Fréttir

Aðstæður til sandhverfueldis eru hagstæðar á Íslandi

Sandhverfa er mjög eftirsóttur fiskur á mörkuðum í Evrópu og að mörgu leyti eru aðstæður til eldis sandhverfu góðar á Íslandi.

Rannsóknir á fóðri fyrir sandhverfu hafa verið af skornum skammti hingað til, en fóðurkostnaður nemur að jafnaði 50 – 60% af framleiðslukostnaði í sandhverfueldi. Matís hefur tekið þátt í nokkrum verkefnum tengdum sandhverfueldi undir forustu Akvaplan Niva á Íslandi.

Verkefnin hafa verið studd af AVS sjóðnum, Tækniþróunarsjóði Rannís og Evrópusambandinu undir samheitinu MAXIMUS. Þátttaka Matís hefur að mestu snúist um að besta fóður í sandhverfueldi en auk þess hefur Matís komið að erfðarannsóknum á íslenska stofni fiskjarins.

Rannsóknirnar hafa verið framkvæmdar í rannsókna aðstöðu Háskólans á Hólum í Verinu á Sauðárkróki, Silfurstjörnunni í Öxarfirði og hjá fyrirtækinu Rodecan á Spáni.

Í fyrstu rannsókninni, sem gerð var í Verinu á Sauðárkróki, var leitast við að finna besta hlutfall próteins og fitu í vaxtarfóðri fyrir sandhverfu. Helstu niðurstöður þeirra rannsóknar voru að hagkvæmast væri að nota fóður sem innihéldi 42,5% prótein og 25% fitu. Á þeim tíma sem rannsóknin var gerð var algengt að prótein innihald í sandhverfufóðri væri 50 – 55% og fituinnihald u.þ.b. 12%. Þessar niðurstöður sýndu að hægt væri að lækka hráefniskostnað í vaxtarfóðri verulega eða um  12% og má leiða að því líkur að breyting á fóðri í samræmi við þessar niðurstöður lækki framleiðslukostnað á sandhverfu um 6%. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru uppistaðan í meistaraverkefni Erik Leksnes og hafa einnig verið birtar í grein í ritrýndu tímariti (Aquaculture, 2012, (350-353), 75-81.).

Til þess að ganga úr skugga um hvort þessar breytingar á fóðri hefðu áhrif á gæði framleiðslunnar var framkvæmt skynmat á afurðunum og kom fram að við lækkun á próteini úr 50% í 42,5% fannst enginn marktækur munur á gæðum afurðanna en væri próteinið lækkað umfram það virtist sem að lýkur ykjust á moldarbragði í afurðinni.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru sem stendur til prófunar í rannsókn hjá sandhverfufyrirtækinu Rodecan á Spáni til þess að sannreyna, að sami árangur og náðist í rannsókninni í Verinu, geti náðst í stórskalaframleiðslu í eldisstöð.

Næsta verkefni  gekk út á að rannsaka viðbrögð sandhverfu við notkun mismunandi prótein hráefna í vaxtarfóðri með það fyrir augum að minnka notkun fiskimjöls. Borin voru saman fóður með mismiklu fiskimjöli þar sem fiskimjölinu var skipt út með blöndu af jurtamjöli.

Fyrst var framkvæmd skymun í rannsókn í Verinu þar sem borin voru saman fóður með mismunandi innihaldi fiskimjöls( 58%, 46% og 33%) en í stað minnkunarinnar á fiskimjölinu var notuð blanda af jurtaprótein hráefnum. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að hægt væri að lækka hlutfall fiskimjöls um 12 prósentustig í fóðrinu án þess að það hefði nokkur áhrif á vöxt eða fóðurnýtingu.

Til þess að skoða þetta nánar er nú í gangi tilraun hjá Silfurstjörnunni í Öxarfirði og prófuð eru fleiri þrep í notkun fiskimjöls. Niðurstöður úr þeirri rannsókn sýna að 33% fiskimjöl í fóðri gefur fyllilega jafn góðan vöxt og fóðurnýtingu og fóður með hærra fiskimjölsinnihaldi. Með því að lækka hlut fiskimjöls úr 58% af fóðrinu í 33% lækkar hráefniskostnaður í fóðri um sem nemur 20% og þar með framleiðslukostnaður um 10%.

Fóður í allar rannsóknirnar var framleitt af Fóðurverksmiðjunni Laxá hf.

Heildar niðurstaða þessara rannsókna er að hægt að lækka framleiðslukostnað í sandhverfueldi verulega, með því að breyta samsetningu fóðursins sem gefið er, án þess að það komi niður á framleiðslunni eða gæðum afurða. Miðað við hráefnaverð um þessar mundir sýna niðurstöðurnar að hægt er að lækka framleiðslukostnaðinn um 15 – 20 prósent samanborið við það að nota það fóður sem flestir framleiðendur sandhverfu eru að nota í dag.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason verkefnastjóri hjá Matís.

Fréttir

HÍ og Matís sameinast um eflingu menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis – Háskóli Íslands og Matís ohf. gera með sér samstarfssamning

Háskóli Íslands og Matís ohf. gerðu í dag samning sín á milli um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís undirrituðu samninginn.

Með samningnum er grunnur lagður að frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís ohf. og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Við undirritun samnings í húsakynnum Matís í morgun
Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Á sama tíma var gerður sérstakur samningur milli Matvæla- og næringarfræðideildar HÍ og Matís um samstarf í kennslu og rannsóknum.

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í farsælu samstarfi um langt skeið um kennslu en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við HÍ og munu gera það áfram. Báðir aðilar hafa byggt upp mikla þekkingu á  matvælafræði, líftækni, erfðafræði og fleiri greinum. Sem dæmi þá hafa starfsmenn sem starfa bæði hjá Matís og HÍ birt tæplega 90 vísindagreinar í ritrýndum tímaritum á sl. þremur árum og á sama tímabili hafa 10 nemendur varið doktorsritgerðir sínar og 15 meistaranemendur útskrifast þar sem verkefnin hafa verið unnin í samstarfi Matís og Háskóla Íslands. Í dag eru átta doktorsnemendur og 19 nemendur í meistaranámi við HÍ að vinna sín rannsóknaverkefni með Matís. Auk þess hafa Matís og HÍ sótt um og eru saman í nokkrum alþjóðlegum verkefnum.

Mikilvægt er að samnýta þessa þekkingu í tengslum við í nýsköpun og aukna verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís ohf. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís ohf. fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Helstu atriði samnings Háskóla Íslands og Matís ohf. eru:

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.
  • Auka rannsóknir á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis og vera jafnframt í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
  • Vera leiðandi á völdum sérfræðisviðum og hafa faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi.
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.

Auk þess munu samningsaðilar leitast við að tengja starfsemi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og starfsstöðva Matís ohf. utan Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Íslenskir nemendur eftirsóttir erlendis

Á opnum fundi um mikilvægi langtímarannsókna í matvælaiðnaði sem haldinn var af Matís í samstarfi við PepsiCo kom fram að erlend stórfyrirtæki, á borð við PepsiCo., eru farin að horfa til Íslands í leit að nemendum í matvælafræði til að vinna með þeim að rannsóknum.

Samkvæmt Dr. Gregory Yep frá PepsiCo stendur matvælaiðnaðurinn almennt frammi fyrir því að of fáir matvælafræðingar hafa verið útskrifaðir úr námi á síðustu árum til þess að geta annað þeirri eftirspurn sem er eftir sérfræðiþekkingu í greininni.  Upptökur frá fundinum má finna hér að neðan.

Hér á landi stefndi í sömu átt, en með samstilltu átaki Matís og Háskóla Íslands hefur verið spornað við þróuninni að nokkru leyti en samstarfið hefur skilað sér í metnaðarfullu meistaranámi við HÍ. Þar að auki hefur Matís boðið nemendum á öllum námsstigum háskóla að vinna að rannsóknum innan fyrirtækisins og þannig gefið nemendum tækifæri til að vinna að raunverulegum verkefnum bæði á akademískan og starfstengdan hátt.

Samstarfið hefur skilað úrvals vísindamönnum á sviði matvælafræða og hafa margir þeirra hafið störf hjá Matís meðfram námi og að námi loknu. Þá eru mörg dæmi er um að starfmenn og fyrrum nemendur hjá Matís hafi verið boðin störf hjá öðrum fyrirtækjum, vegna þekkingar sinnar og hæfni sem þeir öðluðust í starfsnáminu. Þá hefur afraksturs þessa samstarfs í formi nýjunga og virðisaukningar á matvælum og matvælatengdum vörum orðið til þess að íslenskir matvælafræðingar eru virkilega eftirsóttir sem og íslenskt hugvit á sviði matvælafræða.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Dr. Gregory L. Yep, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar, PepsiCo.
Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Fleiri Matís myndbönd má finna á Youtube svæði Matís.

Fréttir

Svarta hermannaflugan í fiskeldi?

Matís ohf. í samvinnu við Íslenska matorku ehf. og Háskóla Íslands hefur sett í gang tilraunaræktun á hryggleysingjum til að framleiða ódýr prótein til fóðurgerðar fyrir fiskeldi. Um ræðir lirfu svörtu hermannaflugunnar (e. Black Soldier Fly).

Verkefnið er liður í því að auka samkeppnishæfni fiskeldis á Íslandi með því að nýta vannýtt hráefni og orku til að framleiða ódýr gæðaprótein.

Víða fellur til lífrænn úrgangur og grot sem stundum er urðað með tilheyrandi kostnaði en væri hægt að nýta sem æti fyrir tilteknar lirfur í náttúrulegu hringferli. Egg lirfunnar voru innflutt úr tilraunaræktun samstarfsaðila frá þýskalandi.

Flugurnar lifa við hátt hitastig og munu ekki geta þrifist utandyra hér á landi vegna lágs hitastigs. Þá er líffræði flugunnar með þeim hætti að flugan sjálf hefur ekki munn og nærist ekki og er heldur ekki búin neinum broddi sem stungið geta aðrar lífverur. Eini tilgangur fullorðinnar flugu er að fjölga sér. Lirfan er mjög næringarrík og inniheldur um 42% prótein og 35% fitu sem gerir hana hentuga sem fóðurhráefni.

Rannsóknir hafa sýnt fram á mikla matarlyst þessara lirfa en minnkun ætis þeirra er á bilinu 50-95%. Tilraunin sem sérfræðingar Matís hafa umsjón með er komin rúmar tvær vikur á veg og styttist í að lirfurnar séu komnar á púpustig, sem er lokastigið áður en þær verða nýttar sem fóðurhráefni. En til að viðhalda hringferlinu verður nokkrum púpum leyft að umbreytast í flugur til að verpa eggjum. Allt fer þetta fram í einangrun við stýrðar aðstæður. Að lokum stendur til að gera tilraunir með fóðrun lirfumjöls á bleikju.

Nánari upplýsingar veita Jón Árnason og Stefán Freyr Björnsson hjá Matís.

Fréttir

Langtíma rannsóknir – fjárfesting til framtíðarvaxtar

Fáum vísindamönnum dylst mikilvægi langtíma rannsókna fyrir samfélagið í heild sinni hvort sem það er vegna verðmætasköpunar eða ávinnings hvað lýðheilsu varðar, svo dæmi séu tekin.

Matís horfir til langs tíma í sínum rannsóknum og eru nú þegar dæmi um sprota frá Matís sem stofnaður hefur verið þar sem grunnurinn var og er langtímarannsóknir á sjávarþörungum. Slíkt krefst gríðarlegs tíma og útsjónarsemi eigi vel að fara og algjörlega nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til að standa straum af kostnaði sem til fellur.

Næstkomandi þriðjudag 4. júní býður Matís til morgunverðarfundar kl. 08:30 á Hilton Reykjavik Nordica Hotel en þar mun dr. Gregory L. Yep, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá PepsiCo. halda fyrirlestur ásamt dr. Herði G. Kristinssyni, rannsóknastjóra Matís.

Dagskrá

  • 08:30 Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
  • 08:40 Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís
    Investment in knowledge based value creation / Fjárfesting til framtíðarvaxtar
  • 09:00 Dr. Gregory L. Yep, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar, PepsiCo.
    Food and Beverage Innovation / Nýsköpun í matvælaiðnaði
  • 09:40 Umræður

    Fundarstjórn: Svana Helen Björnsdóttir, formaður stjórnar Samtaka Iðnaðarins
    (auglýsingu má finna hér)

PepsiCo. þarf ekki að kynna fyrir neinum enda fyrirtækið einna þekktast fyrir sjálfar Pepsí vörurnar, sem seldar eru hér á landi undir vörumerki Ölgerðarinnar. Færri vita aftur á móti að PepsiCo. framleiðir, markaðssetur og selur mun fleiri vörur á heimsvísu. Innan banda PepsiCo. eru vörulínur t.d. Tropicana, Quaker Oats, Frito-Lay og Gatorade. Fyrirtækið er það stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum og annað stærsta á heimsvísu, á eftir Nestlé, sem er einnig í samstarfi við Matís.

Á hverju árið eru seldar á heimsvísu vörur frá PepsiCo. að andvirði 108 milljarða dollara, rúmlega 13 þúsund milljarða íslenskra króna og því mál jóst vera að fyrirtækið er gríðarstórt og öflugt.

Þrír aðilar eru að koma til landsins frá PepsiCo. en helstan ber að nefna dr. Gregory L. Yep en hann er aðstoðarforstjóri rannsókna og þróunar hjá fyrirtækinu. Það er margt hægt að læra af fyrirtæki eins og PepsiCo. og verður fróðlegt að heyra sýn Dr. Yep á rannsóknir og þróun í matvælaframleiðslu á heimsvísu, þá sérstaklega núna þegar umræðan um fæðuöryggi er hávær.

Morgunverðarfundurinn fer fram eins og áður sagði á Hilton Reykjavik Nordica Hotel, Suðurlandsbraut 2, þriðjudaginn 4. júni kl. 08:30-10:00.


Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Mælst er til að fólk sé mætt tímanlega og fái sér léttan morgunverð áður en fundur hefst.

Æskilegt er að fólk skrái þátttöku sína á pepsico@matis.is


Nánari upplýsingar hér: www.matis.is/pepsico

Fréttir

Herði G. Kristinssyni, rannsóknastjóra Matís, boðið að sitja í evrópska lífhagkerfisráðinu

Rannsóknastjóra Matís var fyrir stuttu boðið að setjast í evrópska lífhagkerfisráðið en það er mikill heiður, ekki bara fyrir Matís heldur einnig fyrir íslenskt vísindasamfélag. Matís óskar Herði innilega til hamingju.

Þegar talað er um evrópska lífhagkerfið er átt við matvælaiðnað, fóðurframleiðslu, skógrækt, sjávarútveg, landbúnað, fiskeldi og lífefnaiðnað. Ríki evrópu leggja mikið upp úr því að auka samstarf þeirra sem framleiða, hafa umsjón með og nýta lífrænar auðlindir eða stunda aðra starfsemi byggða á þeim. Er hér átt við greinar eins og matvælaframleiðslu, sjávarútveg, landbúnað, skógrækt, fiskeldi og aðrar skyldar greinar.

Mjög erfitt getur verið að varpa ljósi, með orðum, á hvað lífhagkerfi er. Gott getur því verið að grípa til mynda enda vel þekkt að mynd er á við 1000 orð.

Nánari upplýsingar um evrópska lífhagkerfi og áherslur Evrópuríkja hvað það varðar má finna m.a. á eftirfarandi vefsvæðum:

Fréttir

Nýsköpun í sjávarútvegi – norrænt samstarf

Norræna nýsköpunarmiðstöðin, Nordic Innovation, býður til ráðstefnu í Hörpu 5.-6. júní nk. til að fjalla um norrænan sjávarútveg, stöðu hans og framtíð.

Á ráðstefnunni verður m.a. fjallað um hvernig norrænn sjávarútvegur getur haldið samkeppnisforskoti sínu en einnig verður fjallað um þau 14 verekefni sem unnin hefur verið að um þessi mál undir regnhlíf norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Nordic Innovation.

Fréttir

Mikilvægi langtíma rannsókna í vöruþróun – verðmætasköpun í alþjóðlegu samhengi

Þriðjudaginn 4. júní nk. kemur hátt settur aðili innan PepsiCo til Íslands til að kynna sér matvælaframleiðslu á Íslandi, halda fyrirlestur og heimsækja samstarfsaðila sinn, Matís.

PepsiCo þarf ekki að kynna fyrir neinum enda fyrirtækið einna þekktast fyrir sjálfar Pepsí vörurnar, sem seldar eru hér á landi undir vörumerki Ölgerðarinnar. Færri vita aftur á móti að PepsiCo framleiðir, markaðssetur og selur mun fleiri vörur á heimsvísu. Innan banda PepsiCo eru vörulínur t.d. Tropicana, Quaker Oats, Frito-Lay og Gatorade. Fyrirtækið er það stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum og annað stærsta á heimsvísu, á eftir Nestlé, sem er einnig í samstarfi við Matís.

Á hverju árið eru seldar vörur frá PepsiCo að andvirði 108 milljarða dollara, rúmlega 13 þúsund milljarða íslenskra króna og því mál jóst vera að fyrirtækið er gríðarstórt og öflugt.

Þrír aðilar eru að koma til landsins frá PepsiCo en helstan ber að nefna dr. Gregory L. Yep en hann er aðstoðarforstjóri rannsókna og þróunar hjá fyrirtækinu. Það er margt hægt að læra af fyrirtæki eins og PepsiCo og verður fróðlegt að heyra sýn Dr. Yep á rannsóknir og þróun í matvælaframleiðslu á heimsvísu, þá sérstaklega núna þegar umræðan um fæðuöryggi er hávær.

Morgunverðarfundurinn fer fram á Hotel Hilton Nordica, þriðjudaginn 4. Júni kl. 08:30-10:00.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Æskilegt er að fólk skrái þátttöku sína á pepsico@matis.is

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Meistaradagur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands 2013

Dr. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís flytur erindi um Rannsóknir og raunhæfar lausnir í matvælaiðnaði og líftækni á Meistaradegi Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Í verkfræðigreinum innan Háskóla Íslands er markmiðið að flétta nýsköpun saman við framhaldsnámið. Á meistaradegi Verkfræðistofnunar verða kynnt verkefni meistaranema sem iðulega eru þátttakendur í nýsköpunarverkefnum í samstarfi við öflug fyrirtæki. Nemendur háskólans leggja þannig mikið til vöru- og samfélagsþróunar á Íslandi.

Öllum er velkomið að mæta og kynna sér uppsprettu nýsköpunar og hátæknilausna í verkfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

Meistaradagur Verkfræðistofnunar fer fram fimmtudaginn 23. maí 12:00 – 17:00 í byggingunni VR-II.Dagskrá Meistaradagsins er að finna hér.

Samstarfssamningur Matís og Listaháskóla ÍslandsHáskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning: Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækniWhitefish

Fréttir

Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi; vatn og vatnsgæði

Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi, vatn og vatnsgæði, var haldin 22. mars 2013 í tilefni af degi vatnsins en ráðstefna þessi er haldin fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna 22. mars ár hvert.

Fimm stofnanir, Umhverfisráðuneytið og Háskóli Íslands komu að undirbúningi ráðstefnunnar.

Ráðstefnan var vel sótt af fræðimönnum auk þess sem afar góður rómur var gerður að öllum erindum og kynningum sem endurspegluðu bæði metnað og fagkunnáttu þeirra sem að þeim stóðu. Í ljósi þess að takmarkaður sætafjöldi var á ráðstefnunni og komust færri að en vildu taldi skipulagsnefndin eðlilegt að bjóða þeim fræðimönnum sem héldu erindi á ráðstefnunni og sáu sér þess fært, að birta sín erindi á heimasíðu Matís. Erindin er nú hægt að nálgast hér að neðan:

Flutt voru níu erindi á ráðstefnunni og til viðbótar voru rannsóknir kynntar á 11 veggspjöldum. Í erindunum kom m.a. fram að talsvert álag er víða á grunnvatn og oft lítið hugað að því þegar framkvæmdir eru áætlaðar. Fjallað var um náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi. Fram kom að efnastyrkur í drykkjarvatni er almennt lágur. Kynntar voru mælingar á efnastyrk í náttúrlegum vatnakerfum, og náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi er yfirleitt lágt og víðast búum við afar vel hvað varðar gæði og eftirlit. Sagt var frá rannsókn á örveruflóru Elliðavatns og –áa, einnig frá vísbendingum um aukið köfnunarefni í Þingvallavatni. Rannsóknir á afrennsli ræktarlands og frá barrskógum voru kynntar, og mælingar á kvikasilfri í urriða í vötnum leiddu til mjög áhugaverðra niðurstaðna. Loks voru kynntar niðurstöður vöktunar á mengun í sjó og við strendur Íslands síðustu 20 ár. Margar aðrar áhugaverðar kynningar voru á ráðstefnunni og hvetjum við alla til að kynna sér erindin.

Fyrir hönd skipulagnefndar og vísindanefndar ráðstefnunnar viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í ráðstefnunni. Bæði þeim fræðimönnum sem lögðu ráðstefnunni lið með kynningum og erindum sem og öllum þeim einstaklingum sem mættu og kynntu sér málefnin, tóku þátt í umræðunni og gáfu henni lit og líf.

Nánari upplýsingar veitir Sophie Jensen hjá Matís.

IS