Fréttir

Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis ehf.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

FRÉTTATILKYNNINGNýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis

Ísafjörður / Reykjavík, 4. Janúar 2010─ Lækningavörufyrirtækið Kerecis ehf. og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins (NSA) tilkynntu í dag um undirritun fjárfestingarsamnings. Samningurinn var undirritaður þann 30.12.2009. Samkvæmt samningnum mun NSA kaupa 35% í Kerecis í formi hlutafjár og jafnframt veita fyrirtækinu lán með breytirétti. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum næstu 12 mánuði og eru áfangagreiðslur háðar framgangi þróunarverkefna Kerecis.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins. Starfsmenn og stofnendur Kerecis hafa áralanga reynslu í þróun á lækningavörum og klínískri þróunar– og prófunarvinnu.

Markaður fyrir lækningavörur („medical devices“) á heimsvísu er geysistór og hafa nokkrir íslenskir aðilar haslað sér völl á þessum markaði og má þar nefna Össur hf, Mentis Cura, Nox Medical, Oxymap, Kine og fyrirtækið Primex. Kerecis mun einbeita sér að vöruþróun fyrir þann hluta lækningavörumarkaðarins sem snýr að meðhöndlun á sköðuðum vef („tissue engineering“).

Ummæli:
Dr. Baldur Tumi Baldursson, læknir, meðstofnandi og yfirmaður lækningasviðs Kerecis:
Tækni Kerecis byggir á hagnýtingu á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Frumathuganir félagsins benda til þess að tæknin henti mjög vel til meðhöndlunar á vefjaskemmdum í mönnum og með aðkomu Nýsköpunarsjóðs komum við til með að geta hleypt af stokkunum klínískum prófunum á vörum okkar strax í upphafi árs 2010.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdarstjóri, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins:
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki einsog Kerecis.  Við höfum mikla trú á fyrirtækinu þarna koma saman reyndir stjórnendur og góðir vísindamenn sem sjá markaðstækifæri í fyrir lækningarvöru byggða á íslenskri þekkingu og íslensku hráefni.

Það er okkar von að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við Kerecis og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins.

Um Kerecis ehf.
Kerecis ehf. (www.kerecis.is) er þróunar- og framleiðslufyrirtæki á sviði lækningavara og byggir tækni sína á próteinum unnum úr fiski. Fyrirtækið vinnur í náinni samvinnu við heilbrigðisstéttir og vinnur að þróun á tækni til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

Um Nýsköpunarsjóð
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (www.nsa.is) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins. 

Frekari upplýsingar:
Guðmundur F. Sigurjónsson
Stjórnarformaður Kerecis ehf.
Sími 8494960
gfsigurjonsson@kerecis.com

Helga Valfells
Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins
Kringlunni 7, 103 Reykjavík 
sími / tel: 510 1800 fax: 510 1809   
gsm nr.: 861 0108  
helga@nsa.is
www.nsa.is

Fréttir

Greiningartími styttur úr 3 dögum niður í 5 klst.!

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur hjá Matís doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Hefst: 15/01/2010 – 13:00

Lýkur: 15/01/2010 – 15:00

Staðsetning viðburðar: Askja

Nánari staðsetning: Stofa 132 (stóri salurinn)

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands:
Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða.
Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.

Fresh view in fish microbiology.
Analysis of microbial changes in fish during storage, decontamination and curing of fish, using molecular detection and analysis methods.

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“ Andmælendur verða Dr. Paw Dalgaard vísindamaður frá Tækniháskólanum í Danmörku og Dr. Guðni Ágúst Alfreðsson prófessor við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Guðmundur Hreggviðsson fagstjóri hjá Matís. Dr. Sigurður Snorrason, forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar mun stjórna athöfninni sem fer fram í Öskju og hefst kl. 13.

Í verkefninu voru skemmdarferlar fiskafurða skoðaðir með notkun sameindalíffræðilegra aðferða til að skoða samsetningu og breytingar á örveruflórunni við geymslu og verkun fiskafurða. Fyrsti hluta verkefnisins beindist að þróun hraðvirkra greiningaraðferða á óæskilegum bakteríum s.s Salmonella og bakteríum sem valda niðurbroti matvæla (skemmdarbakteríur). Með nýju aðferðafræðinni er greiningatíminn styttur úr 3 dögum niður í 5 klst. sem getur komið að góðum notum við eftirlit og gæðastýringu í matvælaframleiðslu. Í öðrum hlutanum var komið inn á hreinlæti og þrif í fiskvinnslu þar sem virkni hefðbundinna þrifaferla til fjarlægingar á örveruþekjum voru kannaðir. Tekið var tillit til mikilvægra þátta í ferlinu s.s. hitastigi skolvatns, styrkleika hreinsiefna og gerð yfirborðs. Örveruþekjur myndast iðulega við matvælaframleiðslu og því er mikilvægt að þrifaferlar komi í veg fyrir að þær nái fótfestu til að tryggja bæði öryggi og gæði framleiðslunnar. Í þriðja hlutanum er fengist við spurningar um samsetningu bakteríusamfélaga við geymslu á fiski þar sem dæmi eru tekin af þremur fiskitegundum. Þorskur og ýsa eru dæmi um beinfiska á meðan skata er flokkast til brjóskfiska. Ýmsir beinfiskar eru mikilvægir nytjastofnar og hafa því hlotið meiri athygli þegar kemur að rannsóknum á örverufræði þeirra og skemmdarferlum. Í þessum hluta er sýnt fram á og staðfest að Photobacterium phosphoreum er sú bakteríutegund sem oftar en ekki nær yfirhöndinni við geymslu á þorski og ýsu við mismunandi aðstæður. Með notkun ræktunaraðferða og sameindalíffræðilegra greininga er framvindu örverusamfélaga við kæsingu á skötu lýst og sýnt fram á viðveru áður ólýstra bakteríutegunda í umtalsverðu magni í þessu sérstæða umhverfi.

Doktorsefnið er Eyjólfur Reynisson, fæddur 1977. Hann lauk BS-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2001 og M.Sc.-gráðu í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla tveimur árum síðar. Síðan þá hefur Eyjólfur starfað á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem gekk inn Matís ohf. – Matvælarannsóknir Íslands. Þar hefur hann unnið verkefnið sitt að stærstum hluta. Eyjólfur er kvæntur Lilju Logadóttur og eiga þau 3 börn.

www.hi.is

Fréttir

Helmingur bæjarbúa á námskeiði!

Fyrir stuttu hélt Matís námskeið á Suðureyri fyrir fiskvinnsluna Íslandssögu og Klofning. Námskeiðið fór fram á 4 tungumálum og voru um 120 þátttakendur sem er hátt í helmingur af íbúafjölda Suðureyrar.

Á námskeiðinu var m.a. fjallað um gæði fisks, fiskvinnslu og hreinlæti.

Namskeid_Sudureyri
Frá námskeiðinu á Suðureyri.

Mikil ánægja var með námskeiðið og var talað um að upplýsingarnar myndu nýtast starfsmönnum mjög vel.

Námskeiðið endaði með hófi fyrir starfsmenn þar sem fyrirtækin Íslandssaga og Klofningur urðu 10 ára 6. desember sl.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson, margeir.gissurarson@matis.is.

Nánar um námskeið sem eru í boði hjá Matís: www.matis.is/freadsla/namskeid/

Fréttir

Merkingar matvæla – Þessum upplýsingum átt þú rétt á!

Fimmtudaginn 4. febrúar kl. 18-21 mun MNÍ (Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ)) ásamt Matís og MAST í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands halda námskeið um merkingar matvæla m.a. til að auka skilning á merkingum og á innihaldi matvæla.

Námskeiðið er opið öllum sem áhuga hafa á merkingum matvæla og hentar einnig þeim sem nota þær í störfum sínum, s.s. í mötuneytum, framleiðslu- og innflutningsfyrirtækjum. Markmið með námskeiðinu er að gera þátttakendur færa um að túlka merkingar matvæla og veita þeim skilning á innihaldi þeirra.

Merkingar á matvælum eru oft einu upplýsingarnar sem við höfum í höndunum til þess að velja matinn okkar á upplýstan hátt. Merkingarnar þurfa að fylgja ákveðnum reglum, sem segja til um hvað þarf að koma fram. Þær eiga að vera skýrar og ekki villa um fyrir okkur. Innihaldslýsing og næringargildisupplýsingar eru mikilvægar til þess að geta borið saman innihaldsefni, orkuinnihald og bætiefni matvæla og kunna að vera forsenda þess að við getum sett saman heilsusamlegt mataræði.

Farið verður yfir gildandi reglur um merkingar matvæla eins og þær snúa að neytendum. Merkingar á umbúðum matvæla verða skoðaðar og komið verður inn á hvernig á að merkja ofnæmis- og óþolsvalda. Gerð verður grein fyrir hinum ýmsu merkjum á matvælum: hollustumerki, glas- og gaffalmerkið, lífræn vottunarmerki, Fair Trade o.fl. Skýrt verður hvernig merkingar á innihaldi, næringargildi og geymsluþoli eru unnar. Tekin verða dæmi um vinnslu merkinga og þátttakendur vinna verkefni. Sýnd verður notkun á íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) og vefforritinu hvaderimatnum.is, auk fleiri forrita og aðferða við útreikninga.

Umræður eru hluti af námskeiðinu.

Nánari upplýsingar má finna á www.endurmenntun.is

Fréttir

Samdægursvottun á öryggi matvæla

Þróaðar hafa verið hraðvirkar aðferðir til að greina bakteríumengun í matvælum. Nú er hægt að fá úr því skorið á örfáum klukkustundum hvort matvælin innihalda óæskilegar örverur, en það eykur til muna öryggi matvæla og biðtími eftir niðurstöðum örverugreininga styttist úr 2-6 dögum í minna en 24 klst.

Lokið er AVS verkefni sem miðar að því að þróa hraðvirkar aðferðir til að greina algenga sýkla í matvælum og sérvirkar skemmdarbakteríur í fiski. Greiningartíminn með þessum aðferðum er allt frá 2 upp í 6 dögum styttri en viðmiðunaraðferðirnar og þær hraðvirkustu taka um 4 klukkustundir.

Samdægursvottun á öryggi matvæla – innan 24 klukkustunda frá því að sýni eru send til greiningar – er mjög mikilvæg fyrir fyrirtæki í matvælaiðnaðinum, einkum hvað varðar matvælasýkla og kemur til með að verða enn mikilvægari í nánustu framtíð. Hraðvirkar PCR greiningar gera matvælaframleiðendum kleift að grípa strax inn í, stýra vinnslu hráefnisins eða stöðva dreifingu ef framleiðsluvaran reynist innihalda óæskilegar örverur eða uppfyllir ekki gæðakröfur. Tæknin stuðlar því að bættum gæðum og ímynd matvæla sem er mjög mikilvægur þáttur til að viðhalda góðri ímynd Íslands fyrir heilnæmar landbúnaðar- og sjávarafurðir.

Í verkefninu voru þróaðar nokkrar aðferðir fyrir mismunandi bakteríur. Þróun á hraðvirkum Salmonella greiningum í mismunandi afurðum voru framkvæmdar og sýndu sambærilega greiningarhæfni og faggild NMKL aðferð, t.a.m. var sýnt fram á sambærilega næmni aðferðanna til að greina Salmonella í hænsnasaur. Real-time PCR aðferðin greindi Salmonella ennfremur með miklum áreiðanleika í öllum öðrum hráefnum sem prófuð voru, þ.e. fiskimjöli, hrognum, rækju, laxi og ýsu.

Prófanir á greiningarhæfni Campylobacter aðferðarinnar í hænsnasaur og kjúklingum hafa að sama skapi sýnt að greina má bakteríuna í sýnum sem innihalda aðeins 10-100 bakteríur í grammi með fullum áreiðanleika að undandgenginni forræktun yfir nótt. Samanburður við faggilda NMKL ræktun sýndi ennfremur að real time PCR aðferðin hafði næmni sem var sambærileg eða meiri en faggild NMKL aðferð. Aðrar aðferðir til að greina sjúkdómsvaldandi bakteríur voru einnig settar upp fyrir Listeria monocytogens og Vibrio parahaemolyticus með ágætis árangri. Nánari upplýsingar má nálgast í verkefnaskýrslunni.

Sem betur fer innihalda matvæli sjaldnast sjúkdómsvaldandi örverur en þar er þó að finna fjöldann allan af öðrum skaðlausum bakteríutegundum sem stuðla að niðurbroti vefja og vaxa jafnt og þétt á meðan geymslu stendur. Við niðurbrotið myndast ýmiss efnasambönd sem jafnan fylgir ólykt og gæði afurðanna minnkar því að sama skapi. Geymsluaðferðir snúast því í öllum tilvikum um að halda vexti þessara örvera í skefjum. Rannsóknir á þessum bakteríum í fiski hafa sýnt fram á hvaða bakteríutegundir eru þar helst að verki og með vitneskju um magn þeirra í fiskinum við framleiðslu eða geymslu má fá mat á gæðum afurðanna og jafnvel spá fyrir um geymsluþol þeirra.

Í þessu verkefni var þróað hraðvirkt próf til að mæla magn skemmdarbaktería sérstaklega. Þetta próf er hægt að nota til að spá fyrir um geymsluþol, til að meta ástand hráefnis og afurðar eða í innra gæðaeftirliti í fiskvinnslum.  Þær bakteríutegundir sem helst er beint spjótum að í þessu samhengi eru Pseudomonas tegundir og Photobacterium phosphoreum en sýnt hefur verið fram á skemmdarvirkni þeirra beggja í fiski við mismunandi geymsluskilyrði.

Sú þekking og reynsla sem hefur áunnist í verkefninu hefur þá einnig gert það að verkum að nú er hægt að setja upp nýjar aðferðir fyrir aðrar bakteríutegundir með minni tilkostnaði en áður og stefnt er á frekari umsvif á þessum vettvangi.

Áhugasamir aðilar geta fengið nánari upplýsingar hjá verkefnisstóra, Eyjólfi Reynissyni, eyjolfur.reynisson@matis.is, hjá Matís ohf.

Skýrsla verkefnisins: Sólarhringsgreining óæskilegra örvera í matvælum.

Fréttir

Kettir lækka blóðþrýsting hjá eigendum sínum – geta fiskar gert það sama?

Komin er út Matís lokaskýrsla í verkefninu „Einangrun, hreinsun og rannsóknir á blóðþrýstings-lækkandi peptíðum úr fiskpróteinum“. 

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengir á Íslandi og hafa verið ein langalgengasta dánarorsökin og er hækkaður blóðþrýstingur einn helsti áhættuþátturinn. Nýjustu rannsóknir benda til að áhrif próteina á heilsu séu meiri en að afla nauðsynlegrar orku og næringar. Við niðurbrot á próteinum við meltingu eða annað niðurbrot myndast smærri efni, peptíð. Þá verða amínósýruraðir sem voru óvirkar innan próteinkeðjunnar virkar þegar peptíðin eru “leyst úr læðingi”. Þessi peptíð gegna margþættum hlutverkum sem lífeðlisfræðilegir áhrifavaldar til dæmis áhrif á blóðþrýsting, meltingu, oxunarferla og fleira í líkamanum og eru kölluð lífvirk efni. Það er því mögulegt að nota peptíð í heilsufæði og jafnvel lyf.

Markmið verkefnisins var að rannsaka virkni í fiskpeptíðum og einangra, hreinsa og skilgreina peptíð sem hafa blóðþrýstingslækkandi áhrif. Í verkefninu var sett upp aðstaða og þekkingar aflað til þessa hjá Matis. Þar með er talin aðferð til að mæla virkni efna til að hindra Angiotensin Converting ensím (ACE) sem er mikilvægt við stjórnun blóðþrýstings ásamt búnaði til einangrunar og hreinsunar á peptíðum. Í samstarfi við Háskóla Ísland var HPLC og Maldi-Tof búnaður nýttur til að greina hvaða peptíð voru í hinum virku þáttum. Meðal annars fundust peptíð sem ekki hafa áður verið skilgreind sem ACE hindrar.

Niðurstöður verkefnisins sýna að íslensk fiskprótein gætu verið mikilvæg uppspretta peptíða með blóðþrýstingslækkandi eiginleika. Með þeirri þekkingu og aðstöðu sem hefur verið aflað í verkefninu eru mun meiri möguleikar á að þróa verðmætar fiskafurðir og heilsufæði.

Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.
Nánar upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís, mg@matis.is

Skýrslur

Steinbítur. Afli, markaðir, nýting og efnainnihald / Atlantic wolffish. Icelandic catch volumes, markets, yield and chemical content

Útgefið:

01/01/2010

Höfundar:

Kristín Anna Þórarinsdóttir

Steinbítur. Afli, markaðir, nýting og efnainnihald / Atlantic wolffish. Icelandic catch volumes, markets, yield and chemical content

Skýrslan er stutt yfirlit á stöðu þeirrar þekkingar sem fyrir liggur í dag á aflamagni, lífsmynstri, nýtingu og efnainnihaldi steinbíts sem veiðist við Ísland.  Hafrannsóknastofnun hefur unnið að rannsóknum á dreifingu og lífsmynstri steinbíts í hafinu umhverfis Ísland.    Hagtölur Hagstofunnar sýna þróun í m.a. veiðum og ráðstöfun á steinbítsafla.    Þekking á breytileika í vinnslueiginleikum og efnainnihaldi fisksins er takmörkuð og ekkert fannst um stöðugleika steinbítsafurða við geymslu.    Þær rannsóknir sem byggt er á m.t.t. nýtingar og efnainnihalds byggja á eldri gögnum Rf (nú Matís ohf) frá því um 1980.    Þær sýna að líkt og hjá öðrum tegundum er ástands fisksins mjög háð tímasetningu hrygningar og árstíma.  Það sem gerir steinbít frábrugðinn algengari tegundum eins og þorski er að hann missir tennur við hrygningu og gætir eggja sinni sem hamlar fæðuöflun.

This report is a broad literature review about catch volumes, reproduction, yield and chemical content of Atlantic wolffish caught in   Icelandic waters.    The Icelandic Marine Institute has investigated the distribution, growth, maturity and fecundity of the fish and the Icelandic Statistics collects and produces statistics on fish catch, manufactured products and exports.    Information about the variability in yield and chemical content of wolffish are limited and knowledge about the stability and degradation process of wolffish products is limited.

Skoða skýrslu

Fréttir

Skiptiborð Matís um jólahátíðina

Skiptiborð Matís verður lokað frá 24. desember til 4. janúar.

Beinn sími á örverudeild er 422-5116 eða 858-5116.

Upplýsingar um önnur símanúmer starfsmanna er að finna á heimasíðu okkar, http://www.matis.is/um-matis-ohf/starfsfolk/

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Matís sendir ekki út jólakort í pósti en styrkir Kraft

Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá Krafti.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Krafts, www.kraftur.org.

Fréttir

Matís flytur í nýtt húsnæði að Vínlandsleið 12 (Grafarholt)

Starfsemi Matís á höfuðborgarsvæðinu mun nú sameinast undir einu þaki að Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík (Grafarholt).

Því mun öll starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. sím- og tölvukerfi, liggja niðri frá kl. 17:00 fimmtudaginn 17. desember til kl. 08:00 mánudaginn 21. desember.

Við biðjumst velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Vegna neyðartilfella má hringja í Odd Má Gunnarsson, sviðsstjóra viðskiptaþróunarsviðs í síma 858-5096.

Með bestu kveðju,
starfsfólk Matís.

IS