Skýrslur

Marningskerfi / Mince processing lines

Útgefið:

01/07/2009

Höfundar:

Róbert Hafsteinsson, Albert Högnason, Sigurjón Arason

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Marningskerfi / Mince processing lines

Verkefni þetta er samstarfsverkefni eftirtalinna fyrirtækja; Matís, Hraðfrystihúsið Gunnvör og 3X Technology. Megin markmið þessa verkefnis er að auka verðmæti bolfiskafla með því að þróa feril sem eykur nýtingu og gæði marnings sem unninn er úr aukaafurðum, s.s hryggjum, sem fellur til frá flökunarvélum og afskurði sem fellur til frá snyrtilínum.

Megináherslur í verkefninu eru þróun og smíði á eftirtöldum einingum til að hægt sé að framleiða hágæða marning úr hryggjum. Um eftirtaldar einingar/verkþætti er að ræða:

  • Hryggjarskurðarvél  
  • Marningsþvottavél
  • Marningspressa
  • Marningspökkunarvél  

This project is a collaboration work between; Matis, Hraðfrystihúsið Gunnvör and 3X Technology. The main object of this project is to increase value of ground fish catch by improving utilization of fish muscle from by‐ products that is used for human consumption. The aim is to develop methods to process mince from frames without blood and thereby improve color and stability of the product during storage.

The main emphasis in this project is developing and construction of following components:

  • Fish frame cutter
  • Filtering drum
  • Minch press
  • Minch packing machine
Skoða skýrslu

Fréttir

Framtíðarhúsnæði Matís

Matís og Mótás undirrituðu leigusamning vegna framtíðarhúsnæðis Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík sl. föstudag, 26. júní.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað 24. apríl sl., eftir að hafa lagt málið fyrir ríkisstjórn Íslands, að Matís ohf. flytji starfsemi sína í nýtt húsnæði um næstu áramót.

Í samræmi við það markmið að fjölga störfum í byggingariðnaði var Framkvæmdasýslu ríkisins falið að auglýsa eftir leiguhúsnæði fyrir Matís ohf. sem nú starfar á þremur stöðum víðs vegar um borgina.

Ákveðið var síðan að velja byggingarfélagið Mótás sem boðið hafði fram leigu á 3.800 fermetra húsnæði að Vínlandsleið 12, Reykjavík.  Húsnæðið sem nú er fokhelt er á þremur hæðum ásamt kjallara og mun leigusali innrétta húsnæðið og skila því fullfrágengnu að utan sem innan.  Leigusali hefur áætlað að mannaflaþörf, þ.m.t. afleidd störf við að fullgera húsnæðið í samræmi við húslýsingu Matís, séu um 200 ársverk.

Vínlandsleið 12

Með lögum nr. 68/2006 um stofnun Matvælarannsókna hf.  heimilaði Alþingi að stofna hlutafélag um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Í athugasemdum við frumvarpið var lögð rík áhersla á að fyrirtækinu yrði gert kleift að sameina undir einu þaki starfsemi stofnananna sem verið var að sameina.

Félagið – Matís ohf. – tók til starfa 1. janúar 2007.

Meðfylgjandi eru myndir frá undirskriftinni og þar má sjá aðila úr stjórn Matís, forstjóra Matís og framkvæmdastjóra Mótás skrifa undir samninginn.

Fréttir

Risa áfangi á sviði varnarefnamælinga

Stór áfangi var stiginn í apríl þegar Katrín Hauksdóttir hjá Matís á Akureyri fjölgaði mælingum á sviði varnarefna úr 49 í 62 efni, en varnarefni eru notuð í framleiðslu ávaxta og grænmetis til að varna ágangi skordýra og annarra skaðvalda.

Þetta er fjórðungs fjölgun sem er áfangi sem krafðist mikillar vinnu. Á þessu ári var efnum sem mæld eru með faggiltri aðferð einnig fjölgað um 12 og nú eru 27 af þessum 62 efnum sem skimað er fyrir faggild. Efnum sem bætt var við eru:
Asefat
Bitertanól
Fenarimól
Fention
Fipronil
Fosmet
Methiocarb
Myclobutanil
Pirimicarb
Pyridaben
Pyrimethanil
Tebuconazole
Tetradifon

Stefnt er að því að sækja um faggildingu fyrir fleiri efni  eftir því sem aðstæður leyfa. Efnunum sem var bætt við faggildinguna eru eftirfarandi:
Vinklosolin
Metalaxyl
Malation
Aldrin
Isofenfos
Metadion
Buprofezin
Bromopropylate
Carbofuran
Ditalimfos
Lindan
Cyprodinil

Eftir þessa fjölgun er Ísland komin nær því að uppfylla kröfur ESB um skimun varnarefna í innlendu og innfluttu grænmeti og ávöxtum. Þetta eykur til muna öryggi almennra neytenda og fjöður í hatt Matís.

Fréttir

Norræna ráðherranefndin tilnefnir starfsmann Matís til verðlauna

Stýrihópur norrænu ráðherranefndarinnar um “Ný norræn matvæli” tilnefndi fyrir stuttu Brynhildi Pálsdóttur til verðlauna á sviðinu “Ný norræn matvæli”.

Brynhildur og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og fyrirtæki þeirra Borðið, voru tilnefnd frá Íslandi.

Brynhildur hefur starfað um skeið hjá Matís og komið m.a. að “Stefnumót bænda og hönnuða”.

“Stefnumót bænda og hönnuða” er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu er hægt að margfalda virðisaukann. Í sérstöðu og upplifun felast mikil verðmæti, því er markmið verkefnisins að þróa héraðsbundnar matvörur byggðar á hæstu gæðum, rekjanleika og menningarlegri skírskotun.

Matís hefur tekið virkað þátt í ofangreindu verkefni og kemur m.a. að vöruþróun.

Nánari upplýsingar:
Borðið (stórt pdf skjal)
Borðið – CV (pdf skjal)

Fréttir

Öryggisupplýsingar samþáttaðar við rekjanleikaupplýsingar í rauntíma

Matís ohf. hóf nýlega vinnu við stórt Norrænt verkefni, e-REK (e. e-TRACE), en þar er m.a. unnið með rannsóknafyrirtækjum í Noregi og Svíþjóð.

Verkefnið er til tveggja ára og er meginmarkmið þess að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi þar sem upplýsingar um öryggi matvæla eru samþáttaðar við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma. Megin tilgangur með svona kerfi er að tryggja fullkominn rekjanleika og auka um leið öryggi afurða.

Samstarfsaðilar þessa verkefnis hafa að undanförnu þróað kerfi sem á að geta tryggt rekjanleika afurða og er þetta kerfi byggt á staðli frá EPCGlobal og byggir á RFID (Radio Frequency IDentificaton) tækni.

Matís mun sjá um að þróa og aðlaga rekjanleikakerfið að dæmigerðu ferli sjávarafurða frá vinnslu til dreifiaðila, ásamt því að skilgreina þá öryggisþætti sem eru mikilvægir í svona kerfi. Verkefnastjóri Matís ohf. í þessu verkefni er Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is.

Fréttir

Viljayfirlýsing um Matvælamiðstöð Austurlands undirrituð í dag

Samkomulag um stofnun og starfsemi Matvælamiðstöðvar Austurlands verður undirritað í dag í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum. Matís mun ráða starfsmann til Matvælamiðstöðvarinnar.

Þróunarfélag Austurlands, mjólkurframleiðendur á Héraði, Búnaðarsamband Austurlands, Auðhumla, sveitarfélagið Fljótdalshérað og Matís standa að verkefni um uppbyggingu á þróunarsetri fyrir smáframleiðslu matvæla.

Síðustu misseri hafa áhugasamir aðilar leitað leiða til þess að nýta rými í húsi Mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum sem aðstöðu til smáframleiðslu matvæla. Mikil gerjun hefur átt sér stað og fjöldi hugmynda verið ræddar. Þessi vinna hefur farið fram undir stjórn Þróunarfélags Austurlands ásamt mjólkurframleiðendum á Héraði, Búnaðarsamband Austurlands og Auðhumlu. Til liðs við verkefnið hafa nú komið Matís og sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Ákveðið hefur verið að gefa verkefninu nafnið, Matvælamiðstöð Austurlands.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s  koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr landbúnaði og nýta rými mjólkurstöðvarinnar í þeim tilgangi.

Rými það í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum sem ekki er notað til mjólkurvinnslu í dag mun verða nýtt í þessum tilgangi.  Auðhumla mun leggja  til húsnæðið og verður samið sérstaklega um það sem og þann búnað sem tiltækur er. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna í mjólkurstöðinni m.a. til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi í matvælaiðnaði.

Á næstunni mun Matís ráða starfsmann að Matvælamiðstöðinni og húsnæðið verður undirbúið fyrir starfsemina. Matís leggur mikið upp úr starfsemi sinni utan höfuðborgarsvæðisins og upp úr samstarfi við fyrirtæki og hagsmunaaðila en fyrirtækið rekur m.a. starfstöðvar á sex stöðum utan Reykjavíkur.

Í Matvælamiðstöð Austurlands verður samstarf um vöruþróun og rannsóknir á mjólkurafurðum o.fl.

Fréttir

Vinnufundur iðnaðar og rannsóknaaðila í kæliverkefnum

Föstudaginn 12.6.2009 var haldinn vinnu- og stefnumótunarfundur í kæliverkefnunum Kælibót og Chill-on (með tengingu við verkefnið “Hermun kæliferla”). 

Unnið hefur verið að umfangsmikil tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað. Þátttakendur í verkefninu tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar: hráefnismeðhöndlun, vinnslu, flutningi og markaðssetningu. Kynntar voru fyrstu niðurstöður úr umfangsmiklum rannsóknum á kælingu fisks. Tilraunirnar voru framkvæmdar veturinn 2008-2009 við raunaðstæður. Samanburður hefur verið gerður á:

  • kæligetu mismunandi ísmiðla og á vélum til framleiðslu þeirra
  • kæliaðferðum við vinnslu (vökva- og roðkæling)
  • mismunandi umbúðum fyrir pökkun afurða
  • mismunandi flutningsleiðum (skip og flug) og áhrifum bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða.

Samhliða kynningum áttu sér stað mikilvægar umræður og skoðanaskipti um vægi mismunandi tilraunaþátta og niðurstöður. Nýttust þær umræður til stefnumótunar fyrir næstu tilraunir sem framkvæmdar verða í haust. Þá verða bestu aðferðir fyrir hvern hlekk keðjunnar valdar saman og öll keðjan keyrð í einni tilraun við raunaðstæður. Flutningsferlar hafa verið kortlagðir m.t.t. tíma og hitastigs og verða kælihermar nýttir til að setja upp þá ferla til geymslu á afurðum. Með því móti er hægt að framkvæma nauðsynlegar mælingar án þess að flutningur frá sýnatökustað til tilraunastofa trufli niðurstöður. Á sama tíma er stefnt að því að flytja sömu afurðir einnig á markað til að fá mat markaðsaðila á afurðum.

Þátttakendur verkefnanna Kælibótar og Chill-on eru: Brim hf., Eimskip hf., Háskóli Íslands,  Icelandair Cargo, Matís ohf., Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf. Skaginn hf. og Opale Seafood.

Verkefnin eru styrkt af AVS, EU, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

Fréttir

Örugg aðferð gegn svindli

Hjá Matís ohf. hefur verið lokið við að þróa fljótvirka og áreiðanlega aðferð til að tegundagreina íslenska sjávarnytjastofna, en aðferðin byggir á erfðagreiningum.

Í könnun í Bandaríkjunum kom í ljós að um 25% seldra fiskafurða á mörkuðum eða í veitingahúsum eru ekki seldar undir réttu heiti og að sjálfsögðu er þá verið að selja ódýran fisk sem dýrari tegund. Ef þetta hlutfall er almennt þá er hér verið að svindla á neytendum sjávarfangs um miklar fjárhæðir.

Þetta verkefni sem AVS sjóðurinn styrkti leiðir af sér annan ávinning ekki síður mikilvægan, sem er að greina ýmsar sjávarlífverur sem erfitt er að tegundagreina með útliti einu saman. Slíkar aðferðir eru mjög tímafrekar og krefjast þjálfaðra flokkunarfræðinga. Erfrðagreiningaraðferðin er fljótvirk og gefur áreiðanlega niðurstöðu en hægt er að greina egg, lirfur, seiði og ungviði fiska sem getur verið erfitt að greina t.d. ef sýni eru ekki heil eða greina á óþroskuð lífsform.

Einnig er mikill áhugi á að geta greint samsetningu magainnihalds úr nytjastofnum en slíkar athuganir eru mikilvægar við að meta vistfræðileg tengsl nytjastofna. Þannig geta þessar erfðafræðirannsóknir varpað ljósi á hversu umfangsmikið át ýmissa nytjafiska gæti verið á eggjum, lirfum og seiðum eigin og annarra nytjastofna.

Erfðagreiningaraðferðin sem þróuð var byggir á raðgreiningu á þremur tegundaaðgreinandi genum (merkigenum). Markmiðið var að byggja upp gagnagrunn fyrir 26 nytjastofna sjávar. Erfðagreining var gerð á hvatberagenunum cytochrome c oxidase subunit 1 (COI), cytochrome b (Cytb) og 16S RNA (16S) úr nokkrum sýnum úr þeim 26 tegundum sem skilgreindar eru sem nytjastofnar Íslands. Aðferðin var prófuð á óþekktum sýnum sem fengust úr fiskverslunum, úr sýnasafni Hafrannsóknarstofnunarinnar og að lokum voru greind seiði sem voru 2-8 cm löng. Í öllum tilvikum tókst að tegundagreina sýnin með DNA erfðagreiningaraðferðinni meðan útlitsgreiningar á seiðunum voru nokkuð erfiðar.

Þetta nýja rannsóknartól nýtist þeim sem stunda rannsóknir á sjávarlífverum auk þess sem að það getur nýst mjög vel við úrlausn sívaxandi vafamála á mörkuðum.

Skýrsla verkefnisstjóra: Þróun erfðagreiningaraðferðar til tegundaákvörðunar helst nytjastofna Íslands.

Tilvísunarnúmer AVS: R 012-07

Fréttir

Ný leið fyrir prótein úr fiski í önnur matvæli – doktorsvörn starfsmanns Matís við HÍ

Miðvikudaginn 24. júní n.k. fer fram doktorsvörn við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Tom Brenner efnafræðingur doktorsritgerð sína „Aggregation behaviour of cod muscle proteins“ (Klösun vöðvapróteina úr þorski).

Andmælendur eru dr. E. Allen Foegeding, prófessor við North Carolina State University og dr. Erik van der Linden, prófessor við Wageningen University. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Ragnar Jóhannsson, sérfræðingur hjá Matís ásamt Taco Nicolai frá CNRS, Université Du Maine í Frakklandi. Umsjónarmaður var dr. Ágúst Kvaran prófessor við HÍ.

Dr. Guðmundur G. Haraldsson, forseti raunvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu og hefst klukkan 10:00.

Ágrip af rannsókn
Klösun vöðvapróteina úr þorski var rannsökuð. Aðallega var stuðst við ljósdreifingu og viskoelastískar mælingar í rannsóknunum. Í fyrri hluta rannsóknarinnar var aðalvöðvapróteinið, mýosin, einangrað og rannsakað. Í seinni hluta rannsóknarinnar er fjallað um hegðun vöðvapróteinlausna sem fást við  uppleysingu við pH ~11. Slíkri uppleysingu er beitt á iðnaðarskala hér á landi til að ná vöðvapróteinum úr þorskafskurði sem og öðrum fiskafskurði. Allar rannsóknir voru framkvæmdar hjá Matís ohf. og var ætlað að styrkja fræðilega grunn undir fyrrnefnd vinnsluferli sem þróuð hafa verið hjá Matís.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru m.a. að afturkræf klösun vöðvapróteina sem og einangraðs mýosins er mjög svipuð og þekkist hjá gelatíni. Vinnsluferlar fyrir próteinlausnirnar þurfa því að taka mið af þessari hegðun próteinanna.

Síðan var sýnt fram á brotvíddarbyggingu mýosinklasa. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem þessi bygging, sem þekkt er fyrir hnattlaga próteingel og klasa, er staðfest fyrir vöðvaprótein. Viskoelastískir eiginleikar gelja unna úr próteinlausnum voru kannaðir í þaula. Í ljós kom að brotin gel endurmynduðust undir skerspennu sé hún lægri en skerspenna sem skilgreina megi sem eiginlega brotspennu. Síðan var sýnt fram á myndun próteinsnauðra svæða í geljunum, en þessi mesóskopíska fasaskiljun er talin vera fyrsta skrefið í makróskopískri fasaskiljun.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Université Du Maine í Frakklandi og Matís ohf. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Ragnar Jóhannsson, sviðstjóri hjá Matís ohf., ásamt Taco Nicolai frá CNRS, Université Du Maine í Frakklandi.

Ásamt þeim situr í doktorsnefnd dr. Ágúst Kvaran, prófessor við HÍ.Um doktorsefnið

Tom Brenner er fæddur árið 1982. Hann lauk B.Sc. prófi í efnafræði við Háskóla Íslands árið 2004. Í dag starfar hann hjá Matís ohf.

Nánari upplýsingar
Tom Brenner, 4225131, netfang: tom.brenner@matis.is
Ragnar Jóhannsson, 4225106, netfang: ragnar.johannsson@matis.is

Fréttir

Rannsóknir Matís kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu í Bandaríkjunum

Árleg ráðstefna Institute of Food Technologists (IFT) var haldin í fyrstu viku júnímánaðar. Þar voru rannsóknir Matís kynntar og var fyrirtækið með hvorki fleiri né færri en 15 veggspjöld

Matís var með 15 veggspjöld/erindi á IFT ráðstefnunni sem var haldin í Anaheim, Kalíforníu. IFT ráðstefnan er stærsta matvælavísindaráðstefna sem haldin er í heiminum og er sótt af fleiri þúsund manns árlega.  Matís kynnti rannsóknir sínar á lífvirkum peptíðum og fjölfenólum úr sjávarfangi, vinnslueiginleikum fiskipeptíða og einnig rannsóknarvinnu tengt bragðgæðum saltfisks.  Rannsóknirnar vöktu mikla athygli og var mikið um fyrirspurnir um samstarf á þessu sviði.  Ljóst er frá þessarri ráðstefnu að mikil vakning er tengt lífvirkum afurðum úr hafinu og er Matís í fararbroddi á þessu sviði.  Næsta IFT ráðstefna er í Chicago 2010 og stefnir Matís á aðra sterka innkomu þá.  Rannsóknir Matís á þessu sviði fara fram bæði í Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki og rannsóknastofu Matís í Gylfaflöt í Reykjavík, í nánu samstarfi við Háskólann í Flórída.

IFTa

Frekari upplýsingar um þessar rannsóknir og ráðstefnuna veitir Dr. Hörður G. Kristinsson, sviðstjóri líftækni- og lífefnasviðs, hordur.g.kristinsson@matis.is.

IS