Aukinn kraftur hefur færst í umræðuna um landbúnaðarmál undanfarið. Umræðan hefur meðal annars snúist um sýklalyfjaónæmar bakteríur í matvælum, örslátrun og áhættumat, svo fátt eitt sé nefnt. En hvernig standa Íslendingar þegar kemur að því að byggja upp vísindalega þekkingu á stöðu matvælaöryggis á Íslandi?
Árið 2014 réðst Matís, í samstarfi við BfR í Þýskalandi, Matvælastofnun, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fleiri aðila, í framkvæmd verkefnisins Örugg Matvæli. Meginmarkið þess var uppbygging rannsóknainnviða til að hægt væri að m.a. að greina varnarefni í ávöxtum og grænmeti með betri hætti en áður. Alls eru í dag 187 varnarefni greinanleg með þeim búnaði sem Matís hefur yfir að ráða.
Tilgangur matvælalaganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla. Með uppfærslu laganna árið 2010, til samræmis við evrópska matvælalöggjöf frá 2002, var lögð mun ríkari áhersla á áhættumat og upplýsingamiðlun en áður var og gegna vísindaleg gögn lykilhlutverki í því samhengi. Hér að neðan má líta helstu upplýsingar um varnarefnamælingar síðustu ára sem birtar hafa verið í ársskýrslum Matvælastofnunar.
Nánari upplýsingar veita Vordís Baldursdóttir og Sveinn Margeirsson hjá Matís.
Umtalsverðar framfarir hafa orðið í þróun á geymsluílátum fyrir heilan ferskan fisk á síðustu áratugum. Karavæðingin sem hélt innreið sína á níunda áratugunum hefur til dæmis létt sjómönnum lífið svo um munar og gert það að verkum að mun skemmri tíma tekur að ganga frá aflanum niður í lest og landa honum. Kerin sem hafa verið hvað algengust eru hins vegar það stór að hætta er á að notkun þeirra hafi neikvæð áhrif á gæði aflans, ef ekki er rétt staðið að verki.
Mikilvægt er því að vandað sé til verka við ísun og röðun í kerin, en vitað er að sá þrýstingur sem myndast á fisk sem er neðst í kerunum hefur áhrif á útlit, los og þyngdartap. Nýlega kom út skýrsla á vegum Matís þar sem velt er upp þeirri spurningu hverjir séu helstu kostir og gallar mismunandi flutningsumbúða fyrir heilan ferskan fisk og er þá sjónum aðallega beint að gámafiski, og hvort val á umbúðum hafi áhrif á gæði og verðmæti aflans.
Í skýrslunni er fjallað um útflutning á gámafiski, virðiskeðju gámafisks, þau ílát sem notuð hafa verið við geymslu og flutning á gámafiski, og þau atriði sem hafa ber í huga við frágang, geymslu og flutning á heilum ferskum fiski. Auk þess er stuttlega fjallað um samband verðs og gæða á afla sem seldur er á uppboðsmörkuðum.
Þá er einnig fjallað um tilraun sem gerð var með að flytja út gámafisk í fjórum mismunandi tegundum íláta, þar sem kanna átti hvort munir væru á gæðum, þyngdartapi og verðmætum aflans. Þessi tilraun gaf hins vegar ekki nægilega áreiðanlegar upplýsingar til að hægt sé að fullyrða eitthvað um hvort tegund flutningsíláta hafi áhrif á áðurnefnda þætti. Sú þróun sem verið hefur í framleiðslu og sölu á kerjum sýnir hins vegar að fleiri og fleiri útgerðir eru að velja minni ker, og ætti það því að vera góð vísbending um að stærð keranna skipti máli. Tilraunin sýndi hins vegar klárlega að það yrði verulegum erfiðleikum háð að ætla að kassavæða íslenska flotann að nýju. Íslenskir sjómenn eru orðnir vanir kerunum og hafa lítinn áhuga á að fara til baka; auk þess sem uppsetning í lestum er í dag hönnuð fyrir ker. Þar að auki er algengt að í afla íslenskra skipa séu fiskar sem passa einfaldlega ekki í þá kassa sem í boði eru, sökum stærðar. Það er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að í einstaka tilfellum gætu kassar verið álitlegur kostur við útflutning á heilum ferskum fiski t.d. verðmætari afli eins og sólkola eða „skötuselsskott“.
Hafkóngur (Neptunea despecta) er kuðungur sem líkist beitukóng, en er þó nokkuð stærri og heldur sig yfirleitt á meira dýpi. Talið er að hafkóngur sé í veiðanlegu magni víða hér við land og að stofninn þoli töluverða veiði. Hafrannsóknarstofnun hefur skráð upplýsingar um hafkóng úr humarleiðöngrum til fjölda ára sem benda til talsverðs þéttleika víða í kringum landið.
Fyrirtækið Sægarpur á Grundarfirði hóf að kanna möguleikana á veiðum, vinnslu og markaðssetningu á hafkóngi árið 2012 og þegar Sægarpur fór í þrot 2013 tók fyrirtækið Royal Iceland við keflinu og hélt áfram tilraunum allt til ársins 2016. Matís aðstoðaði fyrirtækin við þessa vinnu, auk þess sem AVS sjóðurinn kom að fjármögnun. Nú hefur Matís gefið út skýrslu þar sem stiklað er á stóru á þeim tilraunum sem framkvæmdar voru og helstu niðurstöðum.
Helstu niðurstöður kortlagningar útbreiðslu og tilraunaveiða voru heldur takmarkaðar, þar sem upplýsingar um hafkóng sem meðafla við aðrar veiðar eru af skornum skammti og tegundinni hefur verið gefinn lítill gaumur við rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar. Tilraunaleiðangur sem verkefnið stóð fyrir skilaði einnig niðurstöðum sem ollu vonbrigðum, þrátt fyrir að sægbjúgnaplógur hafi verið dreginn á 29 stöðum þar sem talið var líklegt að von væri á hafkóngi.
Þar sem hafkóngur getur framleitt eitur (tetramine) snýst vinnsla á honum aðallega að því að tryggja að afurðirnar séu öruggar til neyslu. Niðurstöður vinnslutilrauna sýndu að unnt er að fjarlægja eiturkirtla hafkóngsins og að mögulegt er að mæla hvort tetramine finnist í afurðum, en það útheimtir hins vegar ærinn tilkostnað. Til að vel eigi að vera þarf að fjarlægja handvirkt kirtil og poka sem geymir eitrið.
Niðurstöður grunn-markaðskönnunar sem framkvæmd var bendir til að hægt sé að selja hafkóngsafurðir, þá sér í lagi á vel borgandi mörkuðum í Asíu. En þar sem hafkóngurinn er ekki vel þekktur á mörkuðum í Asíu og það er alltaf til staðar hætta á tetramine eitrunum, þá er markaðssetning á afurðunum miklum vandkvæðum bundin. Ljóst er því að þörf er á umtalsvert meiri rannsóknum í allri virðiskeðjunni áður en unnt er að fullyrða nokkuð um hvort og hve mikil tækifæri liggja í veiðum og vinnslu hafkóngs hér á landi.
9.-10. nóvember sl. var hugmyndakeppni, svokallað hakkaþon, um verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár haldin í fyrsta sinn. Keppnin var kölluð Lambaþon en í Lambaþoni hafa keppendur 24 klukkustundir til þess að setja saman hugmyndir sem þeir fá svo þrjár mínútur til þess að kynna fyrir dómnefnd að loknum þessum 24 klukkustundum.
Alls skráðu sig 27 einstaklingar til leiks, einhverjir helltust úr lestinni en svo varð úr að fimm öflug lið kynntu hugmyndir sínar fyrir dómnefnd. Þess má einnig geta að fjöldinn allur af hugmyndum barst í tölvupósti á lambathon@matis.is og vonum við að þeir hugmyndasmiðir sjái sér fært að mæta á næsta ári.
Að þessu sinni starfaði dómnefndin samkvæmt eftirfarandi gildum:
Hversu mikið eykst verðmætasköpun bónda sem hrindir hugmyndinni í framkvæmd? Hversu mikið ávinnst fyrir neytendur?
Felur hugmyndin í sér uppbyggjandi tillögur um starfsumhverfi bænda?
Felur hugmyndin í sé jákvæð umhverfisáhrif?
Felur hugmyndin í sér þróun nýrra vara eða þjónustu? Hugmyndir um markaðssetningu!
Slær hjarta liðsins með hugmyndinni? Efnafræðin, orkan og framsetningin!
Dómnefnd skipuðu Guðjón Þorkelsson, sem var formaður hennar, Arnar Bjarnason, Bryndís Geirsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir.
Að Lambaþoni stóðu Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb.
Kynnum kindina
Hugmyndin sem sigraði fyrsta Lambaþonið var „kynnum kindina“ Meðlimir hópsins voru Arnþór Ævarsson, Magnea Jónasdóttir og Kári Gunnarsson.
Aðdragandinn að sigurhugmyndinni var að Arnþór setti upp ljósmyndasýningu með portrett myndum af kindum hjá Magneu í Dalakaffi við Reykjadal í Ölfusi. Magnea og Arnþór eiga reyndar sitt hvora kindina í litlum búfjárstofni, sem var viðfangsefni sýningarinnar, á sveitabæ í Ölfusi þar sem Magnea býr ásamt eiginmanni sínum. Ferðamönnunum þótti sýningin stórkostleg og sumir trúðu því varla að kindurnar væru raunverulegar, sumir höfðu aldrei séð kindur á sínum ferðalögum um Ísland eða hreinlega ekki séð kind á ævinni.
Ljósmyndasýningin og viðtökurnar gerðu þeim ljóst að þarna gæti verið um miklu stærri hugmynd að ræða á landsvísu þar sem sauðkindin er nýtt sem auðlind sauðfjárbændum til hagsbóta. “Kynnum kindina” gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að fræðast um og upplifa kindina með auðveldum hætti, svo sem með því að fylgjast með eða taka þátt í ýmsum störfum til sveita eða á viðburðum sem tengjast sauðfé.
Þau útfærðu hugmyndina frekar á meðan á Lambaþoni stóð og gerðu að tillögu að vefkerfi undir vinnuheitinu “Sheepadvisor” sem að einhverju leyti væri hliðstætt vefkerfinu Tripadvisor sem flestir kannast við. Einnig kom fram sú hugmynd að mögulegt væri að tengja þetta við vefkerfið www.matarlandslagid.is. Matarlandslagið er gagnagrunnur sem Matís hefur þróað og getur boðið upp á ótal möguleika en er ekki full mótaður enn þá. Bændur gætu tengt sig við dreifnikort matarlandslagsins og sjálfir sett inn upplýsingar um vörur og/eða þjónustu. Í hugmyndinni að vefkerfinu Sheepadvisor gætu ferðamenn fengið yfirlit á landsvísu og bókað sauðfjártengda ferðaþjónustu, gistingu og fleira ásamt viðburðum sem eru á döfinni. Dæmi um það gætu verið útsýnisferðir eða gönguferðir á afréttum og að upplifa sauðburð, rúning, smölun, og að sjálfsögðu réttir. Bændur gætu tengt þetta frekar við annað sem þeir gætu haft á boðstólum, s.s. veitingar, gistingu eða sölu á ullarvörum, kjötvörum, handverki eða öðru. Bent var einnig á hliðstæður hjá sauðfjárbændum á Nýja Sjálandi. Á þennan hátt gætu þeir sauðfjárbændur sem hafa áhuga á ferðaþjónustu ráðið sínum vinnutíma í ferðaþjónustunni og sjálfir ákveðið hvað er boðið upp á og hvenær eftir því sem hentar á hverjum bæ fyrir sig. Vefkerfið gæti líka boðið upp á umbununakerfi með möguleikum fyrir umsagnir og einkunnargjöf í stíl við Tripadvisor.
Kindin er svo miklu meira en bara kjöt og lopapeysur, hún er stór þáttur í menningu okkar og gangvart erlendum ferðamönnum eru dæmi um að kynni af kindinni hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Kindin jafnast því á við náttúruperlur landsins og er auðlind sem á að nýta og gera að vörumerki Íslands á alþjóðavísu. Sigurlið Lambaþons er þess fullvisst að fræðsla og aukin upplifun ferðamanna á íslensku sauðkindinni muni auka eftirspurn eftir öllum vörum og þjónustu tengdri íslensku sauðkindinni, bæta hag sauðfjárbænda og auka verðmæti í allri virðiskeðju sauðfjár.
Fjárborg í fjárhúsum
Árið 2007 stofnaði Hlédís Sveinsdóttir verkefnið kindur.is þar sem neytendum stóð til boða að kaupa sér eignar- eða fósturkind. Lagaumhverfið hefur breyst síðan þá og þess vegna eru núna að opnast dyr fyrir bændur til þess að auka enn frekar verðmætasköpun. Hugmyndin gengur út á að hver sem er geti keypt sér kind, haft hana í fóstri hjá bónda og orðið þar með „fjarbóndi“. Viðkomandi á kindina samkvæmt lögum en greiðir bóndanum gjald fyrir uppihaldi á kindinni mánaðarlega.
Bændur í Fjárborg geta boðið upp á hina ýmsu þjónustu fyrir eigendur kindanna líkt og kjötsúpudag, ættfræðiupplýsingar, myndir af kindinni reglulega, opinn dag í sauðburði, sútun á gæru, sláturgerð og margt fleira.
Fjárborg í fjárhúsum var hugmynd sem Hlédís Sveinsdóttir, Sólveig Bjarnar Reynisdóttir og Elín Guðnadóttir unnu með.
Verðlaunaféð – stýrð beit í skógi er allra hagur
Skógarlambið skjólsins nýtur
af skógi sem að vex í dag
Grasið sem og birkið bítur
búskapur í allra hag
Verkefnahugmynd um fé sem nýtir beit í skógarbotni er getur verið næringarríkara og meira af á flatareiningu en í úthögum. Skógur, kominn yfir fyrstu uppvaxtarárin, nýtir örveruflóru (og hugsanlega einhverja næringu líka) sem fellur til í formi lífræns úrgangs (lambaspörð) og fé heldur niðri samkeppnisgróðri. Létt beitarálag getur styrkt rótakerfi botngróðurs og jarðvegsrof er hverfandi (Á ekki við um ofbeit). Fé nýtur góðs af tuggu botngróðurs, fallþungi lamba er meiri, sem gefur auka pening í sölu. Sé skógurinn uppkvistaður (sem er nánast skilyrði) þá er umgengni um skóginn til fyrirmyndar og fallegur til útivistar. Féð sækir í skóg, það vita allir. Ef það fengi að ganga í skógi þá er smölun á fjalli er óþörf. Fé sem bætir landgæði ætti að heilla kaupandann. Lengri sláturtíð þýðir nýslátrun yfir lengri tíma. Skógur bindur kolefni og og breytir rýru landi í ríkt. Grunnvatn hreinsast og jafnara rennsli er á því yfir árið, minni hætta á hamförum. Vel hirtir skógar er aðdráttarafl fyrir mannfólk, ekki síður en sauðfé.
Hlynur Gauti Sigurðsson, Sæmundur Kr. Þorvaldsson, Sighvatur Jón Þórarinsson og Guðríður Baldvinsdóttir unnu að hugmyndinni.
Græna lambið
Græna lambið er vottun sem er tekin út af viðurkenndum eftirlitsaðilum.
Vottunin tryggir:
Heilnæma og holla vöru.
Sjálfbærni á búunum sem dýrin eru alin upp.
Góða velferð á skepnunum.
Kolefnishlutlaust lambakjöt.
Niðurbrjótanlegar umbúðir.
Lágmarks sýklalyfjanotkun.
Byggir á hugmyndinni um fyrirmyndar kúabú
Vottunin er ekki eingöngu hugsuð fyrir fé heldur einnig allar þær vörur sem mæta stöðlum Græna lambsins mega fá stimpilinn, þrátt fyrir að framleiða ekki lambakjöt. T.d grænmeti á borð við tómata, gúrkur, papriku, gulrætur og kartöflur. Svínabú (t.d þau bú sem framleiða eigin fóður). Hænsnabú sem nota íslenskt hráefni til fóðrunar. Hestabú ætluð til undaneldis (t.d. blóðmerabæir).
Að Græna lambinu stóðu þau Sóley Erna Sigurgeirsdóttir, Steinþór Logi Arnarsson, Sunna Þórarinsdóttir og Ísak Jökulsson.
Woolpa
Verkefnið framtíðarsýn fyrir Íslensku sauðkindina fólst meðal annars í því að hvetja til nýjunga í faginu og þverfaglegs samstarfs bænda og hönnuða. Þegar úr ullinni er gefin aukin virðing verður úr henni aukið virði. Með því að horfa á möguleika Íslensku ullarinnar og kosti frekar en galla þá eru ótal möguleikar í boði því ullin er harðgerð, hlý, einangrandi, vatnsfráhrindandi og hún andar. Hópur útskrifaðra nemenda úr hönnun frá Listaháskóla Íslands kynnti hugmyndir af fatnaði, fylgihlutum og skóm sem allt var unnið eingöngu úr Íslenskri ull sem var þurrþæfð.
Að Woolpu stóðu Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, Kristín Soffía Þorsteinsdóttir, Bjarmi Fannar Irmuson, Þórður Jörundarson og Ari Jónsson.
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur kynnt nýtt vísindaálit um hættu fyrir menn og dýr vegna díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna í matvælum og fóðri. Hætta getur stafað af þessum efnum í matvælum skv. álitinu og leggur EFSA til sjöfalda lækkun viðmiðunargilda á grundvelli nýrra rannsókna en frétt þess efnis birtist í dag á vef Matvælastofnunar (www.mats.is).
EFSA leggur til að lækka viðmiðunargildi fyrir ásættanlega inntöku díoxína og díoxínlíkra PCB-efna í 2 pg*TEQ** á kg líkamsþunga á viku, en núverandi gildi er 14 pg TEQ á kg líkamsþunga á viku. Ásættanleg vikuleg inntaka er það magn af efnunum sem við megum innbyrða vikulega, allt lífið, án þess að bera heilsuskaða af.
Nú er nýhafið verkefni hjá Matís í samstarfi við Sæbýli með styrk frá Tækniþróunarsjóði þar sem unnið verður að því að byggja grunn til að skala upp sæeyrnaeldi á Íslandi. Heimsmarkaðurinn hefur vaxið gríðarlega síðastliðin 10 ár og allt bendir til að vöxtur verði áfram.
Sæbýli hefur nú byggt upp aðstöðu í Eyrabakka fyrir áframeldi og Þorlákshöfn fyrir undaneldi og frjóvganir. Framleiðsla inn á markað er nú á fyrstu stigum en eldisstöðin hefur framleiðslugetu upp á 70 tonn/ári inn á heimsmarkað sem telur amk. 150 þúsund tonn. Langtímamarkmið Sæbýlis er að byggja upp eldisiðnað á Íslandi með framleiðslu á yfir 1000 tonnum/ári með því að byggja upp staðlaðar framleiðslu einingar víðar á Íslandi. Til þess að svo verði þarf að leysa ákveðnar tæknilegar hindranir fyrir uppskölun og út frá því hanna „state-of-the-art“ staðlað framleiðsluhús.
Ennfremur verður gögnum aflað í þessu verkefni til þess að sýna fram á hollustu og heilnæmi afurðanna ásamt gögnum um umhverfisáhrif framleiðslunnar. Komið verður á samskiptum við íslenska neytendur, veitingastaði og hagsmunaaðila ásamt markaðsaðgerðum erlendis.
Um helgina fór fram fyrsta Lambaþonið, sem er 24 klst keppni um bestu hugmyndina til að auka verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár.
Alls kepptu 6 lið í keppninni, sem var hnífjöfn. Sigurhugmynd var „Kynnum kindina“, en hún gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að upplifa með auðveldum hætti ýmis störf í sveitum landsins sem tengjast sauðfé. Sigurliðið skipuðu Arnþór Ævarsson, Magnea Jónasdóttir og Kári Gunnarsson og hlutu þau 200 þúsund í verðlaun. Dómnefnd skipuðu Guðjón Þorkelsson, sem var formaður hennar, Arnar Bjarnason, Bryndís Geirsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir.
Sigurliðið hefur jafnframt komið hugmyndavinnunni skrefi lengra þar sem enskt vinnuheiti „Sheepadvisor“ var nefnt sem möguleg leið til að komast nær erlendum gestum lands og þjóðar með þær upplýsingar sem kynna þarf fyrir erlendum ferðamönnum, hvort svo sem þær snúast um það hvar má bragða á réttum sem unnir eru úr sauðfjárafurðum, hvar vörur úr íslenskri ull eru seldar, hvaða viðburðir eru á döfinni sem viðkoma sauðfjárrækt eða hvað annað sem þurfa þykir.
Mikil hugmyndaauðgi einkenndi keppendur og voru margar hugmyndir um áframhaldandi þróun og samstarf á lofti við lok keppninnar.
Að atburðinum stóðu Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb.
Norræna ráðherranefndin gaf út veglegt rit um formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019. Yfirskrift formennskunnar er „Gagnvegir góðir“ og er sótt í Hávamál og vitnar til þess að það er alltaf stutt, gagnvegur, til góðs vinar.
Norrænt samstarf er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Löndin sem koma að þessu samstarfi eru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. NÁNAR
Margildi og Matís, ásamt erlendum samstarfsaðila, vinna nú að stuttu samstarfsverkefni þar sem verið er að kanna markaðsaðstæður fyrir fiskolíu Margildis í Asíu með aðstoð AVS sjóðsins. Markmið verkefnisins er að kanna og vinna markað fyrir afurðir Margildis í Asíu og verður Víetnam markaður notaður sem tilraunamarkaður þar sem lýsið verður markaðssett hjá þarlendri heilsuvörukeðju. Kröfur neytanda, hefðir og regluverk verða kortlögð ásamt því sem greiðsluvilji verður metinn með þarlendum aðilum.
Margildi er sprotafyrirtæki sem hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullhreinsa lýsi til manneldis úr uppsjávartegundunum loðnu, síld og makríl. Nú þegar hafa afurðir Margildis (http://fiskolia.com/) verið kynntar fyrir rýnihóp í borginni Nha Trang og voru viðbrögðin jákvæð og fengust gagnlegar upplýsingar sem munu nýtast við áframhaldandi markaðsstarf. Nokkur hefð er fyrir neyslu á omega-3 afurðum í Víetnam, en hingað til hefur neyslan að mestu verið á formi hylkja. Það hefur komið þeim Víetnömum skemmtilega á óvart hversu bragðmild Fiskolían frá Margildi er og hefur hún fallið vel í kramið hjá þeim sem hafa prófað að neyta hennar í tiltekinn tíma.
Fulltrúar Margildis og Matís munu í næsta mánuði heimsækja væntanlega samstarfsaðila í Víetnam til að vinna að frekari markaðsmálum, en einnig hafa aðilar frá Kína sýnt afurðum fyrirtækisins mikinn áhuga.
Nánari upplýsingar um verkefnið veita Snorri Hreggviðsson hjá Margildi og Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.
Magnea Karlsdóttir, Huong Thi Thu Dang, María Guðjónsdóttir, Sigurjón Arason, Ásbjörn Jónsson
Styrkt af:
AVS R&D Fund (R 069-14)
Tengiliður
Sigurjón Arason
Yfirverkfræðingur
sigurjon.arason@matis.is
Aukin gæði og stöðugleiki frosinna síldarafurða / Increased quality and stability of frozen herring products
Frysting og frostgeymsla er skilvirk aðferð til að viðhalda gæðum og lengja geymsluþol sjávarafurða. Framleiðsla á frosnum afurðum jafnar framboð afurða þar sem veiðar eru árstíðabundnar. Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á gæði og stöðugleika frosinna afurða. Þar má meðal annars nefna ástand hráefnis, vinnsluaðferðir og skilyrði við geymslu og flutning svo fátt eitt sé nefnt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þær breytingar sem eiga sér stað á efna- og eðliseiginleikum frosinna síldarflaka m.t.t. ástands hráefnis við vinnslu og aðstæður í frostgeymslu. Atlantshafssíld var unnin fyrir og eftir dauðastirðnun, og flökin geymd annars vegar við stöðugar geymsluaðstæður (-25 °C) og hins vegar við óstöðugar aðstæður (við -25 °C í 2 mánuði, svo -12 °C í mánuð og svo aftur við -25 °C út geymslutímann). Til að rannsaka stöðugleika og eðliseiginleika afurðanna var m.a. mælt vatnstap (drip), suðunýting og litur, auk þess sem mæld voru bæði í ljósum og dökkum fiskvöðva vatnsheldni, pH, efnasamsetning, fitusýrusamsetning, ensímvirkni og þránun. Rannsóknin sýndi að það er mikilvægt fyrir sjávarútveginn að tryggja samræmda og rétta hitastýringu þegar afurðir eru geymdar í frosti. Vinnsla og frysting fyrir dauðastirðnun, samhliða stöðugum geymsluaðstæðum, hefur jákvæð áhrif á gæði og stöðugleika síldarfalka. Auk þessa, þá staðfesti rannsóknin að fituríki vöðvi síldarinnar, oft nefndur dökki vöðvinn, er mjög viðkvæmur fyrir þránun. Til þess að lengja geymsluþol frosinna síldarflaka er mælt með því að þessi vöðvi sé fjarlægður samhliða roðflettingu (e. deep skinning).
Freezing and frozen storage has proven to be an effective method to preserve and prolong the storage life of seafood products. Production of frozen products provides all year around product availability although the catching is seasonal. There are several factors that can affect the quality and stability of frozen fish products, including the state of the raw material, processing methods and storage conditions. The aim of the study was to explore how physicochemical properties of frozen herring fillets are affected in regard to the state of the raw material during processing as well as storage conditions. Atlantic herring was processed and frozen pre- and post-rigor and stored at stable (-25 °C) and abused storage conditions. To investigate the storage stability and physical properties of the fillets, thawing drip, cooking yield and colour were evaluated, as well as proximate composition, fatty acid composition, pH and lipid degradation of the light and the dark muscle. The study demonstrated the importance of stable and controlled temperature during storage and transportation of frozen herring products. Processing and freezing pre-rigor, in combination with stable storage conditions, was shown to be beneficial in terms of preventing lipid oxidation, as well as reducing thawing loss and maintaining the cooking yield of the herring fillets.