Fréttir

Norræn ráðstefna um neytendur og skynmat

Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur sem fjalla um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Matís tekið þátt í undirbúningi þeirra.

Næsta ráðstefna sem er sú 15. í röðinni verður haldin í Helsinki  dagana 22.-23. maí 2013 og ber hún yfirskriftina „Nýjungar í skynmati og hvernig á að ná til mismunandi neytendahópa (Novel sensory approaches and Targeting different consumer groups).

Ráðstefnan er bæði ætluð fagfólki í matvælaiðnaði og vísindafólki á þessu sviði.  Áhugi og þátttaka fólks úr bæði stórum og smáum matvælafyrirtækjum á að sækja þessar ráðstefnur hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, enda um kjörinn vettvang að ræða fyrir iðnaðinn og vísindafólk til að hittast og koma sér upp samskiptaneti á þessu sviði. Búist er við um 100 manns, aðallega frá Norðurlöndunum.

Efni ráðstefnunnar að þessu sinni eru nýjungar í skynmati og hvernig eigi að ná til mismunandi neytendahópa eins og barna, eldra fólk og þeirra sem eru heilsuþenkjandi.   Emilía Martinsdóttir, fagstjóri Matís er í undirbúnings- og vísindanefnd ráðstefnunnar. Hún mun halda erindi á ráðstefnunni sem byggt er á niðurstöðum úr norræna verkefninu Auðgun sjávarrétta og er m.a unnið í samstarfi við fyrirtækið Grím kokk.  Dr. Kolbrún Sveinsdóttir, fagstjóri á Matís  mun halda erindi um fiskneyslu ungs fólks og hvernig megi auka hana. Á ráðstefnunni verða líka nokkur erindi um matvöru sem höfðar til eldra fólks en áhugi á því málefni fer mjög vaxandi á Norðurlöndum og í Evrópu.  

Skráning fer fram til 19. apríl. Ráðstefnugjaldið er lægra ef bókað er fyrir 31. janúar 2013.  Fólk í matvælaiðnaði hér á landi og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst. 

Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Matís og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Matís  hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum varðandi skynmat og gæði matvæla og haldið margvísleg námskeið í skynmati fyrir starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og annarra matvælafyrirtækja. Starfsfólk Matís hefur einnig sinnt kennslu í skynmati og neytendafræði við Matvælafræði- og næringarfræðideild  Háskóla Íslands og í Sjávarútvegsfræði  við Háskólann á Akureyri. Einnig kennir starfsfólk Matís skynmat við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Til mikils að vinna í líftæknirannsóknum

„Líftæknismiðja Matís á Sauðárkróki gegnir mikilvægu hlutverki í líftæknirannsóknum. Hugtakinu líftækni bregður æ oftar fyrir í umræðu um nýsköpun í atvinnulífinu og nú þegar hefur verið sýnt fram á árangur í rannsóknaverkefnum á líftæknisviði sem skilað hafa verðmætum lífvirkum efnum, bæði til vöruframleiðslu hér innanlands og útflutnings,“ segir dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís.

Dæmi um þetta eru húðvörurnar UNA sem byggjast á lífvirkni efna úr bóluþangi sem á uppruna sinn m.a. í Breiðafirði. Hluti rannsókna á bóluþanginu fór fram í Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki en vörurnar eru framleiddar í Reykjavík og því má segja að allt þróunar- og framleiðsluferlið sé með snertifleti á stórum hluta landsins.

Líftæknismiðja Matís er staðsett í einu af öflugustu matvælavinnsluhéruðum landsins, Skagafirði. Þar starfar hún við hlið fyrirtækja í sjávarafurðaframleiðslu, kjöt- og mjólkuriðnaði sem hafa nýtt sér nálægðina í samstarfi um rannsóknarverkefni. Sem dæmi þar um má nefna verkefni fyrir FISK Seafood sem miðar að auknum rekjanleika sjávarafurða fyrirtækisins. Matís á Sauðárkróki hefur einnig umtalsvert samstarf við Háskólann á Hólum og þannig fæst betri nýting á bæði rannsóknaraðstöðu og aukinn sameiginlegur þekkingargrunnur á svæðinu.

„Mikil verðmæti eru fólgin í lífvirkni efna. Í rannsóknum í Líftæknismiðjunni er kastljósinu meðal annars beint að jákvæðum áhrifum fiskpróteina á blóðþrýsting og jákvæðum áhrifum efna unnum úr þangi og sæbjúgum á blóðsykur. Þegar sýnt hefur verið fram á þessa lífvirkni með rannsóknum margfaldast verðmæti lífvirku efnanna. Til mikils er því að vinna,“ segir Hólmfríður.

Fréttir

Dýrmætt og árangursríkt samstarf við Marel

Marel hefur lengi verið lykilaðili í fiskvinnslukeðjunni á Íslandi með sinn tæknibúnað þar sem lögð er áhersla á hráefnisgæði og vinnsluhraða. Samstarf Matís við Marel er mikið og báðir aðilar hafa verulegan hag af því.

„Innan Marel hefur byggst upp mikil og dýrmæt þekking á vinnslutækni í matvælaiðnaði, ekki síst í sjávarútvegi,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands.

Samstarf hefur verið milli Matís og Marel um margra ára skeið og til að mynda eru nú tveir af nemendum Sigurjóns í starfi hjá fyrirtækinu en voru áður starfsmenn Matís. Báðir störfuðu þeir að verkefnum tengdum fiskvinnslufyrirtækjum í vinnu sinni hjá Matís og segir Sigurjón að dýrmætt sé að þekking þeirra nýtist í tækniþróun innan Marel.

„Samstarf milli okkar er fyrst og fremst verkefnatengt og frá Matís leggjum við inn í þróunina rannsóknagetu okkar og þekkingu á hráefni og áhrifum vinnslunnar á það. Grundvallaratriði er að litið sé á fiskvinnsluferilinn allan, allt frá veiðum til neytandans enda er ekki hægt að búa til góðar fiskafurðir ef gæði hráefnisins er ekki til staðar. Tæknin getur aldrei bætt upp slakt hráefni,“ segir Sigurjón.

„Á undanförnum árum hefur rannsóknarfólkið æ meira komið að þróuninni, bæði þróun tæknilausnanna líkt og hjá Marel og rannsóknum inni á gólfi hjá vinnslufyrirtækjunum. Enda segjum við stundum að þar séu okkar bestu tilraunasalir í rannsóknarvinnunni. Þar getum við prófað okkur áfram, gert okkar mælingar og nýtt okkur niðurstöðurnar jafnóðum og þær verða til. Matís er því mjög mikilvægt að geta unnið við hlið fyrirtækja á borð við Marel og aukið um leið tengsl okkar og samvinnu við fiskvinnslufyrirtækin. Það er íslenskum fiskiðnaði til framdráttar.

Rannsóknarvinnan snýst í dag æ meira um þróun á vinnsluferlunum í heild og þar af leiðandi horfum við til hráefnismeðferðarinnar úti á sjó, jafnt sem þátta sem snerta flutning afurða á markað, pökkun afurða og svo framvegis. Í vinnslunni sjálfri er horft til samþættingar tæknibúnaðarins og þegar frá líður getur sú þróun leitt af sér breytingar sem í framtíðinni verður talað um sem byltingu. Markmiðið er að búa til enn betri afurðir – ennþá meira verðmæti úr því sem auðlindin gefur,“ segir Sigurjón Arason.

Fréttir

Efling menntunar og starfsþjálfunar í matvælaframleiðslu

„Með stofnun sviðs um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson um hið nýja svið menntunar og matvælaframleiðslu sem tók til starfa innan Matís þann 1. júní 2012.

Styrkir bæði Matís og matvælafyrirtækin
Guðjón segir að með samstarfi við menntastofnanir og starfsþjálfun sé Matís að fylgja eftir áherslum á rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis. 

„Önnur aðalástæða samstarfsins er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Hin ástæðan, og sú sem skiptir Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, er á fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að hafa fengið fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi,“ segir Guðjón.

Kennsluþátturinn þegar orðinn umfangsmikill
Þrátt fyrir að kennsla, starfsfræðsla og leiðsögn nemenda í rannsóknanámi hafi til þessa ekki verið á föstu og skipulögðu formi sem svið innan Matís segir Guðjón umfang þessara þátta mjög mikið.

„Starfmenn Matís kenna á um 25 námskeiðum í grunn- og framhaldsnámi og hafa umsjón með flestum þeirra. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið. Við erum í góðu samstarfi og með sameiginlega starfsmenn með Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Samstarfið við Háskóla Íslands er mest við matvæla- og næringarfræðideild en einnig mikið við verkfræði- og náttúruvísindasvið og félagsvísindasvið. Matís vinnur mikið með viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri og þá helst í fiskeldi og sjávarútvegsfræðum. Vegna fyrri starfa og rannsókna hef ég mikinn hug á að endurvekja og efla samstarfið við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá eru Háskólinn á Hólum og Matís í sameiginlegu húsnæði í Verinu á Sauðárkróki og vinna saman að mörgum verkefnum.

Allir þessir aðilar hafa unnið að verkefni við að koma á alþjóðlegu meistaranámi í matvælafræðum í tengslum við matvælaiðnaðinn í landinu. Þetta nám hefur verið leitt af Matís og HÍ og hófu 12 nemendur námið í haust,“ segir Guðjón en stærstur hluti kennslunnar er hjá Matís í Reykjavík en kennsla fer einnig fram á Akureyri. Í tengslum við námið voru tveir sérfræðingar Matís, þau Hörður G. Kristinsson og Helga Gunnlaugsdóttir, skipuð gestaprófessorar við Háskóla Íslands.

„Ég hef fulla trú á að alþjóðlega meistaranámið eflist og verði mjög áberandi á næstu árum. Samstarf um aðrar greinar verður líka eflt. Verkefni okkar verður líka að tengja iðnnám, tæknifræðinám og annað háskólanám sem tengist matvælum við atvinnulífið. Einnig þurfum við að vinna að eflingu starfsnáms/starfsendurhæfingar tengdu matvælum með áherslu á smáframleiðslu matvæla og samstarf við Beint frá býli,“ segir Guðjón Þorkelsson sviðstjóri hjá Matís.

Fréttir

Vöxtur í víðum skilningi

Þegar nýtt ár gengur í garð er ekki úr vegi að líta til ársins sem nú er að ljúka. Sveinn Margeirsson fer hér yfir árið 2012 í starfssemi Matís en vöxtur einkenndi öðru fremur starfsemi fyrirtækisins á árinu.

Vöxturinn birtist á mörgum sviðum, bæði sem stærsta ár í sögu fyrirtækisins hvað veltu varðar en ekki síst í víðtækari verkefnaþátttöku Matís bæði erlendis og ekki síður innanlands.Starfsmönnum hefur einnig farið fjölgandi og þekkingargrunnur vaxið. Allt gerist þetta á þrengingartímum í efnahagslífinu og segir mikið um styrk fyrirtækisins og starfsmanna þess.

Matís er á margan hátt í takti við sókn matvælavinnslu á Íslandi og mikilvægi virðiskeðjunnar hefur æ betur komið í ljós. Verðmætasköpunin er á þann hátt í mörgum hlekkjum keðjunnar; hún verður í þróun, framleiðslu og ekki síður markaðssetningu. Styrkleiki Matís liggur einmitt í aðkomu þekkingar að hinum ýmsu hlutum virðiskeðjunnar, við styðjum matvælaframleiðsluna í sinni uppbyggingu um leið og við rækjum hlutverk okkar hvað varðar matvælaöryggi og eftirlit. Neytendur þurfa að hafa tiltrú og traust á framleiðsluvörunum.

Erlendar tekjur Matís nema nú hátt í 25% af ársveltu og hafa þær aldrei verið hærra hlutfall. Það endurspeglar árangur okkar í erlendum verkefnum, stöðu og styrk Matís í alþjóðlegu rannsóknarumhverfi. Við höfum einnig aukið þátttöku í innlendum verkefnum og þétt net Matís á landsvísu. Á árinu 2012 opnaði fyrirtækið tvær nýjar starfsstöðvar, á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Þær hafa að leiðarljósi verðmætasköpun á þessum svæðum með sérstaka áherslu á Breiðafjörðinn þar sem er að finna miklar auðlindir í matvæla- og líftækni. Í Breiðafirðinum er mikið magn þörunga sem líftæknirannsóknir okkar hafa sýnt að vinna má úr dýrmætar afurðir en samhliða nýsköpuninni getur Matís hjálpað til við að samtvinna þessar nýju áherslur við þá matvælaframleiðslu sem fyrir er á svæðinu. Lykilatriðið er að vinna eftir því leiðarljósi sem tryggir sem mesta verðmætasköpun.

Matvælaframleiðsla á Íslandi fer fram að stórum hluta utan höfuðborgarsvæðisins og við höfum góða reynslu af rekstri starfsstöðva út um landið til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn. Þrátt fyrir að uppbyggingu starfsstöðvanna fylgi umtalsverður kostnaður þá teljum við engu að síður mikil verðmæti fólgin í þessu neti. Við höfum lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknafyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar.

Neytendur þurfa að geta treyst á öryggi matvælaframleiðslu. Þeir þurfa líka að geta treyst því að þeim takmörkuðu fjármunum sem veitt er til rannsókna- og þróunarstarfsemi sé varið til viðgangs og vaxtar fyrir íslenskt samfélag. Þar tel ég að starfsmönnum Matís hafi tekist vel til – líkt og vöxtur fyrirtækisins á árinu 2012 staðfestir.

Fréttir

Jólamarkaður með matvæli á Höfn

Mjög vinsæll jólamarkaður með matvæli og handverk hefur verið haldin á Höfn í Hornafirði í desembermánuði undanfarin misseri.

Þeir aðilar sem að markaðnum standa eru Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Ríki Vatnajökuls. Á markaðnum er á boðstólnum mikið af matvöru sem framleidd er í héraðinu svo sem þurrkað ærkjöt úr öræfum, heitreyktur makríll, reyktar svínaafurðir frá Miðskersbúinu, grænmetisafurðir frá Hólabrekku, heitreyktur áll, sjávarfang frá Skinney Þinganes, ís úr Árbæ, birkisalt og fleira. Markaðurinn verður opinn laugardagana 15. og 22. des næstkomandi  frá kl. 13:00 -16:00.

Jólamarkaðurinn er útimarkaður og er haldin í sölubásum sem smíðaðir voru í sumar. Mikið var vandað við smíði básana þar sem var lagt upp með að þeir myndu líta út eins og hákarlahjallar sem gerir það að verkum að markaðurinn hefur mjög íslenskt og gamaldags yfirbragð. Boðið er upp á ýmsa viðburði á markaðnum svo sem kórsöng og fl. til þess að skapa ekta Hornfirska jólastemmingu. Góð ásókn hefur verið á markaðinn og bera matvælaframleiðendur sem selja matvæli á markaðnum sig vel, enda hefur fólk verið að koma frá austurlandi á markaðinn til þess að ná sér í gómsæt matvæli sem framleidd eru í héraðinu í hátíðarmatinn.

Jólamarkaður Höfn 2012

Nánari upplýsingar veitir Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson hjá Matís.

Fréttir

Sjávarþörungar eru vannýtt auðlind á Íslandi

„Íslenskir sjávarþörungarnir eru vannýtt auðlind að minnsta kosti hér á Íslandi, en það er ýmislegt í gangi sem tengist þörungum og þeir koma víða við í okkar rannsóknum,“ segir Jón Trausti Kárason sérfræðingur en hann er einn þeirra sem tengjast þörungarannsóknum hjá Matís.

Jón Trausti segir að um átta vísindamenn hjá Matís starfi öðrum fremur að þörungarannsóknum þótt fleiri tengist þeim verkefnum með einum eða öðrum hætti. Meðal nýlegra afurða sem byggja á þörungarannsóknum vísindamanna Matís eru húðvörur sem sprotafyrirtækið Marinox hefur sett á markað en þær innihalda lífvirk andoxunarefni sem eru unnin úr þangi og þykja sérstaklega góð fyrir húðina.

Af öðrum afurðum sem eru væntanlegar á markað innan tíðar nefnir Jón Trausti meðal annars þörungaskyr og byggpasta sem er bætt með þörungum. „Reyndar var það hópur nemenda sem var hjá okkur í fyrrasumar sem byrjaði þróun þörungaskyrsins og afurðin keppti fyrir Íslands hönd í Ecotrophelia, sem er nemendakeppni með vistvæna nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þetta gekk það vel að þróunarvinnunni var haldið áfram og núna er þörungaskyrið að koma. Hér er á ferðinni matvara sem er skyr og þaramjöl í grunninn en bragðbætt með bláberjum og hunangi,“ segir Jón Trausti.

Jón Trausti, ásamt fleirum hjá Matís, er fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Hann kom til Matís áður en hann lauk námi, þá í verkefnum tengdum námi sínu. Í kjölfarið sköpuðust svo tækifæri, þar sem bilið á milli iðnaðarins og vísindasamfélagsins var brúað með og er Jón Trausti, ásamt öðrum starfsmönnum Matís, mikilvægur hlekkur í þeirri virðiskeðju. Fyrir ungu kynslóðina er það spennandi verkefni að vera í miðju hringiðu matvælaframleiðslu á Íslandi en þó með stóran snertiflöt við menntakerfið. Hugsjón þessarar ungu kynslóðar er háleit og spennandi. Hún er m.a. að efla stöðu Íslands sem matvælaframleiðsluþjóðar en breytingar í umhverfinu hafa skapað aðstæður sem gera það að verkum að við Íslendingar sjáum tækifæri til stórsóknar í framleiðslu úr hráefnum sem e.t.v. hefur ekki verið litið til í áratugi.

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason hjá Matís.

Fréttir

Hráefnisnýting langbest á Íslandi

Þetta kom fram í erindi Hauks Más Gestssonar hagfræðings, sem starfar innan Sjávarklasans, á Sjávarútvegsráðstefnunni í Reykjavík á dögunum og einnig er stutt síðan Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís gerði þessu góð skil í fréttum Stöðvar 2.

Nýting þorsks í ríkjunum við Norður-Atlantshaf er áberandi best á íslandi eða 76% á meðan hún er 50% í Færeyjum, 45% í Kanada og 43% á Grænlandi. „Ég tel helstu ástæðu betri nýtingar hér vera meiri nýtingu á aukaafurðum og þar má eflaust þakka bæði regluverkinu og góðu samstarfi fyrirtækja við Matís en góð flakanýting spilar ugglaust inn í líka. Lifrin er gott dæmi um afurð sem er vel nýtt hér á landi. Megnið af henni fer í lýsi auk þess sem hún er soðin niður. Hrogn eru einnig nýtt.

Nýtingin að aukast
Sama er að segja um hausa og beingarða. Nær allir þorskhausar sem koma hér á land fara til þurrkunar og sömuleiðis vaxandi hluti af þorskhausum sem til fellur á frystitogurum. Þessar afurðir eru seldar til Nígeríu. Af meðfylgjandi línuriti má ætla að nýtingin hafi versnað hér á landi frá 2009. Haukur segir að svo þurfi ekki að vera. „Það verður að fara varlega í að bera saman nýtinguna milli einstakra ára. Vara sem er til dæmis framleidd árið 2009 kemur stundum ekki fram í  útflutningstölum fyrir árið á eftir. Það er því meira vit í að skoða línuritið yfir lengri tímabil og samkvæmt því er nýtingin að aukast. Aftur á móti má lesa af skýringarmyndinni að nýting í hinum löndunum hefur heldur verið á niðurleið. Ég hef enga skýringu á því.“

Norðmenn öflugir

Að sögn Hauks hafði hann ekki nægilega góð gögn til að hafa Noreg með í þessum samanburði. „Norðmenn hafa skoðað þetta sjálfir og samkvæmt því er nýtingin hjá þeim um 41% en þar sem þar var notuð önnur aðferð en ég notaði ber að fara varlega í að bera þessar tölur saman. Norðmenn eru öflugri en flestar aðrar þjóðir í að kanna tækifærin í aukaafurðum, til dæmis með útflutning á hrognum og sviljum til Asíu. Þar voru sérstök samtök stofnuð, RUBIN, sem fengu mikið fjármagn til að rannsaka aukaafurðir en þessa stofnun er reyndar nýbúið að leggja niður í dag.“

Innyfli og hausar nýtast illa
„Ég tel að íslendingar eigi að geta stigið skrefinu lengra til betri nýtingar á til dæmis slógi, hausum og beingörðum og hámarka virði þess. Hausinn er milli 20 og 30% af hverjum fiski og samkvæmt könnun Matís er ekki nema lítill hluti hausanna nýttur ef þorskurinn er frátalinn,“ segir Haukur Már Gestsson að lokum.

Ofangreind frétt birtis fyrst í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2012. Pistlahöfundur er Vilmundur Hansens, vilmundur(at)fiskifrettir.is.


Hér má finna fréttir Stöðvar 2 frá 19. október sl. Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða miðar að aukinni verðmætasköpun

Staðsetning starfstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi.

Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur hjá Matís segir að meðal algengustu viðfangsefna fyrirtækisins sé þátttaka í vöruþróun og skipulagi verkferla hjá matvælafyrirtækjum. „Helsta leiðarljós Matís er að auka gæði, verðmæti, hollustu og öryggi framleiðslunnar og efla þannig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi og stuðla að betri lýðheilsu.“

Tíu starfsstöðvar

„Meginaðsetur Matís er í Reykjavík en þar að auki eru starfræktar níu starfsstöðvar um allt land. Starfsemin er margvísleg en með sérstakri áherslu á samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. Starfsmannafjöldi Matís er um eitthundrað og innan þess hóps eru margir af helstu sérfræðingum landsins í matvæla- og líftækni auk fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknatengdu nám.“

Páll Gunnar segir að mörg verkefnin séu smá og afmörkuð og eigi því  ekki möguleika á styrkjum hjá samkeppnissjóðunum auk þess sem umsóknafrestur og afgreiðslutími sjóða getur verið það langur að verkefnin lognast út af meðan beðið er..

Nauðsynlegt að bregðast hratt við

„Öflun sjávarfangs er háð árstíðum og ef ekki tekst að koma verkefni í gang á tilteknum tíma getur biðtími orðið langur. Það er því mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við og hefja vinnu strax við mikilvægar verkefnahugmyndir sem vakna.

Undanfarin ár hefur Mátís lagt ríka áherslu á samstarf við einstaklinga og fyrirtæki sem eru að leita leiða til að auka verðmæti eða eru að undirbúa vinnslu nýrra afurða.

Vegna þessa settum við á laggirnar verkefnið Vöruþróunarsetur sjávarafurða með stuðningi Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Innan þess er unnið að fjölbreyttum vöruþróunarverkefnum á sviði sjávarútvegs út um allt land.  Verkefninu er ætlað að mæta þörf íslensks sjávarútvegs fyrir vöruþróun og frekari fullvinnslu. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfseminni hefur mikilvægi þess að geta brugðist við óskum fyrirtækja og einstaklinga um aðstoð við vöruþróun aukist,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Tökum vel á móti öllum

Páll Gunnar segir að verkefni sem rati inn á borð hjá Matís séu oftar en ekki komin frá fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni og hefur efling starfsemi Matís á landsbyggðinni haft mikil áhrif þar á.

„Við tökum sem sagt vel á móti öllum sem hafa góða hugmynd að vöruþróun eða þurfa aðstoð við að koma hugmynd sinni í rétta búning og við getum hafist handa mun fyrr en ef við þyrftum að reyna fjármögnun í gegnum hið hefðbundna sjóðakerfi.

Á þessum tveimur árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur Matís komið að ríflega 50 verkefnum og hafa sum þeirra  þegar skilað vörum og nýrri starfsemi. Má þar nefna afurðir byggðar á þara eins og þaraskyr og  smyrsl. Sem stendur er unnið að þróun fæðubótarefna úr þara, byggþarapasta, reykingu á ufsa, olíu unninni úr humar, heilsusnakki úr sjávarfangi, bættri nýtingu grásleppu, leiðbeiningum fyrir fólk sem búa vill til sinn eigin saltfisk, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Páll Gunnar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson.

Fréttir

Myndbönd um starfsstöðvar Matís

Myndbönd frá nokkrum starfsstöðvum Matís hafa nú verið framleidd. Myndböndin eru um 4 mínútur hvert að lengd og þar er margt merkilegt að sjá og heyra.

Ólafur Rögnvaldsson hjá Axfilms ehf. átti veg og vanda að framleiðslu þessara myndbanda.

Myndböndin, bæði á íslensku og ensku, má finna hér.

IS