrif mismunandi reykingaraðferða, geymsluhitastig og pökkunarefna á stöðugleika heitreyktra makrílafurðir kannaðar, með því að fylgjast með eðlis- og efnaeiginleikum þeirra. Rannsóknin sýndi að myndun PAH efna var yfir æskilegum mörkum ef notast var við klefareykingu á makrílflökum. Hins vegar reyndust PAH undir viðmiðunarmörkum ef makríllinn var reyktur heill eða í Bradley reykofni. Hitastigið sem fékkst í Bradley reykofninum var hins vegar ekki nógu hátt til þess að tryggja stöðugleika afurðanna m.t.t. niðurbrots af völdum örvera, oxunar eða ensíma í gegnum geymslu í kæli. Myndun frírra fitusýra og oxunarafleiða var almennt hærri í flökum en í heilum fiski. Einnig mátti hægja á myndun TVB-N ef flökin voru geymd við lofttæmdar aðstæður í stað loftumbúða. Því er mælt með því að makríll sé reyktur heill í klefareykofni, og hann geymdur í kæli við loftskiptum umbúðum til að tryggja hámarksgæði.

Leiðbeinendur

  • María Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands
  • Sigurjón Arason, Matís, Háskóli Íslands

Allir velkomnir! 

Skýrslur

Overview of available methods for thawing seafood / Lausnir sem standa til boða við uppþíðingu á sjávarfangi

Útgefið:

01/06/2017

Höfundar:

Sigurður Örn Ragnarsson, Jónas R. Viðarsson

Styrkt af:

The Norwegian Research Council (Project number 233709/E50)

Overview of available methods for thawing seafood / Lausnir sem standa til boða við uppþíðingu á sjávarfangi

There is a constant demand for quality raw materials that can be used for producing seafood products for high paying markets in Europe and elsewhere in the world. Suppliers of demersal fish species in the North Atlantic are now meeting this demand by freezing the mainstay of their catches, in order to be able to have available supplies all year around. This is partly done because of seasonal fluctuations in catches, which are harmful from a marking point of view. The fact that all these raw materials are now frozen demands that methods used for freezing and thawing can guarantee that quality of the raw material is maintained. There are a number of methods available to thaw fish. The most common ones involve delivering heat to the product through the surface, as with conduction or convection. These methods include water and air-based systems. More novel methods are constantly on the rise, all with the aim of making the process of thawing quicker and capable of delivering better products to the consumer. These procedures are however, often costly and involve specialized workforce to control the process. All in all, it depends greatly on what kind of conditions a company is operating under regarding which thawing methods should be chosen. This report identifies the most common methods available and provides information on their main pros and cons.

Stöðug eftirspurn er frá fiskvinnslum víða um heim eftir góðu hráefni úr Norður Atlantshafi til framleiðslu á afurðum fyrir kröfuharða markaði. Til að mæta þessari eftirspurn og með hliðsjón af miklum árstíðabundnum sveiflum í veiðum á vissum fisktegundum hafa fyrirtæki gripið til þeirra ráða að frysta hráefnið til notkunar síðar meir. Það kallar á góðar aðferðir til að frysta hráefnið, en ekki er síður mikilvægt að þíðing hráefnisins sé góð. Til eru margar aðferðir til að þíða fisk og aðrar sjávarafurðir. Algengast hefur verið að nota varmaflutning í gegnum yfirborð með varmaburði eða varmaleiðni. Þær aðferðir byggja að mestu á því að nota vatn eða loft sem miðil til þíðingar. Nýrri aðferðir eru til sem reyna að gera ferlið fljótvirkara og þannig skila betri afurð til neytenda. Þessar aðferðir eru þó oft kostnaðarmiklar og fela í sér mikla sérhæfingu starfsfólks. Þegar öllu er á botninn hvolft, skiptir máli um hverslags rekstur er að ræða og hvernig aðstæður fyrirtæki búa við hverju sinni þegar þíðingaraðferðir og tæknilegar lausnir eru valdar. Í þessari skýrslu eru tilgreindar allar helstu þíðingaaðferðir og þær tæknilegu lausnir sem eru á markaðinum í dag, ásamt því sem helstu kostir og gallar þeirra verða tilteknir.

Skoða skýrslu
IS