Fréttir

Íslenskt „Parma“ eða „San Danielle“ beint frá býli?

Verkefninu „Loftþurrkað lambakjöt“ er nú lokið hjá Matís. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa vörur úr loftþurrkuðu lambakjöti í samvinnu við bændur. 

Verkefnið snérist jafnframt um að auka kunnáttu bænda á vinnslu og verkun lambakjöts í loftþurrkaðar afurðir. Myndaður var samstarfshópur 5 bænda sem höfðu  áhuga og hafa aðstöðu til heimavinnslu slíkra vara. Verkefnið tókst í meginatriðum mjög vel. Bændum tókst að tileinkað sér þá framleiðsluhætti sem nauðsynlegir eru við þurrverkun og uppskáru þeir nýja framleiðsluferla og vörur, hver fyrir sig ólík því sem til er á markaði í dag. Niðurstöðurnar styrkja því viðkomandi býli til þróunar á nýjum vörum úr eigin hráefni og þar með starfsgrundvöll þeirra.

Þurrverkað kjöt er vara með mjög langt geymsluþol þar sem saltið kemur til viðbótar við lágt vatnsinnihald. Í stuttu máli má segja að verkunarferill þurrverkaðs kjöts byggi á hæfilegri saltnotkun, hitastýringu og stýrðu rakaumhverfi sem dregur úr vatnsvirkni kjötsins. Við það verður hægfara þurrkun á kjötinu auk þess að líkur á vexti matareitrunargerla verður hverfandi lítill. Samspil hita- og rakastigs á þurrkunartímanum hefur afgerandi áhrif á eiginleika og öryggi þurrkaða kjötsins.  Aðstæður á ólíkum landsvæðum hafa því í gegnum tíðina haft mikil áhrif á hráefnið og skapað mismunandi afurðir með svæðisbundna sérstöðu.   

Framtíð hinnar hefðbundnu íslensku loftþurrkuðu afurðar, hangikjöts, er háð margvíslegum þáttum þ.m.t. þróun verkunaraðferða, óskum neytenda og matvælaöryggi.  Loftþurrkað hangikjöt ætlað hrátt til neyslu er að verða vinsælt aftur, í léttari útgáfu en var samkvæmt eldri hefðum. Hráverkuðu kjöti sem ekki er soðið fyrir neyslu og blautu kjöti sem þarf að sjóða fyrir neyslu er hinsvegar oft ruglað saman. Það er því mjög mikilvægt að þeir sem fara út í slíka framleiðslu hafi fullnægjandi þekkingu á því hvernig eigi að standa að henni til að tryggja gæði og öryggi vörunnar.

Loftþurrkað lambakjöt ætti að skipa sama sess og loftþurrkuð skinka gerir í Suður- Evrópu. Með verkefninu var stefnt að auknu framboði af loftþurrkuðu lambakjöti á Íslandi bæði í tengslum við matarferðamennsku, hið norræna eldhús og menningu landsins. Það er von skýrsluhöfunda að verkefnið verði hvatning til samstarfsaðila þess til að halda áfram með vel unnið verk sem og til annarra að prófa sig áfram með þessa sígildu verkunaraðferð sem getur gefið af sér bæði sérstakar og einstaklega bragðgóðar vörur.

Verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóð og Fagráði í sauðfjárrækt/stjórn BÍ.

Lokaskýrsla verkefnisins má finna hér.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is

Fréttir

Fyrirlestur og workshop í tengslum við smáframleiðslu og hönnun matvæla í Ríki Vatnajökuls

Á morgun, þriðjudaginn 18. maí n.k. verður hér á landi Brent Richards.  Brent er arkitekt og hönnuður sem hefur lengi unnið að matarhönnun. 

Hann stýrði í mörg ár DesignLab við Central Saint Martin School of Design í London.  Nú er Brent framkvæmdastjóri The Design Embassy Europe. Hann hefur mikil alþjóðleg tengsl bæði í hönnunarheiminum, matarmenningu og nýjungum í mat og upplifun.  Brent er mjög áhugasamur um stöðu mála hér á okkar svæði og kemur hingað með stelpunum í “Björg-í-bú” sem vinna nú að verkefni um framleiðslu á sjávarsöltuðum kartöfluflögum úr Ríki Vatnajökuls.  

Hann mun halda fyrirlestur um nýsköpun í smáframleiðslu matvæla og tengingu við svæðisbundna menningu.  Titill fyrirlestursins er : FOOD NARRATIVE – CONNECTION WITH CULTURAL AND REGIONAL IDENITY.

Fyrirlesturinn hefst kl 1220 og verður í fyrirlestrarsal Nýheima á Höfn

Í framhaldi af fyrirlestrinum verður Brent svo með stutt „workshop“ þar sem hann mun vinna með áhugasömum að skilgreiningu tækifæra í Ríki Vatnajökuls. 

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta.

Fréttir

Tækifæri Norður-Atlantshafsins – Matís þátttakandi á NORA ráðstefnu í Reykjavík

Dagana 18.-19. maí fer fram ráðstefna á Hilton Reykjavík Nordica Hotel á vegum Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA).

Tilgangur þessarar ráðstefnu er að skoða og kanna möguleika á samstarfi á milli aðila sem eiga með einum eða öðrum hætti hagsmuni að gæta í Norður-Atlantshafi. Rannveig Björnsdóttir mun þar flytja erindi en eins mun Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, stjórna einni málstofu ráðstefnunnar.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

NORA eða Norræna Atlantsnefndin heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og telst vera hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamvinnu. Hið norræna samstarfsumhverfi og hið verkefnamiðaða starf skapar NORA góðan grundvöll að samstarfi milli landa, byggt á norrænum markmiðum og gildum.

Starfsemi NORA er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og framlagi frá þátttökulöndunum fjórum, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Noregi.

Í NORA-nefndinni sitja þrír meðlimir frá hverju þátttökulandanna, en nefndin mótar stefnu fyrir starfsemi NORA til nokkurra ára í senn.

Aðalskrifstofa NORA er staðsett í Þórshöfn í Færeyjum. Í hinum aðildarlöndunum, Íslandi, Grænlandi og Suður-Noregi og Vestur- og Norður-Noregi starfa landsskrifstofur og tengiliðir.

NORA leggur sitt af mörkum til að styrkja samstarf á Norður Atlantssvæðinu til að gera það að kröftugu norrænu svæði, sem einkennist af sterkri og sjálfbærri þróun. Það gerist m.a. með því að styrkja samstarf milli atvinnulífs og rannsókna- og þróunarstarfsemi þvert á landamæri.

Það er því verkefni NORA:

  • að skapa pólitískan og faglegan vettvang fyrir umræðu um lausnir og stefnumótun og sameiginlegt frumkvöðlastarf á Norður-Atlantssvæðinu.
  • að koma á fót og hafa milligöngu um verkefnasamstarf
  • að starfa að þróun í samræmi við norræn markmið um sjálfbærni.
  • að þróa NORA sem aðlaðandi vettvang fyrir norræna samvinnu við nágrannalöndin.

Fréttir

Opið er fyrir umsóknir vegna sumarstarfa hjá Matís

Matís lætur ekki sitt eftir liggja til þess að koma til móts við nemendur og aðra þá sem eru án atvinnu nú í sumar.

Matís býður upp á fjölbreytt úrval af áhugaverðum rannsóknatengdum sumarstörfum og eru námsmenn í tengdum greinum hvattir til að senda inn starfsumsókn.

Umsóknir sendist til atvinna@matis.is. Þeir sem hafa nú þegar sótt um sumarstörf hjá Matís fyrir sumarið 2010 þurfa ekki að sækja um á nýjan leik.

Hér má sjá lista yfir þau rannsóknarverkefni sem eru í boði.

Hjá Matís starfa um 100 manns á 8 stöðum vítt og breitt um landið. Nánari upplýsingar um áherslur Matís má finna hér.

Fréttir

Umbætur í virðiskeðju matvæla

Mikilvægt er að huga að öllum þáttum í virðiskeðju matvæla því hver keðja er aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar.

Helstu niðurstöður verkefnisins „Umbætur í virðiskeðju matvæla“ hafa nú verið teknar saman í skýrslu og birtar á vef Matís og má finna hér ásamt ítarlegri skýrslum um þætti Matís í verkefninu.

Verkefninu var stýrt af Samtökum iðnaðarins og unnið í samstarfi við Kaupás, Norðlenska, Sláturfélag Suðurlands, Rannsóknarsetur verslunarinnar, Matís og AGR aðgerðagreiningu.

Tækniþróunarsjóður styrkti verkefnið. Í verkefninu var sjónum beint að ferli kjötvöru, sem er fremur flókin vinnsla og krefst bæði kælingar og í sumum tilfellum hitunar, í gegn  um vinnsluferil og út í gegn um verslun. Niðurstöðurnar eiga engu að síður að geta nýst í öðrum greinum matvælavinnslu.

Framleiðendur matvæla eru hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.

Matís hefur einnig gefið út þrjár aðrar skýrslur þar sem fjallað er um einstaka þætti verkefnins; Kortlagning á ferli vöru og vörustýringuÁhrif kælikeðjunnar á rýrnun kjöts ásamt Tillögum að verklýsingum fyrir kælikeðju kjöts.

Nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Enn og aftur fæst það staðfest að íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað!

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities.

Skýrslan, sem finna má hér, sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2008 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2008 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða yfirstíga leyfileg mörk fyrir viss efni. Einnig getur þorskalifur farið upp fyrir leyfileg mörk.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á þorskalifur, fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Myndræna framsetningu niðurstaðna vöktunarverkefnisins er hægt að nálgast á heimasíðu Matís gegnum hlekkinn „Íslenskt sjávarfang – hreint og ómengað“.

Höfundar skýrslunnar er Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Katrín Hauksdóttir, Natasa Desnica og Helga Gunnlaugsdóttir. Verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir, sem veitir nánari upplýsingar, helga.gunnlaugsdottir@matis.is.

Fréttir

Nýtt útlit á verkefnasíðum á heimasíðu Matís

Aðgangur að verkefnasíðum á Matísvefnum hefur nú verið bættur til muna. Flipinn beint á verkefnasíðurnar er staðsettur í grænum borða efst til hægri á forsíðu Matís, www.matis.is.

Rannsóknarverkefni innan fyrirtækisins eru fjármögnuð af Matís ohf., ásamt styrkjum úr innlendum og erlendum rannsóknarsjóðum. Fjölmörg verkefni eru unnin fyrir og fjármögnuð að hluta til eða alfarið af innlendum fyrirtækjum og stofnunum.

Nánari upplýsingar má finna hér og með því að hafa samband við Jón H. Arnarson, jon.h.arnarson@matis.is.

Fréttir

Ert þú að búa til skyr?

Matís leitar eftir samstarfi við aðila sem framleiða skyr á hefbundinn hátt.

Skyr er hefðbundin íslensk afurð sem virðist hafa verið gerð á Íslandi frá landnámi, en mjólkurafurð undir þessu sama heiti var þá þekkt á öllum Norðurlöndunum. Skyrgerð virðist þó eingöngu hafa varðveist á Íslandi. Líklega hefur skyrið á landnámsöld verið ólíkt því sem við þekkjum í dag, bæði súrara og þynnra. Mikil breyting hefur orðið á framleiðslu skyrs á síðustu öld með tilkomu verksmiðjuframleiðslu þess. Ýmsar útgáfur eru nú fáanlegar af verksmiðjuframleiddu
skyri, þær eiga það þó allar það sammerkt að vera töluvert frábrugðnar því heimagerða.

Skyr er mikilvægur hluti af menningarar­fi okkar Íslendinga og því er mikilvægt að öðlast meiri þekkingu á þessari afurð. Þrátt fyrir það hafa fáar rannsóknir verið gerðar á hefðbundnu skyri og fjölbreytileika þess. Matís er nú að leita rannsókn á samsetningu og eiginleikum hefðbundins skyrs og leitar því eftir samstar­fi við aðila sem stunda ennþá skyrgerð á hefðbundinn hátt.

Nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir hjá Matís, s. 422-5143, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Verður ein besta líftæknirannsóknastofa í heimi staðsett á Sauðárkróki?

Nýverið var tekin í notkun sérstök rannsóknastofa til frumurannsókna í Líftæknismiðju Matís í Verinu á Sauðárkróki og mun Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís hafa yfirumsjón með rannsóknastofunni.

Líftæknismiðjunni starfa að staðaldri fjórir sérfræðingar frá Matís, þrír af Lífefna- og Líftæknisviði ásamt einum af Vinnslu- og Virðisaukningarsviði. Í Líftæknismiðjunni eru stundaðar mjög sérhæfðar rannsóknir á lífvirkni lífefna sjávarfangs og er það markmið Matís að gera rannsóknastofuna að einni bestu í heiminum á þessu sviði.

Lífvirkni getur verið t.d. krabbameinshindrandi, blóðþrýstingslækkandi og andoxunarvirkni. Nú þegar er til staðar fullkominn tækjabúnaður til rannsókna á lífvirkni mældri í in vitro aðstæðum (í tilraunaglösum) sem framkvæmdar eru undir stjórn Dr. Patriciu Hamaguchi. Þar sem in vitro rannsóknir hafa lofað góðu er mikill áhugi að skoða lífvirkni nánar í frumumódelum þar sem in vitro mælingar á lífvirkni hafa verið gagnrýndar vegna getu þeirra til að spá fyrir um virkni í líffræðilegum kerfum. Nú þegar er unnið að þróun mæliaðferðar til að meta andoxunarvirkni fiskpeptíða í Hep G2 frumum.

Þetta er mikilvægt skref fram á við í rannsóknum á lífvirkni fisk- og sjávarafurða og er nauðsynlegt fyrir næsta stig þessara rannsókna sem felst í klínískum tilraunum á dýrum og mönnum.

Fréttir

Mengun við strandlengjur – Matís með námskeið á Ísafirði

Hrönn Ólína Jörundsdóttir starfsmaður Matís verður með námskeið við Háskólasetur Vestfjarða 3.-21. maí nk.

Þar mun Hrönn leiða nemendur í allan sannleikan um mengandi efni hafsins í kringum Ísland, strandlengjur annarra landa auk þess sem farið verður í hvaða þættir hafa áhrif á mengun hafssvæða.

Námskeiðið fer fram á ensku og má nálgast frekari upplýsingar hér. Hrönn Ólína veitir auk þess upplýsingar, hronn.o.jorundsdóttir@matis.is.

IS