Fréttir

Matís býður þjónustu sína víðar í Norður-Evrópu

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) hafa gert samstarfssamning við nýsköpunarfyrirtækið Bitland Enterprises (BE) sem gerir Matís mögulegt að bjóða þjónustu og ráðgjöf sína á fleiri stöðum í Norður-Evrópu en áður. Má þar nefna samstarf við fyrirtæki í matvælaiðnaði og samstarfsverkefni í gegnum rannsóknasjóði í Evrópu.

Matís hefur lagt áherslu á að bjóða ráðgjöf og þjónustu sína í matvælaiðnaði víðar en á Íslandi og markmið samningsins er að auðvelda fyrirtækinu að ná þeim markmiðum sínum. Matís hefur nú þegar stigið fyrsta skrefið í þá átt með samvinnu við norska rannsóknafyrirtækið SINTEF í lok síðasta árs. Vonast er til þess að samningurinn við BE auki möguleika Matís á fleiri svæðum. BE, sem er með aðsetur í Danmörku og Færeyjum, hefur áralanga reynslu í verkefnastjórnun og í gegnum sjóði og í samstarfi við fyrirtæki í ólíkum iðnaði og mun Matís leggja áherslu á að bjóða fram þjónustu BE hér á landi.

“Markmiðið er fyrst og fremst að bjóða matvælafyrirtækjum á Íslandi, í Færeyjum og öðrum löndum haldbetri þekkingu til áframhaldandi framþróunar í matvælaiðnaði. Þá leggjum við áherslu á að auðvelda Matís og BE þátttöku í nýsköpunarverkefnum, sérstaklega í gegnum alþjóðleg verkefni,” segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Fréttir

Próteinbombur: Harðfisksskýrsla Matís notuð í auglýsingu

Harðfisksframleiðandinn Gullfiskur beitti nýstárlegu bragði í auglýsingu í fjölmiðlum þegar fyrirtækið vísaði í skýrslu Matís um hollustu harðfisks. Í auglýsingunni, sem er undir heitinu Próteinbombur, segir að samkvæmt nýrri skýrslu Matís sé harðfiskur enn hollari en talið var.

Í skýrslu Matís, sem kom út á miðju ári 2007, segir að harðfiskur se afar heilsusamleg fæða, létt, næringarrík og rík af próteinum, Þar segir að harðfiskur sé ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald.

Sífellt hefur komið betur í ljós að fiskprótein skipta verulegu máli hvað hollustuáhrif varðar. Sem dæmi má nefna að fersk ýsa er með 17-19% próteininnihald en harðfiskur úr ýsu er með 75-80% próteininnihald. Gert er ráð fyrir því að fullorðinn heilbrigður einstaklingur þurfi 0,75 g af próteinum á hvert kg líkamans. Því þarf karlmaður sem er 70 kg að fá 53 g af próteinum á dag. Til að fá þetta magn úr harðfiski þarf hann að borða rúmlega 66 g. Kona sem er 55 kg þarf 41 g af próteinum á dag, eða 51 g af harðfiski.

Harðfiskur hentar þess vegna vel fyrir þá sem sækjast eftir að fá viðbótarprótein úr fæðu sinni, svo sem fyrir fólk sem stundar fjallgöngu eða íþróttir og heilsurækt. Ennfremur hefur komið í ljós að saltinnihald er nokkuð hærra í harðfiski sem er inniþurrkaður en fisks sem er útiþurrkaður. Hins vegar er hægt að stjórna saltinnihaldi í vörunni og því auðvelt að stilla slíkri notkun í hóf. Snefilefni (frumefni) eru vel innan við ráðlagðan dagskammt, nema selen. Magn selen í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt en ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

Hægt er að lesa skýrslu Matís um hollustu harðfisks hér.

Auglýsing Gullfisks er hér.

Fréttir

Starfsmaður Matís ver doktorsverkefni sitt

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís, varði doktorsverkefni sitt við verkfræðideild Háskóla Íslands á föstudaginn, 18. janúar. Verkefnið, sem nefnist Vinnsluspá þorskafla, fjallar um hvernig hægt er að hámarka afrakstur fiskveiða.

Markmið verkefnisins var að safna gögnum um þorskveiðar og vinnslu fjögurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, greina þau á tölfræðilegan hátt og setja upp bestunarlíkön til að auðvelda stjórnun á veiðum og vinnslu þorsks á Íslandsmiðum. Gögnum um flakanýtingu, los og hringorma í þorski var safnað frá 2002 til 2006. Allar þessar breytur hafa veruleg áhrif á hagnað af þorskveiðum og vinnslu.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að afrakstur virðiskeðju þorsks geti verið aukinn með því að sækja þorskinn á ákveðin veiðisvæði og á ákveðnum tíma árs en niðurstöðurnar sýndu að flakanýting, los og hringormar í þorski eru m.a. háð veiðistaðsetningu og árstíma.

Samstarfsaðilar í doktorsverkefni Sveins voru: Samherji, Fisk Seafood, Vísir og Guðmundur Runólfsson hf. Grundarfirði.

Fréttir

Hreint og gott drykkjarvatn: Námskeið

NMKL (Nordisk Metodikkomité for Næringsmidler) bíður nú námskeið í skynmati á drykkjarvatni hjá Matís við Skúlagötu þann 12. febrúar. Námskeiðið byggir á nýrri og viðurkenndri skynmatsaðferð norrænnar nefndar um greiningu matvæla (NMKL). Aðferðin er ein af fyrstu skynmatsaðferðunum sem hefur verið sannprófuð á milli rannsóknastofa og gefur hlutlægar og endurtakanlegar niðurstöður þegar hún er framkvæmd rétt. Fram að þessu hefur skynmat á vatni ekki verið samræmt á milli rannsóknastofa.

Þátttakendur: Starfsfólk stofnana eða fyrirtækja sem hafa not fyrir einfalt, fljótlegt og hlutlægt skynmat á drykkjarvatni, svo sem starfsfólk vatnsveita, heilbrigðisfulltrúar og fleiri.

Efni Námskeiðs: Námskeiðið spannar hagnýt fræði um skynmat, nákvæma yfirferð á skynmatsaðferðinni og skynmatsgreiningu á drykkjarvatni. Námskeiðið er byggt á tveimur aðferðum: NMKL-metode nr. 183, 2005: Sensorisk kvalitetskontrolltest av drikkevann og NMKL-prosedyre nr. 11,2002: Sensorisk bedømmelse av drikkevann.

Staður og tími: 12. febrúar 2008 Matís, Skúlagötu 4, Reykjavik.

Námskeiðið verður haldið Á ENSKU af Steffen Solem, Eurofins -Norsk Matanalyse.

Nánari upplýsingar um námskeiðið.

Hægt er að skoða auglýsinguna hér.

Fréttir

Atvinna á Höfn: Sérfræðingur í vöruþróun

Matís auglýsir eftir sérfræðingi í vöruþróun á starfsstöðina á Höfn sem er ætlað að því að efla matarferðamennsku á Suðausturlandi. Æskilegt er að viðkomandi starfsmaður búi á svæðinu.

Starfssvið
Vinna að eflingu matarferðamennsku á landsvísu með áherslu á Suðausturland auk annarra vöruþróunarverkefna. Æskilegt er að viðkomandi starfsmaður búi á svæðinu.

Í starfinu felst m.a.
• Þróa hugmyndir að staðbundinni matvöru. • Vinna með samstarfsaðilum í matarferðamennsku á Suðausturlandi. • Efla verkefnum í tengslum við atvinnulíf á svæðinu. • Hönnun og þróun á vinnsluferlum.

Hæfniskröfur
Háskólamenntun í matvælaverkfræði, verkfræði, líffræði eða sjávarútvegsfræði. Reynsla af vöruþróun er kostur.

Nánari upplýsingar veitir: ingibjorg.s.sigurdardottir@matis.is

Fréttir

Matís í Mósambík: Fjölda íbúa tryggt öruggt neysluvatn

Eftirlitsstofnun í sjávarútvegi í Mósambík getur nú tryggt íbúum þriggja borga öruggt neysluvatn og eflt gæðaeftirlit í matvælaframleiðslu að loknu námskeiði Matís í örverumælingum þar í landi.

Tveir starfsmenn Matís, Franklín Georgsson og Margrét Geirsdóttir, héldu námskeið í borgunum Maputo, Beira og Quelimane á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) í lok síðasta árs til þess að þjálfa sérfræðinga og starfsfólk rannsóknastofa stofnunarinnar í örverumælingum á vatni. Í kjölfarið verður hægt að bjóða áreiðanlegar gæða- og öryggismælingar á vatni fyrir matvælaframleiðslu auk þess að tryggja fjölda íbúa öruggt neysluvatn.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur á undanförnum árum stutt stjórnvöld í Mósambík við uppbyggingu opinbers gæðaeftirlits í sjávarútvegi og eru rannsóknastofurnar og þjálfun starfsmanna þeirra hluti af því samstarfi.

Nánar um matvælaöryggissvið Matís.

Fréttir

Hugsandi fólk borðar hollt

Hugsandi fólk framtíðarinnar borðar hollt, reykir ekki og er vel borgandi, að því er fram kemur í viðtali við Ragnar Jóhannsson, sviðstjóra hjá Matís, í Morgunblaðinu. Hann segir að hér fari sístækkandi markaður, sem vert væri að gera út á.

Þar segir að verslunarvörurnar væru þó viðkvæmar og með takmarkað geymsluþol, s.s. fiskur og grænmeti sem oft þarf að flytja langar leiðir. “Matur framtíðarinnar fyrir hugsandi fólk kemur í auknum mæli til með að snúast bæði um hollt og ferskt þar sem hollur matur er jafnframt sá ferskasti sem völ er á. Hér er um að ræða mat, sem inniheldur fosfólípíð með hátt hlutfall omega-3 fitusýra auk andoxunarefna, sem þeim fylgja frá náttúrunnar hendi. Dæmi um þetta er fiskur og grænmeti. Þessar matvörur eru þó vanalega viðkvæmar og hafa takmarkað geymsluþol,“ segir Ragnar.Vel menntað fólk með rúm fjárráð

Þá kemur fram að lífslíkur Evrópubúa séu að aukast þó líkur á heilbrigðu lífi hafi ekki vaxið jafn hratt. „Stækkandi hluti Evrópubúa er því vel menntað fólk með rúm fjárráð og það er akkúrat hinn hugsandi markaður framtíðarinnar. Þetta er fólk, sem vill vera jafn vel á sig komið um fimmtugt og um tvítugt og þetta fólk vill helst geta hlaupið hálft maraþon við sjötugsaldurinn. Í þessu samhengi er við hæfi að rifja upp söguna af grísku gyðjunni Eos, sem bað guðinn Seif um að gera hinn föngulega ástmann sinn Tithonus ódauðlegan. Seifur brást vel við bóninni, en gleymdi að gefa ástmanninum fagra eilífa æsku. Það fór því svo að gyðjuna Eos dagaði uppi í umhyggju- og öldrunarþjónustu með ellihrumt gamalmenni í nokkur þúsund ár. Við viljum náttúrulega ekkert lenda í þessu,“ segir Ragnar í samtali við Jjóhönnu Ingvarsdóttur blaðamann Morgunblaðsins.Að viðhalda æskuljómanum

Þá kemur fram í viðtalinu að til að viðhalda æskuljómanum og heilsunni sé einkum þrennt sem hafi áhrif: matur, hreyfing og erfðir. „Við verðum einfaldlega að taka því sem að höndum ber í erfðalegu tilliti því erfðunum er búið að „klúðra“ strax við getnað og við fáum engu breytt í þeim efnum,“ segir Ragnar.

„Við hefðum nefnilega þurft að velja okkur foreldra af kostgæfni fyrir getnað til að hafa áhrif á þann þátt tilverunnar. Hins vegar hefur bæði hreyfingin og mataræðið heilmikið að segja um hvernig okkur kemur til með að reiða af. Sýnt hefur fram á að hreyfing og heilaleikfimi framkallar meira magn pósítífra fitusýrna í blóði en ella, sem þýðir með öðrum orðum að notkun á líkamanum í stað kyrrstöðu eykur endingu hans,” segir Ragnarí samtali við Morgunblaðið.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu 3. janúar.

Fréttir

Matarferðamennska verði efld

Matís vill efla matarferðamennsku á Suðausturlandi og óskar fyrirtækið eftir samstarfi við áhugasama aðila á svæðinu sem búa yfir góðri hugmynd að staðbundinni matvöru. Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnastjóri Matís á Höfn, segir að markmiðið með verkefninu sé að efla atvinnulíf og auka framlegð með frekari vinnslu staðbundinna afurða á svæðinu.

“Við leitum að samstarfsaðilum í matarferðarmennsku. Verkefnið felur í sér þróun á vörum úr staðbundnu hráefni sem unnt er að selja til ferðamanna á svæðinu.”

Hann segir að með matarferðamennsku sé leitast við að framleiða matvöru úr staðbundnu hráefni sem höfðar til ferðamanna. “Þannig er hægt að auka framlegð innan svæðis bæði með frekari vinnslu hráefnis, sölu staðbundinna afurða og lengri dvöl ferðamanna. Það er ljóst að eftirspurn eftir staðbundnum afurðum hefur aukist m.a. vegna áhuga ferðamanna á að upplifa og taka með sér sérstöðu svæða þegar kemur að matvælum,” segir Guðmundur. “Við viljum ýta enn frekar undir þennan áhuga og aðstoða heimamenn að hasla sér völl á þessum vettvangi.”

Matarferðamenneskan hluti af menningar- og afþreyingartengdri ferðaþjónustu

“Við finnum fyrir auknum áhuga heimamanna á samþættingu matavæla, menningar og ferðamennsku. Gott dæmi um það er stofnun klasans Í ríki Vatnajökuls sem vinnur að framgangi slíkrar samþættingar. Þar sameinast aðilar á svæðinu um heildarmarkaðsetningu þess. Það er einnig ljóst að markhópurinn er til staðar hér á svæðinu. Samkvæmt rannsóknum er áætlað að helmingur allra erlendra ferðamanna heimsæki svæðið yfir sumartímann eða um 120 þúsund á ári og það á bara eftir að aukast,” segir Guðmundur.

Hann segir að matarferðamennska feli í raun í sér upplifun ákveðins staðar eða svæðis í gegnum neyslu á stað- eða svæðisbundnum mat og drykk. “Þarna eru dregin fram hráefni og framleiðsluaðferðir sem tíðkast á svæðinu og skapa því sérstöðu. Matarferðamenneskan getur því verið hluti af menningar- og afþreyingartengdri ferðaþjónustu, svo sem á veitingahúsum sem bjóða gestum staðbundnar afurðir, eins og humar hér á Höfn. Þá er hægt að hugsa sér sölu á heimaframleiðslu bænda, matarhátíðir og matreiðslunámskeið svo dæmi séu tekin,” segir Guðmundur.

Hann segir að Matís hafi áhuga á því að styðja við uppbyggingu á matarferðamennsku á landsvísu en með áherslu á Suðausturland. “Við viljum koma að þróun á vörum úr staðbundnu hráefni með áhugasömum aðilum á þessu svæði. Framlag Matís fellst í sérfræðiþekkingu og búnaði til vöruþróunar og stuðningi frá hugmynd að vöru.”

Fréttir

Aukin fræðsla eykur ánægju fiskneytenda

Fólk nýtur fiskmáltíðar betur og getur hugsað sér að kaupa fisk oftar ef það fær kennslu í gæðamati á fiski, að því er fram kemur í könnun sem Matís gerði meðal fiskneytenda.

Haldið var námskeið um hvernig meta megi ferskleika fisks fyrir neytendur. Námskeiðið var tvískipt. Í fyrri hlutanum fengu neytendur stuttan fyrirlestur um gæðaeinkenni þorsks og hvernig hann breytist við geymslu. Þeir fengu þjálfun í að meta ferskleika hrárra og soðinna þorskflaka af mismunandi ferskleika samkvæmt einkunnaskölum.

Í seinni hluta námskeiðsins voru sömu neytendurnir beðnir um að gefa hráum og soðnum flökum einkunn samkvæmt eigin smekk og einnig meta ferskleika. Ennfremur voru þeir beðnir um ábendingar varðandi leiðbeiningarnar, einkunnaskalana og hvort efni námskeiðsins væri gagnlegt. Niðurstöður námskeiðsins bentu til þess að leiðbeiningar af þessu tagi eigi fyllilega erindi við neytendur.

Mat þátttakenda námskeiðsins á hráum og soðnum fiskflökum samkvæmt einkunnaskölum sýndi að þeir voru fljótir að tileinka sér aðferðirnar og þær lýsingar sem gefnar voru á misfersku hráefni. Að námskeiði loknu voru viðkomandi þátttakendur öruggari í gæðamati á fiski, töldu að þeir myndu njóta fiskmáltíða betur en áður og komi til með að kaupa fisk oftar en áður.

Niðurstöður verkefnisins, sem ber heitið Fróðir fiskneytendur, gefur vísbendingar um að fólk hafi gagn af leiðbeiningum um meðhöndlun og gæði. Skynsamlegt væri að fylgja verkefninu eftir með stærri hópi neytenda, bæði til að fá áreiðanlegra mat á gagnsemi leiðbeininga af þessum toga, sem og að fylgjast með áhrifum upplýsinga af þessu tagi til lengri tíma.

Hægt er að lesa um niðurstöður könnunarinnar hér.

Skýrslur

Myndun akrýlamíðs í matvælum

Útgefið:

01/01/2008

Höfundar:

Ólafur Reykdal, Irek Klonowski

Styrkt af:

Norræna nýsköpunarmiðstöðin (NICe)

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Myndun akrýlamíðs í matvælum

Á árunum 2004-2007 tóku Íslendingar þátt í norrænu verkefni um myndun akrýlamíðs (Akrylamide – Precursors: Limiting substrates and in vivo effects. Myndun akrýlamíðs var könnuð í afurðum úr korni og kartöflum og gagna var aflað um forvera akrýlamíðs, sykrur og amínósýrur. Íslenskt bygg var prófað í bökunarvörur og hafði það ekki áhrif á myndun akrýlamíðs. Í þjóðlegu íslensku bökunarvörunum flatkökum og laufabrauði myndaðist lítið akrýlamíð og er líklegasta skýringin stuttur hitunar-tími. Akrýlamíð var ekki mælanlegt í hveitibrauðum, byggbrauðum og maltbrauðum en í ljós kom að við bakstur á seyddum brauðum í langan tíma gat myndast talsvert akrýlamíð. Akrýlamíð í frönskum kartöflum var breytilegt en í lok verkefnisins var það lágt eftir for-steikingu í verksmiðju. Akrýlamíð ræðst þá mikið af seinni steikingu í heimahúsi.

Icelandic food scientists and –companies participated in a Nordic project on acrylamide (Akrylamide – Precursors: Limiting substrates and in vivo effects) in 2004 – 2007. The formation of acrylamide was investigated in cereal- and potato products and data on the precursors of acrylamide, sugars and amino acids, were collected. Icelandic barley flour was used in bakery products and did not influence the formation of acrylamide. Insubstantial acrylamide formed in the traditional Icelandic bakery products flat bread and thin unleavened wheat bread. Acrylamide was not detected in several types of bread, but quite high levels of acrylamide were found in sweetened rye bread which is baked for a long time. Acrylamide in french fries proved variable but moderate levels were found in 2006 after first frying in factory. The levels of acrylamide depend very much on the second frying at home.

Skoða skýrslu
IS