Fréttir

Grandskoðun þess gula

Ýmsum áhugaverðum spurningum er svarað varðandi ástand þorsks og vinnslueiginleika. Nýlokið er verkefni þar sem skoðað var meðal annars holdafar eftir árstíma, áhrif holdafars á flakanýtingu og hvort ástand lifrar gæti gefið vísbendingu um holdafar og vinnslunýtingu.

AVS verkefninu Grandskoðum þann gula frá miðum í maga – rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla er nýlokið. Markmið verkefnisins var að safna ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið gert um efnasamsetningu, vinnslueiginleika og verðmæti þorsks í virðiskeðjunni með nákvæman rekjanleika að leiðarljósi. Endapunktur rannsóknarinnar voru frosin þorskflök og því nær rannsóknin ekki yfir þá hlekki sem snúa að flutningi, smásölu o.s.frv. Eitt af markmiðunum var að auka þekkingu á tengslum milli fituinnihalds lifrar og lifrarstuðuls annars vegar og holdafarsstuðuls hins vegar. Þannig væri hægt að afla mikilvægra upplýsinga um ástand þorsks umhverfis Ísland.

Ástand fiska er metið á tvo vegu. Annars vegar er reiknaður holdafarsstuðull (hlutfall þyngdar af lengd í þriðja veldi) og hins vegar lifrarstuðull (hlutfall lifrar af þyngd fisksins). Ef fiskur er í góðum holdum er það vísbending um að nóg sé af fæðu og ástand hans gott. Þegar fiskur hefur næga fæðu þá byggir hann einnig upp forðabúr í lifrinni; því stærri lifur, því betra er ástand fisksins. En raunverulegt ástand fisks er eingöngu gott ef hlutfall fitu í lifur er hátt.

Hingað til hafa lifrar verið vigtaðar í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunarinnar og ástand fiska metið út frá holdafars- og lifrarstuðli. Hins vegar var ekki vitað hve gott þetta mat var á raunverulegu ástandi fisksins þar sem hlutfall fitu í lifur var ekki þekkt í þorski við Ísland. Niðurstöður AVS verkefnisins sýndu að jákvætt samband var milli lifrarstuðuls og fituinnihalds lifrar. Sambandið var þó ekki línulegt heldur hækkaði fituinnihaldið hratt við lágan lifrarstuðul en minna eftir því sem lifrarstuðullinn hækkaði. Sömuleiðis hækkaði fituinnihald lifrar með lengd og aldri bæði hjá hængum og hrygnum. Hins vegar var ekki samband milli holdafars fisks og fituinnihalds lifrar.

Holdafarsstuðullinn gefur því eingöngu upplýsingar um holdafar fisksins, en ekki hvort hann hafi safnað forðanæringu í lifur. Niðurstöður þessa verkefnis benda til þess að lifrarstuðullinn gefi ágætar vísbendingar um ástand þorsks. Með niðurstöðum verkefnisins væri hægt að meta fituinnihald í lifrum sem hafa verið vigtaðar í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þó að það gefi ekki nákvæmar fitumælingar þá er hægt að hafa matið til hliðsjónar þegar ástand þorsks er skoðað.

Niðurstöður fyrir vinnslueiginleikana sýndu að fituinnihald lifrar, þyngd fisksins eða holdastuðullinn gefa ekki neinar afgerandi vísbendingar um flakanýtingu. Í framtíðinni þyrfti að rannsaka betur sambandið milli hlutfalls fitu í lifrum og lifrarstuðulsins og athuga hvort og þá hvernig ýmsir þættir, s.s. hitastig, hafa áhrif á sambandið.

Haldgóð vitneskja er til um vinnslueiginleika þorsks m.t.t. árstíma, veiðislóðar, meðhöndlunar og annarra aðstæðna við veiðar. Hins vegar eru tengsl kyns, kynþroska, fæðuástands og aldur fisks við vinnslueiginleika ekki eins vel þekkt og því var lögð áhersla á að rannsaka mikilvægi þessara breyta á vinnslueiginleika þorsks í þessu AVS verkefni.

Niðurstöðurnar sýna að kyn og aldur hafa ekki tölfræðilega marktæk áhrif á flakanýtingu og los. Hins vegar virtist kynþroski hafa nokkur áhrif á flakanýtinguna þ.s. ókynþroska fiskur er með nokkru betri nýtingu en kynþroska fiskur. Sömuleiðis var munur á losi í flaki milli einstakra veiðiferða og sá munur gæti orsakast að einhverju leyti af kynþroskastigi. Rétt er þó að benda á að talsvert ójafnvægi var í gagnasafninu varðandi dreifingu kynþroska í einstakra veiðiferðum og tiltölulega fá sýni voru af fiski af kynþroska fiski samanborið við ókynþroska.  Því er nauðsynlegt að gera ítarlegri rannsókn á kynþroska til að komast að afgerandi niðurstöðu um tengsl hans við flakanýtingu og los.

Niðurstöður varðandi efnasamsetninguna sýndu að ekkert tölfræðilega marktækt samband var milli styrks járns, selens, blýs,  eða lífrænna efna (PCB7) og kyns, aldurs eða kynþroska. Tölfræðilega marktækt samband var hins vegar milli styrks kvikasilfurs í þorskflökum og aldurs/lengdar. Þekkt er að kvikasilfur safnast fyrir í holdi fiska með aldri og niðurstöður þessarar rannsóknar eru því í samræmi við og byggja undir fyrri niðurstöður á þessu sviði.

Í verkefninu hefur farið fram mjög víðtæk gagnasöfnun, þar sem margir aðilar hafa komið að sýnatökum og mælingum á hinum ýmsu stigum í vinnslu þorsksins, auk aldursgreiningar og efnamælinga bæði á flökum og lifur.  Verkefnið hefur komið á samstarfi um sýnatökur og samnýtingu gagna milli Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Matís og fiskvinnslu-fyrirtækjanna HB Granda og Guðmundar Runólfssonar. Þessi samvinna hefur gert okkur kleift að safna ítarlegri og betri gögnum og  þannig leitt til verulegra samlegðaráhrifa og betri nýtingu rannsóknarfjármagns. Þegar er ljóst að verkefnið mun leiða af sér frekara samstarf í framtíðinni.

Skýrsla verkefnisstjóra: Grandskoðum þann gula frá miðum í maga – rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla

Tilvísunarnúmer AVS: R 077-07

Fréttir

Gagnleg gerjun matvæla

Föstudaginn 22. október kl. 12.00 heldur Shuji Yoshikawa fyrirlestur um gerjun matvæla í Verinu á Sauðárkróki.

Matís vinnur nú að verkefninu „Gagnleg gerjun“ í samstarfi við Brimberg ehf. fiskvinnslu á Seyðisfirði sem styrkt er af AVS – Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi (www.avs.is) og Vaxtarsamningi Austurlands.

Verkefnið snýst um framleiðslu fiskisósu með gerjun sjávarfangs til verðmætaaukningar. Í sambandi við umrætt verkefni hefur Líftæknismiðja Matís á Sauðárkróki hýst góðan gest nú í október, Hr. Shuji Yoshikawa er sérfræðingur á sviði gerjunar matvæla. Hr. Yoshikawa hefur leiðbeint sérfræðingum Matís og öðrum samstarfsaðilum verkefnisins við innleiðingu þekkingar, sem er grundvöllur framfara á þessu sviði.

Af því tilefni fær gesturinn góði að láta ljós sitt skína á málstofu í Verinu Vísindagörðum þar sem fjallað verður um  hagnýtingu gerjunar við framleiðslu matvæla. Sojasósu sem margir Íslendingar þekkja, enda hefur neysla hennar hér á landi aukist á undanförnum árum, er framleidd með gerjun sojabauna. Farið verður yfir helstu atriði í framleiðslu sojasósu
en áður verður hlutverk koji við gerjun japanskra matvæla útskýrt.

Málstofan er öllum opin. Nánar hér.

Upplýsingar gefur Gísli Svan Einarsson gisli@veridehf.is S; 455-7930

Verið Vísindagarðar, Háeyri 1, Sauðárkróki. www.veridehf.is

Fréttir

Fljótlegar gæðamælingar við matvælavinnslu

Matís hefur undanfarin misseri staðið að verkefni með það að markmiði að bæta ferlastýringu í matvælum.

Leitast hefur verið eftir því að ná þessu markmiði með því að rannsaka nýjar fljótlegar mæliaðferðir á gæðavísum matvæla og hanna matvinnsluferla sem notfæra sér þessar aðferðir.  Í verkefninu, sem styrkt er afTækniþróunarsjóði Rannís, erumöguleikar nærinnrauðra mæliaðferða (near infrared, NIR), kjarnarófsmælinga (Nuclear Magnetic Resonance, NMR) og röntgengegnumlýsingatækni metnir til að mæla efnainnihald matvæla (NIR), vatnseiginleika (NMR) og staðsetningu beina og annarra aðskotahluta (röntgen). 

Hefðbundnar mælingar til að meta þessa gæðaþætti eru gjarnan tímafrekar og krefjast notkunar lífrænna eða hættulegra leysa, en engin slík efni koma við sögu við mælingar með þessum fljótlegu aðferðum sem verkefnið byggir á. Aðferðirnar hafa það einnig allar sameiginlegt að þær valda engum gæðabreytingum á matvælum við mælingar, sem gefur kost á notkun þeirra á rauntíma í vinnslulínum matvæla. 

Með tilkomu þessara fljótlegu aðferða má því stjórna framleiðslunni betur og………………meira

Fréttir

Greinar eftir starfsmenn Matís í vísindaritum

Nú eru aðgengilegar rafrænar útgáfur af tveimur greinum sem birtast í Journal of Food Engineering og Food Chemistry (sjá tengla neðar á síðunni). 

Greinarnar lúta báðar að saltfiskverkun.  Fyrri greinin fjallar um áhrif af mismunandi pækilstyrk á þyngdarbreytingar þorskvöðva og upptöku salts við pæklun.  Seinni greinin fjallar um áhrif mismunandi söltunaraðferða á afmyndun próteina og hvernig tengja má niðurstöður við breytileika í nýtingu afurða.

Greinarnar eru afrakstur doktorsverkefna sem unnin hafa verið að stærstum hluta hjá Matís, þ.e. verkefni Minh Van Nguyen sem stundar nám við Háskóla Íslands og verkefni Kristínar Önnu Þórarinsdóttur sem lokið hefur námi frá Háskólann í Lundi Svíþjóð. 

Verkefnin voru styrkt af AVS (R042-05), Rannís (R051364005) og Nordic Innovation Centre Fund (04252).  Auk þess hefur Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu Þjóðanna (United Nations University-Fisheries Training Programme) styrkt Minh Van Nguyen til námsins og  Nordic Marine Academy (NMA) nám Kristínar Önnu Þórarinsdóttur.

Helstu upplýsingar um greinarnar, auk útdráttar er að finna hér að neðan.  Nöfn þeirra höfunda sem starfa á Matís eru undirstrikuð.  Nánari upplýsingar veitir Kristín Anna Þórarinsdóttir, fagstjóri hjá Matís (tölvupóstfang: kristin.anna.thorarinsdottir(hja)matis.is). 

Minh Van Nguyen, Sigurjon Arason, Kristin Anna Thorarinsdottir, Gudjon Thorkelsson, Agusta Gudmundsdottir.  2010.  Influence of salt concentration on the salting kinetics of cod loin (Gadus morhua) during brine salting.  Journal of Food Engineering, Volume 100, Issue 2, 225-231

Abstract
The influence of different salt concentrations of 6%, 15%, 18% and 24% (w/w) on mass transfer of water and salt during brine salting of cod loins was studied. An increase in salt concentration accelerated water exudation and salt diffusion in the cod loins. Weight gain of the cod loins increased with decreasing salt concentration and the cod loins in the 6% brine had the highest process yield. The salting kinetic parameter values for total and water weight changes decreased with increasing salt concentration. Inversely, higher salting kinetic parameter values for salt weight changes were observed for higher brine concentrations. The samples brined at 18% and 24% had identical effective diffusion coefficients and the highest effective diffusion value was found in the cod loins brined at 15%.

doi:10.1016/j.foodchem.2010.09.109 

Kristin Anna Thorarinsdottir, Sigurjon Arason, Sjofn Sigurgisladottir, Thora Valsdottir, Eva Tornberg.  2011.  Effects of different pre-salting methods on protein aggregation during heavy salting of cod fillets.  Food Chemistry, Volume 124, Issue 1, Pages 7-14.

Abstract
The use of injection and brining as the first step in heavy salting of cod increases weight yields of the products through both salting and rehydration, compared to other pre-salting methods, like brining only and pickling. This is interesting since salt content of the muscle exceeds 20% NaCl, in all procedures. Therefore, the dissimilarities in yield were presumed to depend on the degree of protein denaturation and aggregation as influenced by the different salting procedures. This hypothesis was studied and confirmed with the aid of SDS–PAGE and DSC-analysis. Higher water retention of injected products was explained by stronger salting-in effects on proteins during pre-salting, reducing aggregation of muscle proteins during the dry salting step. The degree of protein aggregation during salting increased in the following order with regard to the different pre-salting methods: injection and brining < brining < pickling. These effects were still observed after rehydration. Furthermore, differences in denaturation/aggregation were assigned to both myosin and collagen.

doi:10.1016/j.foodchem.2010.05.095

Fréttir

Nýtt blóðgunar- og kælikerfi í borð um Stefni ÍS

Matís, ásamt 3X, fór fyrir stuttu í sjóferð um borð í ísfisktogaranum Stefni ÍS 28, skip Hraðfrystihússins Gunnvarar á Ísafirði.

Tilgangurinn var að skoða mismunandi blóðgunar – og kæliaðferðir um borð og komast að því hver þeirra skilaði mestum gæðum. Tildrög rannsóknarinnar var sú að 3X smíðaði síðastliðið sumar snigilkör um borð í Stefni með það að markmiði að kæla afurðina áður en hún færi ofan í lest.

Verkefni þetta er liður í stóru verkefni sem heitir Vinnsluferill línuveiðiskipa.

Nánari upplýsingar má finna hér en auk þess veitir Róbert Hafsteinsson, robert.hafsteinsson@matis.is upplýsingar um verkefnið.

Fréttir

Starfsmenn Matís klæðast bleiku

Október er mánuður Bleiku slaufunnar og árvekniátaks gegn krabbameini hjá konum. Af því tilefni klæðasta starfsmenn Matís bleiku í dag. Auk þess er Matís stuðningsaðili Bleiku slaufunnar.

Nánar um átakið má finna á heimasíðu Krabbameinsfélagsins, www.krabb.is.

Fréttir

Hefðbundinn dagur hjá Matís

Hjá Matís eru að jafnaði allmargir starfsmenn/nemendur sem eiga heimkynni annars staða en á Íslandi. Nokkrir starfa hjá Matís árið um kring en aðrir eru hjá fyrirtækinu í styttri eða lengri tíma.

Matís leggur mikið upp úr samstarfi við erlenda aðila jafnt til þess að markaðssetja þekkingu Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum en auk þess til að sækja þekkingu og fjármagn erlendis frá til þess að styrkja íslensk fyrirtæki. Nánari upplýsingar um alþjóðlegt samstarf Matís má finna hér.

Þessa dagana eru sérstaklega margir erlendir nemendur/starfsmenn að Vínlandsleið 12. Matís sér um kennslu vegna Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og er því margt um manninn í hádegismat. Nemendur og starfsmenn eru frá 16 löndum, t.d. Malasíu, Indónesíu, Srí Lanka, Kína, Víetnam og Gana svo fáein dæmi séu tekin.

Á myndinni má sjá starfsmenn snæða hádegisverð í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Vínlandsleið.

Nánari upplýsingar um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna má finna hér.

Fréttir

Matís fundar á Vestfjörðum

Í vikunni munu nokkrir starfsmenn Matís halda til Vestfjarða og funda um tækifæri sem nú eru í matvælaiðnaði á svæðinu.

Matís rekur starfsstöð á Ísafirði. Megináhersla í starfsemi Matís á Vestfjörðum er þróun vinnsluferla í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu, almenn tækniráðgjöf fyrir viðskiptavini Matís í formi hönnunar og tæknivinnu. Einnig er lögð áhersla á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó, og þar fer einnig fram öflugt rannsókna- og þróunarstarf í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Mikil forsenda er til staðar á þessu svæði til að horfa auk þess til annarra þátta og efla þá enn frekar. Smáframleiðsla matvæla er einn þáttur sem efla má. Matís hefur nú um allnokkurt skeið starfrækt Matarsmiðju á Höfn í Hornafirði þar sem notendur læra rétt vinnubrögð frá upphafi. Með aðstöðunni í Matarsmiðjunni á Hornafirði gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla. Nú þegar er fjöldi verkefna komin í gang í Matarsmiðjunni og koma frumkvöðlar m.a. úr Reykjavík til vöruþróunar og smáframleiðslu (nánar um Matarsmiðjuna hér).

Aðrir þættir svosem bætt nýting á fersku sjávarfangi og lífefnavinnsla úr hráefni sem annars myndi ekki nýtast, t.d. afskurður í fiskvinnslum. Markaður með heilsuvörur með lífvirkum efnum er geysistór og veltir hundruðum milljarða á ári á heimsvísu og því er eftir miklu að slægjast í þessum efnum.

Fundurinn fer fram í fundarsal Þróunarsetursins, Árnagötu 2-4 á Ísafirði, þriðjudaginn 5. október kl. 20. Fundarstjórn verður í höndum Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra á Ísafirði.

Fundurinn er öllum opinn og er fólk hvatt til þess að mæta.

Dagskrána á pdf formi má finna hér.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ, 27. október 2010

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?

Með þessari fréttatilkynningu vill undirbúningsnefnd Matvæladags MNÍ 2010, sem haldinn verður miðvikudaginn 27. október á Hilton Reykjavík Nordica Hóteli minna fjölmiðla og aðra er málið varðar á MNÍ daginn og hvetja til góðra skrifa og virks fréttaflutnings um það mikilvæga málefni sem verður til umfjöllunar.

Neysluvenjur íslensku þjóðarinnar í heild skipta okkur öll miklu máli með sín beinu áhrif á heilsu og ýmsa lífsstílstengda sjúkdóma. Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ, www.mni.is) vill leggja sitt af mörkum með því að helga árlega ráðstefnu félagsins, Matvæladag MNÍ, umfjöllun um næringu og fæðubótarefni. Mikilvægi réttrar miðlunar upplýsinga um næringu og fæðubótarefni og vísindalegs bakgrunns þeirra er megin inntak dagsins enda geta rangar upplýsingar um næringu haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður „Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?“

Á ráðstefnunni fjalla íslenskir sérfræðingar á faglegan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi næringu og fæðubótarefni út frá gagnreyndri þekkingu. Fjallað verður um túlkun rannsókna, og hvers vegna stakar rannsóknir, sem jafnvel ganga gegn viðtekinni vísindalegri þekkingu, eiga oft greiðari aðgang að fjölmiðlum en aðrar rannsóknir. Einnig verður fjallað um hvernig upplýsingar til almennings geta verið villandi og leiði oft til misskilnings sem erfitt er að bera til baka. Fjallað verður um gildi ýmissa fæðubótarefna, náttúrulyfja og náttúruefna og hvort neysla þeirra sé í raun og veru heilsusamleg, hverjir eigi helst á hættu að verða fyrir heilsuskaða vegna neyslu fæðubótarefna og hvaða þjóðfélagshópar geti notið góðs af þeim. Einnig verður rætt um eftirlit með fæðubótarefnum, sterk áhrif fjölmiðla og markaðsafla, og um tengsl heilsu og heilsufullyrðinga.

MNÍ vonast til þess að Matvæladagurinn verði upplýsandi fyrir almenning,  heilbrigðisstarfsfólk sem og hvern þann sem kemur að ráðgjöf um mataræði, næringu og heilsu.

Fjöregg MNÍ 
Í tengslum við Matvæladaginn er Fjöregg MNÍ afhent. Fjöreggið er veglegur eignargripur, veittur fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Sú nýbreytni verður reynd í ár að einstaklingum sem unnið hafa rannsóknir á sviði næringar, náttúrulyfja, náttúruefna og fæðubótarefna er boðið að kynna niðurstöður sínar á veggspjöldum. Einnig er áhugasömum fyrirtækjum í matvæla-, fæðubótar-, náttúrulyfja- og náttúruefnageiranum boðið að kynna vörur sínar á kynningarbási í kaffihléum gegn vægu gjaldi.

Matvæladagur MNÍ hefur frá fyrstu tíð fengið góðar undirtektir frá aðilum sem starfa við manneldismál, kennslu- og fræðslumál, matvælaframleiðslu og matvælaeftirlit. Í ár væntum við þess að höfða til enn breiðari hóps vegna mikillar heilsuvakningar og áhuga almennings á ýmsum heilsuvörum og fæðubótarefnum. Dagskráin stendur frá kl. 12:00-17:30. Hér má sjá dagskránna.

SKRÁNING

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida[at]lsh.is
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands er fagfélag matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og annarra stétta með háskólapróf í skyldum greinum. Markmið félagsins er m.a. að stuðla að þróun í matvælafyrirtækjum og efla samstarf við þau, stuðla að aukinni menntun og eflingu vísindalegra rannsókna á sviði matvæla- og næringarfræða, vinna að umbótum í manneldismálum þjóðarinnar og leitast við að hafa áhrif á löggjöf varðandi fagsvið félagsins. Heimasíða félagsins, www.mni.is, er uppfærð reglulega og þar er að finna atburðadagatal, fréttir og ýmsan fróðleik, m.a. greinar sem félagsmenn hafa skrifað í fjölmiðla og erindi frá ráðstefnum félagsins undanfarin ár. Einnig er gefið út tímaritið Matur er mannsins megin með ítarlegri umfjöllun um matvæli, næringu og efni Matvæladagsins ár hvert. Tímaritinu hefur verið dreift um allt land með Morgunblaðinu og mun svo einnig verða í ár.

Umfjöllunarefni fyrri Matvæladaga MNÍ

1993   Matvælaframleiðsla – Gæði  
1994   Matvælaiðnaður og manneldi  
1995   Menntun fyrir matvælaiðnað  
1996   Vöruþróun og verðmæta-sköpun  
1997   Matvæli á nýrri öld   
1998   Matur og umhverfi       
1999   Offita   
2000   Örugg matvæli       
2001   Matur og pólitík   2009   Íslensk matvælaframleiðsla og gjaldeyrissköpun
2002   Matvælaeftirlit
2003   Neysluþróun
2004   Rannsóknir
2005   Stóreldhús og mötuneyti
2006   Öflugur matvælaiðnaður í stöðugri framþróun
2007   Hverjir bera ábyrgð á og hafa áhrif á fæðuval og næringarástand þjóðarinnar?
2008   Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir

Fréttir

Umhverfismengun á Íslandi – vöktun og rannsóknir

Fyrsta ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi verður haldin föstudaginn 25. febrúar 2011 í nágrenni Reykjavíkur.

Markmiðið með ráðstefnunni er að kynna vinnu og niðurstöður helstu aðila sem vinna við að meta mengun á Íslandi.  Áhersla verður lögð á að allir vöktunar- og rannsóknaraðilar komi með framlag á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni er skipt í tvo hluta.  Fyrir hádegi verður lögð áhersla á vöktun umhverfismengunar í íslenskri náttúru.  Síðan að loknum hádegisverði verða kynningar á rannsóknum á mengun í lofti, legi, jarðvegi, mönnum og dýrum.  Fyrirkomulag ráðstefnunnar er sú að í hverjum hluta verða valin nokkur erindi frá innsendum ágripum þar sem höfðu áhersla verður vöktun annars vegar og rannsóknir hins vegar. Þessi erindi veita yfirsýn yfir stöðu máli á Íslandi í dag. Einnig verður rík áhersla á veggspjöld þar sem rannsóknaraðilum gefst kostur á að kynna sín verkefni.  Ráðstefnugestum gefst færi á að kynna sér þau fjölbreyttu vöktunar- og rannsóknaverkefnum á þessum veggspjöldum og ræða persónulega við rannsakendur um þau verkefni í kaffihléum og veggspjaldakynningum. 

Lokafrestur til skila á ágripum er 1. desember 2010 á umhverfi@matis.is. Drög að dagskrá má finna hér.

Skipulagsnefnd svarar fyrirspurnum
Gunnar Steinn Jónsson Umhverfisstofnun, gunnar@ust.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir Matís, hronn.o.jorundsdottir@matis.is
Taru Lehtinen HÍ, tmk2@hi.is

Vísindanefnd
Hrund Ólöf Andradóttir, HÍ
Taru Lehtinen, HÍ
Kristín Ólafsdóttir, HÍ
Gunnar Steinn Jónsson, Umhverfisstofnun (UST)
Hermann Sveinbjörnsson, Umhverfisráðuneytið
Anna Kristín Daníelsdóttir, Matís
Helga Gunnlaugsdóttir, Matís
Hrönn Jörundsdóttir, Matís

IS