Fréttir

Vor í lofti

Verkefnið Vor í lofti 2014 er átaksverkefni Matís ohf í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Verkefninu er ætlað að hvetja áhugasama íbúa í sveitarfélögunum til að hrinda hugmyndum sínum á sviði matvælaframleiðslu og líftækni í framkvæmd.

Verkefnið mun standa í eitt ár og er ætlunin að það skili að minnsta kosti þremur fullmótuðum hugmyndum í lok verkefnisins.

Tilgangurinn með verkefninu Vor í lofti 2014 er að auka möguleika á aukinni úrvinnslu hráefnis og efla þannig virðisaukningu þess hráefnis sem fyrir hendi er á sunnanverðum Vestfjörðum. Miklir möguleikar eru fólgnir í því verðmæta hráefni sem til verður á svæðinu, bæði til sjós og lands. Margskonar tækifæri eru fyrir hendi við að fullvinna hráefnið í verðmæta vöru eða þróa nýjar afurðir úr því sem til fellur við úrvinnslu hráefnisins. Mikil þekking og reynsla er fyrir hendi varðandi veiðar og vinnslu á bolfiski en auk þess er fiskeldi öflug og vaxandi starfsgrein á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Arnarfirði er vinnsla á kalkþörungum á vegum Íslenska Kalkþörungafélagins á Bíldudal þar sem stærsti hluti afurðanna er fluttur erlendis en hluti fer í fullvinnslu hér á landi til manneldis. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja á svæðinu en þó er bæði sauðfjárbúskapur og mjólkurframleiðsla rekin af myndarskap á þó nokkrum jörðum í sýslunni. Því eru margir möguleikar á bættri nýtingu og fullvinnslu afurða af svæðinu og hægt að bæta arðsemi af rekstri verulega með aukinni verðmætasköpun á heimavelli. Fyrirtæki og sveitarfélög í Barðastrandarsýslu eru mjög meðvituð um vistvæna og góða umgengni við náttúru og lífríki og mörg fyrirtækjanna eru með lífræna vottun eða annars konar viðurkenndar umhverfisvottanir á framleiðslu sinni sem styrkir verulega stöðu þeirra í samkeppni. Slík vottun er svæðinu í heild til framdráttar við markaðssetningu á vörum og þjónustu þar sem umhverfisvitund almennings eykst stöðugt.

Markmið verkefnisins Vor í lofti 2014 er að styðja við hugmyndir sem frumkvöðlar á svæðinu búa yfir og aðstoða þá við að koma hugmyndunum í framkvæmd. Slík aðstoð við hugmyndir leggur öflugan grunn að sprotaverkefnum sem síðan geta vaxið og dafnað í höndum heimamanna og þannig lagt sitt af mörkum til að efla atvinnulíf og samfélagið í heild sinni á sunnanverðum Vestfjörðum. Þær hugmyndir sem hljóta aðstoð Matís munu eiga það sameiginlegt að hægt verður að sjá áþreifanlegan árangur á verkefnistímanum og að minnsta kosti þrjár fullmótaðar hugmyndir, vörur eða viðskiptaáætlanir verði til á þeim tólf mánuðum sem átaksverkefnið mun standa. Gert er ráð fyrir að afrakstur verkefnisins Vor í lofti 2014 verði formlega kynntur haustið 2014 og afurðir þeirra sem tekið hafa þátt í uppbyggingunni kynntar við það tækifæri.

Verkefnið hefur þegar verið kynnt á opnum fundum sem haldnir voru á fjórum stöðum, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og Barðaströnd, um miðjan desember og voru viðtökur heimamanna prýðisgóðar. Framundan er nánari útfærsla á þeim hugmyndum sem fram hafa komið og tekin ákvörðun um þau verkefni sem verða hluti af átaksverkefninu Vor í lofti 2014. Þeir sem sýnt hafa áhuga á þátttöku munu skilgreina hugmyndir sínar betur á næstu vikum í samstarfi við starfsfólk Matís og útbúa verkáætlun. Gert er ráð fyrir að vinna við vöruþróun og framkvæmd hverrar hugmyndar hefjist í byrjun febrúar þegar gerðir hafa verið samningar við samstarfsaðila og þátttakendur.

Verkefnið Vor í lofti 2014 er styrkt af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði Vestur-Barðastrandarsýslu og Matís auk þess sem verkefni frumkvöðla munu verða unnin í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp eftir því sem við verður komið.

Nánari upplýsingar um verkefnið Vor í lofti 2014 gefur Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður Matís á Patreksfirði (858-5085, liljam@matis.is).

Fréttir

Samningur Háskólans á Bifröst og Matís

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Matís sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem verður í boði í Háskólanum á Bifröst frá og með næsta hausti.

Námsgreinar sem Matís mun hafa yfirumsjón með tengjast beint innihaldi, meðferð og framleiðslu matvæla og spannar um fjórðung af námi í viðskiptafræði. Með umsjón með náminu tekur Matís skipuleggja og annast kennslu í mörgum þeim námskeiðum sem tengjast matvælarekstrarfræðinni beint. Námskeiðin eru til að mynda í næringarfræði, örverufræði matvæla, matvælavinnslu, matvælalöggjöf og gæðamálum.

Háskólinn á Bifröst ætlar að verða við kalli atvinnulífsins um land allt sem í vaxandi mæli hefur áhuga á að auka nýsköpun og framþróun á sviði matvælaframleiðslu og rekstrar með því að bjóða upp á nám í matvælarekstarfræði frá og með haustinu 2014.  Lögð er áhersla á alla virðiskeðjuna frá frumframleiðslu að sölu til hins endanlega neytanda.  Námið er 180 ECTS og lýkur með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á matvælarekstur og hægt verður að stunda það í fjarnámi og staðnámi eða blöndu af þessu tvennu.  

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins sem sinnir rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvæla- og fæðuöryggis. Matís gegnir umfangsmiklu hlutverki varðandi þjónustu á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar. Lögð hefur verið áhersla á að mæta þörfum matvælaframleiðenda og frumkvöðla, í samstarfi menntakerfið, m.a. í formi hagnýtra verkefna með þátttöku nemenda og með kennslu ákveðinna námskeiða í matvælafræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu Þjóðanna.  Matís getur þannig boðið upp á kennara, tengsl við atvinnulífið og aðstöðu til bóklegrar og verklegrar kennslu.  Nú bætist Háskólinn á Bifröst í hóp samstarfsaðila Matís.

 Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Matís sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem verður í boði í Háskólanum á Bifröst frá og með næsta hausti. Á myndinni er auk þeirra Guðjón Þorkelsson, sviðssjóri hjá Matís.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson.

Fréttir

Var klóakmengunin sem birtist í áramótaskaupinu bara grín eftir allt saman?

Í góðu orðspori felast mikil verðmæti og tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Til að hægt sé að auka enn verðmætasköpun í virðiskeðju íslenskra matvæla er grundvallaratriði að hægt sé að sýna fram á öryggi framleiðslunnar, með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum markaða. 

Í kjölfar ýmissa uppákoma (food scandals/outbreaks) sl. ár hefur mikilvægi matvælaöryggis við markaðssetningu matvæla enn aukist og er í dag lykilatriði til að tryggja útflutningstekjur. Ýmis dæmi eru um að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum og á internetinu hafi á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd matvælaframleiðslu sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Stuttur viðbragðstími er lykilatriði við uppákomur sem ógna matvælaöryggi.

Til að hægt sé að verja íslenska viðskiptahagsmuni í þessu samhengi er nauðsynlegt að á landinu sé til staðar nauðsynleg sérfræðiþekking og aðstaða til rannsókna hér á landi. Einnig er lykilatriði að til staðar séu aðgengileg gögn um stöðu íslenskra matvæla með tilliti til öryggis, heilnæmis og rekjanleika. Án þessa eru verulegar líkur á að aðgerðir verði ómarkvissar, útflutningshagsmunir skaðist og almenningur og viðskiptavinir okkar erlendis missi tiltrú á að stjórnvöld og fyrirtæki séu fær um tryggja öryggi íslenskrar matvælaframleiðslu.

En hvaða máli skiptir þetta fyrir okkur Íslendinga? Til dæmis fyrir stærstu útflutningsgrein okkar; íslenskan sjávarútveg?  Eru ekki hlutirnir í fínasta lagi hjá okkur?  Góðu heilli hafa vandamál sem tengja má beint við íslenskan sjávarútveg verið fátíð hin seinni ár.  Ef horft er til sögunnar eru dæmin hinsvegar fjölmörg.  Áhersla á gæðastjórnun, kælingu afla og gott rannsókna -og vöktunarstarf sem hefur t.d. leitt í ljós að magn þungmálma í sjávarfangi við Íslandsstrendur er hverfandi í flestum tilfellum er meðal þess sem hefur orðið til þess að byggja upp gott orðspor íslensks sjávarfangs.  En ef við horfum til framtíðar – og í raun nútíðar – er ljóst að við þurfum að vera vakandi fyrir orðsporsáhættu.

Síðastliðin ár hafa frárennslismál verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum og fékk eitt slíkt mál ríkulega umfjöllun í nýafstöðnu áramótaskaupi ríkissjónvarpsins. Í dag er lítill hluti skólps hreinsaður, en nokkurt átak hefur verið unnið í því að veita skólpi lengra frá landi, til að strandsvæði séu laus við skólpmengun.   Það er nokkuð öruggt að umhverfið í kringum skólpútrás sé meira og minna mengað af saurbakteríum og ekki síst Nóroveirum, sem taldar eru mjög algengur orsakavaldur iðrasýkinga og meðal annars taldar ábyrgar fyrir um 20 milljón sýkinga ár hvert í Bandaríkjunum einum.

Flest heilbrigðiseftirlitssvæði landsins eru með reglulega vöktun á mengun vegna skólpmengunar í sjó, þar sem sýni eru tekin reglulega ca 10-100m frá landi og mæld fyrir saurbakteríunum E.coli og Enterococcus. Niðurstöður þessara mælinga benda ekki til að þessar örverur séu vandamál við strendur Íslands, líkt og raunin er um ýmis mikilvæg svæði fyrir fiskeldi, s.s. Mekong fljótið í Víetnam.

Á hinn bóginn liggja engar niðurstöður fyrir um nóróveirur í skólpi eða veiðisvæðum. Nýlegar rannsóknir á skelfiski í Evrópu hafa sýnt fram á hættulega mengun af völdum nóróveira þrátt fyrir að vöktun lögbærra eftirlitsaðila hafi ekki sýnt fram á mengun af völdum saurbaktería. Vegna algengi nóróveirusýkinga og viðnáms nóróveira fyrir harðneskjulegu umhverfi þarf þetta í raun ekki að koma á óvart. Í kjölfarið má líklega búast við að ítarlegri viðmiðunarmörk verði sett fyrir flokkun veiðisvæða skelfisks þar sem bæði verður tekið tillit til mengunar af völdum E.coli og nóróveira.

Þrátt fyrir þetta hafa nóróveirur í raun verið tiltölulega takmörkuð áhætta fyrir stærstan hluta íslenskra sjávarafurða – hingað til.  Þegar nýting á slógi er að aukast, eins og hefur verið að gera sl. ár – þurfum við að horfa sérstaklega til áhættunnar sem hlotist getur af nóróveirum. Það á sérstaklega við í þeim tilvikum þar sem hitameðhöndlun á slóginu er takmörkuð, líkt og verður ávallt raunin ætli menn sér að þróa vörur með lífvirkni, t.d. í notkunar í snyrti- og eða lækningavörur.  Hér er að mínu mati afar mikilvægt að menn vandi sérstaklega til verka og nýti bestu þekkingu til þróunar og framleiðslu.  

Það væri mikil hætta á að orðspor íslensks sjávarfangs biði alvarlegan hnekki ef hópsýking af völdum nóróveira yrði rakin til íslenskra vara úr sjávarfangi.   Slíkt gæti orðið stærri krísa en við höfum áður þekkt.

Alþjóðlegar krísur hafa breytt – og munu halda áfram að breyta – umhverfi matvælaöryggis í heiminum.  Baunaspírumálið kostaði 53 lífið og yfir 3900 sýktust í tengslum við neyslu á…..já á hverju?  Fyrst var talið að spænskir grænmetisframleiðendur bæru höfuðábyrgð, en á endanum var málið rakið til baunaspíra sem bárust inn á Evrópumarkað frá Egyptalandi. Einn þeirra sem stóð vægast sagt í eldlínunni í baunaspírumálinu var prófessor, dr. dr. Andreas Henzel, en hann er forseti BfR, sem er ein virtasta stofnun heims á sviði áhættumats í matvælaframleiðslu.  Sami Andreas Henzel leiðir nú vaskan hóp þýskra sérfræðinga sem munu verða Matís og MAST til aðstoðar í verkefninu Örugg Matvæli, en þar mun m.a. verða unnið að uppsetningu og faggildingu á nýjum tækjabúnaði sem m.a. mun gera okkur kleift að mæla þörungaeitur í skelfiski og uppfylla þær skyldur sem Ísland hefur undirgengist vegna EES samningsins.

Þekktasta krísan í matvælaframleiðslu síðastliðið ár er líklega „Stóra hrossakjötsmálið“ sem skók vægast sagt evrópskan matvælamarkað veturinn sem leið.  Magnús Bjarnason hjá Icelandic Group nefndi hrossakjötsmálið sérstaklega í erindi á aðalfundi LÍÚ sl. haust, enda engin furða.  Málið hefur í raun breytt matvælamörkuðum Evrópu. Eins og flestir þekkja snerist hrossakjötsmálið í grundvallaratriðum um að óprúttnir matvælaframleiðendur höfðu skipt nautakjöti út fyrir mun ódýrara hráefni  – hrossakjöt – og þannig í raun stundað vörusvik.  Eins og gefur að skilja varð reiði neytenda mikil – sem m.a. lýsti sér að nokkru leyti í því að þeir sneru sér frá nautakjöts – eða hrossakjötsneyslu –  og yfir til sjávarfangs.  Eins dauði hefur alltaf verið annars brauð.

Erfðafræði og notkun erfðafræðilegra aðferða við að greina muninn á nauta- og hrossakjöti reyndist lykillinn að því að koma upp um svikin, en sviksemi í virðiskeðju nautakjöts hlutu óneitanlega að beina augum að öðrum virðiskeðjum matvælaframleiðslu.  Þannig fylgdu í kjölfarið ýmsar uppgötvanir, t.d. rottur í stað lambakjöts í Kína – og eins fisktegund í stað annarrar víða um heim.

Og þá erum við í raun komin að fölsunum – Þær eru ekki endilega hættulegar heilsu manna – líkt og nóróveirurnar, en fölsunum fylgir mikil orðsporsáhætta, ekki síst nú á tímum hraðrar fjölmiðlaumfjöllunar og dreifingar upplýsinga á internetinu.  Ekki síður þarf að hafa í huga þær breytingar sem matvælamarkaðir ganga nú í gegnum, bæði með tilliti til markaðssvæða og framleiðslu, þar sem nýmarkaðslöndin gegna lykilhlutverki.

Það er ekkert nýtt við að menn séu ekki fullkomlega heiðarlegir þegar kemur að því að þekkja í sundur fisktegundir.  En eftir hrossakjötshneykslið þarf að gera sér ljósa áhættuna sem því fylgir.  Það reyndist Matís þrautaganga að fjármagna tækjakaup sem gera okkur kleift að uppfylla skyldur Íslands vegna EES samningsins og tókst það ekki fyrr en núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók af skarið með málið, enda vel meðvitaður um útflutningshagsmuni íslensks matvælaiðnaðar.  Það eru hinsvegar ýmsir matvælaframleiðendur betur efnum búnir en opinber hlutafélög á Íslandi.  Þannig sagði Mike Mitchell, hjá Youngs Seafood frá því á World Seafood Congress nú í haust að fyrirtækið hefði tekið í notkun erfðatækni til að greina hvort birgjar seldu þeim aðrar fisktegundir en þeir gæfu upp.  Mér segir svo hugur að Youngs séu ekki þeir einu sem það hafa gert.

Slíkar fjárfestingar matvælaframleiðenda eru ekki tilviljun.  Í þessu samhengi hefur oft verið bent á Tilapiu sem dæmi um ódýran hvítfisk sem í raun geti tekið sér nánast öll hlutverk þegar kemur að framleiðslu sjávarafurða.  Þannig hefur Tilapíunni verið líkt við Meryl Streep, sem óneitanlega er mjög fjölhæf leikkona sem ræður við ýmiskonar hlutverk.  Stóri munurinn er hinsvegar sá að þegar Meryl Streep leikur í bíómynd, þá kemur hún fram á lista yfir leikarana.  Sú hefur ekki alltaf verið raunin með Tilapiu, eða aðrar ódýrari fisktegundir sem ratað hafa í uppskriftir undir „dulnefnum“.  

Slík „dulnefni“ eru óheiðarleg vinnubrögð og falsanir gagnvart kaupendum.  Falsanir sem skapa ójafnt samkeppnisumhverfi gagnvart heiðarlegum framleiðendum og ýta undir vantrú neytenda.  Mig langar því að endurtaka orð mín um að afar mikilvægt sé að íslenskur sjávarútvegur sé í stakk búinn að sýna kaupendum fram á að hér sé framleiðsla í samræmi við lög, reglugerðir og kröfur markaða.  Þannig munum við byggja upp grundvöll til enn frekari verðmætasköpunar í þekkingariðnaðinum sjávarútvegi.

Nýlega var valið fegursta íslenska orðið.  Ekki ætla ég að fjölyrða um niðurstöður valsins hér, en langar til að vitna til orða Friðleifs Friðleifssonar hjá Iceland Seafood, sem sagði á aðalfundi LÍÚ sl. haust eitthvað á þá leið að orðið AFHENDINGARÖRYGGI væri meðal fegurstu orða íslenskrar tungu að sínu mati.  Ég er á margan hátt sammála Friðleifi, en langar til að benda á annað gott íslenskt orð sem skiptir miklu máli fyrir verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi.  Það er orðið ORÐSTÍR.

Í Hávamálum Snorra Eddu segir að orðstír deyi aldrei, hafi menn getið sér góðs orðs.  Vonandi er það rétt, því íslensk matvæli hafa góðan orðstí og orðspor að verja.  Við þurfum þó að hafa í huga að internetið, ásamt ýmsu fleiru hefur breytt miðlun upplýsinga á dramatískan hátt sl. ár, þ.a. það er ekki víst að Snorri hafi alveg rétt fyrir sér, þó mörg góð ráðin megi vissulega sækja í Hávamál.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Viltu vita hver lágmarkslaunin eru í fyrirtækinu sem framleiðir matvælin sem þú neytir?

Raddir þess efnis að neytendur hafi nákvæmar upplýsingar um matvæli verða sífellt háværari. Hvort sem það eru upplýsingar um innihald, rekjanleika eða næringargildi, þá er fjöldi fólks, þá sérstaklega í vestrænum samfélögum, sem telur sig hafa not fyrir slíkar upplýsingar.

En hvers virði eru hinar ýmsu upplýsingar um matvæli?

Tækninni fleygir fram hvað varðar geymslu á upplýsingum. Fyrirtækin GS1 og Matís hafa átt í samstarfi er snýr m.a. að rekjanleika matvæla en innan GS1 er yfirgripsmikil þekking t.d. á notkunarmöguleikum strikamerkinga. Margir vilja meina að hægt sé að nota strikamerkin mun betur en gert er í dag og vinnur GS1 einmitt að þeim málum. Getur t.d. verið að í nánustu framtíð verði hægt að skanna strikamerki til þess að fá upplýsingar ekki bara um heiti eða verð vöru heldur líka um uppruna vörunnar, ferlið sem varan hefur farið í gegnum í framleiðslu og flutningi, aðbúnað og lágmarkslaun starfsmanna sem komu að framleiðslu vörunnar, hversu mikið framleiðslan og flutningur vörunnar mengaði (t.d. sótspor, e. carbon footprint), innihaldsefni, ofnæmis- og óþolsvalda eða næringargildi?

Ef við nefnum sérstaklega uppruna og rekjanleika matvæla þá hefur mörgum íslenskum neytendum þótt mikilvægt að vita hvaðan matvælin koma eða hráefnin sem notuð eru til þess að framleiða þau. Mikilvægt þykir mörgum einnig að hægt sé að rekja til baka öll skref framleiðslu, flutnings og markaðssetningu vöru og segja sumir að ekki sé hægt að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vöru fyrr en upplýsingar um uppruna séu til staðar sem og rekjanleiki. Krafan um slíkt verður sífellt háværari, ekki síst vegna kröfu neytenda um að matvæli séu á allan hátt örugg til neyslu og valdi okkur ekki skaða.

Tækifærin eru mikil þegar kemur að merkingum matvæla og fræðslu um þau

Fleiri fyrirtæki, sem Matís hefur átt í góðu samstarfi við, vinna frumkvöðlastarf í því að koma upplýsingum um matvæli til neytenda. FooDoIt (fyrir food do it) er eitt slíkt. Starfsmenn þess fyrirtækis hafa nýtt sér gagnagrunna Matís um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) til þess að hanna notendavænt forrit sem nýta má til að sækja upplýsingar um nánast hvaða innihaldsefni sem er í matvælum. Slíkar upplýsingar geta nýst mörgum og má þar nefna fólk með sykursýki, fólk með óþol eða ofnæmi fyrir ákveðnum innihaldsefnum, fólk sem langar til þess að skera sykurneyslu við nögl (t.d. lág-kolvetna mataræðið) eða þeir sem vilja hafa handhægar upplýsingar um orkuinnihald matvælanna sem neytt er. Fyrir stuttu var sett upp tilraun með slíka hluti í mötuneyti Matís að Vínlandsleið 12 og fengu starfsmenn upplýsingar um ýmislegt sem snéri að hádegismatnum þann daginn. Í framhaldinu verður gerð önnur tilraun þar sem starfsmenn, sem það vilja, geta nýtt sér upplýsingar úr forritum FooDoIt manna og borið saman við þörf sína og hegðunarmynstur þann daginn. Með þeim hætti má til dæmis gera heiðarlega tilraun til þess að halda matarneyslu innan þeirra marka sem orkubrennsla líkamans setur nú eða bæta í ef upp á vantar; allt sérhannað fyrir hvern og einn.

Ýmislegt fleira áhugavert er í skoðun og koma snjallsímar og snjallúr við sögu í mörgu því sem verið er að skoða og prófa.

Krónan hefur nú, fyrst íslenskra verslana, komið sér upp skemmtilegu smáforriti þar sem m.a. er hægt að skanna allar þeirra vörur til þess að fá upplýsingar um verð. Forritið gerir neytendum einnig kleift að bæta vörum á innkaupalista og finna út hvaða tilboð eru í gangi svo dæmi séu tekin.

Nú fyrir stuttu kom Matís með hentugt snjallsíma smáforrit fyrir sjómenn. Tilgangurinn með því forriti er að gefa sjómönnum kost á að átta sig á því hversu mikinn ís þörf er á nota til þess að kæling hráefnisins sé nægjanleg frá upphafi en slíkt er forsenda fyrir því að gæði haldist alveg að borði neytenda. Rétt kæling í upphafi tryggir ekki eingöngu gæði og fersleika heldur stuðlar að því að matvælin séu örugg til neyslu þegar á diskinn er komið. Upplýsingar um ísAPP Matís má finna hér.

Gaman er að velta fyrir sér framtíðar möguleikum í upplýsingaveitu um matvæli. Verður til dæmis hægt í nánustu framtíð að ýta innkaupakerru í gegn um svokölluð hlið í matvöruverslunum hér á landi þar sem allar vörur er skannaðar í einu? Með slíku kerfi, þar sem örflaga er í umbúðum vara, væri óþarfi að skanna eina og eina vöru heldur yrðu allar vörurnar skannaðar nánast á broti úr sekúndu þegar innkaupakerrunni er ýtt í gegnum þetta hlið. Svo væri hægt að greiða fyrir vörurnar með snjallsímanum, en snjallsímagreiðslur eru nú þegar orðnar nokkuð algengar hér á landi. Slíkt kerfi gæti sparað umtalsverðan tíma í innkaupaferðum í matvöruverslunum og auk þess gert verslunum kleift að minnka líkur á þjófnaði.

Innkaupakerrur með gervigreind

Whole Foods Market í Bandaríkjunum hefur gert tilraunir með sérstakar innkaupakerrur þar sem skanni veitir upplýsingar um vöruna sem lögð er í kerruna. Slíkt er til mikilla hagsbóta fyrir neytendur enda er tilgangurinn að veita upplýsingar um hina ýmsu þætti um vörur, t.d. um verð eða óþols- og ofnæmisvalda, og hvernig þessar vörur henta neytandanum sem verslar í matinn. Og auk þess þarf ekki að bíða í röð eftir því að starfsmaður skanni matvælin heldur er farið beint að greiðslugátt til þess að borga t.d. með snjallsíma eða millifært er af reikningi kaupandans. Myndbrot um þessa tilraun má finna hér.

Svo má spyrja hvort neytendur geti í framtíðinni tengst ísskápum sínum með snjallsíma í gegnum sérstakt smáforrit sem veitir upplýsingar um „stöðuna“ í ísskápnum og hvað það er sem þörf er á að kaupa í búðinni?

Tækifærin eru óþrjótandi og auðvelt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn!

Í nútíma samfélagi eru kröfurnar sífellt meiri þegar kemur að upplýsingum um matvæli. Íslensk matvælaframleiðsla ber af að mörgu leyti samanborið við matvælaframleiðslu í öðrum löndum. Tækifærin eru þó til staðar til að gera enn betur og mikil sóknarfæri liggja í því að vera með upplýsingar sem neytendur vita jafnvel ekki í dag að þeir gætu haft gagn og gaman af. Því má segja að bæði framleiðendur matvæla og neytendur, og e.t.v. heilbrigðisyfirvöld, gætu notið góðs af enn frekari upplýsingastreymi frá öllum skrefum matvælaframleiðslu.

Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson og Sigríður Sigurðardóttir hjá Matís.

Fréttir

Matvæli eiga ekki að ógna heilsu okkar

Það er grundvallaratriði að við sem neytendur getum treyst því að maturinn sem við borðum skaði okkur ekki né ógni heilsu okkar.

„Svo tryggja megi öryggi matvæla er því nauðsynlegt að eftirlit og rannsóknir á matvælahráefnum og framleiðslu sé virkt og í takt við þá öru framþróun og nýsköpun sem verið hefur í matvælaiðnaðinum.“ Þetta segir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri efnarannsókna og áhættumats hjá Matís.

Ýmislegt getur haft áhrif á heilnæmi matvæla, en auk sjúkdómavaldandi sýkla sem geta borist í fólk með neyslu matar geta matvæli einnig innihaldið efni sem til langs tíma geta haft áhrif á heilsu okkar. Má þar nefna þrávirk lífræn mengunarefni eins og díoxín og PCB. Þessi efni eru fituleysanleg og geta borist í menn með fæðu og ógnað heilsu okkar hægt og bítandi.

„Langtímarannsóknir á áhrifum skaðlegra og mengandi efna í mat skiptir gríðarlega miklu máli fyrir lýðheilsu og vellíðan okkar. Tækjabúnaður og sérfræðiþekking þarf að vera fullnægjandi svo hægt sé að mæta auknum kröfum neytenda og opinberra eftirlitsaðila hvað matvælaöryggi varðar. Matvælalöggjöf hér á Íslandi er að mestu sú sama og tíðkast annarsstaðar í Evrópu og til þess að geta sýnt fram á samkeppnishæfar og samanburðarhæfar matvæla- og umhverfisrannsóknir þarf öflugt samstarf þeirra stofnana og aðila sem að þessum málaflokki koma. Má þar nefna rannsóknastofur,  matvælaframleiðendur, háskóla og stjórnvöld,“ segir Helga.

Hjá Matís er unnið ötullega að því að stuðla að bættu matvælaöryggi á Íslandi og fjölbreytt starfsemi fyrirtækisins snýr að fjölmörgum snertiflötum matvælaöryggis og heilnæmi afurða. Stór þáttur í starfseminni eru örveru- og efnamælingar þar sem árlega er unnið úr þúsundum sýna frá ýmsum aðilum í matvælaiðnaðinum og opinberum eftirlitsaðilum. Um er að ræða örveru- og efnarannsóknir á sýnum úr matvælum, neysluvatni og sjó en auk þess að vinna úr sýnum frá matvælaframleiðendum sinnir Matís einnig vöktun og öryggisþjónustu fyrir stjórnvöld. Sá hluti starfseminnar sem snýr að öryggi og vöktun óæskilegra efna í matvælum felst m.a. í mælingum á varnarefnaleifum í matvælum og þrávirkum lífrænum efnum eins og PCB-efnum. Mælingar á varnarefnaleifum miða að því að skima fyrir ýmsum hjálparefnum sem notuð eru við ræktun ávaxta og grænmetis eins og skordýraeitri, illgresiseyði og lyfjaleyfum.

„Við erum með faggildar mælingar fyrir opinberar eftirlitsstofnanir hér á landi sem þýðir að mælingar okkar hafa fengið ákveðna gæðavottun. Stjórnvöld og aðrar eftirlitsstofnanir geta þá leitað til okkar með mælingar þar sem vissum gæðastöðlum þarf að fylgja. Þá er einnig búið að útnefna Matís sem tilvísunarrannsóknarstofu Íslands fyrir örverurannsóknir á skelfiski og fyrir mælingar á Salmonella í matvælum. Við höfum sýnt fram á að mælingar okkar fyrir þessi rannsóknarsvið samræmast evrópskum stöðlum og erum ábyrg fyrir að viðurkenndar aðferðir séu við höndina og að við getum leiðbeint öðrum rannsóknastofum með slíkar mælingar,“ segir Helga.

„Markmið okkar er að vera leiðandi í matvæla- og umhverfisrannsóknum. Niðurstöður rannsókna okkar hafa skilað mikilvægum upplýsingum um neysluafurðir og umhverfi hér á Íslandi sem nýtist ekki bara á innlendum vettvangi heldur einnig erlendis,“ segir Helga og bætir við að nú sé farið í gang mikilvægt verkefni við uppbyggingu á sviði matvælaöryggis sem er áætlað að ljúki í árslok 2014. Um er að ræða verkefni sem miðar að því að gera lögbærum íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og  heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd sem hafa nú þegar verið innleiddar í gegnum EES samninginn.

„Lykilmarkmið þessa verkefnis er að auka enn frekar matvælaöryggi á Íslandi með því meðal annars að búa að betri rannsóknaraðstöðu og getu til að framkvæma efnagreiningar á algengustu hættum í matvælum og þróa nýjar mæliaðferðir og verkferla við lögbært matvælaeftirlit. Verkefnið er því nauðsynlegt til að Ísland geti staðið við þær auknu skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samþykkt matvælalöggjafarinnar,“ segir Helga.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Fiskídag þættirnir hefja göngu sína

Landsátakið „Fiskídag“ sem hefur það að markmiði að auka fiskneyslu Íslendinga, sýnir þætti þar sem Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari kennir unglingum hvernig matreiða á fljótlega og auðvelda rétti úr fiski.

Í þáttunum munu unglingarnir meðal annars útbúa lax í taco, ýsu í pítubrauði og blálöngu hamborgara. Einnig verður farið yfir meðhöndlun fisk, beinhreinsun, roðfletting svo eitthvað sé nefnt.

Fyrsti þátturinn er á dagskrá í kvöld á RÚV og hefst hann kl. 20:05. Nánar um þættina á vef RÚV.

Smelltu á heimasíðu Fiskídag átaksins eða Facebook síðu átaksins.

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Ingunn Jónsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2013

Ársskýrsla Matís fyrir starfsárið 2013 er nú komin út. Matvæla- og fæðuöryggi er meginþema skýrslunnar að þessu sinni. Hægt er að nálgast útgáfuna á rafrænu formi hér neðar í fréttinni en prentuð útgáfa verður aðgengileg í næstu viku.

Skilgreiningar:

  • Matvælaöryggi (Food safety) fjallar um hversu örugg matvæli eru til neyslu og hvort þau valdi heilsutjóni hjá neytendum
  • Fæðuöryggi (Food security) fjallar um aðgengi að fæðu og framboð af heilnæmum og öruggum matvælum

Neytendur þurfa að geta treyst á öryggi matvæla. Tvö lykilsvið Matís eru tileinkuð rannsóknum og þjónustu á sviði matvælaöryggis. Þar eru m.a. framkvæmdar faggildar örveru og efnamælingar, en þær eru sívaxandi krafa í eftirliti og viðskiptum með matvæli. Jafnframt fara þar fram rannsóknir á sviðum örverufræði, efnafræði og erfðafræði, auk vöktunar og öryggisþjónustu.

Fæðuöryggi framtíðar, þ.e. góður aðgangur almennings að öruggum og heilnæmum matvælum, verður einungis tryggt með nýsköpun og bættri nýtingu auðlinda. Undanfarin ár hefur mikil og jákvæð þróun verið í matvælaframleiðslu hér á landi og hefur Matís verið þar í fararbroddi, með rannsókna og nýsköpunarstuðningi við atvinnulífið.

Fréttir

Efling menntunar og starfsþjálfunar í matvælaframleiðslu

„Með sviði um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri.

Styrkir bæði Matís og matvælafyrirtækin

Guðjón segir að með samstarfi við menntastofnanir og starfsþjálfun sé Matís að fylgja eftir áherslum á rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

„Önnur aðalástæða samstarfsins er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Hin ástæðan, og sú sem skiptir Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, er að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að hafa fengið fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi,“ segir Guðjón.

Kennsluþátturinn þegar orðinn umfangsmikill

Þrátt fyrir að kennsla, starfsfræðsla og leiðsögn nemenda í rannsóknanámi hafi til þessa ekki verið á föstu og skipulögðu formi sem svið innan Matís segir Guðjón umfang þessara þátta mjög mikið.

„Starfmenn Matís kenna á um 25 námskeiðum í grunn- og framhaldsnámi og hafa umsjón með flestum þeirra. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið. Við erum í góðu samstarfi og með sameiginlega starfsmenn með Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Samstarfið við Háskóla Íslands er mest við matvæla- og næringarfræðideild en einnig mikið við verkfræði- og náttúruvísindasvið og félagsvísindasvið. Matís vinnur mikið með viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri og þá helst í fiskeldi og sjávarútvegsfræðum. Vegna fyrri starfa og rannsókna hef ég mikinn hug á að endurvekja og efla samstarfið við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá eru Háskólinn á Hólum og Matís í sameiginlegu húsnæði í Verinu á Sauðárkróki og vinna saman að mörgum verkefnum.

Allir þessir aðilar hafa unnið að verkefni við að koma á alþjóðlegu meistaranámi í matvælafræðum í tengslum við matvælaiðnaðinn í landinu. Þetta nám hefur verið leitt af Matís og Háskóla Íslands og hófu 12 nemendur námið haustið 2012 og hefur orðið enn frekari fjölgun síðan,“ segir Guðjón en stærstur hluti kennslunnar er hjá Matís í Reykjavík en kennsla fer einnig fram á Akureyri. Í tengslum við námið voru tveir sérfræðingar Matís, þau Hörður G. Kristinsson og Helga Gunnlaugsdóttir, skipuð gestaprófessorar við Háskóla Íslands.

„Ég hef fulla trú á að alþjóðlega meistaranámið eflist og verði mjög áberandi á næstu árum. Samstarf um aðrar greinar verður líka eflt. Verkefni okkar verður líka að tengja iðnnám, tæknifræðinám og annað háskólanám sem tengist matvælum við atvinnulífið. Einnig þurfum við að vinna að eflingu starfsnáms/starfsendurhæfingar tengdu matvælum með áherslu á smáframleiðslu matvæla og samstarf við Beint frá býli,“ segir Guðjón.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón hjá Matís.

Fréttir

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna veitir UNU-FTP viðurkenningu

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013 var viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-FTP) við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum. 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna viðurkennir mikilvægi starfs Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013, var samþykkt regluleg ályktun um sjálfbærar fiskveiðar (fiskveiðiályktun allsherjarþingsins). Í ályktuninni, sem er ávöxtur samningaviðræðna milli ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, var að þessu sinni viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum.

Í ályktuninni segir að allsherjarþingið meti mikils 15 ára starf skólans við að byggja upp þekkingu, færni og verkkunnáttu í þróunarríkjunum, en alls  hafi 280 nemendur frá 47 löndum útskrifast frá skólanum. Að auki hafi skólinn staðið fyrir 36 styttri námskeiðum í 12 löndum.

Um samstarf UNU-FTP og Matís

Meðal samstarfsverkefna sem Matís tekur þátt í er Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna en auk Matís standa að skólanum Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólans á Hólum. Verkefni nemenda við skólann eru öll unnin með þarfir í heimalöndum nemendanna í huga. Þannig hafa verkefni í gegnum tíðina fjallað um gerð gæðastuðulsskala fyrir makríl, um áhrif sorbats og kítosans á geymsluþol makríls, um kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og um uppsetningu rekjanleikakerfis á innanlandsmarkaði í Kína svo örfá dæmi séu tekin.

Samstarf Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Matís hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Auk grunnnáms, sem allir nemendur skólans fá hjá Matís, annast fyrirtækið sex vikna sérnám og á hverju ári vinna nokkrir nemenda skólans lokaverkefni hjá Matís. Því til viðbótar stundar reglulega nokkur fjöldi nema skólans doktors- og meistaranám hjá fyrirtækinu og því má í raun með sanni segja að Matís sé hluti af skólanum.

Heimasíða Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Ofangreind frétt er tekin að hluta af heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins.

Fréttir

Matís tekur við rekstri SAFE

Á árinu 2013 tók Matís við framkvæmdastjórn og rekstri SAFE Consortium, evrópskum samstarfsvettvangi rannsóknastofnana á sviði matvælaöryggis. Þátttakendur í SAFE eiga það allir sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi matvælaöryggis og þann samfélagslega ávinning sem hlýst af rannsóknum og þekkingaruppbyggingu á því sviði.

SAFE eflir alþjóðleg tengsl

Í krafti samvinnunnar fá þátttakendur SAFE aukinn hljómgrunn á alþjóðavettvangi og aukið vægi í stefnumörkun hins opinbera er lýtur að matvælaöryggi.

 „Það er hætt við því að umræða um matvælaöryggi týnist í almennri umræðu um heilbrigðis- og umhverfismál og missi því vægi sitt sem sér málaflokkur. Með þátttöku okkar í SAFE skapast mikilvæg tengsl við hagsmunaaðila, alþjóðasamtök og háskólasamfélagið víða um heim. Tengsl sem efla möguleika okkar til að hafa áhrif á umræðuna um matvælaöryggi og beina sjónum á mikilvægi langtímarannsókna á því sviði, “ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri Viðskiptaþróunar og framkvæmdastjóri SAFE.

„Tryggur aðgangur að nægum öruggum matvælum er grundvallaratriði fyrir almenna lýðheilsu og mikilvægt fyrir iðnaðinn að ekki leiki vafi á öryggi þeirra afurða sem verslað er með. Hér á landi varðar það beinlínis útflutningshagsmuni og efnahagsstöðu ef okkar stærsta útflutningsafurð, fiskurinn, er ekki öruggur til neyslu og geta því óörugg matvæli ekki eingöngu ógnað heilsu okkar og hreysti, heldur einnig valdið markaðstjóni.“

Oddur segir að yfirleitt komi skammtímaáhrif heilsuspillandi matvæla skjótt í ljós, en langtímaáhrifin séu ekki eins kunn. Því sé eitt af markmiðum SAFE að vekja athygli á þeim áhrifaþáttum í matvælum sem geta skaðað heilsu fólks hægt og bítandi. Saman leggja þátttakendur SAFE þyngri lóðir á vogarskálarnar við að efla þennan málaflokk á alþjóðavísu og skapa dýpri þekkingu á matvælaöryggi og gildi rannsókna á þessu sviði.

Sem leiðandi aðili innan SAFE skapast tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á stefnumörkun á þessu sviði, auk þess að styrkja ímynd Matís þegar kemur að fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem snúa að matvælaöryggi.

Nánari upplýsingar veitir Oddur Már.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

IS