Fréttir

Meistaradagur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands 2013

Dr. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís flytur erindi um Rannsóknir og raunhæfar lausnir í matvælaiðnaði og líftækni á Meistaradegi Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Í verkfræðigreinum innan Háskóla Íslands er markmiðið að flétta nýsköpun saman við framhaldsnámið. Á meistaradegi Verkfræðistofnunar verða kynnt verkefni meistaranema sem iðulega eru þátttakendur í nýsköpunarverkefnum í samstarfi við öflug fyrirtæki. Nemendur háskólans leggja þannig mikið til vöru- og samfélagsþróunar á Íslandi.

Öllum er velkomið að mæta og kynna sér uppsprettu nýsköpunar og hátæknilausna í verkfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

Meistaradagur Verkfræðistofnunar fer fram fimmtudaginn 23. maí 12:00 – 17:00 í byggingunni VR-II.Dagskrá Meistaradagsins er að finna hér.

Samstarfssamningur Matís og Listaháskóla ÍslandsHáskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning: Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækniWhitefish

Fréttir

Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi; vatn og vatnsgæði

Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi, vatn og vatnsgæði, var haldin 22. mars 2013 í tilefni af degi vatnsins en ráðstefna þessi er haldin fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna 22. mars ár hvert.

Fimm stofnanir, Umhverfisráðuneytið og Háskóli Íslands komu að undirbúningi ráðstefnunnar.

Ráðstefnan var vel sótt af fræðimönnum auk þess sem afar góður rómur var gerður að öllum erindum og kynningum sem endurspegluðu bæði metnað og fagkunnáttu þeirra sem að þeim stóðu. Í ljósi þess að takmarkaður sætafjöldi var á ráðstefnunni og komust færri að en vildu taldi skipulagsnefndin eðlilegt að bjóða þeim fræðimönnum sem héldu erindi á ráðstefnunni og sáu sér þess fært, að birta sín erindi á heimasíðu Matís. Erindin er nú hægt að nálgast hér að neðan:

Flutt voru níu erindi á ráðstefnunni og til viðbótar voru rannsóknir kynntar á 11 veggspjöldum. Í erindunum kom m.a. fram að talsvert álag er víða á grunnvatn og oft lítið hugað að því þegar framkvæmdir eru áætlaðar. Fjallað var um náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi. Fram kom að efnastyrkur í drykkjarvatni er almennt lágur. Kynntar voru mælingar á efnastyrk í náttúrlegum vatnakerfum, og náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi er yfirleitt lágt og víðast búum við afar vel hvað varðar gæði og eftirlit. Sagt var frá rannsókn á örveruflóru Elliðavatns og –áa, einnig frá vísbendingum um aukið köfnunarefni í Þingvallavatni. Rannsóknir á afrennsli ræktarlands og frá barrskógum voru kynntar, og mælingar á kvikasilfri í urriða í vötnum leiddu til mjög áhugaverðra niðurstaðna. Loks voru kynntar niðurstöður vöktunar á mengun í sjó og við strendur Íslands síðustu 20 ár. Margar aðrar áhugaverðar kynningar voru á ráðstefnunni og hvetjum við alla til að kynna sér erindin.

Fyrir hönd skipulagnefndar og vísindanefndar ráðstefnunnar viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í ráðstefnunni. Bæði þeim fræðimönnum sem lögðu ráðstefnunni lið með kynningum og erindum sem og öllum þeim einstaklingum sem mættu og kynntu sér málefnin, tóku þátt í umræðunni og gáfu henni lit og líf.

Nánari upplýsingar veitir Sophie Jensen hjá Matís.

Fréttir

Bylting í mælingum á bragð- og lyktarefnum í matvælum

Matís í samstarfi við Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Sandgerði og ArcticMass fékk styrk úr Tækjasjóði Rannís árið 2012 til að festa kaup á gasskilju/massagreini (e. gas chromatograph/mass spectrometer, GC/MS).

Tækið sem kom í hús í byrjun febrúar er af gerðinni Shimadzu GCMS-QP2010 ULTRA og við hann er tengdur AOC-500 SMPE headspace sýnamatari. GC/MS nýtist einna helst við mælingar á minni og rokgjarnari efnum sem oft eru vatnsfælin.

Þetta tæki er það eina á landinu sem hefur SPME sýnamatara sem skapar Matís og samstarfsaðilum ákveðna sérstöðu og mun hann nýtast sérstaklega vel til greininga á m.a. bragð og lyktarefnum í matvælum. Önnur rannsóknarverkefni sem GC/MS tækið mun nýtast í eru mælingar á mengandi efnum í umhverfinu eins og fjölhringja arómatísk kolvatnsefni (PAH) og brómeruð eldvarnarefni (PBDE). Eins má greina byggingu fjölsykra m.t.t. tengjagerðar í matvælarannsóknum.

Nýtt GC/MS tæki leysir af hólmi gamlan og úreltan tækjabúnað ásamt því að auka greiningargetu með nútíma tækni og meiri næmni tækis. Nýtt tæki mun því skapa ný tækifæri í rannsóknum í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Fréttir

3X og VaxVest í samstarf

3X Technology á Ísafirði og Vaxtarsamningur Vestfjarða hafa undirritað samning til að styrkja prófanir á nýjum búnaði sem fyrirtækið er að þróa, FILTREX vatnshreinsibúnaði. Verkefnið er unnið í samvinnu við Matís og rækjuvinnslu Kampa.

Miklar væntingar eru til þessa nýja búnaðar sem seldur verðu sem viðbót við helstu framleiðsluvöru 3X Technology, ROTEX, sem notaður er við kælingu og uppþíðingu í matvælavinnslu. ROTEX búnaður þarf mikið vatn við notkun en með FILTREX búnaði verður hægt að nota sama vatnið í a.m.k. tvo sólarhringa í stanslausri vinnslu ásamt því að fanga verðmæt efni úr vatninu, t.d. prótein. 

FILTREX búnaður verður jafnframt seldur sem sjálfstæður búnaður til að hreinsa affallsvatn frá matvælavinnslum, áður en því er skilað út í umhverfið. Miklar og auknar umhverfiskröfur eru gerðar um allan heim um að skila vinnsluvatni hreinsuðu út í náttúruna og því bindur fyrirtækið miklar vonir við eftirspurn eftir þessari nýju tækni. Innan Matís er þekking til að vinna svona verkefni og Kampi leggur til rækjuvinnslu sína til að prófa og þróa nýjan búnað. 3X Technology hefur sótt um styrk til Tækniþróunarsjóðs til þróunar á búnaðinum og vonast eftir jákvæðu svari á vormánuðum.

3X Technology hefur mikla reynslu við hönnun og smíði á búnaði og hefur lagt til um 5% af veltu í R&Þ undanfarin ár. Velgengni fyrirtækisins byggir á nýsköpun og sölu á einstökum lausnum fyrir kröfuharðan markað á tækjabúnaði til matvælaframleiðslu. FILTREX búnaðurinn mun bæta samkeppnisstöðu 3X Technology á markaði fyrir þíðingar- blóðgunar og kælitæki fyrir matvælaframleiðslu. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri í framleiðslu á slíkum búnaði fyrir framleiðslu á eldisfiski og mun FILTREX enn bæta þá stöðu í framtíðinni. Í dag er sala á ROTEX búnaði um 10 til 15 kerfi á ári á heimsmarkaði, en búast má við aukinni sölu með FILTREX búnaði, til svæða þar sem vatn er takmarkað og/eða miklar kröfur gerðar til umhverfisverndar. Auknar kröfur er frá markaðinum um grænar lausnir að vörur séu framleiddar með umhverfisvernd í huga.

Fréttin birtist fyrst á vef Bæjarins besta á Ísafirði, www.bb.is, 16. maí sl.

Fréttir

Kisur eru ekki einu dýrin sem lækka blóðþrýsting. Þorskurinn gerir það líka!

Fimmtudaginn 30.maí fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Sigrún Mjöll Halldórsdóttir matvælafræðingur hjá Matís doktorsritgerð sína „Nýjar og bættar aðferðir við að framleiða vatnsrofin fiskprótein með lífvirka eiginleika – Oxunarferlar og notkun náttúrulegra andoxunarefna við ensímatískt vatnsrof“.

Hvenær hefst þessi viðburður: 30. maí 2013 – 10:00 to 13:00
Staðsetning viðburðar:  Aðalbygging
Nánari staðsetning:  Hátíðasalur

Andmælendur eru dr. Maurice Marshall prófessor við Háskólann í Flórída, USA og dr. Jakob K. Kristjánsson frá Prokazyme Ltd. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Hörður G. Kristinsson hjá Matís. Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst athöfnin klukkan 10:00.

Um efni ritgerðar

Vatnsrofin fiskprótein (fisk prótein hýdrólýsöt; FPH) búa yfir ýmsum heilsubætandi lífvirkum eiginleikum s.s. blóðþrýstingslækkandi eiginleikum og andoxunarvirkni. Mikið magn af vannýttum aukaafurðum fellur til við fiskvinnslu sem mætti nýta í slíkar afurðir. Fituoxun sem verður við ensímatískt vatnsrof getur verið vandamál við framleiðslu lífvirkra FPH. Heildarmarkmið rannsóknarinnar var að bæta vinnslutækni og kynna nýjar aðferðir til sögunnar við að vinna lífvirkar FPH afurðir úr fiskpróteinum. Niðurstöður benda til þess að með því að einangra prótein með basameðhöndlun fyrir vatnsrof með endurbættri aðferð mátti spara tíma, vinnu og efnivið, borið saman við hefðbundna basavinnslu. Rannsóknir sýna að oxun þróaðist hratt við vatnsrof í nærveru oxunarhvata. Niðurstöður sýna að oxun getur valdið því að FPH missir andoxunareiginleika sína, auk þess sem oxunarafurðir ollu minnkuðu and-bólgusvari, sem getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér í líkamanum.

Notkun náttúrulegra andoxunarefna reyndist vera mjög gagnlegt við vatnsrof fiskpróteina. Útdráttur úr íslensku bóluþangi, Fucus vesiculosus, sem andoxunarefni kom í veg fyrir oxun, jók lífvirkni lokaafurðar og dró úr myndun á bitru bragði hjá FPH.

Leiðbeinandi doktorsverkefnisins var dr. Hörður G. Kristinsson hjá Matís, en auk hans sátu í doktorsnefnd þau Guðjón Þorkelsson prófessor við Háskóla Íslands og sviðsstjóri hjá Matís, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Iceprotein ehf. og dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Fréttir

Samstarfssamningur MAST og Matís

Þann 14. maí undirritaði Matvælastofnun (MAST) þjónustusamning við Matís um öryggismælingar á sviði varnarefna.

Varnarefni eru notuð við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvöru til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra.

 Frá undirskrift samstarfssamnings 
Fremri röð: Sveinn Margeirsson, Jón Gíslason
Aftari röð – meðlimir úr stjórn Matís: Laufey Haraldsdóttir, Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður, Ágústa Guðmundsdóttir

Óheimilt er að framleiða eða dreifa matvælum sem innihalda varnarefni umfram leyfileg hámarksgildi skv. reglugerð um varnarefnaleifar sem m.a. er byggð á tilskipunum ESB og liggur ábyrgðin hjá framleiðendum, dreifendum og seljendum. Matís mun senda MAST niðurstöður mælinganna mánaðarlega.


Nánari upplýsingar veita Jón Gíslason, forstjóri MAST og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Ís, ís, ís og meiri ís

Það verður seint of mikið fjallað um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á þeim afla sem dreginn er úr sjó. Blóðgun, slæging, þvottur og síðast en ekki síst kæling eru þeir þættir sem skipta öllu máli ef markmiðið er að koma með fyrsta flokks fisk á markað.

Til þess að auðvelda áætlaða ísþörf í róður þá hefur Matís látið útbúa einfalda reiknivél til að sýna hvað þarf mikinn ís til að kæla og viðhalda kælingu afla þegar tekið er tillit til sjávar- og umhverfishita og geymslutíma.

Þessi reiknivél gefur fyrirtaks vísbendingu um magn íss, en vissulega er þetta svolítið breytilegt eftir gerð þess íss sem notaður er.

Reiknivélina má finna á fræðsluvef Matís: Ísþörf (ísreiknir)

Fréttir

Viltu taka þátt í skemmtilegri rannsókn?

Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hefur það að markmiði að kanna hversu vel líkaminn nýtir omega-3 fitusýrur frá mismunandi uppsprettum.

Fyrir utan að taka þátt í skemmtilegri rannsókn og fá ókeypis mat þá eiga allir sem ljúka við rannsóknina möguleika á veglegu gjafakorti.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Af tilefni upphafs strandveiða þetta árið

1. maí sl. hófst strandveiðitímabilið. Af því tilefni langar Matís að benda veiðimönnum og öðrum á neðangreinda fræðslusíðu.

Ný reglugerð um kælingu afla er að finna á þessari síðu ásamt nýjum ísreikni, sem aðstoðar sjómenn við að ákveða hversu mikinn ís þarf að nota til að gæði hráefnis haldist sem allra best og lengst.

Nánari upplýsingar a www.alltummat.is/fiskur/smabatar/

Fréttir

Tækifærin eru á landsbyggðinni

Alla þessa vikuna verða þrír starfsmenn Matís á ferð hringinn í kringum landið. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar á landsbyggðinni hvað matvæla- og lífefnaframleiðslu varðar.

Starfsmennirnir munu hitta smáa sem stóra aðila í matvælaframleiðslu og verða þeim innan handar og gefa ráð varðandi hin ýmsu mál sem snúa að matvælaframleiðslu þá sérstaklega smáframleiðslu matvæla.

Drög að dagskrá:

  • Mánudagur 13. maí – Skagafjörður, Siglufjörður, Ólafsfjörður og Akureyri
  • Þriðjudagur 14. maí – Akureyri, Svalbarðseyri, Laugar, Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn
  • Miðvikudagur 15. maí – Raufarhöfn
  • Fimmtudagur 16. maí – Egilsstaðir og aðrir staðir á Austurlandi/Austfjörðum
  • Föstudagur 17. maí – Austfirðir

Allir þeir sem áhuga hafa á matvælaframleiðslu eru hvattir til að hafa samband við þessa starfsmenn Matís.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Hallgrímsson í síma 858-5054.

IS