Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfsstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.
Meginhluti starfsins hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi.
Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Einnig er ætlast til að starfsstöðin í Vestmannaeyjum sé í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á Suðurlandi og þjónusti fyrirtækin m.a. við styrkumsóknir og í tengslum við aðra sérfræðinga Matís.
Starfssvið:
Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi
Viðskipta- og rekstraráðgjöf
Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna
Verkefnastjórnun
Hæfniskröfur:
Menntun sem nýtist í starfi
Góð færni í mannlegum samskiptum
Góð færni í tjáningu í ræðu og riti
Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður
Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.
Nánari upplýsingar um starfið veita: Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107.
Umsóknarfrestur er til 20. september n.k. vinsamlega sendið umsókn á hbald@setur.is
Þróun á umhverfisvænni umbúðum, graspróteinum, hliðarafurðum garðyrkju og matvælum úr stórþörungum ásamt tegundagreiningum á saltfiski eru á meðal nýrra verkefna Matís í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.
Síðustu vikur reyndust íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en þrettán verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína þriðju úthlutun. Fyrr í sumar höfðu átta aðrir sjóðir tilkynnt að tíu samstarfsverkefni sem Matís er þátttakandi í hefðu verið tryggð fjármögnun. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan.
Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og starfsfólk fyrirtækisins er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir 23 ný Matís samstarfsverkefni sem fengu jákvæð svör um styrkfé á undanförnum vikum. Myndin hér að neðan sýnir að samstarfsaðilar Matís í verkefnunum dreifast um land allt.
Matvælasjóður
Verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju er samstarfsverkefni Bændasamtakanna, Orkídeu og Matís þar sem leita á leiða til að skapa aukin verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju á borð við blöð sem falla til við afblöðun í ylrækt, plöntur sem eru hættar að gefa uppskeru, hverskyns afskurð eins og rósablöð, ystu blöð af káli, gulrótagrös og kartöflugrös. Ýmis verðmæt efni má finna í þessum hliðarafurðum en nú fara þau að mestu í moltugerð eða urðun með tilheyrandi kostnaði. Senn líður að því að bannað verður að urða lífrænan úrgang í þeim mæli sem gert er í dag vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Því er mikilvægt að finna þessu hráefni farveg til að auka verðmæti og draga úr sóun.
LuLam Wrap (Matvælaumbúðir úr lúpínu) er samstarfsverkefni Efnasmiðjunnar, Sedna–Biopack, Sölufélags garðyrkjumanna og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa umhverfisvænar, niðurbrjótanlegar umbúðir úr íslenskri alaskalúpínu og þara, og prófa þær til notkunar fyrir matvæli.
Bragðefni unnin úr sjávarfangi er samstarfsverkefni North Seafood Solutions, Útgerðarfélagsins Lokinharma, Iceland Seafood Iberica og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa bragðefni og bragðkrafta úr hliðarafurðum fiskvinnslu hérlendis. Þessar vörur eru ætlaðar einkum á erlenda markaði fyrir veitingahús og mötuneyti.
Kjötsnakk – verðmætasköpun með fullvinnslu á hrossakjöti er samstarfsverkefni 1000 ára sveitaþorps, Orkídeu og Matís. Markmið verkefnisins er að auka fullvinnslu á íslensku hrossakjöti og þróa nýjar og verðmætar afurðir úr þessu vannýtta hráefni þ.á.m. kjötsnakk. Einnig verða markaðsinnviðir byggðir upp til að auka áhuga og neyslu Íslendinga á kjötsnakki úr hrossakjöti.
Vinnsla fásykra úr stórþörungum með ensímvinnslu er nýsköpunarverkefni sem unnið verður innan líftæknihóps Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferð til framleiðslu fásykra úr stórþörungum og auka þannig nýtingu þörunga sem vaxa í miklum mæli við strendur Íslands. Fásykrur eru notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.
BruXOS – Verðmætasköpun úr hliðarafurð bjórgerðar er samstarfsverkefni Ölgerðarinnar og Matís, þar sem markmiðið er að skapa verðmæti úr hrati frá bjórgerð með því að nýta ensím til að umbreyta trefjum í hratinu í xylosa fásykrur. En eins og kom fram hér að ofan eru fáskykrur notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.
Upprunavottun á íslenskum saltfiski á Spáni er samstarfsverkefni samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda, Hafrannsóknarstofnunar og Matís. Í verkefninu er stefnt að því að þróa erfðafræðilega aðferð sem getur greint á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur við Noregsstrendur og í Barentshafi. Saltfiskframleiðendur hér á landi grunar að saltaðar þorskafurðir frá Noregi séu stundum ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu. Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Gangi markmið verkefnisins eftir mun því verða unnt að sannreyna að saltfiskur sé ekki seldur undir fölsku flaggi.
Tenging NIR við vöxt og meltanleika fóðurs fyrir laxfiska er samstarfsverkefni Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnslunnar, Eskju, Ísfélags Vestmannaeyja, Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa líkan til að meta gæði fiskimjöls sem hráefni í laxeldisfóður á skjótan, auðveldan og ódýran hátt. Líkanið mun byggja á NIR tækni (nær innrauðri litrófsgreiningu) sem gefur upplýsingar um innihald og einkenni mælisýna. Þessar upplýsingar er hægt að nota og bera saman við in vivo raunmælingar og fá þannig spá fyrir ýmsa þætti í hráefninu. Þar má nefna, efnainnihald og meltanleika hráefnis, samsetningu næringarefna á borð við amínósýrur og fitusýrur svo eitthvað sé nefnt. NIR tæki gefur í raun fingrafar hráefnisins. Með NIR líkaninu verður því unnt að meta gæði fiskimjöls, sem mun veita fiskimjölsframleiðendum gögn til að bæta sínar afurðir og styrkja samningsstöðu sína gagnvart fóðurframleiðendum. Að sama skapi mun afrakstur verkefnisins gera fóðurframleiðendum kleift að velja rétta „rétta“ fiskimjölið fyrir sitt fóður.
Er grasið er grænna hinum megin? (grasprótein) er samstarfsverkefni Matís, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskólans og Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins. Mikil eftirspurn er eftir próteini og einn mögulegur próteingjafi er gras. Erlendis, sérstaklega í Danmörku, hafa verið framkvæmdar rannsóknir á sviði próteinvinnslu úr grasi með góðum árangri. Markmið verkefnisins er að hefja rannsóknir á þessu sviði á Íslandi og framkvæma grunnvinnu sem síðan er hægt að byggja á. Ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður frá Danmörku beint yfir á íslenskar aðstæður og því mikilvægt að framkvæma rannsóknir á þessu sviði hér. Prótein unnið úr grasi er hægt að nýta bæði sem fóður og fæði. Einnig hafa rannsóknir sýnt að hrat frá próteinvinnslu er nýtanlegt sem fóður. Í verkefninu verður sýnum af grasi safnað úr tilraunaræktun mismunandi yrkja og aflað þekkingar á próteininnihaldi og eiginleikum einangraðs próteins.
Næringargögn – lykill að lýðheilsu landsmanna og nýsköpun matvælaiðnaðarins er samstarfsverkefni Matís, European Food Information Resource (EuroFIR), Félags Smáframleiðenda Matvæla (SSMF), Mjólkursamsölunnar og annarra fyrirtækja í matvælaiðnaði. Þegar fullyrt er um hollustu og öryggi matvæla þarf upplýsingar og þekkingu. Markmið verkefnisins er að bæta og uppfæra íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM). ÍSGEM er nú í umsjón Matís en ekki hefur tekist að fjármagna viðhald hans síðastliðin 12 ár. Það háir jafnt matvælaiðnaði, vísindamönnum og almenningi að geta ekki að fullu treyst upplýsingunum. Skref verður stigið til að auðvelda matvælaiðnaði og almenningi notkun á gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við vöruþróun í matvælaiðnaði er mikilvægt að geta skoðað samsetningu hráefna þegar stefnt er að ákveðnum markmiðum í þróuninni.
Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða er samstarfsverkefni Icelandic Lamb markaðsstofu og Matís. Verkefnið snýr að úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts og greiningar á efnainnihaldi kjöts og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að uppfæra gömul og jafnvel úrelt gögn og vista í opinberum gagnagrunnum.
Furan fitusýrur sem gæðavísir er samstarfsverkefni True Westfjords og Matís þar sem markmiðið er að nýta Furan fitusýrur til að meta gæði lýsis, en True Westfjörds er framleiðandi að kaldunnu lýsi sem selt er undir vörumerkinu Dropi.
Bætt gæði a sjófrystum ufsa er samstarfsverkefni Útgerðafélags Reykjavíkur og Matís, þar sem leitast verður við að bæta vinnsluferla og gæði sjófrystra ufsaafurða.
Tækniþróunarsjóður Rannís
BIOTOOL, Hátækni til umhverfisvöktunar í fiskeldi er samstarfsverkefni RORUM (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfis- og byggðamálum), Háskóla Íslands, Danska Tækniháskólans (DTU) og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa alhliða erfðasameindatæki til vöktunar botndýrasamfélaga vegna fiskeldis. Tækið sem um ræðir er mjög næmt og mun hafa í för með sér mikinn sparnað í tíma og kostnaði sem er mikilvægt fyrir bæði fiskeldið og opinbera eftirlitsaðila. Verkefnið byggir á einstökum langtíma gögnum og nýjustu tækni í umhverfis erfðafræði. Notast verður við mjög hraða og umhverfisvæna tækni sem nýtir umhverfis DNA (eDNA) til þess að vakta og nema breytingar í botnsamfélögum.
Fagráð í sauðfjárrækt
Aukin afköst og hagkvæmni í greiningum á riðugeni er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Matís. Nú er staðan í greiningum á riðugeni gjörbreytt. Verndandi breytileiki gegn riðu, þ.e. í sæti 171 í riðugeninu, hefur fundist í hjörð í Þernunesi í Reyðarfirði og umfangsmiklar rannsóknir eru í gangi til að kanna áhrif annarra breytileika í riðugeninu á næmni gagnvart riðu: 137, 138 og 151. Auk þess er mikilvægt fyrir bændur að fá upplýsingar um sæti 136 og 154, líkt og Matís hefur greint um árabil. Því er ljóst að bændum og ráðanautum bráðvantar arfgerðagreiningar á öllum þessum sex sætum í sem flestum gripum. Markmið verkefnisins er að auka afköst og lækka verð á greiningum riðugens hér á landi. Verður styrkurinn notaður til að mæta kostnaði við raðgreiningu á riðugeni til bænda og RML.
Lóu sjóðurinn
Veiðar og vinnsla rauðátu í Vestmannaeyjum er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Rannsóknaþjónustu Vestmannaeyja, Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja og Matís. Í verkefninu mun raunhæfi veiða og vinnslu á rauðátu í Vestmannaeyjum verða kannað.
Sjóður til eflingar hringrásarhagkerfis á Íslandi
Örverur til auðgunar fiskeldisseyru er samstarfsverkefni Sjávarklasans og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að nýta lífræna hliðarstrauma (úrgang) frá laxeldi í áburð.
Bestun Framkvæmdar á nýtingur hliðarstrauma til lífkola og áburðargerðar er samstarfsverkefni Landeldis og Matís, en markmið verkefnisins er að Markmið verkefnisins er að rannsaka og skrásetja endurheimt næringarefna úr mismunandi þurrefnasíum í landeldi og besta meðhöndlun þeirra til lífkolagerðar. Leitast er við að rannsaka og besta ferla við blöndun búfjáráburðar, fiskiseyru, fóðurleifa og dauðfisks úr landeldi, með það að markmiði að hámarka jarðvegsbætandi eiginleika lífkola og kraft áburðar. Rannsakað verður hvernig framleiða má lífkol á sem hagkvæmastan hátt.
Umhverfissjóður sjókvíaeldis
Vöktun sjókvíaeldissvæða með hraðvirkum erfðafræðilegum aðferðum er samstarfsverkefni RORUM og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa hraðvirkar erfðafræðilegar aðferðir til að vakta líffræðilegan fjölbreytieika í botnlögum undir og við laxeldiskvíar.
EIT food
Samband fóðurs og árstíðabundinni sveiflna á næringarinnihaldi mjólkur (NUTRIMILK –Connecting milk seasonality and nutritional requirements to inform farm-to-fork innovations for optimum nutrient supply). Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reading, Bretlandi. Markmið verkefnisins er að skoða breytingar á næringarsamsetningu eftir árstíð. Verkefnið mun (i) kanna áhrif framleiðslukerfis (lífræn framleiðsla vs hefðbundin) og árstíðar (janúar-desember), á styrk snefil- og steinefna í mjólk og (ii) meta hvaða áhrif það hefur á steinefnainntöku mismunandi samfélagshópa þvert yfir árið.
Norska rannsóknarráðið (Forskningsrådet)
Greining á ástæðum laxadauða í fiskeldi (Causal categorisation of mortality as a model system for sustainable growth and increased value creation in aquaculture) er verkefni sem fjármagnað er af Norska Rannsóknaráðinu og er leitt af dýralæknasviði NMBU Háskólans í Noregi. Aðrir þátttakendur eru ÅKERBLÅ AS, SINTEF, PISCADA AS, LERØY, Laxar, Arctic Fish, Arnarlax og Matís. Markmið verkefnisins er að greina ástæður laxadauða í fiskeldi og leitast við að nýta þá þekkingu til að draga úr laxadauða.
BlueBio Cofund
Efling sjávarútvegs í Evrópu með mótun „fingrafars“ vannýttra fisktegunda til að auka sjálfbærni og draga úr sóun (EuFish_SustainableGrowth –European fisheries enhancement through “Omic” characterization and innovative seafood production from underutilised fish species. Verkefnið er leitt af Háskólanum Naples Federico II, Ítalíu og unnið í samstarfi með AquaBioTech ltd, Stazione Zoologica Anton Dohrn of Naples, Brim, Grími kokki og Matís. Markmið verkefnisins er að skoða vannýttar fisktegundir með því að nýta þær betur sem næringarríka fæða og/eða sem fóður í fiskeldi. Með því að nýta fjölbreyttar fisktegundir getum við aukið aðgengi að næringarríku sjávarfangi og dregið úr matarsóun. Þróuð verða sértæk fingraför mismunandi tegunda sem hægt verður að deila með hagsmunaaðilum í gagnagrunni.
BláGræntFóður (Synergy of blue and green sectors for resilient biomass production and processing to develop sustainable feed ingredients for European aquaculture). Verkefnið er leitt af SINTEF í Noregi, með þátttöku Háskólans í Åarhus, Háskólans í Tallin, Háskóla Íslands, Laxá og Montasjen í Noregi. Markmið verkefnisins er að þróa fiskeldisfóður úr graspróteinum og fjaðurmjöli frá alifuglarækt.
Út er komin bókin „Renewable Economies in the Arctic“ sem fjallar um endurnýjanleg hagkerfi á heimskautasvæðum. Starfsfólk Matís, þau Ólafur Reykdal, Rakel Halldórsdóttir, Óli Þór Hilmarsson, Gunnar Þórðarson og Þóra Valsdóttir eiga þátt í einum kafla bókarinnar sem fjallar um matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum.
Í bókinni eru dregin fram sjónarhorn sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum, svo sem hagfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og matvælafræði, þegar kemur að endurnýjanlegum hagkerfum. Sjónarmiðin varpa ljósi á þær sérstöku áskoranir sem heimskautasvæði standa frammi fyrir en jafnframt á tækifærin sem eru fyrir hendi til þess að nýta sjálfbærar auðlindir og blása þannig lífi í hagkerfi svæðanna.
Starfsfólk Matís var meðal höfunda að kaflanum „the Arctic as a food-producing region“ sem snýr að matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum en þar er fjallað í stuttu máli um Ísland, Norður-Noreg og Norður-Kanada. Vert er að geta sérstaklega um kafla þar sem fjallað er um það hvernig hægt væri að ná auknu virði matvæla frá heimskautasvæðum Noregs með markvissri markaðssetningu. Byggt er á ítarlegri rannsókn sem hafa mætti til hliðsjónar á Íslandi.
Í apríl útgáfu evrópska tímaritsins Eurofish Magazine birtist viðtal við Jónas Rúnar Viðarsson, sviðstjóra verðmætasköpunar hjá Matís.
Í greininni deilir Jónas með lesendum hans sýn á framtíð sjávarútvegs á Íslandi og hvert hlutverk Matís er við að tryggja gæði aflans.
Ný þekking, tækni og nýsköpun hefur rutt veginn að bættum gæðum sjávarafurða og er sú þróun stöðugt í gangi. Orkunýtni og sjálfbærni eru lykilatriði í hátækni sjávariðnaði í dag, bæði til að mæta þörfum viðskiptavina og til að draga úr kostnaði.
Matís hefur unnið náið með sjávarútveginum áratugum saman við þróun nýrra lausna og verkferla. Matís hefur einnig gegnt mikilvægu hlutverki í menntun framtíðar starfsfólks í iðnaðinum, bæði með kennslu í háskólum og vinnu með nemum. Tenging milli iðnaðar, vísinda, menntunar og stjórnvalda er lykillinn að farsælu samstarfi.
Í júní mun þremur verkefnum, svokölluðum NordMar verkefnum sem hafa verið í gangi frá árinu 2019, ljúka með glæsilegri lokaráðstefnu sem fram fer á Grand Hotel Reykjavík.
Verkefnin NordMar Plastic, NordMar Biorefine og NordMar Ports hófust út frá áherslumálum Norrænu Ráðherranefndarinnar þegar Ísland gegndi formennsku á árunum 2019-2021.
NordMar Plastic sem stýrt er af Sophie Jensen, verkefnastjóra hjá Matís, miðar að því að vekja athygli á og fræða almenning um plastmengun í umhverfinu auk þess að þróa og gefa út námsefni og halda viðburði sem stuðla að aukinni nýsköpun í tengslum við viðfangsefnið.
NordMar Biorefine er stýrt af Val Norðra Gunnlaugssyni, fagstjóra hjá Matís og gengur út á að meta hagkvæmni og möguleika lífmassavera fyrir bláa lífhagkerfið á Norðurlöndunum og myndun tengslanets sérfræðinga á þessu sviði auk fræðslu um tengd málefni fyrir yngri kynslóðir.
Í verkefninu NordMar Ports er áhersla lögð á að efla hafnir sem miðstöðvar nýsköpunar og orkuskipta en því verkefni er stýrt af samstarfsaðilum í Færeyjum.
Fimmtudaginn 19. maí síðastliðinn stóð Laurentic Forum fyrir vinnufundi um nýtingu stórþörunga (seaweed) á norðurslóðum. Fundurinn var í alla staði mjög áhugaverður og var sóttur af um 100 manns, víðsvegar að úr heiminum.
Upptökur af fundinum má nú nálgast á vefsíðu viðburðarins hér: Laurenticforum.com
Á fundinum var farið stuttlega yfir stöðu mála hvað varðar nýtingu þörunga á heimsvísu, sem og í Kanada (Nýfundnaland & Labrador), Íslandi, Færeyjum, Írlandi og Noregi.
Dagskrá fundarins var svo hljóðandi:
Keith Hutchings from Canadian Centre for Fisheries Innovation: Welcome
Paul Dobbins from WWF: Seaweed Farming as a Nature Based Solution- Opportunities and Challenges from WWF’s Perspective
Kate Burns from Islander Rathlin Kelp: Farmed Kelp, What Market?
Olavur Gregersen from Ocean Rainforest Faroe Islands: Scaling up Kelp Farming in the North Atlantic
Anne Marit Bjørnflaten from Oceanfood AS North Norway: Macroalgae: A New and Sustainable Aquaculture Industry with Huge Potential in the Arctic
Jónas R. Viðarsson from Matís Iceland: Seaweed Production on the Rise in Iceland
Cyr Courtourier from the Fisheries and Marine Institute of Memorial University in Newfoundland: Future Prospects for Seaweed Farming Across Canada in a Subarctic Environment
Q&A
Frekari upplýsingar um viðburðinn eða Laurentic Forum veitir jonas@matis.is
Í þessari viku hefur Nýsköpunarvikan eða Iceland Innovation Week verið haldin hátíðleg víða um borgina. Á morgun, föstudaginn 20. maí verða fjölmörg erindi á dagskrá sem snúa að nýsköpun í matvælageiranum og verður erindi Matís: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn! þeirra á meðal.
Viðburðurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, í salnum Fenjamýri á fyrstu hæð og stendur frá kl. 13:30-15:00.
Þátttaka í viðburðinum er ókeypis. verið velkomin!
Viðburðurinn samanstendur af 5 stuttum og skemmtilegum erindum sem fjalla á einn eða annan hátt um nýsköpun og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.
Dagskráin er eftirfarandi:
Er nýsköpun góð? Skynmat og neytendarannsóknir. – Aðalheiður Ólafsdóttir
Tækifæri til nýsköpunar í íslensku grænmeti – Eva Margrét Jónudóttir og Ólafur Reykdal
Hvernig líta próteingjafar framtíðarinnar út? -Margrét Geirsdóttir
Eins manns úrgangur, annars manns gull? Sjálfbær áburðarframleiðsla á Íslandi -Jónas Baldursson og Eva Margrét Jónudóttir
Hvernig skal tala við börn um sjálfbærni og loftslagsbreytingar? -Katrín Hulda Gunnarsdóttir
Nánar um erindin:
Aðalheiður Ólafsdóttir er algjör snillingur í öllu sem við kemur skynmati og neytendarannsóknum, enda ætlar hún að fræða gesti um hvað felst í þessum hlutum í erindi sínu í Nýsköpunarvikunni; Er nýsköpun góð? Áhugasöm geta auk þess fengið að láta reyna á skynmatshæfileika sína! „Það skiptir litlu máli þótt ný vara á markaði sé meinholl, laus við öll heimsins bragð- og litarefni, lífræn og sjálfbær. Ef hún bragðast eða lyktar mjög illa, þá mun henni ekki vegna vel“
Ólafur Reykdal er algjör reynslubolti þegar kemur að rannsóknum á íslensku grænmeti og korni og Eva Margrét hefur stundað matvælarannsóknir um árabil! Þau verða með mjög svo líflegt erindi í Nýsköpunarvikunni þar sem Kahoot kemur meðal annars við sögu og fjallar um þau óteljandi tækifæri sem liggja í nýsköpun í grænmetisgeiranum!
Margrét Geirsdóttir lífefnasjení og almennur lífskúnstner vinnur nú hörðum höndum að verkefninu NextGen Proteins um próteingjafa framtíðarinnar ásamt Birgi Erni Smárasyni verkefnastjóra. Hún ætlar að fjalla um hvað er að frétta af rannsóknum á skordýrapróteini og spirulina og leyfa gestum jafnvel að smakka óhefðbundin prótein!
Jónas Baldurssson og Eva Margrét hafa síðustu misseri bókstaflega unnið að því að rannsaka kúk og skít! Fallegra væri þó auðvitað að tala um lífrænan úrgang og það gera þau almennt. Þau ætla að sýna myndband í Tik-Tok stíl um verkefnið sitt um Sjálfbæra áburðarframleiðslu í nýsköpunarvikunni. Erindið er sérstaklega viðeigandi um þessar mundir þar sem aðstæður í heiminum eru að gera öllum erfitt fyrir að flytja áburð á milli landa.
Katrín Hulda og Justine Vanhalst vita allt um það hvernig best og sniðugast er að fræða börn og ungt fólk um þung málefni eins og loftslagsbreytingar og sjálfbærni. Í vetur hafa þær unnið að tveimur mismunandi verkefnum með börnum um allt land og meira að segja út fyrir landssteinana þar sem þær hafa virkjað þau til þess að setja á sig frumkvöðla-gleraugun og takast á við raunverulegar áskoranir – og finna raunverulegar lausnir! Erindið þeirra í nýsköpunarvikunni snýr að afrakstri þessara verkefna.
Frá 2005 hefur North Atlantic Seafood forum (NASF) verið árviss viðburður þar sem stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi hittast í Bergen til að kynna sér helstu nýjungar og bera saman bækur. Reyndar féll viðburðurinn niður árið 2020 sökum Covid, og á síðasta ári var NASF keyrt sem netviðburður.
Að þessu sinni verður NASF haldið dagana 21. – 23. Júní og verður um svokallaðan „hybrid“ viðburð að ræða, þar sem búist er við að um 800 manns mæti í persónu til Bergen og að allt að 1.500 manns taki þátt í gegnum netið. Dagskráin er sérlega spennandi að þessu sinni þar sem alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 27 málstofum.
Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!
Frá 2005 hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst árlega til Bergen til að sitja ráðstefnu NASF. Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, flutningsaðilar, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Á síðasta ári var NASF fært yfir á netið, sökum COVID, og þótti það takast mjög vel. Því verður NASF þetta árið haldið sem „hybrid“ viðburður. Dagskráin þetta árið er sérlega spennandi og hefur verið birt á https://nor-seafood.com/
Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:
Global aquaculture summit
The post covid consumer by McKinsey
Aquaculture feed summit
Aquaculture & salmon market and production
Global whitefish summit
Global seafood transport summit
International shrimp summit
Land based fish farming
Pelagic industry summit
Eins og oft áður skipa Íslensk fyrirtæki og einstaklingar stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Marel og Benchmark Genetics/Stofnfiskur eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi á mælendaskrá:
Mikael Tal Grétarsson – Iclandair Cargo
Björn Hembre – Icelandic Salmon/Arnarlax
Guðmundur Gíslason – Ice Fish Farm / Fiskeldi Austfjarða
Kjartan Ólafsson – Icelandic Salmon/Arnarlax
Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa færri komist að en vilja, þar sem hér er um einstakt tækifæri til að hitta á einum stað alla helstu stjórnendur í sjávarútvegi og fiskeldi.
Nú verður öll dagskráin hins vegar einnig aðgengileg á netinu, þar sem meðal annars verður mögulegt að skipulega netfundi með öðrum þátttakendum. Ráðstefnugjaldið fyrir þá sem vilja taka þátt í persónu í Bergen er 1.490 EUR og fyrir þá sem láta netþátttöku duga er gjaldið 490 EUR. Skráning fer fram á https://nor-seafood.com/registration/ en einnig er hægt að hafa samband við Jónas R. Viðarsson hjá Matís til að semja um afslátt ef fyrirtæki vilja skrá marga þátttakendur. Þá er einnig hægt að hafa samband við Jónas til að fá frekari upplýsingar um NASF22.
Enn er möguleiki á að gerast styrktaraðilar NASF22, auk þess sem að enn er tækifæri fyrir nýsköpunar- og tæknifyrirtæki að komast að á „New horizon & technology“ hluta ráðstefnunnar. Frekari upplýsingar um styrktaraðild og NH&T má finna hér.