Fréttir

Reglur um notkun á merki (lógói) Matís á umbúðum matvæla

Mjög hefur færst í vöxt að fyrirtæki og einstaklingar sem framleiða, dreifa og selja matvæli nefni samstarf við Matís. Mikilvægt er að notkun á merki Matís (lógói) og öðrum þáttum tengdum Matís sé innan ramma samstarfsins.

Matís heimilar notkun á merkinu að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Haft hafi verið samband við Matís og notkunin verið samþykkt fyrir viðkomandi vöru og pakkningu
  • Merki Matís sé birt með næringargildismerkingu eða innan ramma fyrir slíka merkingu
  • Merking næringargildis sé í samræmi við gildandi reglugerð og hafi verið útbúin eða yfirfarin af Matís
  • Allar merkingar á umbúðum vörunnar séu í samræmi við gildandi reglugerðir og Matís hafi fengið þær til skoðunar í endanlegri gerð fyrir prentun (próförk)

Til greina kemur að leyfa eftirfarandi texta undir næringargildismerkingu: Matís hefur rannsakað næringargildi vörunnar. Vefslóð (www.matis.is) getur komið fram í tengslum við merki Matís eða upplýsingar um Matís.

Upplýsingar um hvernig má nálgast rétta útgáfu af merki Matís má fá hjá starfsmönnum Matís og á heimasíðu fyrirtækisins, www.matis.is.

Fréttir

Makríll – veiðar og vinnsla

Markvissar makrílveiðar hér við land hófust árið 2007 en árið 2009 voru heimildir til makrílveiða fyrst takmarkaðar.

Árið 2006 veiddust 232 tonn en 2010 var aflinn kominn í 121.000 tonn.  Í upphafi fór stór hluti aflans í bræðslu og samtímis hefur geymslutæknin og vinnslan verið þróuð í þá átt að nýta aflann til manneldis. Makríll er veiddur hér við land á þeim árstíma sem hann er viðkvæmastur vegna bráðfitunar. Árið 2010 var um 70% aflans frystur.

Í mars 2011 kom út lokaskýrsla úr verkefni sem Matís vann ásamt Ísfélagi Vestmannaeyja og Huginn ehf. Skýrslan nefnist „Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum“ og var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í skýrslunni er fjallað um veiðar og vinnslu á makríl, búnað sem þarf við makrílvinnslu til manneldis, meðhöndlun afla, mælingar á makríl sem veiðist í íslenskri lögsögu og markaði.

Mælingar
Sumrin 2008 og 2009 var makrílsýnum safnað af þremur uppsjávarfiskiskipum. Á sýnunum voru gerðar mælingar á lögun og þyngd, sýnin voru kyngreind og fitu- og vatnsinnihald mælt  eftirfarandi þættir í lögun makríls voru mældir: Heildarlengd, staðallengd, hauslengd, bollengd, stirtla, breidd/þvermál, hæð, ummál, þyngd og kyn.

Makrill_hlutfall

Heildarlengd makrílsins var nokkuð breytileg, minnstu fiskarnir voru 29 cm og þeir stærstu 44 cm. Langmest var af makríl sem var 35-40 cm eða 71% af sýnunum. Léttustu makrílarnir sem komu með sýnunum voru milli 200 og 300 grömm en þeir þyngstu yfir 700 grömm. Langflest sýnin voru 300 – 600 grömm eða 84% af heildinni, þá voru hlutfallslega flest sýni 400-500 grömm eða 33%.

Makríllinn var hausskorinn og slógdreginn og því skiptir hauslengdin máli þegar fundin er besta stilling fyrir hausarann. Af sýnunum voru 92% með hauslengd 8 og 9 cm. Flest sýnin voru 6,0-6,9 cm á hæð eða 57%. Mesta hæð sýna var 7,8 cm.

Flest sýnin voru 4,0-4,9 cm á breidd eða 53%. Af sýnunum voru 98% milli 4,0 og 5,9 cm á breidd. Mesta breidd sýna var 6,5 cm. Við kyngreiningu kom í ljós að hængar voru meirihluti aflans eða 72% og hlutfall hrygnu 28%. Fituinnihald sýnanna var 18 – 31%. Vatnsinnihald sýnanna var 53 – 63%. Innihald fitufría þurrefnis sýnanna var 11 – 23%.

Flokkun
Vinnsluskip sem vinna makríl þurfa að vera sérstaklega útbúin til að tryggja rétta meðhöndlun og vinnslu á viðkvæmu hráefni. Fyrsta skrefið er flokkari sem flokkar makríl frá síld. Style flokkarar hafa reynst vel en þeir hafa stillanlegt bili milli banda og flokkast fiskurinn því eftir þvermáli.

Greiður eru notaðar til að halda flokkunarrásum Style flokkara í sundur. Þegar einungis makríll er unninn úr síldarblönduðum afla eru makrílgreiður notaðar og dettur síld þá strax niður á færiband en makríll dettur seinna niður á færibönd sem flytja hann til vinnslu, þó getur  mjög smár makríll flokkast með síldinni. Hægt er að vinna bæði makríl og síld samtímis og þarf þá að breyta greiðunum sem halda flokkunarrásunum í sundur. Síld dettur þá niður á fremstu færiböndin sem flytja hana áfram til vinnslu eða í geymslutanka en makríllinn á öftustu færiböndin og fer þaðan áfram til vinnslu.

Markaðir
Stærstu útflytjendur frosins makríls, með hrognum og lifur, eru Noregur og Bretland/Skotland, en velta þessara landa er samanlagt yfir 60% af útflutningsverðmæti makríls á heimsvísu. Stærsti markaðurinn fyrir frosinn makríl er í Japan, Rússlandi, Kína, Nígeríu, Tyrklandi.

Þegar markaðir fyrir makríl sem veiddur er yfir sumartímann eru skoðaðir er ljóst að markaðurinn í Japan hentar ekki vegna fituinnihalds makrílsins og vegna þess hve makríllinn er laus í sér.  Japansmarkaður er að endurskipuleggja gæðakröfur og hafa þeir sýnt makríl frá íslandi mikinn áhuga.  Fyrirtækin sem stunda makrílveiðar og vinnslu hafa notað ofurkælingu um borð í skipunum og í vinnslu og þess vegna hefur þeim tekist að fá góðan makríl í vinnsluna. Mismunandi gæðakröfur til makrílafurða eru gerðar á mörkuðum.  Fyrirtækin sem stunda veiðar og vinnslu á makríl hafa þróað og endurbætt vinnsluaðferðir bæði í landi og á sjó til að geta mætt kröfum kaupenda og unnið sig inn á nýja markaði.  Til að ná góðum árangri við að vinna sem mest af makrílnum til manneldis þá þarf að vera góð samvinna milli framleiðenda og kaupenda um sameiginlegan skilning á gæðum afurða.

Fréttir

Matís í Stykkishólmi í sumar

Matís verður með starfsmenn í sumar staðsetta í Stykkishólmi tilbúna til að aðstoða matvælaframleiðendur og aðila sem hafa hug á að reyna fyrir sér með framleiðslu og vöruþróun. 

Matís hefur lagt mikla áherslu á það að vera í góðu sambandi við smáa og stóra matvælaframleiðendur um allt land og er þetta liður í því að byggja upp góð tengsl við matvælaframleiðendur í Stykkishólmi og nágrenni.

Matís er stærsta matvælarannsóknafyrirtæki landsins og hefur yfir að ráða starfsmönnum sem hafa víðtæka þekkingu á vinnslu og þróun matvæla og geta því aðstoðað hvern þann sem hefur hug á að reyna fyrir sér með nýja framleiðslu og vöruþróun. Hægt er að aðstoða við vinnslutilraunir og fyrstu framleiðslu en ekki verður sérstök aðstaða sett upp í Stykkishólmi að sinni heldur mun aðstaða Matís annars staðar verða nýtt eða aðstaða sem fyrir er hjá væntanlegum samstarfsaðilum.

Að mörgu er að hyggja þegar unnið er að vöruþróun eða ný framleiðsla er undirbúin og því mikilvægt að fara vel og vandlega yfir alla þætti allt frá aðstöðu til markaðar og nauðsynlegt að fá aðgang að góðri aðstoð sem starfsmenn Matís eru tilbúnir til að veita. Við munum leggja okkur fram um að veita alla þá aðstoð sem þörf er á til að hugmyndir að nýjum vörum verði að veruleika og erum við tilbúin til að vinna jafnt með einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref og þeim sem eru lengra komin með sínar hugmyndir.

Sérfræðingar Matís hafa unnið að mörgum verkefnum með smærri framleiðendum undanfarin ár og hefur orðið til mikilvæg þekking og reynsla innan fyrirtækisins við að ýta nýjum hugmyndum úr vör. Við munum að sjálfsögðu taka við öllum hugmyndum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gæta fyllsta trúnaðar svo endilega hafðu samband ef þú lumar á vænlegri hugmynd og þarft á aðstoð færustu sérfræðinga að halda.

Stykkishólmsbær hefur útvegað okkur fyrirtaks aðstöðu í Egilshúsi Aðalgötu 3 og er stefnt að því að starfsfólk á vegum Matís dvelji þar í sumar.

Hægt er að hafa samband við Pál Gunnar Pálsson verkefnisstjóra verkefnisins með því að senda póst á netfangið pall.g.palsson@matis.is eða hringja í 422 5102 / 858 5102.

Fréttir

Matís hjálpar til við að koma ferskum birkisafa úr Hallormsstaðarskógi á markað

Í Hallormsstaðarskógi er búið að safna tvöþúsund lítrum af safa úr birkitrjám. Safinn er drukkinn ferskur eða soðið úr honum síróp.

Á vorin meðan trén laufgast þurfa þau að flytja mikla næringu út í greinarnar. Í hverjum degi flytur fullvaxið birktré mörhundruð lítra af vatni upp úr jörðinni og á reyndar svolítið aflögu handa mannfólkinu. Í Hallormsstaðarskógi er einn stærsti birkiskógur landsins og hvergi er að finna eins mikið af stórum og öflugum björkum. Þetta er því tilvalinn staður til að safna birkisafa.

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir hjá Holti og heiðum á Hallormsstað segir að þegar birkisafa er safnað þá sé borað gat í tréð og slanga tengd í gatið. Eitt tré hafi gefið allt upp í 8 lítra á sólarhring. ,,Við erum ekki að nýta tré nema í 4 eða 5 daga og þá lokum við því. Við erum ekki að nota sömu trén ár eftir ár. Við gefum þeim 2-5 ára frí áður en við förum að safna úr þeim aftur,” segir Bergrún. 

Safinn er talinn heilnæmur en í honum eru steinefni, andoxunarefni og sykrur. ,,Við sjóðum birkisíróp úr safanum og vinnum með MATÍS að því að koma honum ferskum á markað. Það eru 60 tré sem við erum með núna í dag undir. Og ætli við séum ekki að fá svona 200 lítra á sólarhring úr þessum trjám,” segir Bergrún.

Frétt þessi birtist á RÚV þann 3. júní sl. Hér má sjá myndskeiðið með fréttinni.

Í Matarsmiðjum Matís býðst frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli  og matarferðaþjónustu. Nánari upplýsingar um Matarsmiðjur Matís má finna hér.

Fréttir

Hörður G. Kristinsson hjá Matís hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2011

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2011 voru afhent á Rannsóknaþingi Rannís miðvikudaginn 8. júní.

Dr. Hörður G. Kristinsson rannsóknastjóri Matís og sviðsstjóri líftækni- og lífefnasviðs hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Tók Hörður við viðurkenningunni úr hendi forsætisráðherra sem jafnframt er formaður Vísinda- og tækniráðs.

Hörður er fæddur árið 1972. Hann lauk grunnnámi í líffræði frá Háskóla Íslands 1996 og hélt þá til Bandaríkjanna í frekara nám. Í meistaranámi sínu við Washington háskóla í Seattle vann hann við rannsóknir á nýtingu aukaafurða sjávarfangs með notkun ensíma, en slík tækni er nú notuð víða um heim með góðum árangri. Árið 2001 lauk hann doktorsnámi í matvælalífefnafræði frá Massachusetts háskóla þar sem hann lagði stund á rannsóknir á eiginleikum fiskipróteina. Niðurstöður doktorsverkefnis hans hafa nýst við að þróa nýja tækni til að einangra og nýta prótein úr aukaafurðum og vannýttum fiskitegundum, eins og kolmunna og loðnu. Því má segja að þær hafi bæði bætt í þekkingarbrunn okkar um sjávarafurðir auk þess að hafa haft mikið hagnýtt gildi.  Á síðasta ári Harðar í doktorsnámi var honum boðin staða lektors við matvæla- og næringarfræðideild Flórídaháskóla, sem er ein sú stærsta og framsæknasta í BNA. Þar byggði hann upp frá grunni öfluga rannsóknastofu á sviði matvælalífefnafræði með sérstaka áherslu á nýtingu sjávarfangs. Hörður flutti til Íslands 2007 og hóf störf hjá Matís árið 2008 en gegnir jafnframt dósentsstöðu við Flórídaháskóla.

Hörður hefur verið brautryðjandi við að byggja upp rannsóknir á lífefnum og lífvirkum efnum úr íslenskri náttúru. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu á Líftæknisetri Matís á Sauðárkróki sem opnaði 2008. Þar vinna sérfræðingar að innlendum og erlendum rannsóknaverkefnum í náinni samvinnu við matvælaiðnaðinn í Skagafirði sem og annars staðar í landinu. Þar er lögð áhersla á að bjóða upp á aðstöðu og sérfræðiaðstoð til að þróa bæði afurðir og framleiðsluferla með það að markmiði að hraða ferlinu frá hugmynd til afurðar og lækka þannig kostnað við þróunina. Í sama anda má einnig nefna nýja aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki hjá Matís sem nefnist Brúin. Þar er nú að finna öflug líftæknifyrirtæki eins og Kerecis og Primex sem búa að nálægðinni við Hörð og samstarfsfólk hans.

Rannsóknir Harðar hafa haft mikið hagnýtt gildi og er hann handhafi þriggja birtra einkaleyfa. Hörður hefur birt efni um rannsóknir sínar í virtum ritrýndum vísindaritum og flutt fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim. Hann er virkur í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og stýrir nokkrum fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum nú um stundir. Hörður hefur einnig verið virkur í kennslu og eru doktorsnemar hans eru orðnir tíu talsins og meistaranemarnir níu.

Í störfum sínum hefur Hörður sýnt að hann er afbragðs vísindamaður, kennari og stjórnandi. Hann hefur sýnt frumkvæði og veitt forystu við uppbyggingu á nýju fræðasviði sem nú þegar er farið að skila arði inn í þjóðarbúið. Hann er góð fyrirmynd nemenda og samstarfsmanna og lykilstarfsmaður í vaxandi fyrirtæki. Það var einróma álit dómnefndar Hvatningarverðlaunanna að Hörður G. Kristinsson uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2010.

Forsætisráðherra og Hörður
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, afhenti Herði Hvatningarverðlaunin

Um Hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin, sem nú eru 2 milljónir króna, hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.

Nánari upplýsingar veitir Hörður í síma 858-5063.

Fréttir

EcoFishMan verkefnið vekur enn og aftur athygli

EcoFishMan Evrópusambandsverkefnið, sem Matís leiðir, verður á “Seas the Future” ráðstefnunni í Færeyjum 7. og 8. júní.

Tilgangur “Seas the Future” er að stuðla að áframhaldandi vinnu, í gegnum norrænt samstarf, og stuðla þannig að sameiginlegum aðgerðum og samræmingu á svæðum vegna sjálfbærrar þróunar, bæði á milli Norðurlandanna og nágranna þeirra í aðliggjandi svæðum á Norður-Atlantshafi, Norður heimsskautinu og í Evrópusambandinu.

Eins og fram hefur komið í fréttum og vefsíðum Matís þá væntir Evrópusambandið þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.

Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 3,7 milljónir evra á þremur árum og nemur styrkur ESB 3,0 milljónum evra.

Fréttir

Íslenskt bygg er of gott til að nota ekki til manneldis

Um 20 manns á námskeiði um vinnslu korns til manneldis sem Matís ohf. stóð fyrir í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki í samstarfi við Leiðbeiningamiðstöðina með stuðningi starfsmenntaráðs.

Eyfirðingar, Húnvetningar og Skagfirðingar fræddust um meðhöndlun korns, sýnt var fram á fjölbreytilegt notagildi íslensks korns og farið yfir nýleg dæmi um þróun á nýjum vörum úr íslensku korni. Þá gæddu gestir sér á gæða brauði úr skagfirsku byggi sem og brauð til hvers skagfirskt hveiti var nýtt við baksturinn. Áhugasamur kornræktandi kom með sýnishorn af sinni framleiðslu, hafrar, bygg og hveiti, hvort tveggja heilt og malað. Ólafur Reykdal verkefnisstjóri hjá Matís flutti erindið fræddi viðstadda og svaraði spurningum.

Innlent korn til manneldis Ólafur Reykdal

Nánari upplýsingar veita Arnljótur Bjarki Bergsson og Ólafur Reykdal.

Fréttir

Þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg.

Meistaravörn við Auðlindadeild Viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn  sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg. Verkefni Vordísar ber heitið: „Occurrence of different persistent organic pollutants in Atlantic cod (Gadus morhua L.) in Icelandic waters”.

Verkefni Vordísar var samstarfsverkefni Matís ohf., Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Verkefnið var hluti af verkefninu, „Grandskoðum þann Gula frá miðum í maga – rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla“, sem m.a. var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Meistaranám Vordísar var ennfremur styrkt af Matís ohf. og BYR Sparisjóði.

Í ritgerðinni fjallar Vordís um þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum. Skoðað var magn og breytileiki þrávirkra lífrænna efna og hvort þættir á borð við kyn, aldur, kynþroska, fiskimið og árstíma hefðu áhrif á magn efnanna. Einnig hvort þær mæliaðferðir sem þróaðar hafa verið á tækjabúnað Matís ohf. á Akureyri til mælinga á þrávirkum lífrænum efnum í fiskafurðum væru sambærilegar við þær aðferðir sem beitt er annarsstaðar. Mæld voru nokkur þrávirk lífræn efni í holdi 64 þorska og lifrum 38 þeirra. Lítið magn þrávirkra lífrænna efna greindist í þorskinum. Magn sem mældist í lifrum var u.þ.b. 300 sinnum meira en í holdi, en efnin fylgja fitunni og þorskvöðvi er afar fitulítill. Sú mæliaðferð sem notast var við stenst fullkomlega samanburð við þær aðferðir sem verið er að nota annarsstaðar, og virðist aðferðin ennfremur  nýtanleg til að greina sömu efni í kjúklingi.

Vordís Baldursdóttir lauk bakkalár (B.Sc) prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008 og hóf störf sem sérfræðingur hjá Matís ohf. vorið 2010. Hún hefur unnið að rannsóknavinnunni og ritgerðarskrifum síðustu þrjú ár.

Aðalleiðbeinandi var Dr. Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri eiturefnadeildar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinendur voru Dr. Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri Matís ohf. svo og Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri Matís ohf. og Dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri  Matís ohf., sem jafnframt voru umsjónaraðilar verkefnisins.

Andmælandi er Dr. Stefán Einarsson, sérfræðingur um loftslagsmál og hnattræn mengunarmál hjá Umhverfisráðuneytinu. Stefán hefur m.a. starfað við þróun aðferða fyrir greiningar á þrávirkum lífrænum efnum og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi vegna Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni, m.a. við að semja leiðbeiningar um bestu fáanlega tækni til að takmarka losun þrávirkra lífrænna efna út í umhverfið.

Fréttir

Alþjóðleg sjávarútvegsráðstefna í Ancona á Ítalíu – Matís tekur þátt og kynnir EcoFishMan verkefnið

Alþjóðleg sjávarútvegsráðstefna er nú haldin í Ancona á Ítalíu en þetta er í 71. skiptið sem þessi ráðstefna er haldin. Matís tekur þátt í þessar ráðstefnu og mun kynna EcoFishMan verkefnið og hvernig bæta megi fiskveiðistjórnunarkerfið sem notast er við innan landa Evrópusambandsins (ESB).

Matís er sérstaklega boðið á þessa ráðstefnu af Marche Regional authority á Ítalíu og er tilgangurinn m.a. annars að kynna Ecofishman fjölþjóða verkefnið sem Matís stýrir. Á fundinum verður t.a.m. farið í  opnar umræður með hagsmunaaðilum um aðkomu þeirra að EcoFishMan verkefninu en verkefnið snýst um þróun á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi innan ESB.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðum Matís, t.d. hér og hér.

Nánari upplýsingar um þennan fund/ráðstefnu má finna hér.

Fréttir

Matís gefur………blóð!

Fyrir nokkur mætti Blóðbankabíllinn til Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík.  Starfsfólk Matís tók vel við sér og tæplega helmingur starfsamanna í Reykjavík (28 einstaklingar) gaf blóð þennan morguninn.

  • Blóðbankinn, sem er eina sérhæfða stofnunin á sínu sviði í landinu, tekur við blóði heilbrigðra einstaklinga til hjálpar sjúkum.
  • Þeir sem koma til greina sem blóðgjafar eru á aldrinum 18 til 60 ára, yfir 50 kíló, heilsuhraustir og lyfjalausir.
  • Blóðbankinn er opinn alla virka daga og hefur hann einnig yfir að ráða blóðsöfnunarbíl sem safnar blóði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum

Fjöldi fólks gefur blóð í Blóðbankann en framlagið er ómissandi fyrir ýmsa starfsemi á sjúkrahúsum. Þá getur fólk fyllt út kort vegna líffæragjafa eftir andlát og gengið frá lífsskrá, skjali sem geymir óskir fólks varðandi lífslok.

IS