Fréttir

Doktorsvörn í líffræði: Erfðabreytingar á bakteríunni Rhodothermus marinus

Mánudaginn 27. september mun starfsmaður Matís, Snædís Huld Björnsdóttir, verja doktorsritgerð sína „Erfðabreytingar á bakteríunni Rhodothermus marinus“ (e. Genetic engineering of Rhodothermus marinus).

Leiðbeinendur voru Guðmundur Eggertsson prófessor emerítus og Ólafur S. Andrésson prófessor. Auk þerra sátu í doktorsnefnd Dr. Jakob K. Kristjánsson forstjóri Arkea, Sigríður H. Þorbjarnardóttir sérfræðingur á Líffræðistofnun og Dr. Ólafur H. Friðjónsson, verkefnastjóri hjá Matís. 

Andmælendur eru Daniel Prieur, prófessor við Université de Bretagne Occidentale í Brest, Frakklandi og Dr. Valgerður Andrésdóttir, vísindamaður á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.

Snædís er fædd árið 1973. Hún hefur starfað á Líffræðistofnun, hjá Prokaria og sem sérfræðingur á Líftækni- og lífefnasviði Matís frá 2007. Rannsókn Snædísar beindist að þróun aðferða til að erfðabreyta hitakæru bakteríunni Rhodothermus marinus. Eiginmaður Snædísar er Ægir Þór Þórsson, garðyrkjuráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands. 

Varaforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, Karl Benediktsson prófessor, stýrir athöfninni sem fer fram á Hátíðarsal Aðalbyggingar og hefst kl. 13:00.

Ágrip
Rhodothermus marinus er loftháð, hitakær baktería sem var fyrst einangruð úr neðansjávarhverum við Ísafjarðardjúp.  Tegundin er áhugaverð, m.a. vegna stöðu hennar í flokkunarkerfi baktería og vegna aðlögunar hennar að náttúrulegu umhverfi sínu.  Að auki framleiðir R. marinus mikið safn hitaþolinna ensíma sem geta nýst í iðnaði.  Þar á meðal eru ensím sem brjóta niður fjölsykrur og lífmassa.  Hér er annarri Rhodothermus tegund lýst.  Hún var einangruð af 2634 m dýpi í Kyrrahafinu og hlaut nafnið R. profundi. 

Aðalmarkmið þessa verkefnis var þróun aðferða til að erfðabreyta R. marinus.  Aðferð var fundin til að flytja framandi erfðaefni inn í bakteríuna.  Tvö valgen voru notuð, trpB og purA, en þau skrá fyrir ensímum sem taka þátt í nýmyndun tryptofans og adeníns.  R. marinus stofn sem virtist ekki búa yfir skerðivirkni var valinn fyrir upptöku erfðaefnis.  Bæði trpB og purA voru felld úr litningi móttökustofnsins og því má velja fyrir uppbót beggja.  Úrfellingarnar koma í veg fyrir endurröðun milli valgenanna og litningsins og myndun sjáfkrafa Trp+ og Ade+ viðsnúninga. 

Lítið dulplasmíð, pRM21, var einangrað úr R. marinus og raðgreint.  Það samanstendur af 2935 basapörum og stærsti lesrammi þess skráir fyrir próteini sem sýnir samsvörun við eftirmyndunarprótein stórra plasmíða af fjölskyldu IncW.  Plasmíðið var nýtt við tilraunir til upptöku erfðaefnis.  Góð ummyndun fékkst með því að rafgata bakteríuna.  Plasmíðið var einnig notað sem grunnur fyrir smíð skutluferja sem eftirmyndast bæði í R. marinus og Escherichia coli.  Ferjur voru smíðaðar fyrir tjáningu framandi gena í R. marinus og aukin próteinframleiðsla fékkst með því að nota hitavirkar stjórnraðir.  Einnig voru fundin vísigen sem gera kleift að rannsaka tjáningu R. marinus og stýrla hennar.

Þróaðar voru aðferðir til óvirkjunar gena í erfðamengi R. marinus, bæði með tilviljanakenndum og markvissum stökkbreytingum.  Gen voru felld úr litningi bakteríunnar án þess að framandi raðir væru skildar eftir.  Einnig tókst að skipta litningsgenum út fyrir valgen með tvöfaldri endurröðun við línulegar sameindir.  Framköllun breytinga á erfðaefni R. marinus opnar möguleika á rannsóknum á eiginleikum hennar sem og hagnýtingu.  Slíkar aðferðir eru jafnvel enn mikilvægari nú en áður þar sem raðgreining erfðamengis R. marinus var nýlega birt.

Hefst: 27/09/2010 – 13:00
Staðsetning: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðarsalur

Fréttir

Lengra geymsluþol á forkældum ferskum þorskhnökkum með endurbættum frauðkassa

Í nýútkominni skýrslu Matís er fjallað um geymsluþolstilraun á forkældum, ferskum þorskhnökkum. 

Tilraunin fór fram í mars 2010 sem liður í Evrópuverkefninu Chill on (EU FP6-016333-2) og íslenska verkefninu Hermun kæliferla, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. 

Markmið tilraunanna var m.a. að rannsaka hve vel tvær tegundir frauðkassa verja þorskhnakkastykki fyrir dæmigerðu hitaálagi í flugflutningskeðju frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til kaupanda í Evrópu.  Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera frauðkassana saman  og  kanna mikilvægi staðsetningar flakabita innan kassa (horn og miðja).

Nýi frauðkassinn, sem hannaður var með FLUENT varmaflutningslíkani, reyndist betri en eldri kassinn með tilliti til varmaeinangrunar.  Hitaálagið á fyrsta degi tilraunarinnar olli því að hæsti vöruhiti í hornum hækkaði í 5.4 °C í eldri gerðinni en einungis í 4.5 °C í þeirri nýju. Munur milli hæsta vöruhita í miðjum og hornum kassa var um 2 til 3 °C. 

Með skynmati var sýnt fram á að geymsla í nýja frauðkassanum leiddi til tveggja til þriggja daga lengra ferskleikatímabils og eins til tveggja daga lengra geymsluþols m.v. geymslu í eldri frauðkassanum. 

Staðsetning innan kassa (horn og miðja) hafði ekki marktæk áhrif á niðurstöður skynmats og var einungis um lítinn mun að ræða milli staðsetninga í mælingum á TVB-N og TMA.

Promens Tempra ehf. (http://www.tempra.is) hefur þegar hafið framleiðslu á nýja frauðkassanum.   

Skýrsluna er að finna hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Matís (bjornm@matis.is). 

Fréttir

Sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur

Geymsluþol þorskhnakka í flug- og sjóflutningi. Í mars 2010 var framkvæmd geymsluþolstilraun, sem miðaði m.a. að því að bera saman geymsluþol forkældra, ferskra þorskhnakka í flug- og sjóflutningi frá Íslandi til meginlands Evrópu.

Tilraunin var gerð undir hatti Evrópuverkefnisins Chill on (http://www.chill-on.com) og íslenska rannsóknarverkefnisins Hermun kæliferla, sem stutt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, sjá nánar hér: http://www.matis.is/verkefni/nr/2801.  

Tekið var mið af fyrirliggjandi niðurstöðum hitakortlagningar kælikeðja þegar hitaferlar fyrir flug- og sjóflutning voru hannaðir í undirbúningi tilraunarinnar. Hitastýrðir kæliklefar Matís og Háskóla Íslands komu að góðum notum eins og svo oft áður í þess konar tilraunum. Eftir flutning frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til Matís í Reykjavík varð flugfiskurinn fyrir tveimur tiltölulega vægum hitasveiflum (um 9 °C í 9 klst. og um 13 °C í 4 klst. nokkrum klst. síðar) og við tók nokkurra daga geymsla við 1 °C. Gámafiskurinn var aftur á móti geymdur við -1 °C, sem er raunhæfur möguleiki við gámaflutninga með skipum, frá komu til Matís í Reykjavík.  Vert er að geta þess að hitaálag í flugflutningi getur orðið umtalsvert meira en fyrrgreindur flughitaferill segir til um skv. mælingum Matís. 

Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera flutningsmátana tvo saman. 

Hermun flug- og sjóflutnings (hitasveiflur og stöðugur hiti) leiddi í ljós að fyrir vel forkælda þorskhnakka má vænta um fjögurra daga lengra ferskleikatímabils og um fimm daga lengra geymsluþols í vel hitastýrðum sjóflutningi miðað við dæmigerðan flugflutningsferil. Þar sem sjóflutningur frá Íslandi tekur oft um fjórum til fimm dögum lengri tíma en flugflutningur (háð m.a. vikudegi og staðsetningu vinnslunnar) sýnir þetta að sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur.  Þetta byggir þó á því að hitastýring í gámum sé eins og best verður á kosið. Samanburður á hitastýringu í mismunandi gámategundum er einmitt eitt af viðfangsefnum verkefnisins Hermunar kæliferla. 

Skýrsluna má nálgast hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf og veitir Björn Margeirsson (bjornm@matis.is) nánari upplýsingar. 

Fréttir

Matarsmiðjan á Flúðum – samningar undirritaðir

Síðustu misseri hefur verið unnið að undirbúningi þess að setja á laggirnar matarsmiðju í uppsveitum Árnessýslu sem verður miðstöð fyrir vöruþróun og fullvinnslu á grænmeti og til að efla fag- og háskólamenntun á svæðinu með kennslu og rannsóknum.

Á Flúðum munu Matís leigja húsnæði að Iðjuslóð 2 fyrir matarsmiðjuna og er reksturinn tryggður með samstarfi Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Háskólafélags Suðurlands, Hrunamannahrepps, Bláskógarbyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, garðyrkjumanna, Matís og Háskóla Íslands. Samningur þessa efnis var undirritaður nú nýverið.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s  koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr ylrækt á svæðinu og skapa þannig ný og áhugaverð tækifæri á Flúðum og nágrenni en ekki síður að skapa mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og smáframleiðendur að fullvinna vörur sínar til markaðssetningar.

Vaxtarsamningur Suðurlands veitti styrki til  undirbúnings og uppbyggingu matarsmiðjunnar.

Sérstakt verkefni til þriggja er um starfsemi og rekstur matarsmiðjunnar á Flúðum. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi.

Undirskrift_1-3.9.2010
Úlvar Harðarsson afhendir hér Herði G. Kristinssyni hjá Matís lykilinn að Matarsmiðjunni.
Undirskrift_2-3.9.2010
Frá vinstri Ingibjörg Harðardóttir sveitastj. Grímsn. og Grafningshr., Gunnar Marteinss.
oddv. Skeiða -og Gnúpvhr., Hörður G. Kristinsson frá Matís, Drífa Kristjánsd. oddv.
Bláskógabyggðar og Ragnar Magnússon oddv. Hrunamannahr.

Á næstunni mun starfsmaður verða ráðinn í starf í smiðjuna. Matís leggur mikið upp úr starfsemi sinni utan höfuðborgarsvæðisins og upp úr samstarfi við fyrirtæki og hagsmunaaðila um allt land en fyrirtækið rekur m.a. starfstöðvar á sex stöðum utan Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Þorkelsson og Hörður G. Kristinsson hjá Matís.Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar samningar voru undirritaðir.

Fréttir

Ný skýrsla Matís – mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (AMSUM 2009).

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun  umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2008 – 2009) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2008 og 2009. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík. Þrávirk lífræn efni eru lág í kræklingi og þorski við Íslandi.

Nánari upplýsingar veita Helga Gunnlaugsdóttir og Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Matarsmiðja Matís á Höfn lykillinn að því að Hundahreysti varð að veruleika

„Sú aðstaða og ráðgjöf sem við fengum í matarsmiðju Matís á Höfn í Hornafirði var lykillinn að því að fyrirtækið varð að veruleika“.

Þetta segir Kristín Þorvaldsdóttir hjá fyrirtækinu Hundahreysti sem setti í byrjun apríl á síðasta ári á markað nýja gerð af fóðri fyrir hunda. Fóðrið er framleitt að sænskri fyrirmynd en í það er notað íslenskt hráefni. Fyrirtækið er í eigu Kristínar og eiginmanns hennar, Daníels V. Elíassonar, matartæknis en sjálf er Kristín viðskiptafræðingur að mennt.

Ferskfóðri fyrir hunda kynntust þau í Svíþjóð á sínum tíma og eftir að þau fluttu heim til Íslands hugðust þau flytja fóðrið inn en það var ekki heimilað þar sem um hrávöru er að ræða. Kristín starfar innan Hundaræktarfélags Íslands og ákvað að sameina áhugamálið og menntunina og stofna fyrirtæki um framleiðsluna. Þetta var hið örlagaríka haust 2008 og skyndilega brugðust allar forsendur um fjármögnun framleiðslunnar.

„Kostnaður við framleiðsluaðstöðu var erfiður hjalli fyrir svona lítið nýsköpunarfyrirtæki en í ársbyrjun 2009 var okkur bent á möguleika til að hefja framleiðsluna í matarsmiðju Matís á Höfn. Í stuttu máli fór það þannig að þangað fórum við, hófum tilraunir við að aðlaga Nordic fóðrið að íslenskum aðstæðum. Í kjölfarið hófum við framleiðsluna hjá Matís og komum okkur þar með af stað. Á Höfn fengum við alla aðstöðu sem við þurftum og ómetanlega ráðgjöf og hjálp starfsmanna Matís. Og 10 mánuðum eftir að við settum vöruna fyrst á markað erum við komin í 270 fermetra framleiðsluhúsnæði í Kópavogi,“ segir Kristín.

Hópur hundaeigenda var fenginn til að prófa framleiðsluna í byrjun og nær allir eru í viðskiptavinahópi Hundahreystis í dag. Framleiðslan er um 4 tonn á mánuði en í fóðrið er notað hrátt íslenskt kindakjöt, nautavambir og nautablóð. Engar aukaafurðir af dýrum eru notaðar aðrar en nautavambir. Þar að auki er svo bætt í kartöflutrefjum, hveitiklíði, kalki, steinefnum og vítamínum. Kjötið í fóðrinu er hrátt og þess vegna kallast það ferskfóður. Fóðrið er selt frosið og geymist í u.þ.b. ár í frysti. Nordic ferskfóður er heilfóður fyrir hunda og ekki er þörf á að gefa hundinum neina viðbót eða blanda við annað fóður.

„Sem betur fer létum við ekki efnahagshrunið stöðva okkur og mestu skipti að fá þá aðstoð sem við fengum hjá Matís,” segir Kristín í Hundahreysti.

Nánari upplýsingar má fá hjá Guðmundi H. Gunnarssyni fag- og stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði, gudmundur.h.gunnarsson@matis.is og hjá Kristínu hjá Hundahreysti, 892-5292, www.hundahreysti.is.

Fréttir

Matís ásamt fleirum skipuleggur ráðstefnu um virðiskeðju línufisks

Dagana 19. og 20. október nk. verður haldin í Gullhömrum ráðstefna um veiðar, vinnslu, markaði og rannsóknir á línufiski.

Ráðstefnan er haldin á vegum Matís, Nofima í Noregi, Háskólans í Tromsö og Havstovunnar í Færeyjum.  Framsöguerindi verða flutt af sérfræðingum á ýmsum stigum virðiskeðju línufisks og að því loknu fara fram almennar umræður meðal þátttakenda þ.s. leitast verður við að greina helstu sóknarfæri í greininni. Ráðstefnan fer fram á ensku og má nálgast dagskrána hér.

Aðgangur er gjaldfrjáls og opinn öllum.

Nauðsynlegt er þó að skrá sig hjá jonas.r.vidarsson@matis.is (í síðasta lagi fyrir 15 október). 

Fréttir

Ráðstefna um uppsjávarfiska

Þann 30 ágúst síðastliðinn var haldinn ráðstefna (workshop) um uppsjávarfiska, á Gardemoen í Noregi. Yfirskrift ráðstefnunar var „Tækifæri og möguleikar í uppsjávarfisksiðnaði. Horft til framtíðar“.

SINTEF í Noregi sá um skipulag ráðstefnunar í samvinnu við Matís, Tækniháskólanum í Danmörku og Chalmers háskóla í Svíþjóð. Efni fyrirlestra fjallaði um meðhöndlun aflans um borð, framleiðslu afurða og aukaafurða, ásamt gæðum og áhrifum uppsjávarfiska á heilsu almennings. Meðal fyrirlesara frá Íslandi voru Ásbjörn Jónsson og Sigurjón Arason frá Matís ásamt Sindra Sigurðssyni gæðastjóra Síldarvinnslunnar.

Ráðstefna var þokkalega sótt og tókst með ágætum. Mikið var skeggrædd um stöðu og framtíðarhorfur í uppsjávarfisksiðnaði og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi til aukinnar framleiðslu á afurðum til neytenda.

Nánari upplýsingar veitir Ásbjörn Jónsson, asbjorn.jonsson@matis.is.

Fréttir

Breytileiki í fitusamsetningu þorsks

Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.

Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Í mögrum fiski eins þorski var þránun á fitu ekki talin vandamál.  Hins vegar inniheldur þorskvöðvi mikið af ómettuðum fitusýrum sem að þrána auðveldlega við geymslu.  Þessar breytingar hafa neikvæð áhrif á bragð og útlit afurða.  Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.  Ástand fisks ræðast af ýmsum þáttum, svo árstíð, veiðarsvæði, stærð og aldri fisksins.   Bætt þekking á hráefni og stöðugleika þess við vinnslu og geymslu mun auðvelda framleiðslustýringu við fiskvinnslu, þar sem geymsluþol og gæði afurða eru höfð að leiðarljósi. 

Rannsóknirnar eru styrktar af Verkefnasjóði Sjávarútvegsins en þær munu standa yfir út árið 2011.

Þátttakendur í verkefninu eru Oddi hf, KG Fiskverkun ehf, Þorbjörn, Skinney-Þinganes hf og Matís ohf.  Verkefnisstjóri er Kristín A. Þórarinsdóttir, Matís ohf. 

Heiti verkefnis: Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Nánari upplýsingar veitir Kristín A. Þórarinsdóttir, s: 422-5081, tölvupóstfang: kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

Fréttir

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks

Nýtt verkefni er nú hafið hjá Matís sem ætlunin er að kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils. 

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks.  Vöxtur eldisþorsks er hraðari og aðstæður í umhverfi aðrar.  Einnig er stýring á slátrun og meðhöndlun önnur við veiðar á villtum fiski.  Í fyrri rannsóknum hefur komið fram að best sé að vinna eldisþorsk fyrir dauðastirðnun en það hefur skapað vandkvæði við framleiðslu á léttsöltuðum afurðum.   Þeir lífeðlisfræðilegu ferlar sem eiga sér stað við dauðastirðnun vinna á móti þyngdaraukningu, m.a. vegna þess að vöðvinn dregst saman.  Vorið 2010, samþykkti AVS (www.avs.is), að styrkja verkefni þar sem kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils.  Ráðist verður í tilraunir með haustinu en áætluð verkefnislok eru í júní 2011.

Þátttakendur í verkefninu er Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf og Matís ohf.  Kristján G. Jóakimsson er verkefnisstjóri en Kristín A. Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, stýrir þeirri vinnu sem fram fer af hálfu Matís í verkefninu. 

Verkefnaheiti: Léttsaltaðar afurðir úr eldisþorski

IS