Fréttir

European Sensory Network

Matís skipuleggur fund European Sensory Network (ESN), sem eru samtök sérfræðinga á sviði skynmats og neytendarannsókna, 8. og 9. október nk. á Grand Hótel Reykjavik. Á fundinum, sem er lokaður og hefur fyrirtækjum í matvælaframleiðslu verið boðið til fundarins, verður lögð áhersla á framvindu og niðurstöður nýjustu rannsókna sem samtökin hafa komið að. 

European Sensory Network (ESN) er alþjóðlegt samstarfsnet rannsóknastofnanna og fyrirtækja sem eru leiðandi á sviði skynmats og neytendarannsókna. ESN var stofnað 1989 til að koma til móts við hraða þróun á sviði skynmats í Evrópu. Í dag eru 26 rannsóknastofnanir og fyrirtæki aðilar að ESN og fjögur utan Evrópu. ESN er í fararbroddi í rannsóknum á sviði skynmats og neytenda og heldur alþjóðlegar ráðstefnur og miðlar nýrri aðferðafræði. ESN veitir ráðgjöf er varðar skynmat, markaðsrannsóknir, framkvæmd skynmats og neytendarannsókna, uppsetningu verkefna, úrvinnslu og túlkun, sem og spurningar er varða hegðun og upplifun neytenda.

Nánari upplýsingar um ESN má finna á heimasíðu samstarfsnetsins.

Fréttir

Inngangur að fisktækni – beint úr prentun!

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Rit þetta er aðgengilegt á heimasíðum Matís og Fisktækniskólans. www.matis.is og www.fiskt.is

Skýrslur

Consultancy to provide technical support to develop national and regional environmental monitoring programmes related to SPS for fishery and aquaculture products in CARIFORUM states

Útgefið:

05/10/2015

Höfundar:

Margeir Gissurarson, Helga Gunnlaugsdóttir

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Consultancy to provide technical support to develop national and regional environmental monitoring programmes related to SPS for fishery and aquaculture products in CARIFORUM states

Skýrslan skýrir frá niðurstöðum úr verkefni sem framkvæmd var til að aðstoða CARIFORUM ríki við að öðlast aðgang að verðmætum mörkuðum með því að uppfylla alþjóðlegar reglur um hreinlæti og öryggi (e. SPS measures) við framleiðslu fiskafurða. Jafnramt að aðstoða CARIFORUM ríki við mæta þeim kröfum sem þarf til auka viðskipti með fiskafurðir í hverju landi, innan CARIFORUM svæðisin og alþjóðlega. Megin markmið verkefnisins var að styrkja eftirlit með heilbrigði og matvælaöryggi fisks og fiskeldis innan svæðisins með samræmdum kröfum sem uppfylla einnig alþjóðlegar kröfur.

The report explains findings from an assignment that was carried out to facilitate CARIFORUM States to gain and improve market access by complying with Europe’s Sanitary and Phytosanitary Measures (SPS) and to help CARIFORUM states to meet the requirements necessary to maintain and expand on the trade of fish and fish products locally, regionally and internationally. The main purpose of the project was to strengthen monitoring programmes for health and food safety requirements of fisheries and aquaculture and to ensure safe food standards for fisheries products in the region, while meeting the requirements of the region’s trading partners worldwide.

Verkkaupi: Caribbean Regional Fisheries Mechanism (CRFM)

Skýrsla lokuð til 31.12.2018

Skoða skýrslu

Fréttir

Er arsen til vandræða?

Undanfarna daga og vikur hefur verið nokkuð hávær umræða um arsen (e. arsenic) og mögulega skaðsemi efnisins. Sitt sýnist hverjum um þetta efni sem finnst í sumum matvælum og í mismiklu magni. Livsmedelsverket (systurstofnun Matvælastofnunar) þykir ástæða til að neytendur takmarki neyslu á hrísgrjónum og afurðum úr hrísgrjónum og gáfu út ráðleggingar í þá veru í síðustu viku.

Matvælastofnun hefur niðurstöður Livsmedelsverket nú til skoðunar skv. frétt á vef stofnunarinnarwww.mast.is .

En hvað er arsen? Veistu eitthvað um þetta efni? Ef ekki, viltu vita meira? Kíktu á þetta upplýsingamyndband um arsen (á ensku).

Arsen – úlfur í sauðagæru?

Fréttir

28 ára fangelsi fyrir salmonellusmit – matvælaöryggi er undirstaða allrar matvælaframleiðslu

Fyrir nokkrum dögum bárust okkur fréttir af því að forsvarsmenn hnetuframleiðanda hefðu verið dæmdir í 20 og 28 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í útbreiðslu salmonellu mengaðra matvæla. Ekki er ætlunin með þessari frétt að leggja nokkurn mat á þær fréttir en áhugavert er að velta fyrir sér mikilvægi öruggra matvæla þegar slíkar fréttir berast.

Í flestum matvælaframleiðslufyrirtækjum er ljóst að framleiðsla og sala matvæla getur ekki átt sér stað án þess að matvælin séu heilnæm og örugg til neyslu. Örugg matvæli eru forsenda viðskipta með mat og aukinheldur byggir öll nýsköpun í matvælaiðnaði á því að framleidd séu matvæli sem séu örugg til neyslu. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í matvælaframleiðslu er mikilvægt að tryggja að öll aðstaða sé í samræmi við lög og reglur og að öll meðhöndlun matvæla, hvort sem er við hráefnaöflun, framleiðslu, pökkun, dreifingu, sölu eða hvar sem er í virðiskeðju matvæla, sé með þeim hætti að ekki skapist vá fyrir neytendur við neyslu matvæla.

Örugg matvæli

Sjúkdómsvaldandi örverur geta borist í matvæli á ýmsan hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að tileinka sér góða starfshætti við framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Með góðum starfsháttum og innra eftirliti matvælafyrirtækja, fræðslu, rannsóknum og opinberu eftirliti hefur tekist að halda sjúkdómstilfellum vegna matarsýkinga og matareitrana í lágmarki hér á landi.

Á síðustu árum hefur framleiðsla aukist á matvælum sem hafa verið þróuð og framleidd í litlu magni frá býli eða úr héraði. Með auknum umsvifum í framleiðslu fjölbreyttra matvæla er þörf á að vekja athygli á þeim vágestum eða sjúkdómsvaldandi örverum sem geta borist með matvælum.

Með aukinni þekkingu á eiginleikum og smitleiðum þeirra ættu neytendur, matvælaframleiðendur og aðrir áhugamenn um matvælavinnslu að geta tryggt öryggi þeirra matvæla sem þeir meðhöndla. Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á öryggi þeirra afurða sem þeir framleiða.

Alþjóðleg samvinna Matís við BfR

Hjá Matís er unnið að að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem einkum er lögð áhersla á heilnæmi og öryggi matvæla. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti eru að þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er einnig unnið með erlendum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni. Sem dæmi um þetta er afar farsælt samstarf við BfR (Federal Institute for Risk Assessment) en frá árinu 2012 hefur Matís átt í miklum samskiptum við þessa stóru og öflugu stofnun .

Helstu rannsóknaverkefni eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Meðal verkefna eru aðferðaþróun og prófun aðferða, rannsóknir á afkomu örvera í matvælum og umhverfi, vöktun örvera og áhrif hreinlætisaðgerða á örverur. Efnarannsóknir eru m.a. á aðskotaefnum og varnarefnum í matvælum. Þar undir heyra t.d. rannsóknir á snefilefnum í sjávarafurðum og ýmsum varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Frétt um þetta má finna á vefsvæði Kjarnans.

Fréttir

Humarpaté framlag Íslands í Evrópukeppni

Sextán Evrópulönd keppa um titilinn nýstárlegasta matvara Evrópu 2015 dagana 5. og 6. október á alþjóðlegu matvælasýningunni í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.

Hvernig verða matvæli framtíðarinnar? Hverjir verða helstu straumar og stefnur í neyslu matvæla í Evrópu?

Í október verður þessum spurningum svarað með nýsköpun 85 háskólanemenda í Ecotrophelia Europe keppninni í Mílanó. Keppendur frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi munu kynna aðlaðandi, bragðgóðar og nýstárlegar vörur fyrir dómnefnd sem skipuð er fulltrúum sömu landa. Formaður dómnefndar er Michel COOMANS, fyrrum forseti matvælasviðs iðnaðarráðuneytis Evrópusambandsins. Heildarverðmæti verðlauna er 15.000 evrur. 

Fyrir Íslands hönd keppir varan Humarpaté eða Paté de Langoustine þróað af 7 nemendum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands með stuðningi frá Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtökum iðnaðarins. 

Nám í nýsköpun matvæla eykur samkeppnishæfni fyrirtækja

Frá árinu 2011 hefur framtakið ECOTROPHELIA staðið fyrir 75 keppnum og virkjað 550 háskóla og yfir 3000 nemendur til þátttöku. Fjörutíu vörutegundir, hannaðar innan ramma Evrópukeppninnar, hafa verið þróaðar og settar á markað.  ECOTROPHELIA Europe er námsmódel fyrir háskóla og nemendur, viðurkennt af iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins. Keppnin tengir saman hæfileika, færni og nýsköpun. Hún er einnig vettvangur fyrir fólk í kennslu, rannsóknum, framleiðslu og viðskiptum til að eiga árangursrík samskipti.

ECOTROPHELIA Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin NESTLÉ World og Campden BRI í Bretlandi.

VERÐLAUN Í ECOTROPHELIA EUROPE KEPPNINNI verða afhent þriðjudaginn 6. október á sýningarsvæði alþjóðlegu matvælasýningarinnar í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.


Frétt þessi birtist fyrst á vef Samtaka Iðnaðarins, www.si.is, þar sem fá má nánari upplýsingar.

Fréttir

Opni háskólinn í HR og Matís í samstarf um Iceland School of Fisheries

Skrifað undir samstarfssamning um nám fyrir erlenda stjórnendur í alþjóðlegum sjávarútvegi í HR

Opni háskólinn í HR og Matís, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi, hefur sett á fót yfirgripsmikið nám fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning um stofnun Iceland School of Fisheries í HR í gær.

Matis_undirskrift_HR_web
Sandra Kr. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri ISF hjá Opna háskólanum í HR, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Páll Jensson, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Páll Gunnar Pálsson, verkefnastjóri hjá Matís og Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA náms í HR.

Íslenskur sjávarútvegur er þekktur fyrir hágæðaafurðir og ábyrgar fiskveiðar. Í Iceland School of Fisheries er markmiðið að miðla dýrmætri þekkingu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Í náminu verður m.a. fjallað um stjórnun í sjávarútvegi, vinnslu sjávarafurða, markaðssetningu og nýjustu þróun í tækni og nýsköpun í fiskiðnaði. Ennfremur verður fjallað um fiskveiðistjórnun, regluverk, rannsóknir og eftirlit í sjávarútvegi.

„Í Háskólanum í Reykjavík höfum við mikla reynslu af uppbyggingu alþjóðlegs náms á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu. Í uppbyggingu á slíku námi skiptir samstarf við leiðandi íslensk fyrirtæki og stofnanir mjög miklu máli og við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Matís,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. „Við höfum þegar fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá og við vonumst líka til þess að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða erlendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum á námskeið Iceland School of Fisheries til að sækja sér sérfræðiþekkingu um öflugan og sjálfbæran sjávarútveg.“

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfsvettvangur Matís og Háskólans í Reykjavík falli mjög vel að starfsemi Matís enda sé eitt markmiða Matís að koma að menntun aðila innan sjávarútvegsins hvort heldur sem er á Íslandi eða erlendis. Undanfarin ár hefur Matís tekið stór skref í auknu erlendu samstarf og því sé það mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í með HR að byggja upp alþjóðlegt, öflugt stjórnendanám, fyrir aðila í sjávarútvegi. „Með þessu eflum við þekkingu þeirra sem fara höndum um hið mikilvæga hráefni sem fiskurinn er og tryggjum þannig aukin gæði sem skila sér í hærra verði til þeirra þjóða sem veiðarnar stunda,“ segir Sveinn. 

Í Iceland School of Fisheries verða í haust kennd þrjú vikulöng námskeið og koma leiðbeinendur úr íslensku atvinnulífi og akademíu. Meðal fyrirlesara má nefna Svein Margeirsson, forstjóra Matís; Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra  Sjávarklasans; Guðbjörgu H Guðmundsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Marel; Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra Granda; Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs HÍ og Bjarna Má Magnússon, lektor við Lagadeild HR. Einnig verður farið í heimsóknir til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar veita:

  • Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is
  • Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís í síma 858 5111, netfang steinar@matis.is

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar. Verðlaunafé upp á kr. 500 þúsund er í boði.

Ef þú ert hugmyndsmiður, hugsar út fyrir boxið, endilega sendu þá inn framúrstefnuhugmynd. Einstaklingar og/eða fyrirtæki geta sent inn hugmyndir eða tilnefnt aðra.
Gott tækifæri til að koma á framfæri góðum hugmyndum og eftirtalin verðlaun eru veitt:

  • Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 500 þús.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni.
  • Þjár bestu hugmyndirnar fá sýningarbás á ráðstefnunni til að kynna sínar hugmyndir.
  • Fleiri hugmyndirnar fá síðan sérstaka kynningu í veglegu ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.
  • 10 bestu hugmyndasmiðirnir fá frítt fyrir einn á ráðstefnuna.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 verða fimm erindi þar sem kynntar verða eldri framúrstefnuhugmyndir og m.a. sagt frá því hve langt þær eru komnar í þróunni.

Frestur til að skila inn umsóknum er 1. október nk.
 
Nánar upplýsingar á vef ráðstefnunnar undir liðnum VERÐLAUN

Fréttir

World Seafood Congress verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017

World Seafood Congress (WSC) 2015 er rétt að ljúka en ráðstefnan er haldin að þessu sinni í Grimsby á Englandi. Í lok hverrar ráðstefnu er tilkynnt hverjir halda þá næstu og tilkynnt var rétt í þessu að WSC 2017 verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017.

Mikill heiður fylgir því að fá að halda WSC en ráðstefnan er mjög stór og dregur að borðinu fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.

WSC_2017

Meginþema

Meginþema ráðstefnunnar 2017 er vöxtur í bláa lífhagkerfinu en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi.

Áhersluatriði:

  • Nýsköpun í sjávarútvegi – nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga
  • Matvælaöryggi – forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat
  • Matar heilindi – baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og –sölu á tímum netverslunar, matartengdar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir (858-5113) eða Steinar B. Aðalbjörnsson (858-5111).

Heimasíða ráðstefnunnar: www.wsc2017.com
Twitter: @WSC_2017
Facebook: World Seafood Congress

Fréttir

Hagnýting korns á norðurslóð – þjálfun í boði

Hafin er vinna við nýtt alþjóðlegt verkefni um hagnýtingu korns á norðurslóð. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery & Arctic Programme) og er til þriggja ára. Þátttakendur eru frá Íslandi (Matís og Landbúnaðarháskólinn), Norður-Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi.

Þjálfun stendur fyrirtækjum til boða

Markmið verkefnisins er að auka framleiðslu matvara úr innlendu korni og finna nýjar leiðir til að hagnýta kornið. Einnig er ætlunin að auka verðmæti kornframleiðslunnar og fjölga störfum sem tengjast korni. Gerðar verða leiðbeiningar um hvernig best verði staðið að kornrækt við mismunandi skilyrði, dregnar fram upplýsingar um kornmarkaðinn og efnt til átaks í vöruþróun bökunarvara og drykkja í samvinnu við fyrirtæki.

Upplýsingamiðlun milli landa er lykilatriði í verkefninu. Fyrirtækjum í bökunar- og drykkjarvöruiðnaði stendur til boða að hagnýta margvíslegar upplýsingar auk þess sem námskeið og handleiðsla standa til boða. Þremur íslenskum fyrirtækjum í bökunariðnaði er boðið að taka þátt í námskeiðum og handleiðslu á vegum NOFIMA í Noregi. Í þessu felst vöruþróunarnámskeið vorið 2016 og námeið um markaðsmál vorið 2017 ásamt ráðgjöf á tímabilinu. NOFIMA býr yfir háþróuðu tilraunabakaríi og mikilli reynslu af þróun vara úr korni. Drykkjarvöruframleiðendur geta hagnýtt sér reynslu Orkneyinga í drykkjarvöruiðnaði.

Matís óskar eftir að fá upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem vilja hagnýta sér upplýsingamiðlun í verkefninu. Einnig er óskað eftir áhugasömum fyrirtækjum til að taka þátt í námskeiðunum en þau verða valin á grundvelli væntanlegs árangurs þeirra. Fyrirtæki skulu senda upplýsingar um áhuga og áform til Ólafs Reykdal hjá Matís ( olafur.reykdal@matis.is).

IS