Fréttir

Búið að opna formlega annað kallið í SAFEFOODERA

Meðfylgjandi eru rannsóknaráherslurnar og umsóknarleiðbeiningar. Alls eru 6 milljón evrur í pottinum. Lesið meira til að kynna ykkur nánari upplýsingar um helstu rannsóknaráherslur.

Rannsóknaráherslur:

  • DETECTION OF TRACES OF ALLERGENS IN FOOD
  • BIOACTIVE INGREDIENTS: Safety of bioactive ingredients in functional foods
  • CHEMICAL FOOD CONTAMINANTS
  • EMERGING RISK: Effects [Consequences] of climate change on [for] feed and food safety
  • GMO: Development of screening methods of GMO
  • MRSA: The zoonotic potential of methicillin-resistant Staphylococcus aureus (MRSA) – antibiotic resistance and non-typable (NT) strains
  • RISK-BENEFIT ANALYSIS
  • RISK ASSESSMENT OF FOOD-BORNE PATHOGENS
  • TRACEABILITY

TIME SCHEDULE

20th of June 2008: SAFEFOODERA 2nd Call officially announced

15th of September 2008: Deadline for proposal submission (17:00 Brussels time)

1st of March 2009: Latest date for project start

Leiðbeiningar fyrir væntanlega umsækjendur er að finna hér 

SAFEFOODERA logo

Fréttir

Nýtt, athyglisvert verkefni á Matís

Á Matís er að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: “Nýr vinnsluferill fyrir framleiðslu á Lútfiski”. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og verður unnið með Fram Foods sem er með stóra markaðshlutdeild á lútfiski á Norðurlöndunum.

Lútfiskur er mjög sérstök afurð sem byggir á aldagömlum aðferðum og hefðum við varðveislu hráefnis. Hráefnið er þurrkað niður í um 15-16% raka og er um 80% nýtingartap við þurrkunina. Þurrkaða hráefnið er geymt fram á haust þar til vinnsla fer fram sem er frá lokum september og fram í miðjan desember. Í hefbundnu vinnsluferli eru flökin lögð í bleyti, svo lútuð og skoluð sem veldur því að þyngd flakanna margfaldast. Við lútun hækkar sýrustig vörunnar mikið og geta þau því dregið í sig mikið vatn sem er skýringin á útþenslu fisksins við lútunina.  Að lokum eru flökin þverskorin í stykki og pakkað í 1 kg lofttæmdar einingar. 
 
Sumir telja að lútfiskur sé frá tímum Víkinga, á meðan aðrir telja að lútfiskur hafi fyrst skotið upp kollinum á 16 öld í Hollandi og fljótlega fundið sér leið til Norðurlanda þar sem neyslan er mest nú til dags.  Heildarmarkaðurinn á Norðurlöndum fyrir lútfisk er talin vera 5200 tonn.  Þar af eru 2200 tonn af þorski í Noregi, 2500 tonn af löngu í Svíþjóð og 500 tonn af löngu í Finnlandi.  Neyslan er hefðbundin og nánast einungis um jólaleitið, en eitthvað er borðað af lútfiski um páskana.  Við neyslu eru fiskstykkin soðin og borin fram með soðnum kartöflum, jafningi og grænum baunum, ekki ósvipað hangikjötsmeðlæti.  Fiskurinn er sem slíkur með mjög sérstaka áferð sem líkist soðinni eggjahvítu og er bragðlítill eftir verkunina og eitthvað er um að bragðgjafar s.s sinnep eða beikon sé bætt í sósuna, eða sem meðlæti
 
Hugmyndin á bak við rannsóknarverkefnið er að leita eftir meiri sveiganleika við framleiðsluna með því að stytta framleiðslutímann, þannig er hægt að bjóða stórmörkuðunum ferskari vöru með því að stytta verkunartímann.

Verkefnisstjóri er Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri á Matís.

Fréttir

Matís – Prokaria kaupir öfluga raðgreiningavél frá Roche/454 Life Science

Matís–Prokaria keypti nýlega raðgreiningarvél af gerðinni Roche/454 Life Science. Að sögn Ragnars Jóhannssonar, sviðsstjóra Líftæknisviðs Matís, getur tækið raðgreint mikið magn erfðaefnis í einu og opnar nýja vídd við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem nota má í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði. Þessi gen er að finna í örverum sem lifa í heitum hverum í allt að 100 stiga hita og við mjög mismunandi seltu og sýrustig, segir Ragnar.

Áður var notuð svokölluð Gen-Mining aðferð en nýja vélin lækkar kostnað við leit að genum nálega 20-falt. En stóri plúsinn er að öll gen lífverunnar sem kóða fyrir öll ensím hennar, sem skipta hundruðum, nást í einni keyrslu. Til að setja afkastagetu í samhengi þá raðgreinir vélin 1.000.000.000 basapör á einni nóttu – vélin sem fyrir var greinir 100.000 basapör á sama tíma. Hér er því um 10.000 faldan mun að ræða í afkastagetu. Nýja tækið var keypt í samvinnu við Miðstöð í kerfislíffræði við Háskóla Íslands og Tilraunastöð HÍ að Keldum

Sem fyrr segir er tækið af gerðinni FLX frá Roche/454 Life Science og mun það nýtast til ýmissa rannsókna og verður það til dæmis notað við rannsóknir í kerfislíffræði, sem snúast um að greina heildarmynd í starfsemi lífvera, það er samspili efnaskipta og tjáningu gena. Það er nauðsynlegt ef hanna á framleiðslulífverur sem geta stundað flóknar efnasmíðar.

Einnig mun tækið nýtast við rannsóknir á æðri dýrum svo sem á genamengi þorsks, við leit að erfðamörkum og lykilgenum sem stjórna mikilvægum eiginleikum svo sem vaxahraða og sjúkdómsþoli.

Einnig er verður tækið notað við rannsóknir á tjáningu gena sem er mikilvægt í ýmsum rannsóknum tengdum heilsu og heilbrigði, svo sem krabbameinsrannsóknum og rannsóknum á bólgusjúkdómum. Þar er átt við sjúkdóma á borð við gigt, hjarta- og æðasjúkdóma .

Stór kostur sem þetta tæki hefur fram yfir önnur sambærileg tæki er sá að unnt er að raðgreina erfðamengi óþekktra baktería og jafnvel blöndu erfðamengja, sem er mikilvægt í umhverfisrannsóknum. Í nýrri grein í Nature er viðtal við þekkta vísindamenn á því sviði þar sem þeir staðhæfa að þetta sé eina tækið í heiminum í dag sem geti  slíkt.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Ragnar (tv) og Ólaf H. Friðjónsson við nýju raðgreiningarvélina.

Fréttir

Nýr fjármálstjóri á Matís

Nýr fjármálastjóri hóf störf á Matís um s.l. mánaðarmót, Sigríður Hrönn Theódórsdóttir, og tók hún við starfinu af Aðalbjörgu Halldórsdóttur. Sigríður er rekstrarhagfræðingur frá Fachhochschule Munchen, og hefur víðtæka reynslu af atvinnulífinu.

Sem fyrr segir hefur Sigríður mikla reynslu af atvinnulífinu og má þar nefna að hún starfaði hjá Nýsi hf. sem framkvæmdarstjóri Artes, Café Konditori Copenhagen og jafnframt sem rekstrarstjóri Heilsugæslunnar í Salahverfi. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Brú Venture Capital og hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Sigríður hefur ferðast víða og dvalið langdvölum erlendis, hún bjó í Munchen í 13 ár, þar sem hún var við nám og störf, en hún starfaði þar m.a. fyrir stórfyrirtækin Allianz og Siemens Nixdorf.

Hún hefur einnig ferðast til margra framandi slóða s.s. Braselíu, Zimbabve, Botsvana, Suður-Afríku, Filippseyja, Taílands, Egyptalands svo fátt eitt sé nefnt.

Fréttir

Akureyri 12. júní: Ráðstefna um framtíðaráskoranir í sjávarútvegi

Fimmtudaginn 12. júní verður ráðstefna á vegum Háskólans á Akureyri um framtíðaráskoranir í sjávarútvegi.

Á ráðstefnunni verður framtíð sjávarútvegs rædd frá ýmsum hliðum. Innlendir og erlendir fræðimenn og atvinnurekendur sem teljast margir hverjir fremstir á sínu sviði munu þar fjalla um fjölbreytt efni, sem tengist sjávarútveg. Til dæmis um framtíðarhorfur þorskstofna í heiminum, fjárfestingarmöguleika í alþjóðlegum sjávarútvegi og um hvað má læra af því sem vel er gert í fiskveiðistjórnun.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á vefsíðunni http://fisheries.unak.is Á þeirri vefsíðu er einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna. Vinsamlegast hafið samband við Láru Guðmundsdóttur (s. 460-8900, laragudmunds@unak.is varðandi nánari upplýsingar um skráningu og Hreiðar Þór Valtýsson (862-4493, hreidar@unak.is varðandi almennar upplýsingar.

Á myndinni eru Borgir, rannsóknahús HA, en þar er Matís m.a. með aðstöðu. Workshops verða haldin í Borgum, en ráðstefnan sjálf fer fram á Hótel KEA.

Fréttir

Breytingar á stjórn Matís

Á stjórnarfundi Matís ohf. þann 22.maí sl. urðu mannabreytingar í stjórninni. Úr stjórn fyrirtækisins gekk Sigríður Sía Jónsdóttir og í stað hennar tók sæti í stjórn Ýr Gunnlaugsdóttir.

Stjórnina skipa þá ásamt Ýr þeir Friðrik Friðriksson Formaður, Einar Matthíasson varaformaður, Arnar Sigurmundsson, Ágústa Guðmundsdóttur, Guðrún Elsa Gunnarsdóttur og Jón Eðvald Friðriksson.

Matís ohf þakkar Sigríði Síu störf í þágu fyrirtækisins um leið og Ýr er boðin velkominn til stjórnarsetu.

Fréttir

Matís auglýsir styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga!

Efnarannsóknardeild Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga.

Titill verkefnis:
Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli með HPLC-ICP-MS.

Nánari upplýsingar má finna með því að smella hér!

Fréttir

Brjósksykrur og lífvirk efni úr sæbjúgum

Á Matís er nú að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: ” Brjósksykrur og lífvirk efni úr sæbjúgum” og var ræsfundur í verkefninu haldinn í morgun. Verkefnið mun ganga út á þróun á vinnsluferli lífvirkra efna úr sæbjúgum, allt frá vinnslu chondroitin sulfats úr sæbjúgum til framleiðslu og hreinsunar á chondroitin sulfat fásykrum sem unnar eru með sérvirkum sykursundrandi ensímum.

Einnig verða vinnsluferlar þróaðir til að framleiða extrökt með viðtæka lífvirkni. Stefnt er að því að verkefnið leiði til þróunar framleiðsluafurða með stöðluðu innihaldi og virkni sem selja má á mörkuðum í Evrópu, Japan og Kóreu og víðar.

Rannsóknir hafa sýnt að chondroitin sulfat fásykrur hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, ónæmiskerfi, meltingu, oxunarferla, bólguferla, gigt og fleiri þætti sem snúa að líkamsstarfsemi manna og dýra. Því má nota chondroitin sulfat fásykrur sem lyf, heilsu- eða fæðubótaefni. Unnt er að framleiða slíkar sykrur með sérvirku ensímniðurbroti á chondrotin sulfati fjölsykru. Chondrotin sulfati fjölsykrur er hægt að vinna í miklu magni úr sæbjúgum, sem er vannýtt tegund með mikla nýtingarmöguleika. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að margar tegundir sæbjúga hafa mikið af lífvirkum efnum sem hægt er að einangra eða vinna áfram.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís og AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og er unnið í samvinnu við IceProtein á Sauðárkróki, Reykofninn Grundarfirði og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Fréttir

Framtíðarhúsnæði Matís í Vatnsmýrinni

Í gær, 3. júní, var samþykkt á stjórnarfundi Matís að ganga til samninga við Háskólann í Reykjavík (H.R.) um framtíðarhúsnæði fyrirtækisins. Lóðin, sem hið nýja húsnæði mun rísa á, stendur vestan við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við Hlíðarfót í jaðri Öskjuhlíðar. Einnig buðu Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf og S8 ehf húsnæði til leigu, en framangreind niðurstaða varð úr þar eð tilboð H.R. var hagstæðast þeirra tilboða er bárust.

Hið nýja rannsókna- og skrifstofuhúsnæði Matís mun hýsa þá starfsemi sem í dag fer fram á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu; við Borgartún 21, við Skúlagötu 4 og við Gylfaflöt 5.

Eftir sem áður mun Matís reka starfstöðvar sínar á landsbyggðinni með óbreyttu sniði, en þær er að finna á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Neskaupstað, Höfn og Vestmannaeyjum. Þegar liggja fyrir teikningar að húsinu, sem unnin er af arkitektastofunni ARKÍS, og er markmið þeirrar tillögu að hanna sértækt rannsóknahús sem passar öllum starfssviðum Matís. Byggingin er “sveigjanleg í hönnun, með opin og björt rými með góðum og stuttum tengingum milli rýma og starfsmanna er gefa starfsmönnum möguleika á opnu og gagnvirku vinnuumhverfi”, eins og segir í gögnum frá arkitektastofunni. Húsið er alfarið ætlað Matís og er sérhannað utanum starfsemi fyrirtækisins.

Það er Matís mikið ánægjuefni að niðurstaða skuli vera fengin í umleitanir fyrirtækisins undanfarna mánuði um framtíðarhúsnæði. Það á ekki síst við þar sem stjórnendur Matís telja það mikinn kost að tekist hafi finna hinu þekkingar- og þróunarmiðaða fyrirtæki framtíðarstæði í svo góðu nábýli við Háskólann í Reykjavík sem og Háskóla Íslands, en Matís hefur frá upphafi lagt áherslu á gott samstarf við háskóla hér á landi og hjá fyrirtækinu vinna hverju sinni margir háskólanemar að meistara- og doktorsverkefnum sínum. Það er því án nokkurs vafa að samlegðaráhrif verða þarna til í bráð og lengd.

Flutningur Matís í þetta framtíðarhúsnæði, sem er fyrirhugaður fyrir árslok 2010, er starfsmönnum öllum fagnaðar- og tilhlökkunarefni, og hin nýja staðsetning, í návist Háskólanna í Vatnsmýrinni, mun eflaust reynast fyrirtækinu hinn besti vettvangur til að starfa áfram í krafti gilda sinna, sem eru frumkvæði, heilindi, metnaður og sköpunarkraftur.

Skoða teikningar af framtíðarhúsnæðinu

Fréttir

Miklum verðmætum skolað burt með frárennslisvatni í fiskvinnslu

Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt frá aðferð sem Matís, í samvinnu við Brim hf., hefur þróað til að safna fiskholdi sem kemur frá vinnslulínum í bolfiski. Aðferðin er afrakstur þriggja ára verkefnis á Matís sem nefnist “Fiskprótein í frárennsli.”

Eitt af meginmarkmiðum í verkefninu var að vinna að aukinni nýtingu og auknu verðmæti afla sem unninn er í landvinnslu með því að finna leiðir til einangrunar fiskvöðva úr vatni sem kemur frá vinnslulínum og leggja mat á notkunarmöguleika þeirra til manneldis. Afskurður, hryggir og hausar eru aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu. Þessu var áður fyrr hent en á seinni árum er farið að reyna að nýta þetta til manneldis, t.d. eru hausar og hryggir þurrkaðir og fluttir út.

Má í þessu sambandi geta þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hirtu sjómenn og fiskverkendur árið 2006 aukaafurðir sem námu 27.800 tonnum. Hafa ber í huga að hér er átt við þyngd afurðanna sjálfra en ekki kíló af fiski upp úr sjó. Mest féll til af afskurði eða 17.800 tonn, 2.700 tonn af hausum voru hirt og 2.300 tonn af hrognum. Meðal fleiri aukafurða má nefna að hirt voru 1.800 tonn af lifur og unnin 2.400 tonn af mjöli á sjó. Stærsti hluti þessara afurða fellur til vegna bræðslu eða tæp 17.800 tonn, aðallega afskurður, 14.800 tonn. Einnig bárust tæp 6.500 tonn af aukaafurðum á land af frystiskipum þetta ár, aðallega fiskhausar, 2700 tonn og afskurður, 2.900 tonn.

Hins vegar hefur sá hluti próteina sem tapast í frárennslisvatni frá vinnsluvélum, þ.e. flökunar- og roðflettivélum varla verið nýttur hingað til sem nokkru nemur. Ef magn bolfiskafurða allra vinnslustöðva er um 60 þús. tonn á ári, má gróflega áætla að um 1.200 tonn af þurrefni tapist árlega með frárennsli.

Afrakstur verkefnisins“Fiskprótein í frárennsli”  fólst í frumgerð að feril til söfnunar á massanum úr frárennslisvatni við fiskvinnslu og mati á eiginleikum og magni hans.  Með einfaldari stærðarflokkun (síun) má skilja að grófari fiskhluta sem nýst geta t.a.m.í unnar afurðir eins og marning. Fínni massa er hægt að nýta beint sem tæknileg íblöndunarefni, beint úr einangrunarferlinu eða eftir frekari vinnslu sem getur tryggt frekar heilnæmi þeirra og/eða bætt tæknilega eiginleika, t.d. til að auka nýtingu í fiskflökum með innsprautun eða annari íblöndun í fiskafurðir.

Með því ferli sem þróað var í verkefninu tókst að ná um 25% af öllu þurrefni úr frárennsli frá flökunarvél. Með notkun á hristisigtum við síun tókst að ná fínum hvítum massa úr frárennslinu með kornastærð 250-710 µm, sem hentar vel í framleiðslu hágæðapróteina. Massi sem hafði kornastærð stærri en 850 µm, var mjög grófur og blóðlitaður og hentar því frekar í marning ef hægt er að draga úr neikvæðum áhrifum blóðmengunar. Við söfnun á massa undir 250 µm þarf annan búnað, svo sem himnusíun, þar sem þurrefnin fara í gegnum 250 µm sigti.

Annar afrakstur verkefnisins er umhverfisvænni framleiðsluhættir þar sem minna af lífrænu efni er skilað út í umhverfið sem er í samræmi við auknar kröfur um hreinni framleiðslutækni. Prótein úr frárennslisvatni er hægt að nýta á öruggan hátt til manneldis með litlum tilkostnaði sem mun skapa aukin virðisauka við fiskvinnslu, ásamt því að hreinsa frárennslisvatn í leiðinni sem hægt er að endurnýta í vinnsluferlinu. 

Þátttakendur í verkefninu voru Brim hf., FISK Seafood á Sauðárkróki og Matís ohf. ásamt Iceprotein ehf.
Það voru Tækniþróunarsjóður Rannís og AVS sem styrktu verkefnið.

Frétt Viðskiptablaðsins

IS