Fréttir

Bókakaflar eftir starfsmenn Matís

Nú nýverið var gefin út bókin “Improving seafood products for the consumer” sem fjallar m.a. um hvernig hægt er að auka neyslu fólks á fiskafurðum.

Starfsmenn Matís, þau Emilía Martinsdóttir, Guðjón Þorkelsson, Helene L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Margrét Geirsdóttir, Ragnar Jóhannsson og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, komu að skrifum í bókina.

Umfjöllun um bókina má finna hér.

Fréttir

Ný reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar: Matís með innlegg

Innan Evrópusambandsins hefur tekið gildi ný reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar í merkingu matvæla. Þess má vænta að reglugerðin verði tekinn inn í EES-samninginn á næstu mánuðum.

Fram að því gilda áfram íslenskar reglur. Á Íslandi má einungis fullyrða um innihaldsefni matvæla ef það er heimilað í viðeigandi reglugerðum eða að leyfi fyrir slíku hafi fengist hjá Matvælastofnun (www.mast.is).

Í aðdraganda setningar þessarar reglugerðar tók Matís þátt í norrænu verkefni þar sem markmiðið var að Norðurlöndin kæmu fram með sameignlega skoðun á hvers konar merkingar yrðu leyfðar sem “jákvæðar merkingar”. Viðhorfskönnun var gerð meðal norrænna neytenda um heilsufullyrðingar, hvernig neytendur skilja þær og um merkingar matvæla og hvernig áhrif þær hafa í markaðssetningu.

Matís framkvæmdi könnunina á Íslandi og túlkaði niðurstöður ásamt því að halda  fundi með hagsmunaaðilum fulltrúum matvælafyrirtækja og neytendasamtaka. Nú er komin út ritrýnd grein sem skýrir frá niðurstöðum neytendarannsóknanna. Greinin nefnist Perception of Health Claims Among Nordic Consumers og er birt í tímaritinu Journal  of Consumer Policy og má nálgast hér.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir.

Fréttir

Nokkrar staðreyndir um fæðubótarefni

Markaðurinn með svokölluðum heilsuvörum, hvort sem það er nú fæðubótarefni, fæðuauki, plöntuextraktar eða annað, hefur farið stækkandi undanfarin ár og var hann þó orðinn stór fyrir.

Oft eru vörur boðnar til sölu sem virka eins og þær eru sagðar virka í auglýsingum en því miður er það þó mjög oft svo að fólk kaupir köttinn í sekknum. Hér fyrir neðan eru fullyrðingar sem oft heyrast þegar tveir eða fleiri koma saman og ræða þessi mál.

B-12 vítamín læknar þynnku: það er ljóst að það gengur á B-vítamínforðann við langvarandi drykkju. Aftur á móti er ekkert í vísindunum um jákvæð áhrif af stærri skömmtum af B-12 vítamíni á þynnku sem kemur í kjölfar einstaka ofdrykkju.

Ginseng gerir þig gáfaðri: til eru mismunandi tegundir af ginseng sem hafa að einhverju leiti mismunandi áhrif. Ekkert er í vísindunum um það hvort ginseng geri mann gáfaðri. Hitt er annað mál að flestar tegundir af ginseng hafa einhver örvandi áhrif og við örvun miðtaukerfis, þ.m.t. heilans, má vel vera að fólki finnist það vera gáfaðra.

Sólhattur læknar flensu: sólhattur læknar ekki flensu. Mjög mismunandi er þó hvort niðurstöður rannsókna styðji að sólhattur geti dregið úr áhrifum flensu, líkt og haldið hefur verið fram með C vítamín. Líkur á eituráhrifum vegna neyslu á sólhatti eru litlar ef neyslan er í samræmi við ráðleggingar og því getur neysla á sólhatti sennilega ekki gert neitt ógagn en spurningin hvort sólhattur geri eitthvert gagn.

A-vítamín bætir sjónina: ef um er að ræða skort á A-vítamíni, sem er ekki tilfellið hjá flestum Íslendingum, þá getur viðbót af A-vítamíni bætt sjónína. Hins vegar getur A-vítamín á formi retínóla (retinol, retinal) verið mjög skaðlegt í stórum skömmtum. Því er mikilvægt að halda sig sem næst ráðlögðum dagskammti (RDS) og neyta ekki meira af A-vítamíni en nauðsynlegt er.

Kreatín gerir þig sterkari: kreatín er oftast á forminu kreatín-fosfat (CP). Adenósín-þrí-fosfat (ATP) er geymslustaður orku í líkamanum. Við aukna neyslu á kreatín-fosfati stuðlum við að því að hafa meira af ATP við áreynslu í stutt, snörp átök (1-10s). Því er talið að við getum bætt ákefð í stuttum, snörpum átökum ef við neytum fæðubótarefna sem innihalda kreatín. Niðurstöður rannsókna, sem nær eingöngu hafa verið gerðar á karlmönnum 18-35 ára, benda til þess að neyslan sé án óæskilegra hliðarverkana fyrir þann hóp. Upplýsingar varðandi aðra hópa liggja ekki fyrir og því ættu börn og unglingar ekki að neyta kreatíns.

C vítamín dregur úr skaða af völdum reykinga: best er fyrir líkamann ef fólk reykir ekki. C vítamín er andoxari og getur því dregið úr skaðlegum áhrifum, t.d. súrefnis, á frumuhimnur líkamans. Skaðleg áhrif vegna oxunar eru meiri hjá reykingamönnum vegna sígarettureyksins en hjá þeim sem ekki reykja. Það virðist sem neysla á C vítamíni, allt að 100mg á dag, geti komið að gagni við að draga úr oxunarskaðsemi reykinga. Þess ber þó að geta að skaðsemi reykinga er ekki eingöngu bundinn við þennan þátt.

Króm dregur úr sykurlöngun: króm er mikilvægur hlekkur í insúlínviðbrögðum líkamans en insúlín hefur, m.a. áhrif á magn sykurs í blóði. Hjá þeim sem eru með sykursýki geta insúlínviðbrögðin verið skert og því er talið að viðbótar króm geti hjálpað þeim við blóðsykurstjórnun. Aukin neysla á krómi er ekki talin geta stuðlað að betri blóðsykurstjórnun, og þar með sykurlöngun, hjá þeim sem eru með eðlilega stjórnun á blóðsykri (þ.e. ekki með sykursýki af neinni tegund).

D vítamín styrkir bein: D vítamín er fituleysanlegt vítamín sem margir vilja frekar kalla hormón-líkt efni vegna hlutverks þess í líkamanum. D- vítamín hefur m.a. áhrif á það hversu vel við nýtum kalk úr fæðunni. Kalk er mikilvægt í uppbyggingu og viðhaldi beina og því eru það gömul og ný sannindi að D vítamín og kalk eru nauðsynleg í hæfilegu magni til að móta og viðhalda sterkum beinum. Hreyfing eykur einnig styrk beina.

Kalíum er vöðvaslakandi: kalíum (K) gegnir mikilvægu hlutverki í starfssemi taugakerfis og vöðva. Kalíum hefur m.a. hlutverki að gegna í taugaboðum til vöðva um að slaka skuli á herptum vöðva. Styrk kalíum er mjög vel stjórnað í líkamanum og ef fólk er á annað borð ekki með neina sjúkdóma sem brengla kalíumjafnvægi líkamans, m.a. hjartavöðva, er alger óþarfi, og reyndar óæskilegt, að neyta mikils magns af kalíum sem fæðubótarefnis í þeirri trú að það hafi vöðvaslakandi áhrif

Koffín er fitubrennsluefni: koffín hefur á óbeinan hátt örvandi áhrif á miðtaugakerfið, þ.m.t. heila. Við örvun miðtaugakerfis erum við líklegri til að hreyfa okkur og sú hreyfing er í raun ástæða þess að við brennum meiri orku og þar með meiri fitu frekar en bein fitubrennsluáhrif koffíns. Þess ber þó að geta að neikvæðar hliðarverkanir geta fylgt neyslu á koffínríkum matvælum og er ófrískum konum, konum með börn á brjósti, börnum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir koffíni ráðlagt frá því að neyta koffíns í miklu magni.

E vítamín kemur í veg fyrir bólur: margir neyta E vítamíns í meira magni en ráðlagður dagskammtur segir til um í þeirri von að E vítamínið hafi verndandi áhrif gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum. Varðandi bólumyndun þá er sá sjúkdómur vegna annarra þátta (m.a. stærri fitukirtlar vegna uppsafnaðrar húðfitu) og ekkert í vísindunum næringarfræðinnar sem styður þá tilgátu að E vítamín geti komið í veg fyrir bólumyndun.

Mikilvægt er fyrir neytendur að gera sér grein fyrir því að margt af því sem er í sölu hér á landi, sem og annars staðar, er e.t.v. gagnslaust þó svo að neyslan skapi enga hættu sé farið ráðleggingum varðandi magn. Sem neytendur verðum við að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem okkur eru veittar og spyrja hvaðan þessar upplýsingar koma. Ef greinilegt er að upplýsingarnar eru ekki studdar með vísindalegum gögnum og viðskiptasjónarmið ráða hvernig upplýsingarnar eru framsettar, þá er æskilegt að þessum upplýsingum sé tekið með varúð. Við val á fæðubótarefnum, fæðuauka, plöntuextröktum og öðrum slíkum efnum er oft gott að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

Ef auglýstir eiginleikar vöru eru of góðir til að vera sannir, þá eru þeir líklega ósannir!

Nánari upplýsingar veitir höfundur, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Fiskur á Íslandsmiðum: mjög lítið af lífrænum mengunarefnum og varnarefnum

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the monitoring activities in 2007.

Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2007 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2007 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða yfirstíga leyfileg mörk fyrir viss efni.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Í þessari skýrslu er ítarlegri úttekt á þungmálmum og fjölda annarra ólífrænna snefilefna í ætilegum hluta fisks en áður hefur verið gerð hér á landi, en Matís hefur komið sér upp fullkomnari tækjabúnaði til slíkra mælinga en áður var. Með þessum tækjabúnaði, s.k. ICP-MS er á tiltölulega einfaldan hátt hægt að greina mikinn fjölda ólífrænna snefilefna með meiri nákvæmni en áður. Niðurstöður mælinga á þungmálmum sýna að ætilegur hluti fisksins var ávalt undir leyfilegum hámörkum Evrópusambandsins fyrir blý, kvikasilfur og kadmíum. Niðurstöður mælinga á þeim ólífrænu efnum sem flokkast sem nauðsynleg snefilefni í fæðu manna verða notaðar í næringarefnagagnagrunn Matís, ISGEM sem aðgengilegur er á vef Matís, en einnig til að meta gildi fiskafurða sem uppsprettu slíkra efna í fæðu Íslendinga. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2007 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma.  Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Höfundur skýrslunnar er Hrönn Ólína Jörundsdóttir og verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Nautakjöt, lambakjöt, hvalkjöt, svínakjöt…………?

Hjá Matís er boðið upp á þjónustu sem nýtist öllum. Vel er þekkt þjónustan sem fyrirtækjum stendur til boða en minna er vitað um þá þjónustu sem einstaklingum er boðið upp á. Ef þú ert að hugsa um að kaupa þér hund………

……..myndir þú þá ekki eyða undir 10 þús. kr. og fá að vita með erfðagreiningum hvaðan hundurinn kemur? Eða viltu vita hvort kjötið sem þú neytir er nauta-, lamba-, svína- eða hvalkjöt? Hér er skemmtilegt viðtal í síðdegisútvarpi Rás 2 um erfðagreiningar á kjöti.

Nautakjöt sem var lambakjöt

Erla Ragnarsdóttir: Já, við ætlum fyrst að skoða ja…

Linda Blöndal: Svolítið skemmtilegt mál.

Erla: Já, svolítið skemmtilega sögu. Kona nokkur pantaði sér nautasteik á veitingahúsi sem að er svosem ekki í frásögur færandi. Hún finnur hinsvegar strax að þetta sé ekki nautakjöt og kvartar en fær lítil viðbrögð. Veitingamaðurinn er handviss um það að hann sé að bera þarna á borð nautakjöt. Steikin er semsagt nautasteik en konan lætur sér ekki segjast, er orðin viss um að hún sé að borða hvalkjöt og gengur hart að veitingamanninum og skilar kjötinu. Og veitingamaðurinn vill auðvitað fá niðurstöðu í málið.

Meira hér.

Fréttir

Áhugaverð erindi um tækifæri og ógnir í bleikjueldi

13. og 14. október var haldin ráðstefna um bleikjueldi á Norðurlöndunum, möguleika, tækifæri, hindranir, ógnir og annað sem tengist atvinnugreininni. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, hélt þar erindi.

Erindi Sjafnar fjallaði m.a. um hvernig væri hægt að auka eftirspurn eftir eldisbleikju og tækifærin sem liggja hjá okkur Íslendingum. Matís getur spilað stórt hlutverk í markaðssetningu á eldisbleikju með þeirri þekkingu sem finna má hjá starfsmönnum fyrirtækisins.

Erindi Sjafnar má nálgast hér.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2009

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) efnir til árlegs Matvæladags þann 15. október nk. Haldin verður ráðstefna um íslenska matvælaframleiðslu og gjaldeyrissköpun. Hörður G. Kristinsson hjá Matís flytur þar áhugavert erindi: Lífefni úr íslenskri náttúru – Ný tekjulind

Matvælaframleiðsla hefur skipt Íslendinga miklu gegnum aldirnar og mun nú gegna lykilhlutverki við enduruppbyggingu efnahagslífsins. MNÍ vill leggja sitt af mörkum með því að greina matvælaframleiðslu á Íslandi og setja hana í efnahagslegt samhengi.

Ráðstefnan verður haldin á Grand hóteli við Sigtún í Reykjavík og hefst kl 13 fimmtudaginn 15. október. Flutt verða sjö erindi sem veita innsýn í getu matvælaframleiðslunnar til að standa undir innlendri atvinnustarfsemi og afla þjóðarbúinu tekna en jafnframt verða dregin fram tækifærin við sjóndeildarhringinn. Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is. Þátttökugjald er 3.500 kr en 2.000 kr fyrir námsmenn.

Á ráðstefnunni verður Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. MNÍ gefur út tímaritið Matur er mannsins megin með ítarlegri umfjöllun um matvæli, næringu og efni Matvæladags ár hvert. Tímaritinu er dreift um allt land.

Dagskrána má finna hér.

Fréttir

Hollari tilbúnar kjötvörur – verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

Verkefninu “Hollari tilbúnar kjötvörur” er nú að mestu lokið. Matís, undir verkstjórn Emilíu Martinsdóttur, hafði umsjón með verkefninu sem hófst árið 2006.

Markmiðið með verkefni þessu var að nota tæknilegar lausnir til að lækka salt í unnum kjötvörum án þess að breyta neyslugæðum þeirra. 
Verkefnisstjóri var Emilía Martinsdóttir, Matís ohf.


Heiti verkefnis: Hollari tilbúnar kjötvörurVerkefnisstjóri: Emilía Martinsdóttir, Matís ohf., emilia.martinsdottir()matis.is
Styrktegund: Verkefnisstyrkur
Verktími: 2 ár, hófst 2006
Styrkur: 8,001 millj. kr.
Umsjónarmaður Rannís: Lýður Skúli Erlendsson
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 061356

VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Neysla á salti (NaCl) er mun hærri en ráðlagður dagsskammtur hjá Íslendingum eins og mörgum þjóðum Evrópu. Neytendur matvæla verða sífellt meðvitaðri um hollustu og merkingu matvæla og stórmarkaðakeðjur erlendis eru farnar að taka verulegt tillit til þess í framboði sínu. Auk þess að gefa matvælum eftirsótt bragð er saltið hluti af verkun matvæla og hefur áhrif á geymsluþol. Markmiðið með verkefni þessu var að nota tæknilegar lausnir til að lækka salt í unnum kjötvörum án þess að breyta neyslugæðum þeirra. 

Lýðheilsumarkmiðin eru að konur neyti minna en 6 g/d salts og karlmenn 7 g/d sem samsvarar 2,4 and 2,8 g/d af natríum (Nordic Nutrition Recommendations 2004 – Integrating nutrition and physical activity. 4th edition. Nord 2004:13, Nordic Council of Ministers, Copenhagen 2004). Árið  2002 var meðaldagsskammtur íslenskra karlmanna 10 g NaCl/d en kvenna. 7 g NaCl/d . Til þess að ná fram minnkandi notkun salts er mikilvægt að minnka salt í unnum matvörum, brauði, kjöti og fiski. Salt (natríum klóríð) gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum unnum matvælum og því er ekki einfalt að draga úr notkun þess án þess að eiginleikar matvælanna breytist. Salt hefur áhrif á bragð, heftir örveruvöxt og hefur veruleg áhrif á áferð og bindingu annarra efna.

Markmið verkefnisins „Hollari kjötvörur” var að þróa hollari tilbúnar kjötvörur með minna af salti og harðri feiti með það í huga að hægja á þróun hjarta- og æðasjúkdóma og stuðla að minni offitu meðal almennings. Verkefnið var  hluti ERA-SME-áætlunarinnar „Food for better human health”  í samstarfi við spænska aðila.  Að íslenska hluta verkefnisins stóðu Norðlenska ehf.,  Matvælarannsóknir Íslands ohf. og Rannsóknastofa í næringarfræði.  Spænsku samstarfsaðilarnir voru ráðgjafafyrirtækið Eurocatering Food Service, S.L. , kjötvinnslufyrirtækið Cádido Míró og tækniþróunarstofnunin AINIA í Valencia.  Í  verkefni þessi var leitað ýmissa leiða til að framleiða unnar salt- og fituskertar kjötvörur og framleiddar voru frumgerðir af fitu- og saltskertum vörum hjá fyrirtækinu Norðlenska. Vörurnar voru efnagreindar og  gert skynmat til að rannsaka áhrif á bragð, lykt og áferð nýju varanna. Einnig voru gerðar viðamiklar neytendakannanir til að komast að því hvernig neytendum líkaði við hinar nýju vörur. Að lokum var gerð viðhorfskönnum meðal neytenda til matvöru með minna salti og minni fitu.  Áhrif merkinga á kjötvöru þar sem minna salt og minni fita var merkt á vöruna voru einnig skoðuð.  

Í verkefninu tókst að framleiða fitu- og saltskertar vörur úr þremur vöruflokkum: nýjar kjötvörur,forsteiktar kjötvörur og álegg. Fitu- og saltskertar kjötbollur eru tilbúnar á markað. Nýja varan fékk mjög góða dóma hjá neytendum og líkar jafnvel betur en sú vara sem var á markaði. Aðrar tvær vörur eru komnar mjög langt í vöruþróun og hefur fyrirtækið nú þekkingu og reynslu til að ljúka þeirri vöruþróun og halda áfram með þróun slíkra vara. Fyrirtækið ætti að vera í stakk búið til að setja nýja vörulínu á markað með hollari unnum kjötvörum þegar markaðsaðstæður eru réttar.  Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal neytenda gefa til kynna að neytendur hafi áhuga á fituminni kjötvörum og flestir myndu kaupa þá vöru væri hún í boði.  Til að höfða til neytenda þurfa þó fituminni kjötvörur að standast samanburð við þær venjulegu í gæðum.  Tilgangur íhlutandi rannsóknar var að kanna hvort fitu- og/eða saltskertar unnar kjötvörur geti verið hluti af heilsubætandi mataræði meðal karla á aldrinum 40 til 60 ára. Í þrjár vikur voru þátttakendur beðnir um að fylgja orkuskertu mataræði, sem svaraði um 30% orkuskerðingu miðað við grunnorkuþörf. Til þess fengu þeir sérsniðna matseðla. Marktæk, jákvæð heilsufarsáhrif komu fram í þátttakendum meðan á rannsókninni stóð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að neysla á unnum fitu- og saltskertum kjötvörum kemur ekki í veg fyrir að jákvæðar heilsufarslegar breytingar eigi sér stað meðan mataræði, orkuskertu um 30% miðað við grunnorkuþörf, er fylgt.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

Framleiðsluferill fyrir vörur fitu- og saltskertar vörur úr þremur vöruflokkum: nýjar kjötvörur,forsteiktar kjötvörur og álegg.

Matís-neytendapróf í vöruþróun og markaðssetningu ferill fyrir þjónustu sem boðið verður upp á fyrir íslenska matvælaframleiðendur (TasteNet).

  1. Hvernig er hægt að gera kjötvörur hollari? Ólafur Reykdal, Matís
  2. Skýrsla um heilsufarsáhrif salt- og fituskerðingar kjötvara frá Norðlenska., Atli Arnarson, Alfons Ramel. RÍN 
  3. Tilraunaskýrsla um þróun frumgerða hjá Norðlenska. Aðalheiður Ólafsdóttir, Emilía Martinsdóttir. Júní 2008 MATÍS
  4. Skýrsla um vöruþróun á hollari kjötvörum. MATÍS-skýrsla  nr.  25-09. Aðalheiður Ólafsdóttir, Ólafur Reykdal, Óli Þór Hilmarsson, Gunnþórunn EInarsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Þóra Valsdóttir, Emilía Martinsdóttir og Guðjón þorkelsson, ágúst 2009
  5. Hollari kjötvörur . Skýrsla um íhlutunarrannsókn. Íhlutun Atli Arnarsson og  Alfons Ramel, RÍN, ágúst 2009

Væntanlegar birtingar: 

Viðhorf íslenskra neytenda til hollari íslenskra kjötvara birt í íslensku tímariti eins og Bændablaðinu.

Niðurstöður íhlutunarrannsókna RÍN verða hluti af vísindagrein.

Fréttir

Umtalsverð viðbót við hefðbundinn sjávarútveg

Rannsóknir á sviði líftækni og lífefnafræði geta leitt til þess að unnt verði að vinna mikil verðmæti úr aukaafurðum í sjávarútvegi og öðru sjávarfangi.

Nýlega birtist mjög athyglisvert viðtal við Hörð G. Kristinsson, sviðsstjóra hjá Matís.

Viðtalið birtist í Fiskifréttum og má sjá í heild sinni hér.

Fréttir

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva – Matís með erindi

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva var haldinn á Grand Hótel v/Sigtún Reykjavík, föstudaginn 25. sept. 2009.

Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri hjá Matís flutti erindi um „Ný og arðbær tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg“.

Erindið má nálgast hér (ppt skjal).

IS