Fréttir

Fyrirferðarlítil en framsækin verðmætasköpun

Héðinn, þekkingarfyrirtæki í málmiðnaði og véltækni, hefur þróað tiltölulega fyrirferðarlitla próteinverksmiðju (e. Hedinn Protein Plant – HPP) í samstarfi við Matís og sjávarútvegsfyrirtæki, sem er tilbúin til notkunar en verksmiðjan framleiðir próteinmjöl og fiskolíur úr aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu. Verksmiðjan var þróuð með stuðningi frá AVS rannsóknasjóðnum.

Þróunarvinna vegna próteinverksmiðjunnar hófst fyrir um fimm árum. Á þessum tíma voru margar hindranir sem þurfti að ryðja úr vegi og þá sérstaklega er snéru að ferli hráefnisins í gegnum verksmiðjuna en þar kom til góða þekking og hugvit starfsmanna Matís, þá sérstaklega Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings Matís.

Tilraunir með HPP skiptust í tvo megin þætti: 1) prófanir nýjum búnaði og framleiðsluferli og 2) úttekt á efnis- og orkuflæði í framleiðsluferlinu. Megin áherslan er á aukahráefni sem verður til við fiskvinnslu til manneldis, s.s. slóg og bein af hvítfiskum. Einnig hafa prófanir sýnt frá á ágæti verksmiðjunnar til þess að vinna mjöl og lýsi úr aukahráefnum frá rækjuvinnslu, laxfiskavinnslu og uppsjávarfiskvinnslu, en þessi hráefni hafa verið notuð í framleiðslu á fiskmjöli og lýsi í áratugi og eiginleikar þeirra þekktir.

Mikilvægt er að grípa öll tækifæri til verðmætasköpunar þar sem íslenskt hugvit og tækniþekking er í hávegum höfð. Útflutningur á tækniþekkingu og að hér skuli vera þróuð og smíðuð ný verksmiðja sem verður seld að stóru leyti á erlenda markaði er dæmi um mikilvæga og varanlega verðmætasköpun.  Einmitt slíkir þættir, sem byggja á rannsóknum og þróun, munu að flestra mati vega þungt í viðsnúningi íslensks samfélags.

Matís er stoltur samstarfsaðili Héðins, þekkingarfyrirtækis í málmiðnaði og véltækni, og óskar eigendum og starfsmönnum innilega til hamingju með nýju verksmiðjuna.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 2013

Sjávarútvegsráðstefnan verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 21.-22. nóvember. Matís kemur að ráðstefnunni með margvíslegum hætti, t.a.m. situr starfsmaður í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar ehf.

Á ráðstefnunni verða haldin 47 erindi í 11 málstofum. Dagskrá er að finna á heimasíðu Sjávarútvegsráðstefnunnar, www.sjavarutvegsradstefnan.is

Í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar ehf. sem jafnframt er ráðstefnuráð eru: Inga Jóna Friðgeirsdóttir, formaður, Anna Kristín Daníelsdóttir, Erla Kristinsdóttir, Gísli Gíslason, Grímur Valdimarsson og Lúðvík Börkur Jónsson.

Fréttir

Bæklingur um íslensku bleikjuna

Nú fyrir stuttu var gefinn út bæklingur um bleikju en Íslendingar eru umsvifamestir þegar kemur að bleikjurækt. Íslenska bleikjan er alin upp við bestu aðstæður þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar um bleikju og bleikjueldi má finna í bæklingnum og á vefsíðu Matís um íslensku bleikjuna (á ensku). 

Fréttir

Matís – leiðandi aðili í þjónustu við atvinnulífið og iðnaðinn

Hjá Matís er unnið hörðum höndum við að aðstoða atvinnulífið og matvæla- og líftækniiðnaðinn með leiðandi nýjungum og nýsköpun. Lykilorðið er verðmætasköpun og er ávallt unnið með að leiðarljósi að skapa aukin verðmæti og fleiri störf á sjálfbæran hátt, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Þær stofnanir sem runnu saman í Matís höfðu átt langt og farsælt samstarf við ýmsar menntastofnanir, opinbera aðila, fyrirtæki og einstaklinga, bæði hérlendis og erlendis. Matís heldur áfram að efla samskipti og samvinnu við þessa og aðra aðila sem vilja vinna með fyrirtækinu að því að gera hlut íslensks matvælaiðnaðar sem mestan. 

Matís hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum og rannsókna- og menntastofnunum að rannsóknum og þróun, og ekki er of djúpt í árina tekið þó fullyrt sé að staða íslensks matvælaiðnaðar væri önnur og lakari ef þeirra stofnana sem runnu inn í Matís hefði ekki notið við.

Með rannsóknum ætlar Matís að vinna að því að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í matvælaiðnaði og fiskvinnslu og leggja sitt af mörkum til að skapa þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar áfram þann sess sem hún skipar í dag. 

Myndband um þjónustu Matís við atvinnulífið og iðnaðinn (Industrial Leadership).

Fréttir

Stefnumót um gæðamál í sjávarútvegi

Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur Matís ásamt Arnljóti Bjarka Bergsyni bjóða áhugamönnum um sjávarútveg í Bolungarvík til stefnumóts í verslun Olís í Bolungarvík kl. 10:00 miðvikudaginn 13. nóvember.

Smábátaflotinn er mikilvægur fyrir Íslenskan sjávarútveg og skilaði rúmlega 22 milljörðum króna aflaverðmæti á síðasta ári, en þorskur var um 70% verðmæta. Nálægð við fiskimiðin hafa styrkt stöðu Vestfjarða í útgerð smábáta en árangur dagróðrabáta, sérstaklega við Ísafjarðardjúp hefur verið ævintýri út af fyrir sig. Sterkur þorskstofn í framtíðinni mun enn frekar styrkja þessa útgerð og jafnframt verðmætasköpun á Vestfjörðum og þannig tekjur og lífsgæði íbúa. Hér gildir sem endranær að vanda þarf til verka við framleiðslu gæða vöru.

Til að halda forskoti Vestfirðinga má ekki slá slöku við rannsóknir og þróun framleiðslunnar til að þjóna viðskiptavinum sem best í framtíðinni. Enn er tækifæri til að bæta meðhöndlun á fiski sem kemur frá smábátum með bættri blóðgun, kælingu og hreinlæti. Krókaveiddur fiskur er orðinn krafa á mörgum mörkuðum sem gefur þessari framleiðslu markaðsforskot. Með bátum sem landa daglega er hægt að hafa fullkomna stjórn á ferskleika í vinnslu og nálægð við miðin hér á Vestfjörðum tryggja stöðugt framboð til framleiðslu og örugga afhendingu til viðskipavina. Umhverfismál og uppruni frá sjávarþorpi ásamt sjálfbærum veiðum munu skipta miklu máli í markaðssetningu sjávarafurða í framtíðinni.

Fréttir

Samstarfsfundur PepsiCo og Matís

Indra Nooyi, forstjóri og stjórnarformaður PepsiCo. heimsótti Ísland í síðustu viku. Nokkrir starfsmenn Matís settust niður með Indru og hennar nánasta samstarfsfólki og ræddu núverandi samstarf PepsiCo. og Matís og framtíðarmöguleikana sem liggja í nánara samstarfi.

PepsiCo. og Matís hafa átt í farsælu samstarfi í um tveggja ára skeið. Samstarfið byggir á þjónustu og hugviti sem Matís getur veitt PepsiCo., en fyrirtækið er það annað stærsta í heimi á sviði matvælaframleiðslu.

Að sögn Harðar G. Kristinssonar, rannsóknastjóra Matís, hefur samstarfið orðið umfangsmeira sl. mánuði, en lykilstarfsmenn PepsiCo. heimsóttu Matís tvívegis með stuttu millibili í júní og júlí sl. Í kjölfarið var blásið til fundar með Indra Nooyi og samstarfsfólki hennar í sl. viku.

Matís er stoltur samstarfsaðili PepsiCo., enda fyrirtækið rekið með samfélagsábyrgð að leiðarljósi þar sem tekið er tillit til eigenda fyrirtækisins, starfsmanna og umhverfis.

 
Frá fundi PepsiCo. og Matís

Fréttir

Makrílveiðar og rannsóknir = 20 milljarðar

Með samstilltu átaki útgerða, vinnslu og rannsóknaraðila tókst að tryggja gæði hráefnisins svo nú fer yfir 80% aflans í vinnslu afurða til manneldis.

Vegna breyttra aðstæðna í hafinu við Ísland hefur makríll veiðst í miklu magni hér við land undanfarin sjö ár. Í fyrstu fór mest af aflanum í framleiðslu fiskmjöls og lýsis. En með samstilltu átaki útgerða, vinnslu og rannsóknaraðila tókst að tryggja gæði hráefnisins þannig að nú fer yfir 80% aflans í vinnslu afurða til manneldis.

Að sumri og fram á haust, meðan makrílinn veiðist hér við land, er hann viðkvæmt hráefni til vinnslu frystra afurða, þar sem makríllinn er að safna fitu í holdið að lokinni hrygningu. Því var það mikil áskorun að finna bestu leiðina til að geta nýtt sem mest af hráefninu í frystingu sem er rúmlega tvöfalt verðmætara en fiskmjöl og lýsi.

Sérfræðingar Matís unnu í nánu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki markvisst að því að efla þekkingu á eðlis- og efniseiginleikum makrílsins á þessum árstíma. Áhugi fyrirtækja fyrir auknum verðmætum og frekari vinnslu var mikill,  hægt var að bæta gæði aflans umtalsvert með réttri meðhöndlun, því var mikilvægt að byggja upp þekkingu og færni með markvissum rannsóknum og mælingum.

Þau rök komu fram að ekki væri skynsamlegt að veiða makrílinn á þeim árstíma sem hann veiðist í íslenskri lögsögu þar sem makríllinn væri þá mjög viðkvæmur miðað við það sem hann yrði þegar lengra líður fram á haustið. Því var haldið fram að makríll veiddur á þessum árstíma væri ónothæft hráefni til manneldis.

Það var því mikilvægt að allir legðust á árarnar og nýttu bestu fáanlegu tækni og þekkingu til að skapa sem mest verðmæti úr þessu vandmeðfarða hráefni. Tölurnar um útflutning sýna það ótvírætt að góður árangur hefur náðst þar sem yfir 80% aflans fór í frystar afurðir til manneldis árið 2012 sem skiluðu þjóðarbúinu tæpum 20 milljörðum.

Brýnasta viðfangsefnið fólst í því að finna bestu leiðina til að ofurkæla aflann og draga þannig úr skemmdum fiskvöðvans vegna rauðátu og loss. Á þessum stutta tíma sem makríllinn er í lögsögunni fitnar hann  mjög hratt og breytingar í efnasamsetningu vöðvans valda því að vöðvafrumur í holdi fisksins þenjast hratt út og er makríll þess vegna einkar viðkvæmur fyrir allri meðhöndlun.

Á þessum tíma er stór hluti fæðu hans áta þ.m.t. rauðáta. Í rauðátu eru afar virk ensím sem geta étið sig út úr maganum og skemmt holdið. Til þess að hægja á virkni rauðátunnar er mjög mikilvægt að kæla makrílafla niður fyrir -1°C til að koma í veg fyrir að makríllinn leysist hreinlega upp. Ofurkæling matvæla er kæling niður fyrir frostmark vatns, en það hefur ekki í för með sér frystingu matvæla þar sem ískristallar í matvælum myndast ekki fyrr en við hitastig á milli -1°C og -3°C. Ofurkælingin hefur líka í för með sér að aflinn er stífari og þolir betur hnjask við frekari meðhöndlun og dregur úr losi fiskvöðvans. Eftir frystingu er betra að geyma makríl við -24°C en -18°C, en mjög mikilvægt er að makríllinn sé geymdur við stöðugt hitastig til þess að varðveita gæði afurðanna sem lengst.

Rannsóknasamstarf Matís við sjávarútvegsfyrirtækin hefur snúist um umfangsmiklar rannsóknir á eðlis- og efniseiginleikum makrílsins sem hafa m.a. náð til veiða, árstíma, meðhöndlunar, vinnslu, frystitækni, geymslu og flutnings. Þar er lögð áhersla á að rannsaka makrílinn jafnt og þétt yfir veiðiárið, sér í lagi þegar hann er hvað viðkvæmastur. Niðurstöður þessara rannsókna hafa skilað framangreindum árangri í auknum verðmætum. Eins hafa áhrif mismunandi hráefnisgæða á fullunnar vörur s.s niðursoðinn og heitreyktan makríll verið rannsökuð.

Besti norræni makríllinn

Sjávarfang er grunnurinn að velsæld okkar og því mikilvægt að við höfum kunnáttu og getu til þess að skapa sem mest verðmæti samhliða því að þau matvæli sem við framleiðum séu örugg og af bestu fáanlegum gæðum. Rannsóknir og þróun er óaðskiljanleg nýrri verðmætasköpun, þó skynsemi og almenn þekking séu gagnleg þá verður engin veruleg nýsköpun til án rannsókna. Þekking á ferskleika og eiginleikum s.s., hollustu og næringarefnasamsetningu sjávarfangs er grunnur að markaðssetningu. Við blasir að makríllinn er veiddur á hafsvæði sem er hreint og öruggt, aðskotaefni í matvælum af okkar veiðislóðum eru innan við sett mörk, fram á slíkt er ekki hægt að sýna nema með stöðugum og markvissum rannsóknum.

AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi hefur stutt rannsókna- og þróunarstarf tengt makrílnum. Fyrirtæki sem taka þátt í makrílverkefnunum hafa lagt mikið af mörkum og tekið mjög virkan þátt í framkvæmd og stjórnun þeirra. Þó við séum bara rétt að byrja þá erum við nokkuð á veg komin og þær útgerðir sem hafa kappkostað að búa sig sem best til kælingar makríls hafa notið ávinningsins við meðhöndlun annarra uppsjávartegunda.

Gott hráefni leiðir til nýrra vinnslumöguleika og víða um land eru fyrirtæki að þreifa sig áfram með vinnslu nýrra afurða. Nýverið fékk heitreyktur makríll frá Sólskeri, þróaður í matarsmiðju Matís á Höfn, gullverðlaun í norrænni matvælasamkeppni. Þannig kennir makrílsagan okkur að með nánu samstarfi rannsóknaumhverfis og atvinnulífs sem miðar að aukinni verðmætasköpun eru okkur allir vegir færir.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdóttir, fagstjóri hjá Matís.

Fréttir

Icelandic Agricultural Sciences er komið út

Nú er 26. árgangur vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (gamla Búvísindi) komin út og allar greinarnar sem þar birtast eru einnig á heimasíðu ritsins, www.ias.is, en ritið er í opnum aðgangi (open access). Átta greinar eru í ritinu og spanna vítt svið að venju.

Í ritinu er yfirlitsgrein um nýjar tegundir liðfætlna á trjám og runnum á Íslandi þar sem landnámssaga nýrra liðdýrtegunda er rakin frá byrjun tuttugustu aldar til 2012. Það er afar mikill fengur af að fá þetta fræðilega yfirlit því stöðugt berast nýjar tegundir til landsins og sumar ná fótfestu hér. Hinar greinarnar fjalla um stórmítla (ticks) á Íslandi, greiningu á Campylobacter í kjúklingum, áhrif skógræktar á ánamaðka á Íslandi, sveppasýkingu í hör, kartöflumyglu, aðferð til greiningar á nýrnabakteríum í laxi og um nýtingu á gróðurtorfum við uppgræðslu í vegköntum.

Ritið kemur út einu sinni á ári og er einungis með ritrýndar vísindagreinar. Það er í hópi fyrsta flokks vísindarita og fær mat frá Tomson Reuters Web of Knowlgede, núna annað árið í röð. Í fyrra var matsstuðullinn (ISI Impact Factor) 0,562  en er núna kominn í 1,750 sem er mjög góður árangur og er IAS nú ofarlega á blaði meðal smárra til meðal stórra vísindarita sem það er sett í flokk með. Oftast eru þessi rit með IF 0,4 til 1,0. Þetta er einnig hærri IF en önnur íslensk fræðirit eru með. Þetta sýnir að ritið er víða þekkt og lesið og að það er vitnað í það í öðrum virtum vísindaritum. Meiri hvatningu er vart hægt að fá til að rita fyrsta flokks greinar í IAS, það er sífellt að verða vinsælla og greinar berast víða að.

Í ár bárust alls 34 handrit og þar af eru nú 8 birt í ritinu. Hinum var annað hvort hafnað eða tími vannst ekki til að ná í rit þessa árs (tvö handrit) þannig að er höfnunarhlutfallið 75%. Þetta háa höfnunarhlutfall skýrist að miklum hluta af því að mörg handrit berast sem falla ekki að sviði ritsins en nokkur falla á strangri ritrýni sem við, eins og önnur vísindarit viðhafa. Nú eru fjögur handrit í vinnslu fyrir næsta hefti og nokkur á leiðinni.
 
Ritstjórn IAS vill vekja athygli á ritinu og hvetur fólk til að kynna sér þessar nýju greinar. Tekið er við handritum að greinum í ritið árið um kring og eru þær birtar á netinu jafnskjótt og þær eru tilbúnar til birtingar. Þar sem nokkur handrit eru nú þegar í vinnslu má gera ráð fyrir að fyrstu greinar í hefti 27/2014 birtist á netinu í byrjun næsta árs.

Ritið er fáanlegt hjá: Margréti Jónsdóttur, LbhÍ, Keldnaholti, 112 Reykjavík (margretj@lbhi.is)

Útgefendur ritsins eru:

Bændasamtök Íslands
Háskólinn á Hólum
Landbúnaðarháskóli Íslands
Landgræðsla ríkisins
Matís
Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum
Veiðimálastofnun

Ritstjórn IAS

Þorsteinn Guðmundsson (aðalritstjóri)
Bjarni Diðrik Sigurðsson
Sigurður Ingvarsson

Fréttir

Matarsmiðjur Matís tilnefndar til Fjöreggs MNÍ

Fjöregg MNÍ 2013 var afhent í 21. sinn á ráðstefnu Matvæladags Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ) sem haldinn var þann 16. október sl.

Fjöregg MNÍ er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Fjöreggið, sem er íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík, hefur frá upphafi verið veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins.  Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga til Fjöreggsins og var það niðurstaða dómnefndar að eftirtaldir fimm aðilar væru vel verðugir þess að hljóta Fjöreggið 2013.

  • Friðheimar í Bláskógabyggð
  • Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur
  • Matarsmiðjur Matís
  • Saltverk á Reykjanesi við Ísfjarðardjúp
  • Verslunin Frú Lauga

Laufey Steingrímsdóttir hlaut Fjöregg MNÍ að þessu sinni.

Umsögn dómnefndar um Matarsmiðjur Matís

Matarsmiðjur Matís eru tilnefndar fyrir að aðstoða nýja matvælaframleiðslu í litlum skala. Í Matarsmiðjum Matís býðst einstaklingum, frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli og matarferðaþjónustu.

Nánar um Matarsmiðjur Matís.

Fréttir

Ný tækni í veiðafærum og aflameðferð

Fyrir stuttu var haldinn vinnufundur í húsakynnum Matís í Reykjavík um veiðarfæri og aflameðferð (New technology for the Nordic fishing fleet: Fishing gear and effective catch handling). 

Að skipulagningu fundarins komu auk Matís, Havstovan í Færeyjum, Sintef í Noregi og CATch-fish í Danmörku. Fundurinn var styrktur af AG-fisk (Working group for fisheries co-operation), sem er undirstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar.


Vinnufundinn sóttu um 50 manns frá níu löndum og var meðal annars boðið upp á 19 fyrirlestra þar sem fjallað var um nýlegar rannsóknir og þróun í veiðarfærum og aflameðferð. Segja má að fundurinn hafi tekist með miklum ágætum og eru aðstandendur sannfærðir um að í framhaldi hans verði sett á laggirnar samstarfsverkefni þar sem sérfræðingar úr sjávarútvegsgeiranum á Norðurlöndunum hafa aðkomu.

Nánari upplýsingar um verkefnið og dagskrá vinnufundarins má finna á vefsvæði verkefnisins. Hægt er að horfa og hlusta á fyrirlestrana sjálfa á Youtube rás Matís.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson fagstjóri hjá Matís.

IS