Fréttir

Umbætur í virðiskeðju matvæla

Mikilvægt er að huga að öllum þáttum í virðiskeðju matvæla því hver keðja er aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar.

Helstu niðurstöður verkefnisins „Umbætur í virðiskeðju matvæla“ hafa nú verið teknar saman í skýrslu og birtar á vef Matís og má finna hér ásamt ítarlegri skýrslum um þætti Matís í verkefninu.

Verkefninu var stýrt af Samtökum iðnaðarins og unnið í samstarfi við Kaupás, Norðlenska, Sláturfélag Suðurlands, Rannsóknarsetur verslunarinnar, Matís og AGR aðgerðagreiningu.

Tækniþróunarsjóður styrkti verkefnið. Í verkefninu var sjónum beint að ferli kjötvöru, sem er fremur flókin vinnsla og krefst bæði kælingar og í sumum tilfellum hitunar, í gegn  um vinnsluferil og út í gegn um verslun. Niðurstöðurnar eiga engu að síður að geta nýst í öðrum greinum matvælavinnslu.

Framleiðendur matvæla eru hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.

Matís hefur einnig gefið út þrjár aðrar skýrslur þar sem fjallað er um einstaka þætti verkefnins; Kortlagning á ferli vöru og vörustýringuÁhrif kælikeðjunnar á rýrnun kjöts ásamt Tillögum að verklýsingum fyrir kælikeðju kjöts.

Nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Enn og aftur fæst það staðfest að íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað!

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities.

Skýrslan, sem finna má hér, sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2008 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2008 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða yfirstíga leyfileg mörk fyrir viss efni. Einnig getur þorskalifur farið upp fyrir leyfileg mörk.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á þorskalifur, fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Myndræna framsetningu niðurstaðna vöktunarverkefnisins er hægt að nálgast á heimasíðu Matís gegnum hlekkinn „Íslenskt sjávarfang – hreint og ómengað“.

Höfundar skýrslunnar er Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Katrín Hauksdóttir, Natasa Desnica og Helga Gunnlaugsdóttir. Verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir, sem veitir nánari upplýsingar, helga.gunnlaugsdottir@matis.is.

Fréttir

Nýtt útlit á verkefnasíðum á heimasíðu Matís

Aðgangur að verkefnasíðum á Matísvefnum hefur nú verið bættur til muna. Flipinn beint á verkefnasíðurnar er staðsettur í grænum borða efst til hægri á forsíðu Matís, www.matis.is.

Rannsóknarverkefni innan fyrirtækisins eru fjármögnuð af Matís ohf., ásamt styrkjum úr innlendum og erlendum rannsóknarsjóðum. Fjölmörg verkefni eru unnin fyrir og fjármögnuð að hluta til eða alfarið af innlendum fyrirtækjum og stofnunum.

Nánari upplýsingar má finna hér og með því að hafa samband við Jón H. Arnarson, jon.h.arnarson@matis.is.

Fréttir

Ert þú að búa til skyr?

Matís leitar eftir samstarfi við aðila sem framleiða skyr á hefbundinn hátt.

Skyr er hefðbundin íslensk afurð sem virðist hafa verið gerð á Íslandi frá landnámi, en mjólkurafurð undir þessu sama heiti var þá þekkt á öllum Norðurlöndunum. Skyrgerð virðist þó eingöngu hafa varðveist á Íslandi. Líklega hefur skyrið á landnámsöld verið ólíkt því sem við þekkjum í dag, bæði súrara og þynnra. Mikil breyting hefur orðið á framleiðslu skyrs á síðustu öld með tilkomu verksmiðjuframleiðslu þess. Ýmsar útgáfur eru nú fáanlegar af verksmiðjuframleiddu
skyri, þær eiga það þó allar það sammerkt að vera töluvert frábrugðnar því heimagerða.

Skyr er mikilvægur hluti af menningarar­fi okkar Íslendinga og því er mikilvægt að öðlast meiri þekkingu á þessari afurð. Þrátt fyrir það hafa fáar rannsóknir verið gerðar á hefðbundnu skyri og fjölbreytileika þess. Matís er nú að leita rannsókn á samsetningu og eiginleikum hefðbundins skyrs og leitar því eftir samstar­fi við aðila sem stunda ennþá skyrgerð á hefðbundinn hátt.

Nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir hjá Matís, s. 422-5143, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Verður ein besta líftæknirannsóknastofa í heimi staðsett á Sauðárkróki?

Nýverið var tekin í notkun sérstök rannsóknastofa til frumurannsókna í Líftæknismiðju Matís í Verinu á Sauðárkróki og mun Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís hafa yfirumsjón með rannsóknastofunni.

Líftæknismiðjunni starfa að staðaldri fjórir sérfræðingar frá Matís, þrír af Lífefna- og Líftæknisviði ásamt einum af Vinnslu- og Virðisaukningarsviði. Í Líftæknismiðjunni eru stundaðar mjög sérhæfðar rannsóknir á lífvirkni lífefna sjávarfangs og er það markmið Matís að gera rannsóknastofuna að einni bestu í heiminum á þessu sviði.

Lífvirkni getur verið t.d. krabbameinshindrandi, blóðþrýstingslækkandi og andoxunarvirkni. Nú þegar er til staðar fullkominn tækjabúnaður til rannsókna á lífvirkni mældri í in vitro aðstæðum (í tilraunaglösum) sem framkvæmdar eru undir stjórn Dr. Patriciu Hamaguchi. Þar sem in vitro rannsóknir hafa lofað góðu er mikill áhugi að skoða lífvirkni nánar í frumumódelum þar sem in vitro mælingar á lífvirkni hafa verið gagnrýndar vegna getu þeirra til að spá fyrir um virkni í líffræðilegum kerfum. Nú þegar er unnið að þróun mæliaðferðar til að meta andoxunarvirkni fiskpeptíða í Hep G2 frumum.

Þetta er mikilvægt skref fram á við í rannsóknum á lífvirkni fisk- og sjávarafurða og er nauðsynlegt fyrir næsta stig þessara rannsókna sem felst í klínískum tilraunum á dýrum og mönnum.

Fréttir

Mengun við strandlengjur – Matís með námskeið á Ísafirði

Hrönn Ólína Jörundsdóttir starfsmaður Matís verður með námskeið við Háskólasetur Vestfjarða 3.-21. maí nk.

Þar mun Hrönn leiða nemendur í allan sannleikan um mengandi efni hafsins í kringum Ísland, strandlengjur annarra landa auk þess sem farið verður í hvaða þættir hafa áhrif á mengun hafssvæða.

Námskeiðið fer fram á ensku og má nálgast frekari upplýsingar hér. Hrönn Ólína veitir auk þess upplýsingar, hronn.o.jorundsdóttir@matis.is.

Fréttir

NOMA útnefnt besta veitingahús í heimi – Framkvæmdastjórinn á leið til landsins

Peter Kreiner frá NOMA veitingahúsinu í Kaupmannahöfn er á leið til landsins til þess að vera viðstaddur og halda erindi á ráðstefnu sem Matís og fleiri standa fyrir 20. og 21. maí nk.

Peter mun tala um hvernig hægt sé að koma norrænum gildum í matargerðarlist á framfæri. Noma hefur það að markmiði að bjóða upp á persónulega nálgun á norrænni sælkera matargerð, þar sem hefðbundnar aðferðir við matreiðslu, norræn hráefni svo og sameiginleg matarhefð og arfleifð okkar er tengd nýrri og frumlegri matargerðarlist.

Frétt um viðurkenningu NOMA má finna hér.

Heimasíða NOMA: www.noma.dk

Fréttir

Matís tekur þátt í norrænni ráðstefna (workshop) um uppsjávarfiska

SINTEF í Noregi í skipuleggur ráðstefnu um uppsjávarfiska 30 ágúst nk í samstarfi við Matís á Íslandi, DTU í Danmörku og Chalmers í Svíþjóð.

Ráðstefnan verður haldin á Best Western Oslo Airport Hotel, Gardermoen í Noregi. Ráðstefnan fjallar um veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski, ásamt hagnýtum rannsóknum.

Áhersla verður meðal annars lögð á meðhöndlun afla um borð, vinnslutækni, gæðamál, heilbrigði og nýtingu aukafurða uppsjávarfisks.

Meðal fyrirlesara er Hanne Digre frá SINTEF í Noregi og mun hún fjalla um uppsjávarveiðar ásamt meðhöndlun afla um borð. Ingrid Underland frá Háskólanum Chalmers í Gautaborg mun tala um einangrun próteina úr uppsjávarfiskum og hliðarafurðum, ásamt þránun á fitu uppsjávarfiska.  Henrik H. Nielsen frá DTU Danmörku mun fjalla um í sínu erindi áhrif veiðisvæða og veiðitíma á gæði í ferskri og frystri síld. Sigurjón Arason frá Matís mun fjalla um meðhöndlun og kæliaðferðir varðandi uppsjávarfisk.  Ásbjörn Jónsson  mun fjalla um veiðiaðferðir ásamt gæða- og framleiðslustjórnun á uppsjávarfiski. Fyrirlesarar frá iðnaðinum á Norðurlöndum munu fjalla um tækifæri og framtíð varðandi  veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski.

Nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu ofl. má finna á heimasíðu SINTEF

Fréttir

Matís á vorráðstefnu FÍF

Líflegar umræður voru á vorráðstefnu Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem haldin var 8.-9. apríl síðastliðinn á Grand-hóteli. Matís lét ekki sitt eftir liggja og var með tvo fyrirlestra á sínum snærum þar.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Lárus Þorvaldsson um kælingu uppsjávarafla til vinnslu í landi. Þar fór hann yfir þann árangur sem náðst hefur með sívirkum hitastigsmælingum og eftirfylgni um borð í uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar en auk þess kynnti hann möguleika tölvuvæddrar varma- og straumfræði til hönnunar, vinnslustýringar og ákvarðanatöku við uppsjávarveiðar.

Þá fjallaði Sigurjón Arason um rannsóknir Matís á árstíðarbundnum sveiflum í fitu- og þurrefnisinnihaldi uppsjávarfisks, ásamt því sem hann kom inn á markaðsaðstæður og möguleika til nýtingar ýmissa uppsjávartegunda.  Sigurjón fjallaði einnig um starf Matís við smíði gæðavísis uppsjávarfisks,  en Matís hefur á síðustu misserum þróað skynmatsaðferðir til að leggja mat á ferskleika uppsjávartegunda.

Báðir fyrirlestrarnir vöktu mikinn áhuga meðal ráðstefnugesta og ljóst að grannt er fylgst með rannsóknum Matís til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg.

Fréttir

Áhætta og ávinningur við neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda

Dagana 14.-15. apríl verður haldinn alþjóðlegur vinnufundur (Workshop) um „Aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda„ í nýju höfuðstöðvum Matís.

Þessi vinnufundur er liður í SAFEFOODERA EraNet verkefni um áhættu- og ávinningsmat.  Samtals er gert ráð fyrir að 23 sérfræðingar frá 8 löndum taki þátt í fundinum.

Markmið verkefnisins er  að þróa aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda. Til þess að ná þessu markmiði er ætlunin að nýta þekkingu og reynslu á áhættu-og ávinningsgreiningu sem byggð hefur verið upp á öðrum fræðasviðum s.s. læknis- og lyfjafræði, örverufræði, umhverfisfræðum, félags- og hagfræði og  yfirfæra sem og aðlaga þær aðferðir að matvæla- og næringarfræði. Ætlunin er að safna gögnum og nýta sér reynslu sem byggð hefur verið upp á þeim fræðasviðum sem nota áhættu-og ávinningsgreiningu í dag og yfirfæra þessa þekkingu og þróa aðferðir sem henta á sviði matvæla. 

Hlutverk Matís er að safna gögnum og nýta sér þá reynslu sem byggð hefur verið upp á sviði örverufræði um áhættumat og yfirfæra þessa þekkingu til að þróa aðferðir fyrir áhættu-og ávinningsgreiningu í matvælum. Vinnan í verkefninu byggist á öllum þáttum áhættu- og ávinningsgreiningar þ.e.a.s. áhættu- og ávinningsmati ,áhættu- og ávinningsstjórnun, áhættu- og ávinningskynningu.

Á ráðstefnunni taka meðal annars til máls Hans Verhagen sem er mikils metinn fagmaður á sviði áhættu- og ávinningsgreiningu matvæla (risk-benefit analysis) í matvælum. Hans stýrir  45-50 manna deild sem vinnur á þessu sviði hjá RIVM National Institute for Public Health and the Environment í Hollandi. Auk þess gegnir hann prófessorstöðu við Maastricht University í Hollandi. Fundurinn á þessa daga er því gott tækifæri til að fræðast um þessi mál frá þeim sem er meðal þeirra fremstu á sínu sviði.  

Dagskrá fundarins má sjá hér.

IS