Fréttir

Þróun á verðmætu kavíarlíki

Verkefninu „Fiskiperlur“ sem unnið var í samvinnu fyrirtækisins Vignis G. Jónssonar á Akranesi og Matís og styrkt var af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi er nú að ljúka. Markmiðið var að þróa neytendavöru (kavíarlíki) í háum verðflokki,einkum á Frakklands- og Spánarmarkað.

Í verkefninu var gerð fýsileikakönnun á notkun margvíslegar hráefna og unnið að þróun að kavíar úr þangi, afskurði úr reyktum laxi, styrjukjöti og síld. Vöruþróunin hefur verið gerð í samvinnu fyrirtækisins og Matís.

Nú er tilbúin markaðshæf vara frá Vigni G. Jónssyni sem hefur nú verið reynd á Frakklandsmarkaði þar sem fyrirtækið Vignir G. Jónsson hefur sterk markaðstengsl. Varan verður seld undir merkinu PEARLS eða perlur sem er bein tenging við kavíar. Uppskriftir og framleiðsluferillinn fyrir framleiðslu síldarperla er tilbúinn og hefur verið reyndur. Fyrirtækið mun halda áfram vöruþróun á perlum úr styrjukjöti og öðrum hráefnum í framtíðinni.

Framleiðsla á slíkri vöru tífaldar verðmæti hráefnis, hefur skapað þekkingu og mun skapa fleiri störf í framtíðinni og styrkir þannig sjávarbyggðina á Akranesi.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Deilir þú húsnæði með myglusveppi?

Viltu vita hvort myglusveppur hefur búið um sig í þínu húsnæði? Matís býr yfir góðum tækjabúnaði til nákvæmra mælinga á myglugróum og öðrum örverum í andrúmslofti.

Hægt er að fá sérfræðinga Matís til að koma á staði til að taka sýni en einnig er hægt að fá tækjabúnaðinn leigðan gegn föstu daggjaldi. Matís útvegar allan ræktunarbúnað og sér um ræktun sýna. Einnig er veitt aðstoð við túlkun niðurstaðna ef þess er óskað.

Viðskipavinir geta haft samband við svið Mælinga og miðlunar til að fá nánari upplýsingar um þjónustuna og  tilboð í einstök verkefni. Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson hjá Matís.

Myglumengun í andrúmslofti – nánari upplýsingar

Einstaklingar sem búa eða starfa í myglumenguðum húsakynnum eða umhverfi geta þjást af ýmsum sjúkdómseinkennum sem lýsa sér meðal annars með þreytu, höfuðverk, einbeitingarleysi, öndunarörðuleikum, ertingu í augum og kláða í húð.  Þá getur snerting við myglusveppi haft örvandi áhrif á sjúkdóma eins og ofnæmi, astma, kvef og ýmsar aðrar sýkingar.

Helstu orsakir fyrir mygluvandamálum í heimahúsum geta verið leki frá leiðslum, þaki og vegna rakamyndunar á ýmsum stöðum. Mikilvægt er að húsnæði sé vel loftræst og ef vart verður við rök og blaut svæði þarf að grípa strax til aðgerða til að þurrka upp svæðin og koma þannig í veg fyrir mygluvöxt til frambúðar. Stundum getur verið erfitt að rekja uppruna mygluvaxtar þegar hann leynist á ýmsum óaðgengilegum stöðum eins og inn í veggjum og gluggapóstum, undir ofnum eða gólfefnum og undir eða á bakvið þung húsgögn.   
                          
Þar sem mygla nær að vaxa að einhverju ráði má búast við aukinni mengun í innilofti viðkomandi húsnæðis sem fyrst og fremst stafar af miklum fjölda myglugróa sem sveppirnir mynda og losa út í andrúmsloftið.

Myglugró í andrúmslofti eru hluti af náttúrulegri örveruflóru loftsins. Í venjulegu velloftræstu íbúðarhúsnæði er algengt að finna álíka mikið af loftbornum sveppagróum og í útilofti. Þegar sveppagró innanhúss eru meira en tífalt fleiri en úti má búast við því að sumir einstaklingar byrji að finna fyrir einhvers konar sjúkdómseinkennum eða óþægindum.

Erfitt er að setja föst heilnæmismörk fyrir magn myglugróa í andrúmslofti og ekki eru til svo vitað sé opinberar reglur fyrir íbúðahúsnæði eða skrifstofuhúsnæði er varða mygluvöxt eða hættumörk tengd sýkingahættu einstaklinga. Þar kemur til að oft er samsetning myglutegunda mjög mismunandi með mismunandi sýkingamátt og einnig eru einstaklingar mjög misnæmir fyrir sýkingum. Viðmiðunargildi sem hafa verið notuð fyrir myglumengun innanhúss taka mið af fjölda myglugróa í einum rúmmetra af andrúmslofti. Þannig hefur magn myglugróa sem er yfir  1000 í rúmmetra talið geta bent til líklegrar myglumengunar innandyra en sé magnið 100-200 í rúmmetra eða lægra bendi það til ásættanlegs ástands.

Leiðbeiningar með notkun mælitækis.

Hér á sjá nokkrar myndir frá rannsóknaferðum

Fréttir

Hver eru umhverfisáhrif íslensks matvælaiðnaðar?

Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands og Samtök iðnaðarins halda opið málþing um íslenskan matvælaiðnað, umhverfismál og vistvæna nýsköpun, laugardaginn 20. apríl kl. 13-17 í Háskólatorgi Háskóla Íslands.

Á málþinginu verður fjallað um græna hagkerfið og stefnu stjórnvalda í þeim málum. Sagt verður frá Evrópuverkefnunum Ecotrofoods (www.ecotrophelia.eu) og Converge (www.convergeproject.org) og hvernig staðið er að því að minnka umhverfisáhrif í matvælaiðnaði á Íslandi. Þá verður efnt til sýningar og kynningar á verkefnum nemenda í vistvænni nýsköpun matvæla og afhent verðlaun fyrir besta verkefnið.

Dagskrá viðburðarins í heild er eftirfarandi:

13.00-15.00        Málþing
13.00-17.00        Sýning
15.00-16.00        Verðlaunaafhending í keppni nemenda um vistvæna nýsköpun matvæla

Dagskrá málþings:

13.00-13.20        Græna hagkerfið og íslensk matvælaframleiðsla. Skúli Helgason, formaður nefndar um eflingu græns hagkerfis á Íslandi.

13.20-13.40        Umhverfismál og íslenskur matvælaiðnaður. Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins

13.40-14.00        Verðmætasköpun og áskoranir í umhverfismálum, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís

14.00-14.20        Vistvæn nýsköpun matvæla. Fanney Frisbæk, verkefnisstjóri, Efnis-, líf-, og orkutækni, Nýsköpunarmiðstöð Íslands

14.20-14.40        Hvernig er hægt að tryggja fæðuöryggi á Íslandi?   Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild  Háskóla Íslands

14.40-15.00       Umræður

Fundarstjóri:    Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri, Matís og dósent í matvælafræði við Háskóla Íslands, sem veitir nánari upplýsingar (858-5044).

Fréttir

Fölsuð vara – hvað er til ráða?

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um matvælaöryggi og fölsun matvælaupplýsinga, þar sem neytendur hafa í vissum tilfellum verið hreinlega sviknir við kaup á neysluvörum. Ráðstefna um þessi mál verður haldin þriðjudaginn 16. apríl kl. 08:30-12:30.

Oft hefur verið unnt að rannsaka svikin með aðstoð rekjanleikaupplýsinga. Oft á tíðum hafa þetta verið mál þar sem aukið gegnsæi og virkur rekjanleiki í virðiskeðju matvæla hefðu getað komið í veg fyrir svindlið eða í það minnsta lágmarkað skaðann. Neytendur vilja skiljanlega vita hvaðan vara kemur sem þeir kaupa og neyta, hvort sem um er að ræða kjöt, fisk, páskaegg eða pylsur.

Næstkomandi þriðjudag stendur Vörustjórnunarfélag Íslands fyrir fróðlegri ráðstefnu um rekjanleika og matvælaöryggi í samvinnu við GS1 Ísland, Matís og Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður leitað svara við því hvernig hægt er að bæta matvælaöryggi og koma í veg fyrir uppákomur líkar þeim sem verið hafa í umfjöllun undanfarin misseri. Fjallað verður um leiðir og lausnir til að tryggja rekjanleika matvæla og hvernig hægt er að koma upplýsingum til neytenda með nútíma tækni. Þrír erlendir sérfræðingar auk fjölda innlendra aðila sem starfa að þessum málum munu halda erindi.

Ráðstefnan verður haldin á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 16. apríl og mun standa yfir frá kl 8:30-12:30.

Hægt er að nálgast dagskrá og skrá sig á heimasíðunni www.logistics.is.

Viðtal við Svein Margeirsson, forstjóra Matís, um matvælaöryggi og rekjanleika í matvælaframleiðslu má finna á þessari slóð: www.ruv.is/neytendamal/eftirliti-med-matvaelum-abotavant

Fréttir

Breytingar hjá Matís á Akureyri

Nú um mánaðarmótin urðu þær breytingar á starfsemi Matís, á sviði efnagreininga að varnarefnamælingar á ávöxtum og grænmeti sem verið hafa á starfstöð Matís á Akureyri fluttust til Reykjavíkur.

Mikilvægt er fyrir Matís að gæta ýtrustu hagkvæmni í rekstri, án þess að það bitni á faglegum þætti þessara sérhæfðu mælinga. En með innleiðingu matvælalöggjafarinnar 2011 hafa kröfur um mælingar á þessu sviði aukist verulega.

Nú stendur fyrir dyrum uppbygging tækjabúnaðar til varnarefnamælinga sem Matís hefur fjármagnað með styrkumsóknum, en til að mögulegt sé að reka slíkan tækjabúnað er nauðsynlegt að öll sérfræðiþekking nýtist sem best. Því hefur verið ákveðið að safna sérfræðiþekkingu og tækjum á sviði efnagreininga saman á einn stað í Reykjavík. Þessi breyting er því fyrst og fremst gerð með það í huga bæta gæði og þjónustu Matís til fyrirtækja og eftirlitsaðila vegna varnarefnamælinganna.

Hvað eru varnarefni?

Varnarefni eru efni eins og skordýraeitur, illgresiseyðar, sveppaeitur og ýmis stýriefni sem notuð eru við framleiðslu og/eða geymslu á ávöxtum og grænmeti. Sum þessara efna geta haft víðtæk heilsuspillandi áhrif á lífverur þ.m.t. mannfólkið. Því eru mælingar á þessum efnum mjög mikilvægar til að tryggja öryggi neytenda.

Frekari upplýsingar fást hjá Vordísi Baldursdóttur hjá Matís.

Fréttir

MPF og Matís þróa tofu úr þorskhryggjamarningi

Matís hefur ásamt fyrirtækinu MPF Ísland í Grindavík þróað nýja afurð – fiskitofu. Við vinnsluna er notaður marningur sem í dag er nýttur í verðminni afurðir. Afurðin var kynnt á fundi Sjávarklasans vegna verkefnisins Green Marine Technology. Var góður rómur gerður af hinni nýju afurð og má á myndunum meðal annars sjá forseta Íslands gæða sér á fiskitofu framleiddu af Matís.

Þróun á fisktofu hefur verið styrkt af Impru í verkefni sem nú er að ljúka. Næstu skref fela í sér áframhaldandi þróun, uppskölun og markaðssetningu á hinni nýju afurð og hefur fengist styrkur frá AVS til að koma að því verkefni.

Nánari upplýsingar veitir Hörður G. Kristinsson hjá Matís.

Fréttir

Kynningarfundur á meistaranámi í matvælafræði

Alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands og Matís. Kynning og viðtöl við áhugasama verða í stofu HT-300 á Háskólatorgi föstudaginn 12. apríl kl. 14–16.

Nánar um námið hér: www.framtidarnam.is

Auglýsing um kynninguna má finna hér: Kynning HÍ og Matís.

Allir velkomnir!

Fréttir

Örverur í hafinu umhverfis Ísland

Undanfarin misseri hefur Matís, í góðu samstarfi við Hafrannsóknarstofnunina, staðið að rannsóknum á örverum í hafinu umhverfis Ísland.

Þetta er í fyrsta sinn sem slík rannsókn fer fram en markmiðið er að skoða bæði fjölda mismunandi örveruhópa og fjölbreytileika á mismunandi hafsvæðum og dýptum. Í framtíðinni er hugsunin sú að hægt verði að fylgjast með framvindu og breytingu á örverusamsetningu milli ára sem getur hjálpað til við að meta áhrif loftslagsbreytinga á lífkerfið og frumframleiðslu þess.  Hafa ber í huga að heilbrigði örverusamfélagsins er skilyrði fyrir því að líf í efri lögum fæðukeðjunnar þrífist og því er mikilvægt efnahagslega og umhverfislega að afla frekari þekkingar á þessu sviði.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita Eyjólfur Reynisson og Viggó Þór Marteinsson hjá Matís.

Fréttir

Örugg matvæli?

Þriðjudaginn 16. apríl stendur Vörustjórnunarfélag Íslands fyrir ráðstefnu um rekjanleika og matvælaöryggi. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Valur N. Gunnlaugsson frá Matís halda erindi en auk þess mun Sveinn stjórna fundi.

Á ráðstefnunni verður leitað svara við því hvernig hægt er að tryggja aukið öryggi í matvælaframleiðslu og koma í veg fyrir uppákomur líkar þeim sem verið hafa í umfjöllun á nýliðnum vikum. Meðal annars verða ræddar leiðir og lausnir til að tryggja öryggi neytenda varðandi upplýsingar um uppruna hráefna í matvörum.

Ráðstefnan er haldin í samvinnu við GS1 Ísland, Matís og Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.

Þrír erlendir og sjö innlendir sérfræðingar með reynslu úr aðfangakeðju matvæla og af matvælaöryggi munu halda erindi á ráðstefnunni sem haldin verður á Grand Hótel Reykjavík, Gullteig, frá kl. 8:30 til 12:20.  

Almennt verð kr. 12.900 kr., verð fyrir nema kr. 3.900 kr.

Fréttir

Búið að draga út vinningshafa í fiskneyslukönnun Matís

Hér með tilkynnum við vinningshafa í fiskneyslukönnun Matís.

Um leið og við þökkum öllum sem tóku þátt í fiskneyslukönnuninni, tilkynnum við hér með úrslitin úr útdrættinum.

Vinningshafar eru eftirfarandi:

Vinningshafi nr.1: 84a53

Vinningshafi nr.2: yjei5

Vinningshafi nr.3: 35317

Hægt er að hafa samband við Gunnþórunni Einarsdóttur, gunna@matis.is, til að nálgast gjafabréfin.

IS