Fréttir

Athyglisverð skynmatsráðstefna í Osló í byrjun maí

Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur sem fjalla að mestu um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Rf tekið þátt í undirbúningi þeirra. Næsta ráðstefna verður haldin í Osló dagana 3.-5. maí og ber hún yfirskriftina Focus on the Nordic Consumer.

Áhugi og þátttaka fólks úr matvælaiðnaði á að sækja þessar ráðstefnur hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, enda um kjörinn vettvang að ræða fyrir iðnaðinn og vísindamenn til að hittast. Hafa að jafnaði meira en 100 manns, frá fjölmörgum löndum, sótt ráðstefnurnar á undanförnum árum og má geta þess að fólk frá a.m.k. 12 löndum, fyrir utan Íslendinga, tók þátt í slíkri ráðstefnu sem Rf stóð að í Reykjavík árið 1999.

Helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar að þessu sinni verða nýjungar og eftirspurn á sviði “hefðbundinna” matvæla, máltíðin sjálf og einnig verður fjallað um heilsu og mataræði, þ.á.m. markfæði. Rf hefur, sem fyrr tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og á ráðstefnunni í Osló munu tveir starfsmenn Rf flytja erindi. Emilía Martinsdóttir mun fjalla um Evrópuverkefnið “SeafoodSense” Aukin skynmatsgæði fyrir neytandann, sem er hluti af SEAFOODplus verkefninu og Kolbrún Sveinsdóttir sem mun segja frá AVS-verkefninu um Viðhorf og fiskneyslu ungra neytenda.

Fólk í matvælaiðnaði hér á landi og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst.  Tekið verður á móti skráningum næstu tvær vikurnar a.m.k.  Nánari lýsing og dagskrá

Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Rf og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Rf hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum varðandi skynmat og gæði matvæla og haldið margvísleg námskeið í skynmati fyrir starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og annarra matvælafyrirtækja á undanförnum árum. Starfsfólk Rf hefur einnig annast bóklega og verklega kennslu í skynmati við matvælafræðiskor Háskóla Íslands og við sjávarútvegsbraut auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Einnig hefur kennir starfsfólk Rf skynmat við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

Skynmat á Rf

Fréttir

Tvær greinar frá starfsfólki Rf í Journal of Food Science

Í marshefti vísindaritsins The Journal of Food Science 2006 er að finna tvær greinar, sem að mestu leyti eru ritaðar af starfsfólki Rf. Fjallar önnur um að viðhalda gæðum saltfisks í neytendapakkningum eftir útvötnun og hin fjallar um ofurkælingu á þorskflökum.

Höfundar greinarinnar um saltfiskinn er eftir starfsfólk Rannsóknarsviðs Rf og nefnist hún „Keeping quality of desalted cod fillets in consumer packs.“ Höfundar hennar eru: Hannes Magnússon, Kolbrún Sveinsdóttir, Hélène L. Lauzon, Ása Þorkelsdóttir og Emilía Martinsdóttir og starfa öll, sem fyrr segir, á Rannsóknarsviði Rf.

Lesa grein

Hin greinin nefnist  „Evaluation of shelf life of superchilled cod (Gadus morhua) fillets and the influence of temperature fluctuations during storage on microbial and chemical quality indicators“.  Höfundar eru dr. Guðrún Ólafsdóttir, Hélène L. Lauzon og Emilía Martinsdóttir, sem öll starfa á Rannsóknarsviði Rf, og þá  Jörg Oehlenschlager og Kristberg Kristbergsson.  

Þess má geta að greinin var hluti af doktorsverkefni Guðrúnar Ólafsdóttur og Jörg Oehlenschlager og Kristberg Kristbergsson voru leiðbeinendur hennar í verkefninu.

Lesa grein

Fréttir

Rf óskar eftir skrifstofumanni

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Reykjavík óskar eftir að ráða starfsmann í skrifstofustarf. Um er að ræða 100% starf. Starfið felur í sér sérhæfð skrifstofustörf.

Á meðal þess sem starfið felur í sér er:

  • Umsýsla verkefna
  • Vistun gagna
  • Aðstoð við útgáfumál
  • Bréfaskriftir
  • Ljósritun
  • Afleysing í símaþjónustu
  • Önnur tilfallandi verkefni

Hæfniskröfur:

  • Haldgóð menntun
  • Góð tölvukunnátta
  • Gott vald á íslenskri og enskri tungu
  • Færni í mannlegum samskiptum
  • Sjálfstæð, nákvæm og skipulögð vinnubrögð
  • Tilbúin að takast á við krefjandi verkefni
  • Sveigjanleiki og jákvætt viðmót

Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr 70/1996.

Umsóknarfrestur er til 12. mars 2006 og miðað er við að viðkomandi hefji störf þ. 1.apríl n.k.. Umsóknir með upplýsingum um menntun og fyrri störf ásamt afritum af prófgögnum óskast sendar með tölvupósti á netfangið gulla@rf.is eða í bréfpósti til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.  Upplýsingar um starfið veitir Guðlaug Þóra Marinósdóttir í síma 530-8600.

Fréttir

Hvert stefnir fiskneysla Íslendinga? Fróðleg grein í Ægi

Eins og sagt var frá hér á vefnum í janúar, var nýlega kynnt verkefni um mögulegar leiðir til að auka á ný fiskneyslu, sérstaklega ungs fólks, en rannsóknir sýna að hún á að mörgu leyti á brattann að sækja hjá þeim aldurshóp. Á dögunum birtist í tímaritinu Ægi fróðleg samantek á verkefninu og er hægt að lesa hana hér á pdf-formi.

Eins og lesendur þessarar vefsíðu hafa ugglaust tekið eftir, þá hefur fjölbreytt umræða um kosti fiskneyslu verið áberandi á síðustu vikum. Þannig var nýlega sagt frá umræðu The Economist um ágæti fiskneyslu, sérstaklega m.t.t. omega-3 fitusýra, einnig var birt skýrsla sem sýnir að sáralítið er af óæskilegum efnum í fiski af Íslandsmiðum. Þá var í janúar kynnt verkefni hér á Rf sem miðar að því auka á ný fiskneyslu hér á landi og er verkefninu gerð góð skil í greininni í Ægi. Höfundar greinarinnar, sem nefnist „Hvert stefnir fiskneysla Íslendinga?“ eru þær Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Rf og Kolbrún Sveinsdóttir, matvælafræðingur.

En þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir sýna kannanir að fiskur á sífellt minna upp á pallborðið hjá fólki, sérstaklega yngri kynslóðinni.   Þetta er visst áhyggjuefni, enda um mikilvæga neytendur í framtíðinni að ræða.  Þá er minnkandi fiskneysla ekki síður áhyggjuefni út frá heilsufarssjónarmiði, enda sjávarfang og lýsi t.d. mikilvæg uppspretta D-vítamíns, sem er nauðsynlegt fyrir kalkbúskap líkamans og getur unnið gegn beinþynningu á efri árum. 

Það er því ekki að ósekju sem ákveðið var að setja af stað sérstakt átaksverkefni, sem hefur það að markmiði að glæða áhuga yngri kynslóða hér á landi á fiski. 

Lesa greinina í Ægi

Fréttir

Fleira gert á Rimini en að flatmaga í sólinni…

Nýlega var haldin ráðstefna á Rimini á Ítalíu, sem nefndist Mediterranean Seafood Expositon 2006 og er stærsta sjávarafurðasýning sem haldin er á Ítalíu. Í tengslum við sýninguna var haldinn þar fundur þar sem fjallað var um hvernig nýta megi nýjustu tækni til að tryggja gæði ög öryggi sjávarafurða. Á meðal þeirra sem boðið var að flytja þarna erindi var dr. Guðrún Ólafsdóttir, sérfræðingur á Rf.

Guðrún segir að ein af ástæðum þess að henni var boðið að halda fyrirlestur á fundinum sé að einn aðalskipuleggjari ráðstefnunnar hafi verið “Íslandsvinurinn” dr. Bianca Maria Poli, prófessor við háskólann í Flórens. Dr. Poli er einnig forseti Landsamtaka sjávarútvegsfyrirtækja á Ítalíu (L’Assoittica Italia – Associazione Nazionale delle Aziende Ittiche). Hún kom hingað fyrst á TAFT 2003 ráðstefnuna og heillaðist þá af landi, þjóð og – einnig hvernig Íslendingar standa að sínum sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Fyrirlesarar á fundinum komu frá ýmsum ítölskum háskólum, en tveimur erlendum fyrirlesurum var boðið að flytja erindi á fundinum. Fyrir utan Guðrúnu var þarna Joop Luten frá Fiskeriforskning í Noregi, og kynnti hann m.a.  rannsóknir úr Seafoodplus-verkefninu, m.a. neytendarannsóknir sem Rf tekur þátt í og sagt hefur verið frá áður hér á síðunni.

Að sögn Guðrúnar fjallaði erindi hennar um hraðvirkar aðferðir fyrir gæði, öryggi og tegundagreiningar fisks, þar sem hún gerði grein fyrir möguleikum þess að nota hraðvirkar mælingar með ýmiss konar tækni,  t.d.  rafnefi.  Þá ræddi hún aðrar nýjungar sem eru í farvatninu, s.s. “smart labels” til að setja á pakkningar,  t.d. TTI (time temperature intergrators) og rapid test kits m.a. fyrir sjúkdómavaldandi bakteríur og histamín sem varðar öryggi sjávarafurða. 

Guðrún segir að Ítalir virtust áfram um að nútímavæða fiskiðnaðinn hjá sér og voru áhugasamir um að heyra hvað aðrar þjóðir væru að gera á þessu sviði.

Fréttir

Minni sápa – meiri virkni?

Framleiðsla á öruggum, heilnæmum matvælum krefst þess að þau séu framleidd úr góðu hráefni, en ekki síður að fyllsta hreinlætis sé gætt við framleiðslu þeirra. Þrif í matvælaiðnaði eru hins vegar dýr og því mikilvægt að þau gegni sínu hlutverki, án þess að kosta fyrirtækin og umhverfið of mikið.

Fyrir nokkrum árum var talsvert rætt um hugmyndafræði er nefnist hreinni framleiðslutækni og var upphaflega komin frá Umhverfisstofnun BNA og gekk út á að draga úr mengun strax á mengunarstað. Þessi hugmyndafræði náði einnig til matvælaiðnaðar, þar sem fyrirtæki reyndu m.a. að nýta hráefnið sem best, minnka rafmagns- og vatnsnotkun og, síðast en ekki síst, draga úr notkun hreinsiefna.

Á meðal þess sem matvælafyrirtæki hafa gert til að minnka notkun hreinsiefna er að endurbæta hönnun framleiðslutækja og gera þau þrifavænni, en einnig að rannsaka þá fjölbreyttu flóru örvera sem þrífst í mismunandi matvælavinnslum og útheimtir ólík viðbrögð. Það er ekki magn efnanna sem máli skiptir heldur virkni þeirra.

Árið 2005 hófst verkefni á Rf sem kallast Bætt notkun hreinsiefna í fiskiðnaði og lækkun þrifakostnaðar og er áformað að því ljúki síðar á þessu ári.  Verkefnið er unnið í samvinnu Rf og Tandurs hf., sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana varðandi hreinlætismál og hreinsiefni.

Í verkefninu, sem fjármagnað er af Rf og AVS sjóðnum, er ætlunin að finna leiðir til að auka virkni þrifa í vinnsluumhverfi sjávarafurða, um leið og dregið verður úr notkun hreinsiefna og kostnaði við þrif.  Tækjasjóður Rannís styrkti kaup á sérstökum þvottabúnaði í verkefninu, sem nú er búið að setja upp í vinnslusal Sjávarútvegshússins og prófaður var í morgun.

Fréttir

Óæskileg efni í íslensku sjávarfangi langt undir hættumörkum

Á fréttamannafundi sem haldinn var í Sjávarútvegshúsinu í dag voru kynntar niðurstöður úr vöktunarverkefni sem Rf vinnur að fyrir sjávarútvegsráðuneytið. Niðurstöðurnar sýna að íslenskt sjávarfang inniheldur mjög lítið af óæskilegum efnum.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Ásta Margrét Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Rf kynntu á fundinum nýja skýrslu Rf um niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, sem gerð var árið 2004.

Verkefnið hófst reyndar árið 2003 að frumkvæði ráðuneytisins og mun verða haldið áfram á næstu árum.

Skýrslan sem kynnt var í dag heitir Undesirable substances in seafood products– results from the monitoring activities in 2004 og inniheldur niðurstöður fyrir annað ár vöktunarinnar.  Líkt og kom í ljós eftir mælingar árið 2003 sýna niðurstöðurnar hennar að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og þeim tíu gerðum af varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri) sem mæld voru í rannsókninni. 

Svokölluð bendi-PCB efni mælast einnig langt undir þeim hámarksgildum sem í gildi eru í viðskiptalöndum okkar.  Sama má segja um kvikasilfur, sem mælist í versta falli í magni sem er 1/10 af hámarki sem samþykkt hefur verið í Evrópusambandinu.

Lesa skýrslu

Fréttir

Loðnan klippt og skorin á Rf

Markaður fyrir tilbúin fersk matvæli hefur vaxið ört á undanförnum árum, sérstaklega í Evrópu og margir hafa séð í þeirri þróun möguleika á að auka verðmæti sjávarfangs. Það kann þó að vera snúið þar sem torvelt er að nota sjávarfang í tilbúin matvæli. Það sem helst hefur komið í veg fyrir að hægt sé að nýta sjávarfang í tilbúna rétti er að fiskur er mjög viðkvæmt hráefni vegna hás hlutfalls af fjölómettuðum fitusýrum sem geta oxast og valdið óbragði.

Til þess að fiskvinnslufyrirtæki eigi auðveldara með að mæta kröfum markaðarins er ljóst að afla þarf meiri þekkingar á stöðugleika tilbúinna fiskrétta og áhrif suðu á gæði afurða. Neytendur gera síauknar kröfur um framboð á tilbúnum matvælum, en vilja jafnframt að varan haldi mikilvægum eiginleikum, s.s. næringarinnihaldi og bragðgæðum. Jafnframt því eru auknar kröfur gerðar um ferskleika og aukið geymsluþol.

Á síðasta ári hófst verkefni á Rf sem hefur það markmið að rannsaka áhrif oxunar á himnubundin fosfólípíð, prótein og þráahindra/þráahvata í fiskvöðva sem áhrif hafa á bragðgæði og næringargildi fisks. Einnig á að skoða áhrif suðu og upphitunar sem þráahvetjandi þátta við myndun bragðgalla í soðnum þorski. Niðurstöður verkefnisins munu auka skilning á oxun í soðnum fiski sem veldur bragðgöllum og um leið gefa hugmyndir um leiðir til að koma í veg fyrir myndun þessara bragðgalla í afurðum.

Við úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís, í dag kom í ljós að fyrrnefnt verkefni hafði hlotið framhaldsstyrk upp á rúmar 4 milljónir króna, þannig að ljóst er að haldið verður áfram að rannsaka oxun í fiski af fullum krafti á Rf á næstu misserum.

Í dag var verkhópur verkefnisins að rannsaka loðnu á Rf m.t.t. til áðurnefndra eiginleika og var meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni. Verkefnisstjóri verkefnisins er dr. Guðrún Ólafsdóttir, en aðrir sem vinna að því á Rf eru Margrét Bragadóttir og Rósa Jónsdóttir. Sem fyrr segir styrkir Rannís verkefnið, en áætlað er að því ljúki árið 2008.

Fréttir

Forvarnir í fiskeldi: Ný skýrsla á Rf

Nýlega kom út skýrslan Forvarnir í fiskeldi, sem er framvinduskýrsla í samnefndu verkefni er hófst árið 2004 og lýkur árið 2007. Í verkefninu er m.a. rannsakað hvernig þróa megi aðferðir til að greina og bæta umhverfisþætti í lúðu- og þorskeldi á frumstigi eldisins, þ.e. frá klaki til lirfuskeiðs, en á því tímabili eru afföllin í eldinu hvað mest.

Verkefnið, eins og skýrslan, skiptist í tvo, aðskilda hluta: Hluti A, nefnist Forvarnir í þorskeldi og er það Hélène Lauzon, matvælafræðingur á Rf, sem er verkefnisstjóri þess hluta. Hluti B kallast aftur á móti Flokkun örvera: Probiotika tilraunir og verkefnisstjóri þess hluta er Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri Fiskeldissviðs Rf og lektor við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið er fjármagnað af AVS og Rf en að því kemur vísindafólk frá ýmsum öðrum stofnunum, auk Rf, svo sem Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar að Stað, Grindavík, fiskeldisfyrirtækið Fiskey ehf, Náttúrufræðistofnun Íslands (Akureyrarsetur), Raunvísindadeild H.Í. og Hólaskóli.

Lesa skýrslu

Fréttir

Sjávarútvegsráðuneytið: Loðnukvótinn aukinn í 210 þús tonn

Á vef Mbl.is er sagt frá því að Sjávarútvegsráðuneytið hafi, að tillögu Hafrannsóknarstofnunar, ákveðið að auka loðnukvótann á vetrarvertíðinni 2006 í 210 þúsund lestir eða um 110 þúsund lestir. Þar af koma 103 þúsund lestir í hlut íslenskra skipa. Útibússtjóri Rf í Neskaupstað er ánægður með gæði loðnunar.

Loðnusjómenn, útgerðarmenn o.fl. munu ugglaust kætast við þessar fregnir, enda voru líklega margir orðnir vondaufir yfir að úr vertíðinn myndi ræstast að þessu sinni.

Á vef Mbl.is í dag er einnig stutt viðtal við Þorstein Yngvarsson, útibússtjóra Rf í Neskaupstað, en hann er ánægður með loðnuna sem loðnuskipið Beitir NK kom með til löndunar, segir hana stóra og feita. Þess má geta að á starfssvæði útibús Rf á Austurlandi eru flestar fiskimjölsverksmiðjur landsins staðsettar og því vertíðarstemming hjá Rf í Neskaupstað þegar loðnuvertíðin fer á stað af fullum krafti. 

Hjá Rf í Neskaupstað starfa þrír starfsmenn.

IS