Fréttir

Verðmætasköpun í íslensku fiskeldi

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Hliðarstraumum í fiskeldi er að mestu skipt í tvo flokka, þ.e. K2 sem er sjálfdauður fiskur sem drepst í kvíum, og K3 sem er slóg sem fellur til við slátrun, auk hausa, hryggja og afskurðar sem fellur til við fullvinnslu. Ekki má vinna hráefni frá K2 til manneldis né í fóður fyrir dýr sem ræktuð eru til manneldis, og þess vegna þarf að líta til annarra markaða t.d. gælu- eða loðdýr. K3 getur hins vegar farið til framleiðslu til manneldis eða í fóður dýra sem neytt er af mönnum.

Um verulegt magn er að ræða sem leggst til sem hliðarafurðir við fiskeldi á Íslandi. Gert er ráð fyrir rúmlega fimm þúsund tonnum af K2 og rúmlega tvö þúsund tonnum í K3. Í dag eru þessi hráefni að mestu unnin í meltu, sem flutt er út til Noregs til frekari vinnslu í dýrafóður. Vinnsla á hliðarafurðum frá flakavinnslu hefur verið fryst  og notuð í fóðurgerð fyrir loðdýraeldi.

Sjálfdauður fiskur úr kvíum (K2) er unninn í meltu strax um borð í fóðurprömmum og afhent norskum kaupendum á staðnum um borð í flutningaskip. Vegna takmarkaðrar notkunar á þessu hráefni, eru verðmæti undir kostnaðarverði við framleiðslu á meltu. Meiri möguleikar eru á framleiðslu á á meltu úr K3, sem hægt að nýta til fóðurgerðar fyrir eldisdýr og jafnvel til manneldis sem eykur verðmæti töluvert. Samið hefur verið við kaupendur að taki þeir K2 fái þeir K3 jafnframt, án greiðslu fyrir afurðir beggja flokka.

Í þessu verkefni „Verðmætasköpun í íslensku fiskeldi“ sem að hluta var fjármagnað af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi/Matvælasjóði er bent á leiðir til að auka verðmætasköpun við meltuvinnslu. Í verkefninu var leitað leiða til að lækka kostnað og auka verðmæti við meltuframleiðslu úr hliðarstraumum fiskeldis, þar sem einkum var horft til þess að lækka flutningskostnað með því að vinna meltuna meira, taka úr henni lýsi og vatn, sem minnkar umfang og vigt við flutning og gefur tækifæri á að vinna hana í dýrari afurðir. Laxeldi á Íslandi í dag er dreift um Austurland og Vestfirði, auk þess sem umfangsmikið landeldi er í undirbúningi á a.m.k. þremur stöðum á Suðurlandi, og því mikilvægt að finna lausnir til að safna saman og flytja hliðarhráefnin frá eldi og slátrun til áframvinnslu, en töluverðan tækjabúnað þarf til þess.

Í verkefninu er velt upp mikilvægum möguleikum í nýtingu á K2 og K3 sem hingað til hefur verið kostnaður fyrir fiskeldið og gæti snúið því yfir í verðmætasköpun. Til að koma þessum hugmyndum lengra er nauðsynlegt fyrir rannsóknarsamfélagið að vinna þétt með fiskeldisfyrirtækjum og yfirvöldum sem skapa regluverkið.

  • Þykkingin er framkvæmd með gufun við undirþrýsting sem á sér stað við 30-50°C og þess vegna varðveitast eiginleikar próteina að mestu. En við þurrkun er hluti af þessum eiginleikum rýrðir vegna hás uppgufunarhita við þurrkun.
  • Í framtíðinni væri hægt að hugsa sér að nýta þykkni beint í fóðurframleiðslu og sleppa þurrkunarþrepinu sem er kostnaðarsamt (stofnkostnaðar er hár og einnig rekstrakostnaður) og ekki umhverfisvænt. Þannig væri hægt  draga úr verulega sótspori við þessa vinnslu og fóðrið yrði umhverfisvænna.

Til komast lengra er mikilvægt að þróa þessar hugmyndir í samtarfi við greinina og rannsóknasamfélagið. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld og eftirlitsstofnanir komi að málinu til að tryggja að regluverkið gangi í takt við þarfir og kröfur allra hagaðila.

Fréttir

Sjáðu sjónvarpsþáttinn um verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar

Tengiliður

Justine Vanhalst

Verkefnastjóri

justine@matis.is

Sérstakur sjónvarpsþáttur tileinkaður Matís verkefninu Grænir frumkvöðlar framtíðarinnar var sýndur á sjónvarpsstöðinni N4 á dögunum.

Ein helsta útkoma verkefnisins var kennsluefni um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hafið, lífríki hafsins, sjávarútveg og samfélög. Kennsluefnið, sem inniheldur m.a. kennsluleiðbeiningar, fróðleik, verkefni, leiki og tilraunir, er miðað að nemendum elstu bekkja grunnskóla og verður prufukeyrt í þremur grunnskólum skólaárið 2021-2022.

Sjáðu þáttinn hér:

Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum

Tengiliður

Tinna Brá Sigurðardóttir

Mannauðsstjóri

tinnabra@matis.is

Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.

Meginhluti starfsins hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi. 

Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Starfsstöðin í Vestmannaeyjum verður í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á öllu Suðurlandi. Viðkomandi mun veita þjónustu m.a. við matvælarannsóknir, ráðgjöf og styrkumsóknir til rannsóknasjóða í samstarfi við aðra sérfræðinga Matís.

Starfssvið

■ Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi  

■ Viðskipta- og rekstraráðgjöf 

■ Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna 

■ Verkefnastjórnun 

Hæfniskröfur

■ Menntun sem nýtist í starfi t.d. matvælafræði, sjávarútvegsfræði, verkfræði, viðskiptafræði eða tæknimenntun 

■ Góð færni í mannlegum samskiptum 

■ Góð færni í tjáningu í ræðu og riti 

■ Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður 

Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.  

Nánari upplýsingar um starfið veita:  

Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107. 

Umsóknarfrestur er til 13. nóvember n.k.

Ljósmynd: Shutterstock

Fréttir

Bætiefni matvælaframleiðslunnar
– Ný ásýnd Matís

Upprunalegt útlit og merki Matís var hannað við stofnun fyrirtækisins árið 2007. Merkið hefur þjónað okkur vel í gegnum árin, en nú er komið að því endurnýja merkið og fríska upp á ásýnd fyrirtækisins í takt við nýja tíma og skjámiðla. Á sama tíma viljum við nýta tækifærið og skerpa á skilaboðum okkar og sérstöðu í verðmætasköpun í matvælaframleiðslu, lýðheilsu og matvælaöryggi í landinu.

Með nýjustu tækni og vísindum getum við nú gert okkur mat úr því sem áður var óhugsandi. Við veitum fyrirtækjum og stofnunum í matvælaframleiðslu stuðning með þekkingu, rannsóknum og hugviti. Markmið okkar er að framleiðsla neysluvara verði sjálfbærari, hagkvæmari og heilnæmari, auk þess að þróa leiðir til að efla fæðuöryggi í heiminum.

Bætiefni matvælaframleiðslunnar

Nýtt tákn Matís er dropi, bætiefni. Við gerum gott betra, lengjum líftíma matvæla og erum bætiefni matvælaframleiðslu. Samskipti við hagaðila eru okkur hjartansmál og getur dropinn einnig táknað talbólu til marks um það.

ENNEMM auglýsingastofa sá um hönnun á nýju útliti Matís.

Fréttir

Þróun aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Matís, RORUM, Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Danmörku (Danmarks Tekniske Universitet, DTU) og Fiskeldi Austfjarða (Ice Fish Farm) hafa tekið höndum saman um verkefnið BIOTOOL sem mun vinna að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum.

Um er að ræða mjög umfangsmikið verkefni, sem er einstakt að því leiti að nýtt verður 20 ára gagnasafn og hátækni til þess að nema og vakta breytingar sem geta orðið á lífríki vegna fiskeldis í sjókvíum. Markmiðið er að þróa ódýrari og nákvæmari aðferð til vöktunar á mögulegum breytingum á botndýralífi vegna sjókvíaeldis, sem mun ekki aðeins auka hagkvæmni og bæta umhverfismál fiskeldis, heldur einnig aðstoða stjórnvöld og stofnanir, sem ábyrg eru fyrir leyfisveitingum og vöktun umhverfisins.

BIOTOOL verkefnið byggir á langtíma gögnum um fjölbreytni hryggleysingja á botni undir og nærri eldiskvíum og hvernig tegundasamsetning og fjölbreytni þeirra breytist við aukið lífrænt álag samfara fiskeldi. Í verkefninu verður nýjustu erfðatækni í umhverfisrannsóknum beitt, þar sem notast verður við svokallað „umhverfis erfðaefni“ (environmental DNA, eDNA) til að nema breytingar í botnvist undir sjókvíum. Verkefnið mun nota sjálfvirka umhverfissöfnunarvél (Environmental Sampling Processor, EPS) sem getur síað sjó, einangrað erfðaefni úr sjónum og magngreint allt að fimm dýrategundir til að nema breytingar í botnvist. Verkefnið mun miða að því að skilgreina þær fimm dýrategundir, vísitegundir, sem sýna breytileika í fjölda með auknu lífrænu álagi frá fiskeldi í sjókvíum. Erfðamörk til að nema eDNA þessara tegunda í sjó við fiskeldi, verða þróuð á rannsóknarstofu áður en aðferðin verður aðlöguð að umhverfissöfnunarvélinni, sem í framtíðinni verður hægt að koma fyrir í fjörðum í kringum Ísland til sjálfvirkra mælinga.

BIOTOOL er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Fréttir

Starfsrými til leigu

Matís auglýsir rými til leigu að Vínlandsleið 12 og 14 í Grafarholti.

Húsnæðið er um 30 fm og hentar vel fyrir matvælaframleiðslu þar sem unnið er með vörur sem þarfnast ekki kælingar eða frystingar.

Frekari upplýsingar veitir Jón Haukur Arnarson.

Fréttir

Vegvísir um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu

Matvælaráðuneytið vinnur nú að gerð vegvísis um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu. Vegvísirinn tekur mið af loftlagsstefnu stjórnvalda og stefnu um hringrásarhagkerfið og er ætlað að varða veginn að því hvernig settu markmiði um sjálfbæra nýtingu lífrænna efna til áburðar verði náð í skrefum árið 2040 eða fyrr.

Verkefnið felst meðal annars í því að setja fram beinskeytta og trúverðuga áætlun sem inniheldur m.a.: mat á núverandi ástandi, greiningu á tækifærum og forgangsröðun þeirra, sem og framsetningu sviðsmynda. Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á gerð vegvísisins, en hefur sér til halds og trausts ráðið Verkfræðistofuna Eflu til að aðstoða við verkið, auk þess sem stofnanir Ráðuneytisins og hagaðilar sitja í stýrinefnd, þ.e. Matís, RML, Landgræðslan og MAST.

Fjórða október sl. var haldinn vinnufundur í verkefninu þar sem 35 hagaðilar úr hinum ýmsu atvinnugreinum fengu tækifæri til að kynna sér gerð vegvísisins og koma með innlegg í vinnuna. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Matís og fóru þar fram góðar umræður sem án efa munu koma að gagni við gerð vegvísisins, sem til stendur að verði birtur fyrir lok árs.

Fréttir

Sjávarútvegsráðherra Sierra Leóne heimsækir Matís

Sendinefnd frá Sierra Leóne kom til landsins í lok september í boði utanríkisráðuneytisins til að kynna sér starfsemi helstu stofnanna er tengjast bláa hagkerfinu – Matís, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Sjávarútvegsskóla GRÓ.

Fyrir nefndinni var Emma Josephine Kowa, sjávarútvegsráðherra. Heimsókn nefndarinnar var undirbúningur að væntanlegum samstarfsverkefnum Íslands og Sierra Leóne, sem tengjast samkomulagi um tvíhliða samstarf landanna í þróunarmálum. Sierra Leóne er eitt fátækasta ríki veraldar þrátt fyrir aðgengi að töluverðum auðæfum, bæði á landi og sjó. Langvinnt grimmt borgarasrtíð reyndi á þjóðina en núverandi stjórnvöld eru staðráðin í þróa ríkið til betri vegar og horfa þar á betri nýtingu á auðæfum hafsins.

Sendinefndin ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins kom í heimsókn til Matís 20 september s.l. þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt og húsakynni skoðuð. Í framhaldi voru umræður um aðkomu Matís að ýmsum verkefnum sem snerta bláa hagkerfið og fellur undir markmið utanríkisráðuneytisins um tvíhliða samstarf. Sjávarútvegsráðherra þakkaði Matís sérstaklega fyrir vel heppnað verkefni er varðaði reykingu fisks sem skilar betri gæðum og bættu heilsufari starfsfólks. En Matís hannaði reykofninn og aðstoðaði við smíði hans.

Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum

Tengiliður

Tinna Brá Sigurðardóttir

Mannauðsstjóri

tinnabra@matis.is

Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfsstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.

Meginhluti starfsins  hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess  felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi.

Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Einnig er ætlast til að starfsstöðin í Vestmannaeyjum sé í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á Suðurlandi og þjónusti fyrirtækin m.a. við styrkumsóknir og í tengslum við aðra sérfræðinga Matís.


Starfssvið:
  • Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi  
  • Viðskipta- og rekstraráðgjöf
  • Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna
  • Verkefnastjórnun
Hæfniskröfur:
  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð færni í mannlegum samskiptum
  • Góð færni í tjáningu í ræðu og riti
  • Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður

Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.


Nánari upplýsingar um starfið veita:
Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107.

Umsóknarfrestur er til 20. september n.k.
vinsamlega sendið umsókn á hbald@setur.is

Ljósmynd: Shutterstock

Fréttir

Ánægjulegar fréttir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og samstarfsaðila Matís

Þróun á umhverfisvænni umbúðum, graspróteinum, hliðarafurðum garðyrkju og matvælum úr stórþörungum ásamt tegundagreiningum á saltfiski eru á meðal nýrra verkefna Matís í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Síðustu vikur reyndust íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en þrettán verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína þriðju úthlutun. Fyrr í sumar höfðu átta aðrir sjóðir tilkynnt að tíu samstarfsverkefni sem Matís er þátttakandi í hefðu verið tryggð fjármögnun. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan. 

Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og starfsfólk fyrirtækisins er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir 23 ný Matís samstarfsverkefni sem fengu jákvæð svör um styrkfé á undanförnum vikum. Myndin hér að neðan sýnir að samstarfsaðilar Matís í verkefnunum dreifast um land allt.

Matvælasjóður

Verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju er samstarfsverkefni Bændasamtakanna, Orkídeu og Matís þar sem leita á leiða til að skapa aukin verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju á borð við blöð sem falla til við afblöðun í ylrækt, plöntur sem eru hættar að gefa uppskeru, hverskyns afskurð eins og rósablöð, ystu blöð af káli, gulrótagrös og kartöflugrös. Ýmis verðmæt efni má finna í þessum hliðarafurðum en nú fara þau að mestu í moltugerð eða urðun með tilheyrandi kostnaði. Senn líður að því að bannað verður að urða lífrænan úrgang í þeim mæli sem gert er í dag vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Því er mikilvægt að finna þessu hráefni farveg til að auka verðmæti og draga úr sóun.

LuLam Wrap (Matvælaumbúðir úr lúpínu) er samstarfsverkefni Efnasmiðjunnar, Sedna–Biopack, Sölufélags garðyrkjumanna og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa umhverfisvænar, niðurbrjótanlegar umbúðir úr íslenskri alaskalúpínu og þara, og prófa þær til notkunar fyrir matvæli.

Bragðefni unnin úr sjávarfangi er samstarfsverkefni North Seafood Solutions, Útgerðarfélagsins Lokinharma, Iceland Seafood Iberica og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa bragðefni og bragðkrafta úr hliðarafurðum fiskvinnslu hérlendis. Þessar vörur eru ætlaðar einkum á erlenda markaði fyrir veitingahús og mötuneyti.

Kjötsnakk – verðmætasköpun með fullvinnslu á hrossakjöti er samstarfsverkefni 1000 ára sveitaþorps, Orkídeu og Matís. Markmið verkefnisins er að auka fullvinnslu á íslensku hrossakjöti og þróa nýjar og verðmætar afurðir úr þessu vannýtta hráefni þ.á.m. kjötsnakk. Einnig verða markaðsinnviðir byggðir upp til að auka áhuga og neyslu Íslendinga á kjötsnakki úr hrossakjöti.

Vinnsla fásykra úr stórþörungum með ensímvinnslu er nýsköpunarverkefni sem unnið verður innan líftæknihóps Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferð til framleiðslu fásykra úr stórþörungum og auka þannig nýtingu þörunga sem vaxa í miklum mæli við strendur Íslands. Fásykrur eru notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

BruXOS – Verðmætasköpun úr hliðarafurð bjórgerðar er samstarfsverkefni Ölgerðarinnar og Matís, þar sem markmiðið er að skapa verðmæti úr hrati frá bjórgerð með því að nýta ensím til að umbreyta trefjum í hratinu í xylosa fásykrur. En eins og kom fram hér að ofan eru fáskykrur notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

Upprunavottun á íslenskum saltfiski á Spáni er samstarfsverkefni samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda, Hafrannsóknarstofnunar og Matís. Í verkefninu er stefnt að því að þróa erfðafræðilega aðferð sem getur greint á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur við Noregsstrendur og í Barentshafi. Saltfiskframleiðendur hér á landi grunar að saltaðar þorskafurðir frá Noregi séu stundum ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu. Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Gangi markmið verkefnisins eftir mun því verða unnt að sannreyna að saltfiskur sé ekki seldur undir fölsku flaggi.

Tenging NIR við vöxt og meltanleika fóðurs fyrir laxfiska er samstarfsverkefni Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnslunnar, Eskju, Ísfélags Vestmannaeyja, Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa líkan til að meta gæði fiskimjöls sem hráefni í laxeldisfóður á skjótan, auðveldan og ódýran hátt. Líkanið mun byggja á NIR tækni (nær innrauðri litrófsgreiningu) sem gefur upplýsingar um innihald og einkenni mælisýna. Þessar upplýsingar er hægt að nota og bera saman við in vivo raunmælingar og fá þannig spá fyrir ýmsa þætti í hráefninu. Þar má nefna, efnainnihald og meltanleika hráefnis, samsetningu næringarefna á borð við amínósýrur og fitusýrur svo eitthvað sé nefnt. NIR tæki gefur í raun fingrafar hráefnisins. Með NIR líkaninu verður því unnt að meta gæði fiskimjöls, sem mun veita fiskimjölsframleiðendum gögn til að bæta sínar afurðir og styrkja samningsstöðu sína gagnvart fóðurframleiðendum. Að sama skapi mun afrakstur verkefnisins gera fóðurframleiðendum kleift að velja rétta „rétta“ fiskimjölið fyrir sitt fóður.

Er grasið er grænna hinum megin? (grasprótein) er samstarfsverkefni Matís, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskólans og Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins. Mikil eftirspurn er eftir próteini og einn mögulegur próteingjafi er gras. Erlendis, sérstaklega í Danmörku, hafa verið framkvæmdar rannsóknir á sviði próteinvinnslu úr grasi með góðum árangri. Markmið verkefnisins er að hefja rannsóknir á þessu sviði á Íslandi og framkvæma grunnvinnu sem síðan er hægt að byggja á. Ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður frá Danmörku beint yfir á íslenskar aðstæður og því mikilvægt að framkvæma rannsóknir á þessu sviði hér. Prótein unnið úr grasi er hægt að nýta bæði sem fóður og fæði. Einnig hafa rannsóknir sýnt að hrat frá próteinvinnslu er nýtanlegt sem fóður. Í verkefninu verður sýnum af grasi safnað úr tilraunaræktun mismunandi yrkja og aflað þekkingar á próteininnihaldi og eiginleikum einangraðs próteins.

Næringargögn – lykill að lýðheilsu landsmanna og nýsköpun matvælaiðnaðarins er samstarfsverkefni Matís, European Food Information Resource (EuroFIR), Félags Smáframleiðenda Matvæla (SSMF), Mjólkursamsölunnar og annarra fyrirtækja í matvælaiðnaði. Þegar fullyrt er um hollustu og öryggi matvæla þarf upplýsingar og þekkingu. Markmið verkefnisins er að bæta og uppfæra íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM). ÍSGEM er nú í umsjón Matís en ekki hefur tekist að fjármagna viðhald hans síðastliðin 12 ár. Það háir jafnt matvælaiðnaði, vísindamönnum og almenningi að geta ekki að fullu treyst upplýsingunum. Skref verður stigið til að auðvelda matvælaiðnaði og almenningi notkun á gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við vöruþróun í matvælaiðnaði er mikilvægt að geta skoðað samsetningu hráefna þegar stefnt er að ákveðnum markmiðum í þróuninni.

Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða er samstarfsverkefni Icelandic Lamb markaðsstofu og Matís. Verkefnið snýr að úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts og greiningar á efnainnihaldi kjöts og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að uppfæra gömul og jafnvel úrelt gögn og vista í opinberum gagnagrunnum.

Furan fitusýrur sem gæðavísir er samstarfsverkefni True Westfjords og Matís þar sem markmiðið er að nýta Furan fitusýrur til að meta gæði lýsis, en True Westfjörds er framleiðandi að kaldunnu lýsi sem selt er undir vörumerkinu Dropi.

Bætt gæði a sjófrystum ufsa er samstarfsverkefni Útgerðafélags Reykjavíkur og Matís, þar sem leitast verður við að bæta vinnsluferla og gæði sjófrystra ufsaafurða.

Tækniþróunarsjóður Rannís

BIOTOOL, Hátækni til umhverfisvöktunar í fiskeldi er samstarfsverkefni RORUM (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfis- og byggðamálum), Háskóla Íslands, Danska Tækniháskólans (DTU) og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa alhliða erfðasameindatæki til vöktunar botndýrasamfélaga vegna fiskeldis. Tækið sem um ræðir er mjög næmt og mun hafa í för með sér mikinn sparnað í tíma og kostnaði sem er mikilvægt fyrir bæði fiskeldið og opinbera eftirlitsaðila. Verkefnið byggir á einstökum langtíma gögnum og nýjustu tækni í umhverfis erfðafræði. Notast verður við mjög hraða og umhverfisvæna tækni sem nýtir umhverfis DNA (eDNA) til þess að vakta og nema breytingar í botnsamfélögum.

Fagráð í sauðfjárrækt

Aukin afköst og hagkvæmni í greiningum á riðugeni er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Matís. Nú er staðan í greiningum á riðugeni gjörbreytt. Verndandi breytileiki gegn riðu, þ.e. í sæti 171 í riðugeninu, hefur fundist í hjörð í Þernunesi í Reyðarfirði  og umfangsmiklar rannsóknir eru í gangi til að kanna áhrif annarra breytileika í riðugeninu á næmni gagnvart riðu: 137, 138 og 151. Auk þess er mikilvægt fyrir bændur að fá upplýsingar um sæti 136 og 154, líkt og Matís hefur greint um árabil. Því er ljóst að bændum og ráðanautum bráðvantar arfgerðagreiningar á öllum þessum sex sætum í sem flestum gripum. Markmið verkefnisins er að auka afköst og lækka verð á greiningum riðugens hér á landi. Verður styrkurinn notaður til að mæta kostnaði við raðgreiningu á riðugeni til bænda og RML.

Lóu sjóðurinn

Veiðar og vinnsla rauðátu í Vestmannaeyjum er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Rannsóknaþjónustu Vestmannaeyja, Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja og Matís. Í verkefninu mun raunhæfi veiða og vinnslu á rauðátu í Vestmannaeyjum verða kannað.

Sjóður til eflingar hringrásarhagkerfis á Íslandi

Örverur til auðgunar fiskeldisseyru er samstarfsverkefni Sjávarklasans og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að nýta lífræna hliðarstrauma (úrgang) frá laxeldi í áburð.

Bestun Framkvæmdar á nýtingur hliðarstrauma til lífkola og áburðargerðar er samstarfsverkefni Landeldis og Matís, en markmið verkefnisins er að Markmið verkefnisins er að rannsaka og skrásetja endurheimt næringarefna úr mismunandi þurrefnasíum í landeldi og besta meðhöndlun þeirra til lífkolagerðar. Leitast er við að rannsaka og besta ferla við blöndun búfjáráburðar, fiskiseyru, fóðurleifa og dauðfisks úr landeldi, með það að markmiði að hámarka jarðvegsbætandi eiginleika lífkola og kraft áburðar. Rannsakað verður hvernig framleiða má lífkol á sem hagkvæmastan hátt.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Vöktun sjókvíaeldissvæða með hraðvirkum erfðafræðilegum aðferðum er samstarfsverkefni RORUM og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa hraðvirkar erfðafræðilegar aðferðir til að vakta líffræðilegan fjölbreytieika í botnlögum undir og við laxeldiskvíar.

EIT food

Samband fóðurs og árstíðabundinni sveiflna á næringarinnihaldi mjólkur (NUTRIMILK – Connecting milk seasonality and nutritional requirements to inform farm-to-fork innovations for optimum nutrient supply). Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reading, Bretlandi. Markmið verkefnisins er að skoða breytingar á næringarsamsetningu eftir árstíð. Verkefnið mun (i) kanna áhrif framleiðslukerfis (lífræn framleiðsla vs hefðbundin) og árstíðar (janúar-desember), á styrk snefil- og steinefna í mjólk og (ii) meta hvaða áhrif það hefur á steinefnainntöku mismunandi samfélagshópa þvert yfir árið.

Norska rannsóknarráðið (Forskningsrådet)

Greining á ástæðum laxadauða í fiskeldi (Causal categorisation of mortality as a model system for sustainable growth and increased value creation in aquaculture) er verkefni sem fjármagnað er af Norska Rannsóknaráðinu og er leitt af dýralæknasviði NMBU Háskólans í Noregi. Aðrir þátttakendur eru ÅKERBLÅ AS, SINTEF, PISCADA AS, LERØY, Laxar, Arctic Fish, Arnarlax og Matís. Markmið verkefnisins er að greina ástæður laxadauða í fiskeldi og leitast við að nýta þá þekkingu til að draga úr laxadauða.

BlueBio Cofund

Efling sjávarútvegs í Evrópu með mótun „fingrafars“ vannýttra fisktegunda til að auka sjálfbærni og draga úr sóun (EuFish_SustainableGrowth – European fisheries enhancement through “Omic” characterization and innovative seafood production from underutilised fish species. Verkefnið er leitt af Háskólanum Naples Federico II, Ítalíu og unnið í samstarfi með AquaBioTech ltd, Stazione Zoologica Anton Dohrn of Naples, Brim, Grími kokki og Matís. Markmið verkefnisins er að skoða vannýttar fisktegundir með því að nýta þær betur sem næringarríka fæða og/eða sem fóður í fiskeldi. Með því að nýta fjölbreyttar fisktegundir getum við aukið aðgengi að næringarríku sjávarfangi og dregið úr matarsóun. Þróuð verða sértæk fingraför mismunandi tegunda sem hægt verður að deila með hagsmunaaðilum í gagnagrunni.

BláGræntFóður (Synergy of blue and green sectors for resilient biomass production and processing to develop sustainable feed ingredients for European aquaculture). Verkefnið er leitt af SINTEF í Noregi, með þátttöku Háskólans í Åarhus, Háskólans í Tallin, Háskóla Íslands, Laxá og Montasjen í Noregi. Markmið verkefnisins er að þróa fiskeldisfóður úr graspróteinum og fjaðurmjöli frá alifuglarækt.

IS