Fréttir

Mjög góð ásókn í Matarsmiðju Matís á Flúðum

Þéttbókað er í nýja matarsmiðju Matís á Flúðum en alltaf er pláss fyrir góðar hugmyndir, segir Vilberg Tryggvason stöðvarstjóri. Sex vörutegundir eru þegar komnar á markað.

Meðal afurðanna eru nokkrar tegundir af girnilegu kryddmauki frá Kærleikskrásum og kruðeríi, og á krukkunum eru allar tilskildar merkingar enda gert í eldhúsi Matarsmiðjunnar sem er með vottun til manneldis. Hráefnið er auk þess í göngufæri frá matreiðslumanninum.

Frétt RÚV má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Vilberg Tryggvason.

Fréttir

Bylting í rannsóknum á laxi í hafinu – nákvæm umfjöllun í Fréttablaðinu

Mörgum spurningum er ósvarað um íslenska laxastofna. Ein þeirra hefur verið hver afföll laxa eru af mannavöldum á meðan hann dvelur í hafinu. Bylting í erfðatækni hefur nú fært vísindamenn nær svarinu. Kristin Ólafsson hjá Matís tekur þátt í þessum rannsóknum og mun doktorsnám hans snúa að íslenska hluta þessa Evrópuverkefnis.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Matís er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum.

Umfjöllun Fréttablaðsins má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Ólafsson.

Skýrslur

Nýting hráefna úr jurta‐ og dýraríkinu í fiskafóður

Útgefið:

10/07/2011

Höfundar:

Ásbjörn Jónsson, Jón Árnason, Ragnheiður Þórarinsdóttir, Sjöfn Sigurgísladóttir

Styrkt af:

Starfsmenntasjóður félags‐ og tryggingamálaráðuneytisins

Nýting hráefna úr jurta‐ og dýraríkinu í fiskafóður

Fóðurkostnaður í fiskeldi er almennt um 50‐70% af rekstrarkostnaði og er mikill hluti af hráefni í fóður innfluttur. Tilgangur þessarar skýrslu er að taka saman upplýsingar um möguleika á að nýta í fiskeldisfóður innlent hráefni sem fellur til í landbúnaði og sjávarútvegi. Horft er til þess að hráefnin nýtist almennt til fiskeldis og er samantektin ekki bundin við einstakar tegundir. Mögulegt er að nota aukaafurðir frá sjávarútvegi sem fóður í fiskeldi  en hliðarafurðir úr jurtaríkinu þarf helst að meðhöndla til að lækka/eyða háu hlutfalli trefja og hækka próteininnihald. Hugsanlega má nota hliðarafurðir úr jurtaríkinu sem æti fyrir hryggleysingja, bakteríur og sveppi og framleiða þannig próteinríka afurð sem hentar í  fiskafóður.

Feed cost in aquaculture is about 50‐70% of the total cost, and most of the feed is imported. The aim of this report is to gather information about utilizing by‐ products from agriculture and fishing industry as a feed in aquaculture.   By‐products from the fishing industry can be used as feed in aquaculture but it is necessary to lower the level of fibre and increase protein in by‐ products from agriculture. This can possibly be done by using the by‐ products as feed for invertebrates, bacteria and mushrooms and produce protein rich feed for aquaculture.

Skoða skýrslu

Fréttir

Matís með kynningu á Landsmóti hestamanna

Frábært Landsmót Hestamanna var haldið á Vindheimamelum í blíðskapar veðri vikuna 26. júní – 3. júlí sl. Er það mál manna að vel hafi tekist til með alla umgjörð og hestakosturinn verið góður. Matís var með kynningu á Landsmótinu þar sem Guðbjörg Ólafsdóttir kynnti m.a. erfðagreiningar hesta og hunda.

Erfðagreiningar á dýrum eru ekki algengar á Íslandi og er Matís eina fyrirtækið sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum hér á landi. Til að mynda þá erfðagreinir Matís alla hesta fyrir WorldFengur, upprunabók íslenska hestsins, en WorldFengur safnar saman upplýsingum um íslenska hesta innan landa FEIF (alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins) og eru þær aðgengilegar á vefnum.

Landsmót 2011

WorldFengur er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF um að þróa einn og viðurkenndan miðlægan gagnagrunn um íslenska hestinn hvar sem er í heiminum. Í WorldFeng er að finna viðamiklar upplýsingar um á þriðja hundrað þúsund íslenskra hesta og eykst fjöldi þeirra á hverjum degi. Mætti t.d. finna upplýsingar um ættartölu, afkvæmi, kynbótadóma, eigendur, ræktendur, kynbótamat, liti, örmerki og fleira. Einnig hefur WorldFengur að geyma um 5.000 myndir af kynbótahrossum.

Markmið Matís er að nýta erfðatækni til DNA greininga af ýmsu tagi, t.d. hestagreiningar eins og greint er frá hér á undan. Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Nánari upplýsingar veitir Anna K. Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfi og erfða.

Skýrslur

Lífdísel með ljósvirkjandi örverum / Biodiesel from photosynthetic organisms

Útgefið:

01/07/2011

Höfundar:

Sólveig K. Pétursdóttir, Guðmundur Óli Hreggviðsson

Styrkt af:

Umhverfis‐ og orkusjóður Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR)

Tengiliður

Guðmundur Óli Hreggviðsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudmundo@matis.is

Lífdísel með ljósvirkjandi örverum / Biodiesel from photosynthetic organisms

Markmið verkefnisins var að einangra og rækta ljóstillífandi örverur sem geta nýtt gróðurhúsalofttegundir úr útblæstri jarðvarmavirkjana, þ.e. brennisteinsvetni (H2S) og koldíoxíð (CO2), en skila nýtanlegum afurðum sem hugsanlega mætti nota í lífdísel og fóður. Tveir hópar voru einkum til skoðunar: Í fyrsta lagi ljóstillífandi bakteríur sem nýta H2S og binda CO2 en þola ekki súrefni (anoxygenic). Í öðru lagi ljóstillífandi örþörungastofnar sem binda kolefni úr koldíoxíði og skila frá sér súrefni (oxygenic). Áformað var að verkefnið tæki tvö ár og fékkst styrkur frá UOOR til fyrra ársins. Tilraunir til að einangra og rækta ljóstillífandi, H2S nýtandi, CO2 bindandi bakteríur skiluðu ekki árangri, þannig að efniviður rannsóknanna var einkum örþörungar og blágrænar bakteríur sem voru einangruð í nærumhverfi jarðvarmavirkjana. Tegundir sem fundust voru alls 31 og uxu stofnarnir við mismunandi hitastig.    Vaxtarhraði (g/L/dag) var áætlaður fyrir stofnana og ennfremur litarefnainnihald þeirra (chlorophyll og karoten). “Nile Red”aðferð    til að meta fituinnihald í örþörungum og blágrænum bakteríum var reynd á nokkrum stofnum en þarfnast aðferðaþróunar sem er á áætlun á seinna ári verkefnisins. Frekari tilraunir til að einangra ljóstillífandi bakteríur sem nýta H2S eru einnig á dagskrá seinna árs.

The aim of the project was to isolate and cultivate photosynthetic microorganisms able to utilize emission gases from geothermal power plants, i.e. hydrogen sulfide (H2S) and carbon dioxide (CO2) and return products which may be used in biodiesel production and feed. Two groups were of particular interest: First, anoxygenic, photosynthetic bacteria utilizing H2S and assimilating CO2; and second, oxygenic, photosynthetic CO2 assimilating microalgae and cyanobacteria. The project was planned for two years of which the first year, described in this report, was funded by UOOR.   Attempts made to isolate and cultivate photosynthetic, H2S utilizing, CO2 assimilating micro‐organisms were not successful, thus the research material of the project consisted of microalgae and cyanobacteria strains which were isolated from the close vicinities of geothermal power plants. These consisted of 31 species growing at different temperatures. Growth rate (g/L/day) was estimated for the strains as well as estimates of chlorophyll and carotenoids content. A method for estimates of fat content in microalgae i.e. the Nile Red method was tested on several microalgae and cyanobacteria species. Further development of this method is needed and planned for the next year of the project. Further attempts for isolation of photosynthetic, anoxygenic bacteria species is also planned for the next year of the project.

Lokuð skýrsla / Report closed

Skoða skýrslu

Fréttir

Fyrsta ráðstefnan um umhverfismengun á Íslandi

Fyrsta ráðstefnan um umhverfismengun á Íslandi var haldin í Reykjavík sl. vetur. Markmiðið með ráðstefnunni var að kynna vinnu og niðurstöður helstu aðila sem vinna við að meta mengun á Íslandi.  Áhersla var lögð á að allir vöktunar- og rannsóknaaðilar kæmu með framlag á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni var skipt í tvo hluta.  Fyrir hádegi var lögð áhersla á vöktun umhverfismengunar í íslenskri náttúru.  Að loknum hádegisverði voru kynningar á rannsóknum á mengun í lofti, legi, jarðvegi, mönnum og dýrum.  Fyrirkomulag ráðstefnunnar var sú að í hverjum hluta voru valin nokkur erindi frá innsendum ágripum þar sem áhersla var á vöktun annars vegar og rannsóknir hins vegar. Þessi erindi veittu yfirsýn yfir stöðu máli á Íslandi í dag. Einnig var rík áhersla lögð á veggspjöld þar sem rannsóknaaðilum gafst kostur á að kynna sín verkefni.  Ráðstefnugestum gáfust færi á að kynna sér þau fjölbreyttu vöktunar- og rannsóknaverkefni á þessum veggspjöldum og ræða persónulega við rannsakendur um þau verkefni í kaffihléum og veggspjaldakynningum.

Mjög öflugt og áhugavert ráðstefnurit var gefið út vegna þessa viðburðar og má finna ritið hér.
Í skipulagsnefnd fyrstu ráðstefnunnar um umhverfismengun á Íslandi voru eftirfarandi einstaklingar:

Gunnar Steinn Jónsson Umhverfisstofnun, gunnar@ust.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Matís, hronn.o.jorundsdottir@matis.is
Taru Lehtinen HÍ, tmk2@hi.is

Í vísindanefnd sátu: Hrund Ólöf Andradóttir, HÍ, Taru Lehtinen, HÍ, Kristín Ólafsdóttir, HÍ, Gunnar Steinn Jónsson, UST, Hermann Sveinbjörnsson, umhverfisráðuneyti, Anna Kristín Daníelsdóttir, Matís, Helga Gunnlaugsdóttir, Matís, Hrönn Jörundsdóttir, Matís.

Fréttir

Fiskifagkeppni 2011

Þú gætir verið á leið á Norðurlandamót þar sem heildarverðmæti vinninga er hartnær 400 þús. ISK.

Stefnt er að því að halda í fyrsta skipti á Íslandi, fagkeppni í vinnslu og framsetningu á fiskafurðum í söluborðum fisbúða og stórverslana. Matís mun halda utan um keppnina sem er einstaklingskeppni. Ef næg þátttaka næst, verður haldin forkeppni í lok ágúst í höfuðstöðvum Matís, Vínlandsleið 12 Reykjavík og úrslitakeppni um miðjan september. Stefnt er að því að vinningshafinn ásamt þeim sem lendir í öðru sæti munu svo halda áfram og keppa fyrir Íslands hönd í norrænni fagkeppni sem heitir „Nordisk Mesterskap í Sjömat“. Vinningshafi í þeirri keppni mun fá titilinn Norðurlandameistari og fá farandbikar sem hann skilar að ári liðnu. Þrír efstu verðlaunahafarnir fá peningaverðlaun upp á 10.000 NOK, 5.000 NOK og 3.000 NOK ásamt viðurkenningarskírteinum.

Fiskbúðirnar í skjalinu hér að neðan munu fá þetta bréf sent. Ef þú veist um líklegan þátttakanda sem ekki er á þessum lista þá vinsamlegast komið upplýsingum áleiðis.

Öllum þeim sem telja sig búa yfir nægjanlegri færni og þekkingu á viðfangsefninu er heimil þátttaka. Áhugasamir vinsamlegast setjið ykkur í samband við Gunnþórunni Einarsdóttur, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is eða Óla Þór Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is.

Nánari útlistun á reglum keppninnar má finna í skjalinu hér.

Fréttir

Breytileiki á eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum

Makríll hefur á síðustu árum gengið í vaxandi mæli inn í íslenskra lögsögu en hingað kemur fiskurinn í ætisleit yfir sumarið.

Eiginleikar makríls eftir árstíma
Á þeim tíma sem makríllinn veiðist hér við land frá byrjun júní og fram á haust eiga sér stað umtalsverðar breytingar á efnasamsetningu og eiginleikum makríls. Við upphaf vertíðar er fituinnihald í vöðva um 7-10% en um miðjan ágúst er hlutfall nálægt 30%. Á sama tíma fer vatnsinnihald lækkandi á meðan próteininnihald er tiltölulega stöðugt.  Eftir miðjan ágúst fer fituinnihald að lækka aftur.  Breytileiki í hráefnisgæðum og afurðum er því mikill á þeim tíma sem fiskurinn veiðist hér við land sem aftur hefur áhrif á inn á hvaða markaði afurðir fara.

Til að byrja með var makríll nýttur í miklum mæli til mjöl- og lýsisvinnslu en hlutur þess afla sem frystur er til manneldis hefur farið vaxandi.  Því er mikilvægt að þekkja vel þær breytur sem áhrif hafa á hráefnisgæði og vinnslueiginleika aflans.  Á síðasta ári hófst verkefni þar sem aflað er upplýsinga um breytileika í makrílafla sem veiddur er í íslenskri lögsögu.  Sýnum var safnað í samvinnu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og mælingar gerðar á efnasamsetningu og gæðum makrílsins eftir árstíma og veiðisvæðum.  Fiskurinn er viðkvæmt hráefni yfir sumartímann, einkum í júlí þegar áta er mikil í fiskinum.  Hröð kæling á aflanum eftir veiði og lágt hitastig (0 til -2°C) við geymslu aflans er forsenda þess að hægja á þeim skemmdarferlum sem hefjast strax eftir dauða fisksins.  Þær breytingar sem verða á efnainnihaldi fisksins eru líklegar til að hafa áhrif á vinnslueiginleika hans og auka los.

Á komandi vertíð verður ráðist í frekar mælingar til að fá heilstæðari mynd af sveiflum í eiginleikum aflans.  Árstíðabundnar sveiflur er nokkuð auðvelt að meta en öðru máli gegnir um áhrif mismunandi veiðisvæða þar sem fiskurinn færir sig ört úr stað vegna fæðuleitar.  Auk þess sem veðurfar og aðrir þættir geta haft valdið breytileika á milli ára. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, HB Grandi hf, Vinnslustöðin hf, Eskja hf, Skinney–Þinganes hf, Samherji hf, Gjögur hf, Loðnuvinnslan hf, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs. Nánari upplýsingar veita Sigurjón ArasonÁsbjörn Jónsson og Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Nýr bæklingur frá Matís um öryggi íslensks sjávarfangs

Bæklingurinn “Valuable facts about Icelandic seafood” er kominn út en þar er að finna mikilvægar upplýsingar um 10 verðmætustu fiskitegundirnar sem Íslendingar veiða.

Bæklinginn ætti enginn sem selur íslenskt sjávarfang að láta fram hjá sér fara enda sýna tölurnar í bæklingnum svo um munar að íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað.

Bæklinginn “Valuable facts about Icelandic seafood” má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.

Fréttir

Matís tekur stórt skref í átt til vistvænna og heilsusamlegra samgöngumáta

Á vormánuðum gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning sem ætlunin er að stuðli að því að starfsfólk Matís noti vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.

Matís  hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvæna og heilsusamlega samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnustað.  Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabílum, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.

Starfsfólk Matís, sem ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti að jafnaði í 60% tilvika (þrjá daga í viku), á rétt á samgöngustuðningi frá Matís frá undirritun samningsins. Matís greiðir fyrir kort í strætisvagna fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar strætó í og úr vinnu.   Matís greiðir mánaðarlegt andvirði strætisvagnakorts  til starfsfólks í lok hvers mánaðar, sem að jafnaði hjólar eða gengur í og úr vinnu.  Þess má geta að Matís greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna, fyrir starfsmenn sem að jafnaði nota vistvænan samgöngumáta.

Matís leggur mikinn metnað í heilsueflingu starfsmanna með margvíslegum hætti, t.d. geta starfsmenn sótt um s.k. heilsuræktarstyrk tvisvar á ári til starfsmannafélags Matís, líkamsræktarherbergi er í höfuðstöðvum Matís og auk þess býður starfsmannafélagið upp á margvíslegar heilsutengdar uppákomur á hverju ári. Starfsmenn eru vel upplýstir um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega og í átakinu Hjólað í vinnuna 2011 lenti Matís í 3ja sæti í fjölda km.

Nýverið var auk þess gengið til samstarfs við Örninn um að hjólaverslunin verði starfsmönnum innan handar þegar kemur að því að velja hjól sem henta, hvort sem það er fyrir starfsmann Matís eða meðlimi úr fjölskyldu hans. Auk þess mun Örninn ávalt sjá til þess að starfsmenn geti keypt reiðhjól og hluti tengda hjólreiðum á besta verðinu.

Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

IS