Fréttir

Íslenskt sjávarfang beint í andlitið!

Sprotafyrirtækið Marinox framleiðir nú húðkrem eftir áralanga rannsókna- og þróunarvinnu á efnum sem finna má í íslenskum sjávarþörungum og innihalda mjög mikla líf- og andoxunarvirkni.

UNA skincare eru háþróuð íslensk húðkrem sem eru nýkomin á markað. Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Marinox, sem er að hluta til í eigu Matís, framleiðir þessi krem eftir áralanga rannsókna- og þróunarvinnu. Um er að ræða bæði endurnærandi dagkrem og uppbyggjandi næturkrem sem innihalda þessi einstöku lífvirku efni.

Sjávarþörungar eru mjög vannýtt auðlind á Íslandi, en þeir innihalda aragrúa af heilsusamlegum lífefnum sem hægt er að nýta í margvíslegar afurðir. Fyrirtækið Marinox hefur þróað náttúrulega aðferð til að einangra og framleiða virk efni úr þessari einstöku íslensku auðlind og þar með tryggja hámarksvirkni þeirra. Rannsóknir sýna fram á mjög jákvæð áhrif náttúrulegra efna úr sjávarþörungum á húðina. Lífvirku þörungaefnin í UNA skincare kremunum innihalda m.a. mikið af mjög öflugum náttúrulegum andoxunarefnum, lífvirkum fjölsykrum, amínósýrum, vítamínum og steinefnum. Þessi efni m.a. berjast gegn frjálsum hvarfeindum (e. free radicals) og húðöldrun, draga úr bólgum og roða, auk þess að bæta teygjanleika húðarinnar og veita henni raka.

Samspil hafs og vísinda hjálpar þannig til við að varðveita náttúrulega fegurð húðarinnar!

UNA kremin innihalda einnig önnur öflug virk efni sem koma í veg fyrir og draga úr fínum línum og hrukkum, auk þess að endurnæra og byggja upp húðina. Kremin, sem innihalda hátt magn náttúrulegra og lífrænna innihaldsefna, eru án litarefna, ilmefna og parabenefna. Umfangsmiklar neytendaprófanir hafa átt sér stað þar sem yfir 90 konur prófuðu kremin. Sýndu þessar prófanir fram á framúrskarandi árangur kremanna. Meirihluti þeirra sem tóku þátt í langtímaprófi á snyrtivörunum sáu marktækan jákvæðan mun á húð sinni og minnkun á fínum línum og hrukkum. Yfir 90% þeirra sem tóku þátt myndu hiklaust mæla með kreminu við aðra. UNA skincare kremin eru komin í sölu á 32 útsölustöðum út um allt land. Frekari upplýsingar um þessi einstöku krem má finna á www.unaskincare.com.

Marinox er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki til húsa að Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík. Rannsókna- og þróunarvinna lífvirku efnanna og kremanna hefur farið fram í náinni samvinnu við Matís í Reykjavík og á Sauðárkróki.

Nánari upplýsingar veitir dr. Hörður G. Kristinsson, framkvæmdastjóri Marinox (hordur@unaskincare.com eða 858-5063).

UNA skincare

Fréttir

Nemendur í líftækninámi útskrifast frá Háskólanum á Akureyri

Fyrir stuttu vörðu nokkrir nemendur í auðlindafræði, með áherslu á líftækni, ritgerðir sínar við Háskólann á Akureyri en líftæknin er einmitt ein þeirra greina sem gætu skapað þjóðarbúinu umtalsverðar tekjur um ókomna tíð.

Þessir nemendur eiga að það sameiginlegt að hafa allar notið leiðsagnar starfsmanna Matís. Nemendurnir eru:

  • Guðný Helga Kristjánsdóttir. Verkefnið „Mælingar á astaxanthin og næringarefnum úr frárennslisvökva kítósanvinnslu“. Unnið í samstarfi við Primex (lokað verkefni) – leiðbeinandi var Rannveig Björnsdóttir hjá Matís.
  • Hanna Rún Jóhannesdóttir. Verkefnið „Samband hreinleika nautgripa á fæti og örveruflóru á yfirborði skrokkanna“. Unnið í samstarfi við Norðlenska (lokað verkefni) – leiðbeinandi var Rannveig Björnsdóttir hjá Matís.
  • Guðrún Kristín Eiríksdóttir:  Verkefnið „Áhrif hitastigs á tjáningu próteina í bleikjuhjörtum. Greint með próteinmengjagreiningu“. Unnið í samstarfi við Háskólann á Hólum (opið verkefni) – leiðbeinandi var Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís.

Nánari upplýsingar veita Hólmfríður og Rannveig hjá Matís.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 2012

Næsta sjávarútvegsráðstefna verður haldin á Grand Hótel, dagana 8.-9. nóvember. Hér er um að ræða þriðju ráðstefnu Sjávarútvegsráðstefnunnar ehf. og hefur hún fengið heitið Horft til framtíðar.

Málstofur
Málstofum hefur verið gefið eftirfarandi vinnuheiti:
– Íslenskur sjávarútvegur
– Eiga Íslendingar að vera með sameiginlegt markaðsstarf?
– Framtíðartækifæri í fiskeldi
– Allt  hráefni á land?
– Er framtíð í fullvinnslu á Íslandi?
– Heimsframboð á samkeppnistegundum Íslendinga
– Heimsframboð samkeppnistegunda í uppsjávarfiski
– Sjávarútvegsstefna Íslands og ESB
 
Endanlegt heiti málstofa á eflaust eftir að breytast, án þess þó að breyting verði gerð á efnistökum. Við stefnum að því að dagskrá Sjávarútvegsráðstefnunnar 2012 verði komin á vef hennar í júní.Ráðstefnuráð

Stjórn félagsins er ráðstefnuráð og ákveður efnistök á ráðstefnunni og sér um að velja fyrirlesara. Eftirtaldir sitja nú í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar:
Kristján Hjaltason, formaður
Anna Kristín Daníelsdóttir
Finnbogi Alfreðsson
Hjörtur Gíslason
Lúðvík Börkur Jónsson
Inga Jóna Friðgeirsdóttir

Fréttir

Meistaravörn í fiskeldislíftækni

Fimmtudaginn 28. júní mun Hugrún Lísa Heimisdóttir verja meistararitgerð sína á sviði líftækni við auðlindadeild HA. Vörnin byrjar kl. 10:00 og verður í stofu R312 á Borgum. Tveir starfsmenn Matís voru leiðbeinendur Hugrúnar í náminu.

Heiti ritgerðar Hugrúnar Lísu er „Effects of fish protein hydrolysate-enhanced live prey on cod (Gadus morhua L.) larval development: Protein expression and stimulation of selected innate immune parameters“

Í ritgerðinni fjallar Hugrún Lísa um áhrif fæðudýra sem auðguð voru með fiskpeptíðum á vöxt og þroska þorsklirfa. Í rannsóknum sínum notaði Hugrún Lísa tvenns konar aðferðir. Í fyrsta lagi beitti hún ónæmisvefjalitun til að meta áhrif peptíðbættu fæðudýranna á lykilþætti í ósérhæfðri ónæmissvörun þorsklirfanna. Í öðru lagi beitti Hugrún Lísa prótínmengjagreiningu með tvívíðum rafdrætti og kennigreiningu prótína með tvímassagreiningu til að rannsaka áhrif peptíðbættu fæðudýranna á prótíntjáningu í meltingarvegi lirfanna, en prótínmengjagreining á meltingarvegi þorsks hefur ekki verið reynd áður svo vitað sé og gefa niðurstöður til kynna að þessi aðferðafræði geti hentað til rannsókna á svörun þorsklirfa við breytingum á fóðursamsetningu. Ónæmisvefjalitunin gaf jafnframt til kynna að auðgun fæðudýra með fiskpeptíðum stuðli að sterkbyggðari vefjalögum og hafi þannig jákvæð áhrif á þroskun þorsklirfa.

Hugrún Lísa lauk bakkalárprófi (B.Sc.) í líftækni frá auðlindadeild HA vorið 2010. Hún hefur unnið rannsóknavinnu sína og ritgerð undanfarin tvö ár og hefur hlotið til þess styrki frá Rannsóknasjóði HA, Matís ohf. og Iceprotein Ltd.

Leiðbeinendur Hugrúnar Lísu eru dr. Oddur Vilhelmsson, dósent við auðlindadeild HA, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís ohf., og Jónína Jóhannsdóttir, M.Sc., sérfræðingur hjá Matís ohf. Andmælandi er dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, aðjunkt við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Nánari upplýsingar veitir Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís.

Ofangreind frétt birtist fyrst á heimasíðu Háskólans á Akureyri, www.unak.is.

Fréttir

Matís er þátttakandi á Landsmóti hestamanna 2012 sem haldið er í Reykjavík

Tuttugasta landsmótið fer fram í Reykjavík að þessu sinni. Matís kynnir starfsemi sína á mótinu en hjá fyrirtækinu er unnið með hesta- og hundaeigendum t.a.m. að með foreldragreiningum á hundum og hestum með erfðarannsóknum.

Matís býður gesti og gangandi velkomna á bás fyrirtækisins þá daga sem landsmótið stendur yfir.

Um foreldragreiningar Matís
Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Matís er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum.

Nánar hér.


Um landsmótið (af www.landsmot.is)

Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross. Á þeim tíma var aðeins keppt í einum flokki gæðinga sem var flokkur alhliða gæðinga, auk kappreiða og kynbótasýninga.

Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum, þ.e. á tveggja ára fresti var Landsmót í Reykjavík árið 2000.

Mótin hafa vaxið gríðarlega að umfangi sérstaklega hvað keppnishlutann varðar og fjölda hrossa. Það er þó áhugavert að á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum árið 1950 sóttu um 10.000 gestir mótið. Aðsóknarmet var slegið á Gaddstaðaflötum árið 2008 þar sem hátt í 14.000 gestir, knapar, starfsmenn og sjálfboðaliðar komu saman.  

Landsmót hestamanna hefur verið stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi, enda er Landssamband hestamannafélaga þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ, með rúmlega 11.000 félagsmenn.

Fréttir

Sjálfbær framleiðsla hjá Matís

Á svölum höfuðstöðva Matís fer fram áhugaverð framleiðsla. Þar eru gróðurkassar sem í er ræktað er ýmislegt girnilegt. Nú síðast var uppskera á spínati og graslaukurinn verður nýttur von bráðar.

Starfsmenn sem voru í hádegismat daginn sem uppskeran var matreidd fengu því í kroppinn ferskasta grænmeti sem um ræðir enda spínatið með endemum bragðmikið og stútfullt af vítamínum og steinefnum.

Hér má sjá nokkrar myndir úr kössunum og úr mötuneytinu og er óhætt að segja að þær tali sínu máli.

Svalir - Ræktunarkassar
Svalir - Uppskera

Fréttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefur út reglugerð um kælingu fisks og annarra matvæla

Fiskur er með allra viðkvæmustu matvælum og því lögð mikil áhersla á að varðveita ferskleika hans og forðast skemmdir. Óumdeilt er mikilvægi þess að að kæla fisk vandlega strax eftir að hann er veiddur.

Matvælalöggjöfin hefur að geyma margvísleg ákvæði um kælingu fiskjar og annarra matvæla. Í henni er kveðið skýrt á um að halda beri órofinni kælikeðju frá veiðum, til og við vinnslu matvæla og þau kæld eins fljótt og auðið er.

Kannanir hér á landi hafa leitt í ljós að kæling landaðs botnfiskafla er ónóg í mörgum tilvikum og mörg dæmi þess að fiski sé landað illa ísuðum eða jafnvel óísuðum. Á þetta einkum við um afla úr veiðiferðum sem vara skemur en 24 klukkustundir.  Þá er of  algengt að fiskur sem geymdur er utandyra sé ekki varinn fyrir sól og utanaðkomandi mengun eins og góðir framleiðsluhættir kveða á um.

Því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefið út reglugerð til þess að taka af öll tvímæli um það hvaða reglur gilda í þessum efnum.  Reglugerðin tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2012 til þess að gefa þeim aðilum sem eru vanbúnir að fylgja ákvæðum hennar svigrúm til þess að koma sér upp nauðsynlegum búnaði í samræmi við það sem reglugerðin kveður á um.

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga.


Fréttin birtist fyrst á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytis, www.sjavarutvegsraduneyti.is.

Fréttir

Kynningarfundur Matís á sunnanverðum Vestfjörðum

Í dag 18. júní verður haldinn kynningarfundur á starfsemi Matís og nýrri starfsstöð fyrirtækisins. Fundurinn fer fram í félagsheimilinu á Bíldudal og hefst kl. 17.

Sérfræðingar frá Matís í Reykjavík, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum verða á staðnum til að kynna starfsemina og þá möguleika sem felast í opnun starfsstöðvar Matís á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi

Allir sem áhuga hafa eru boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starfsemi Matís og hvaða möguleikar eru í boði á rannsóknum og aðstoð Matís við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.  Matís er þekkingar- og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun i matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.

Matís mun vinna með fyrirtækjum, sveitastjórnum og einstaklingum á svæðinu sem munu geta nýtt sér sérfræðiþekkingu Matís til uppbyggingar sinnar eigin starfsemi. Starfsemi Matís við Breiðafjörð byggir á traustu og öflugu samstarfi við heimamenn enda hafa þeir haft frumkvæði að þeirri uppbyggingu sem Matís ræðst nú í.

Mikil tækifæri eru til aukinnar verðmætasköpunar á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi og kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu.  Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar.

Efling matvælaframleiðslu mun gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun á sunnanverðum Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Einstaklingar og fyrirtæki sem áhuga hafa á framleiðslu á matvælum úr hráefni af svæðinu eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starf Matís og þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða til frekari vöruþróunar og framleiðslu. Fullvinnsla afurða skapar verðmæta vöru og aukna tekjumöguleika ásamt fjölbreyttara atvinnulífi og meira vöruúrvali. Sunnanverðir Vestfirðir hafa mikla möguleika á meiri úrvinnslu úr því hráefni sem hér er framleitt til sjós og lands og án efa eru margar hugmyndir hjá íbúum svæðisins sem eru vel þess virði að hrinda í framkvæmd.

Starfsfólk Matís hvetur alla áhugasama til að koma og kynna sér starfsemina, hitta starfsfólkið og ræða málin. Við hlökkum til að takast á við komandi verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum og bjóðum ykkur velkomin á fundinn.

Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík, 422-5000, matis@matis.is og starfsfólk Matís á sunnanverðum Vestfjörðum.

Nánari upplýsingar veita:
Lilja Magnúsdóttir, 858-5085, liljam@matis.is
Hólmgeir Reynisson, 867-4553, holmgeir@matis.is

Fréttir

Varsha A. Kale doktorsnemandi við HÍ og Matís hlýtur styrk

Tveir doktorsnemar í lyfjafræði við Háskóla Íslands, Indverjarnir Varsha A. Kale hjá Matís og Vivek S. Gaware, fengu styrk úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala í gær, mánudaginn 4. júní. Rannsóknir þeirra hafa þegar leitt til nýrrar þekkingar í lyfjafræði.

Þetta er í sjöunda sinn sem viðurkenningar eru veittar úr sjóðnum til doktorsnema í lyfjafræði við Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 700.000 krónur og hlýtur hvor styrkhafi 350.000 krónur.

Rannsóknaverkefni Vörshu A. Kale  miðar að því að einangra brjósksykrur úr íslenskum sæbjúgum og ákvarða sameindabyggingu þeirra. Einnig hefur hún ræktað sjávarbakteríur sem framleiða sykrukljúfandi lífhvata.  Varsha hefur nú þegar einangrað þrjár mismunandi gerðir slíkra sykra og sýnt fram á ónæmisstýrandi virkni. Hagnýting verkefnisins felst í framleiðslu nýrra lífvirkra sykra og  lífhvata. Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís.  Varsha er fædd á Indlandi árið 1985 og lauk meistaraprófi í lyfjaefnafræði árið 2004 frá S.R.T.M. háskólanum í Nanded á Indlandi. Hún hóf doktorsnám í lyfjavísindum við  Háskóla Íslands árið 2009 og aðalleiðbeinandi hennar er Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, en meðleiðbeinandi Guðmundur Óli Hreggviðsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild og fagstjóri hjá Matís.

Í doktorsverkefni sínu þróar Vivek S. Gaware sérstök nanóefni sem hægt er að örva með ljósi og eyða þannig krabbameinsæxlum. Verkefnið er unnið í samstarf við vísindamenn við Radium hospital í Ósló og fyrirtækið PCI Biotech.  Vivek hefur nú þegar tekist að  smíða og skilgreina vel á fimmta tug nýrra efna í þessu verkefni. Niðurstöður prófana í Noregi hafa gefið góða raun og benda til þess að efnin séu mjög virk gegn krabbameini. Vivek er einnig fæddur á Indlandi, árið 1981, og hann lauk meistaraprófi  í lífrænni efnafræði frá Háskólanum í Pune í heimalandi sínu árið 2004. Vivek hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands árið 2008 og aðalleiðbeinandi hans er Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild.Um Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala var stofnaður árið 2001. Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Það var Bent Scheving Thorsteinsson sem stofnaði sjóðinn til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson.

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti. Samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með fjárframlagi til sjóðanna þriggja.

Nánari upplýsingar veita Varsha og Guðmundur Óli Hreggviðsson hjá Matís.

Grein þessi birtist fyrst á vef Háskóla Íslands (www.hi.is/frettir/doktorsnemar_i_lyfjafraedi_hljota_styrk).

Fréttir

Stórt skref í bættri heilsu þjóðarinnar?

Krónan og Matís eiga í samstarfi til að hjálpa Íslendingum að minnka óhóflega neyslu á sælgæti á svokölluðum nammibörum.

Fyrirtækin hafa í sameiningu látið útbúa veggspjald sem komið hefur verið upp í nokkrum Krónubúðum. Á veggspjaldinu er að finna upplýsingar um hóflegt magn af laugardagsnammi og byggir magnið á meðalgildum fyrir daglega orkuþörf nokkurra aldursskeiða. Meðalgildin úr efnagreiningunum má finna í íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM).

Eins og flestir vita borða Íslendingar of mikið af viðbættum sykri. Þetta er ekki hvað síst vegna mikillar neyslu á sælgæti frá svokölluðum nammibörum í verslunum, sem helst er sótt í á laugardögum. Þó ekki sé nauðsynlegt að neyta sælgætis, þá er hægt að láta nammidag „passa“ inn í heilbrigðan lífsstíl svo framarlega að ákveðins hófs sé gætt þegar kemur að magninu sem neytt er. Flestir borða of mikið nammi á laugardögum og eru leiðbeiningarnar sem finna má á veggspjaldinu settar fram til þess að aðstoða neytendur við að velja sér hóflegt magn.

Heilbrigður lífsstíll með fjölbreyttu mataræði og hóflegri hreyfingu er undirstaða andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. Matís hefur hlutverki að gegna í lýðheilsu þjóðarinnar og heldur auk þess utan um ÍSGEM.

Krónan hefur beitt sér fyrir því að Íslendingar velji sér holla lífshætti og eru t.d. starfsræktir ávaxtabarir í Krónubúðum. Auk þess er Krónan iðulega með tilboð á hollum og góðum matvælum til þess að hvetja neytendur til að velja hollari vörur.

Samstarfið er tilraun sem sett er af stað í nokkrum búðum Krónunnar. Það eru svo viðbrögð viðskiptavina Krónunnar og annarra neytenda sem munu ráða hvort leiðbeiningar verði settar upp í fleiri búðum. Hægt verður að bera saman heildarþyngd sælgætis sem selt hefur verið áður en veggspjöldin voru sett upp og svo heildarþyngd eftir að veggspjöldin voru sett upp. Með þessum hætti verður hægt að sjá hvort veggspjaldið skipti máli þegar kemur að magninu sem selt er í hverri verslun á hverjum laugardegi.

Veggspjaldið má sjá hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Berglind Ósk Ólafsdóttir, markaðsstjóri Kaupás.

IS