Fréttir

Merkingar matvæla – Þessum upplýsingum átt þú rétt á!

Fimmtudaginn 4. febrúar kl. 18-21 mun MNÍ (Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ)) ásamt Matís og MAST í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands halda námskeið um merkingar matvæla m.a. til að auka skilning á merkingum og á innihaldi matvæla.

Námskeiðið er opið öllum sem áhuga hafa á merkingum matvæla og hentar einnig þeim sem nota þær í störfum sínum, s.s. í mötuneytum, framleiðslu- og innflutningsfyrirtækjum. Markmið með námskeiðinu er að gera þátttakendur færa um að túlka merkingar matvæla og veita þeim skilning á innihaldi þeirra.

Merkingar á matvælum eru oft einu upplýsingarnar sem við höfum í höndunum til þess að velja matinn okkar á upplýstan hátt. Merkingarnar þurfa að fylgja ákveðnum reglum, sem segja til um hvað þarf að koma fram. Þær eiga að vera skýrar og ekki villa um fyrir okkur. Innihaldslýsing og næringargildisupplýsingar eru mikilvægar til þess að geta borið saman innihaldsefni, orkuinnihald og bætiefni matvæla og kunna að vera forsenda þess að við getum sett saman heilsusamlegt mataræði.

Farið verður yfir gildandi reglur um merkingar matvæla eins og þær snúa að neytendum. Merkingar á umbúðum matvæla verða skoðaðar og komið verður inn á hvernig á að merkja ofnæmis- og óþolsvalda. Gerð verður grein fyrir hinum ýmsu merkjum á matvælum: hollustumerki, glas- og gaffalmerkið, lífræn vottunarmerki, Fair Trade o.fl. Skýrt verður hvernig merkingar á innihaldi, næringargildi og geymsluþoli eru unnar. Tekin verða dæmi um vinnslu merkinga og þátttakendur vinna verkefni. Sýnd verður notkun á íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) og vefforritinu hvaderimatnum.is, auk fleiri forrita og aðferða við útreikninga.

Umræður eru hluti af námskeiðinu.

Nánari upplýsingar má finna á www.endurmenntun.is

Fréttir

Samdægursvottun á öryggi matvæla

Þróaðar hafa verið hraðvirkar aðferðir til að greina bakteríumengun í matvælum. Nú er hægt að fá úr því skorið á örfáum klukkustundum hvort matvælin innihalda óæskilegar örverur, en það eykur til muna öryggi matvæla og biðtími eftir niðurstöðum örverugreininga styttist úr 2-6 dögum í minna en 24 klst.

Lokið er AVS verkefni sem miðar að því að þróa hraðvirkar aðferðir til að greina algenga sýkla í matvælum og sérvirkar skemmdarbakteríur í fiski. Greiningartíminn með þessum aðferðum er allt frá 2 upp í 6 dögum styttri en viðmiðunaraðferðirnar og þær hraðvirkustu taka um 4 klukkustundir.

Samdægursvottun á öryggi matvæla – innan 24 klukkustunda frá því að sýni eru send til greiningar – er mjög mikilvæg fyrir fyrirtæki í matvælaiðnaðinum, einkum hvað varðar matvælasýkla og kemur til með að verða enn mikilvægari í nánustu framtíð. Hraðvirkar PCR greiningar gera matvælaframleiðendum kleift að grípa strax inn í, stýra vinnslu hráefnisins eða stöðva dreifingu ef framleiðsluvaran reynist innihalda óæskilegar örverur eða uppfyllir ekki gæðakröfur. Tæknin stuðlar því að bættum gæðum og ímynd matvæla sem er mjög mikilvægur þáttur til að viðhalda góðri ímynd Íslands fyrir heilnæmar landbúnaðar- og sjávarafurðir.

Í verkefninu voru þróaðar nokkrar aðferðir fyrir mismunandi bakteríur. Þróun á hraðvirkum Salmonella greiningum í mismunandi afurðum voru framkvæmdar og sýndu sambærilega greiningarhæfni og faggild NMKL aðferð, t.a.m. var sýnt fram á sambærilega næmni aðferðanna til að greina Salmonella í hænsnasaur. Real-time PCR aðferðin greindi Salmonella ennfremur með miklum áreiðanleika í öllum öðrum hráefnum sem prófuð voru, þ.e. fiskimjöli, hrognum, rækju, laxi og ýsu.

Prófanir á greiningarhæfni Campylobacter aðferðarinnar í hænsnasaur og kjúklingum hafa að sama skapi sýnt að greina má bakteríuna í sýnum sem innihalda aðeins 10-100 bakteríur í grammi með fullum áreiðanleika að undandgenginni forræktun yfir nótt. Samanburður við faggilda NMKL ræktun sýndi ennfremur að real time PCR aðferðin hafði næmni sem var sambærileg eða meiri en faggild NMKL aðferð. Aðrar aðferðir til að greina sjúkdómsvaldandi bakteríur voru einnig settar upp fyrir Listeria monocytogens og Vibrio parahaemolyticus með ágætis árangri. Nánari upplýsingar má nálgast í verkefnaskýrslunni.

Sem betur fer innihalda matvæli sjaldnast sjúkdómsvaldandi örverur en þar er þó að finna fjöldann allan af öðrum skaðlausum bakteríutegundum sem stuðla að niðurbroti vefja og vaxa jafnt og þétt á meðan geymslu stendur. Við niðurbrotið myndast ýmiss efnasambönd sem jafnan fylgir ólykt og gæði afurðanna minnkar því að sama skapi. Geymsluaðferðir snúast því í öllum tilvikum um að halda vexti þessara örvera í skefjum. Rannsóknir á þessum bakteríum í fiski hafa sýnt fram á hvaða bakteríutegundir eru þar helst að verki og með vitneskju um magn þeirra í fiskinum við framleiðslu eða geymslu má fá mat á gæðum afurðanna og jafnvel spá fyrir um geymsluþol þeirra.

Í þessu verkefni var þróað hraðvirkt próf til að mæla magn skemmdarbaktería sérstaklega. Þetta próf er hægt að nota til að spá fyrir um geymsluþol, til að meta ástand hráefnis og afurðar eða í innra gæðaeftirliti í fiskvinnslum.  Þær bakteríutegundir sem helst er beint spjótum að í þessu samhengi eru Pseudomonas tegundir og Photobacterium phosphoreum en sýnt hefur verið fram á skemmdarvirkni þeirra beggja í fiski við mismunandi geymsluskilyrði.

Sú þekking og reynsla sem hefur áunnist í verkefninu hefur þá einnig gert það að verkum að nú er hægt að setja upp nýjar aðferðir fyrir aðrar bakteríutegundir með minni tilkostnaði en áður og stefnt er á frekari umsvif á þessum vettvangi.

Áhugasamir aðilar geta fengið nánari upplýsingar hjá verkefnisstóra, Eyjólfi Reynissyni, eyjolfur.reynisson@matis.is, hjá Matís ohf.

Skýrsla verkefnisins: Sólarhringsgreining óæskilegra örvera í matvælum.

Fréttir

Kettir lækka blóðþrýsting hjá eigendum sínum – geta fiskar gert það sama?

Komin er út Matís lokaskýrsla í verkefninu “Einangrun, hreinsun og rannsóknir á blóðþrýstings-lækkandi peptíðum úr fiskpróteinum”. 

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengir á Íslandi og hafa verið ein langalgengasta dánarorsökin og er hækkaður blóðþrýstingur einn helsti áhættuþátturinn. Nýjustu rannsóknir benda til að áhrif próteina á heilsu séu meiri en að afla nauðsynlegrar orku og næringar. Við niðurbrot á próteinum við meltingu eða annað niðurbrot myndast smærri efni, peptíð. Þá verða amínósýruraðir sem voru óvirkar innan próteinkeðjunnar virkar þegar peptíðin eru “leyst úr læðingi”. Þessi peptíð gegna margþættum hlutverkum sem lífeðlisfræðilegir áhrifavaldar til dæmis áhrif á blóðþrýsting, meltingu, oxunarferla og fleira í líkamanum og eru kölluð lífvirk efni. Það er því mögulegt að nota peptíð í heilsufæði og jafnvel lyf.

Markmið verkefnisins var að rannsaka virkni í fiskpeptíðum og einangra, hreinsa og skilgreina peptíð sem hafa blóðþrýstingslækkandi áhrif. Í verkefninu var sett upp aðstaða og þekkingar aflað til þessa hjá Matis. Þar með er talin aðferð til að mæla virkni efna til að hindra Angiotensin Converting ensím (ACE) sem er mikilvægt við stjórnun blóðþrýstings ásamt búnaði til einangrunar og hreinsunar á peptíðum. Í samstarfi við Háskóla Ísland var HPLC og Maldi-Tof búnaður nýttur til að greina hvaða peptíð voru í hinum virku þáttum. Meðal annars fundust peptíð sem ekki hafa áður verið skilgreind sem ACE hindrar.

Niðurstöður verkefnisins sýna að íslensk fiskprótein gætu verið mikilvæg uppspretta peptíða með blóðþrýstingslækkandi eiginleika. Með þeirri þekkingu og aðstöðu sem hefur verið aflað í verkefninu eru mun meiri möguleikar á að þróa verðmætar fiskafurðir og heilsufæði.

Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.
Nánar upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís, mg@matis.is

Fréttir

Skiptiborð Matís um jólahátíðina

Skiptiborð Matís verður lokað frá 24. desember til 4. janúar.

Beinn sími á örverudeild er 422-5116 eða 858-5116.

Upplýsingar um önnur símanúmer starfsmanna er að finna á heimasíðu okkar, http://www.matis.is/um-matis-ohf/starfsfolk/

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Matís sendir ekki út jólakort í pósti en styrkir Kraft

Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá Krafti.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Krafts, www.kraftur.org.

Fréttir

Matís flytur í nýtt húsnæði að Vínlandsleið 12 (Grafarholt)

Starfsemi Matís á höfuðborgarsvæðinu mun nú sameinast undir einu þaki að Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík (Grafarholt).

Því mun öll starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. sím- og tölvukerfi, liggja niðri frá kl. 17:00 fimmtudaginn 17. desember til kl. 08:00 mánudaginn 21. desember.

Við biðjumst velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Vegna neyðartilfella má hringja í Odd Má Gunnarsson, sviðsstjóra viðskiptaþróunarsviðs í síma 858-5096.

Með bestu kveðju,
starfsfólk Matís.

Fréttir

Stór dagur hjá Matís – Nýja húsið verður bylting fyrir starfsemina

Nú í morgun fékk Matís ohf. afhent nýtt húsnæði að Vínlandsleið 12. Mótás hf. byggði húsið og innréttaði að þörfum Matís.

Starfsemi Matís í Reykjavík hefur verið á 3 stöðum en verður nú sameinuð undir einu þaki og verður það mikil hagræðing fyrir starfsemina.

„Þessi breyting mun verða bylting fyrir Matís og starfsemi fyrirtækisins. Við sameinum starfsemi sem nú er á þremur stöðum í Reykjavík undir eitt þak. Um leið verður  það mikil breyting og styrkur fyrir starfstöðvar okkar út um landið að geta nú átt sitt bakland undir sama þaki í Reykjavík,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Með sameiningu á einn stað er lagður grunnur að enn öflugra starfi rannsóknarfyrirtækisins Matís og það segir forstjórinn að geti skipt máli fyrir nýsköpunarverkefni á sviði matvælaiðnaðar.

„Ég er ekki í vafa um að við sjáum afrakstur nú þegar af þeirri áherslu okkar að auka samvinnu Matís við háskólastofnanir og atvinnulífið. Þetta styður við nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði en ekki síður við nýjungar á borð við matartengda ferðaþjónustu, svo dæmi sé tekið. Atvinnulífið er stöðugt að skynja betur sóknarfærin í rannsóknum og einmitt þess vegna fagna ég því að okkur sé gert kleift að eflast með nýjum höfuðstöðvum þegar miklu skiptir fyrir þjóðarbúið að efla nýsköpunina,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Á næstu dögum verður flutt í nýja húsnæðið og verður starfsemin þar komin í fullan gang í janúarbyrjun 2010.

Matís þakkar Mótási hf. fyrir afar farsælt samstarf á þessum tíma.

Sjofn_Beggi_V12
Á myndinni má sjá þegar Sjöfn Sigurgísladóttir tekur við lyklum að Vínlandsleið 12 úr
höndum Bergþórs Jónssonar, forstjóra Mótás.

Fréttir

Þjónustumælingar

Dagana 14. – 23. desember 2009 mun starfsemi Matís í Reykjavík flytja í nýtt sameiginlegt húsnæði að Vínlandsleið 12 í Grafarholti. Vegna flutninganna verður ekki hægt að taka á móti sýnum í örveru- og þjónustumælingar í Reykjavík á þessu tímabili

Viðskiptaaðilar vinsamlegast beðnir um að skipuleggja sýnatökuverkefni þannig að þau falli ekki inn á tilgreinda flutningsdaga. Ef brýn nauðsyn liggur við getum við á flutningstímabilinu útvegað viðskiptaaðilum okkar ákveðnar örveru- og efnamælingar á rannsóknastofu okkar í Neskaupstað eða hjá öðrum faggiltum rannsóknastofum sem við notum sem undirverktaka.

Gert er ráð fyrir að starfsemi þjónustumælinganna verði komin í eðlilegt horf strax í byrjun janúar á næsta ári.  Um leið og við afsökum einhver óþægindi sem viðskiptaaðilar okkar kunna að hafa af þessari tímabundnu röskun á starfsemi þjónustumælinga Matís viljum við bjóða ykkur hjartanlega velkomin til áframhaldandi viðskipta og samstarfs í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum Matís.

Fyrir hönd starfsmanna þjónustumælinga Matís,

Franklín Georgsson,
Sviðsstjóri Mælingar & Miðlun.

Fréttir

Makrílvinnsla í íslenskum fiskiskipum

Fiskveiðiárið 2004/2005 var fyrst skráður makrílafli í íslenskri lögsögu, síðan þá hefur aflinn aukist frá ári til árs en fiskveiðiárið 2008/2009 var sett þak á veiðarnar, þá mátti veiða 100 þúsund tonn af makríl með norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu.

Makríllinn hefur aðallega veiðst í júlí og ágúst við strendur Íslands en sumarið 2009 fóru íslensku skipin að fá makríl með síldinni í júní og veiddu makríl fram í september. Fyrir næsta veiðiár hefur verið úthlutað 130 þúsund tonnum af makríl. 

Til að hægt sé að vinna makríl um borð í íslenskum fiskiskipum þurfa þau að hafa ákveðinn búnaði, fyrst þarf að vera til staðar flokkari sem flokkar makrílinn frá síldinni. Style flokkarar hafa reynst vel í þeim efnum en einnig er unnt að stærðarflokka makrílinn í þeim búnaði. Breyta þarf hefðbundinni vinnslulínu sem notuð er fyrir vinnslu og frystingu á síld þannig að hægt verði að hausa og slógdraga makrílinn áður en hann er frystur. Markaður er aðallega fyrir hausaðan og slógdreginn makríl, enda er geymsluþol hans mest þannig.

Mikilvægt er að geta flokkað makrílinn frá norsk-íslensku síldinni þegar viðkomandi tegundir veiðast saman til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum í stað þess að senda stóran hluta af makrílblönduðum síldaraflanum í bræðslu. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar með flokkun tegundanna og hafa þær gengið vel, hvort sem um er að ræða vinnslu á eingöngu annarri tegundinni eða báðum í einu.

Fréttir

Fjölmenni á fundi Matís, AVS og SF um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi

Nú fyrir stundu lauk áhugaverðum fundi um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi, fundi sem Matís, AVS sjóðurinn og Samtök fiskvinnslustöðva stóðu að.

Fundurinn var vel sóttur og voru um 160 manns sem mættu til að hlusta á erindi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Sveins Margeirssonar, sviðsstjóra hjá Matís.

Markmið fundarins var að varpa ljósi á tækifæri og möguleika á betri nýtingu og auknum verðmætum. Íslendingar standa framarlega í nýtingu sjávarauðlinda og hafa sterk og öflug sjávarútvegsfyrirtæki með áralanga reynslu í að mæta þörfum markaðarins. En hráefnið okkar er takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að nýta það sem best og skapa úr því mikil verðmæti.

Erindi Þorsteins Más má finna hér og erindi Sveins má finna hér.

Nánari upplýsingar veita Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is, og Steinar B. Aðalbjörnsson, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

IS