Fréttir

Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknarklasa – Matís þátttakandi í 5 hugmyndum af 10

Þann 24. júní sl. tilkynnti Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands) um þær tíu hugmyndir sem fá styrk úr markáætlun um öndvegssetur og rannsóknaklasa til að skila fullbúinni umsókn í október næstkomandi, og er Matís ohf. þátttakandi í fimm þeirra.

Hugmyndirnar fimm sem um ræðir eru eftirfarandi:

#5 Rannsóknasetur vitvéla

#7 Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélag

#21 Næring í nýsköpun

#29 Lífvirk efni frá láði og legi

#73 Öndvegissetur í fiskeldi 2009-2015 – sjálfbær nýting auðlinda lands og sjávar

Markáætlunin var auglýst í apríl síðastliðnum og var beðið um hugmyndir að öndvegissetrum og rannsóknaklösum á þeim sviðum sem fjallað er um í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá því í desember 2007. Alls bárust 82 hugmyndir.

Starfshópur á vegum Vísinda- og tækniráðs valdi tíu hugmyndir og tók mið af stefnu ráðsins og þeim viðmiðunum sem nefnd eru í lýsingu á markáætluninni. Lokaniðurstaða var samþykkt á fundi vísindanefndar og tækninefndar 24. júní síðastliðinn.

Eins og fram kemur í lýsingu á markáætluninni er eitt aðalmarkmið hennar að styrkja tengsl milli háskóla, stofnana, fyrirtækja og stjórnvalda á viðkomandi sviði, innanlands sem utan.

Alls tók Matís ohf. þátt í 16 af þeim 82 hugmyndum sem bárust Rannís í vor, eða 20%. Nú þegar Matís tekur þátt í fimm af þeim tíu hugmyndum sem fá framgang hefur hlutfallið hækkað í 50%.

Fréttir

Skyndibitinn á Höfn er humarsúpa!

Skyndibitastaðurinn Kokkur á Höfn í Hornafirði hefur hafið sölu á humarsúpu í gegnum bílalúgu. Um er að ræða sælkerahumarsúpu sem unnin er úr staðbundnu hráefni. Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís og Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika.

Upplifun
Það er óneitanlega sérstök og sterk upplifun að kaupa jafn glæsilega vöru og sælkerahumarsúpu í bílalúgu á skyndibitastað. Til að auka enn á hughrifin er súpan framreidd í fallegum endurvinnanlegum umbúðum og með henni fylgir servíetta sem vísar til hins eina sanna rauðköflótta lautarferðadúks. Tréspjót með nýgrilluðum humri fylgir með súpunni.


Úrvalshráefni
Vörumerki Humarsúpunnar er skjaldarmerki, sem vísar til gæða vörunnar og þess að hún er frá höfuðstað humarsins á Íslandi. Í súpunni er eingöngu úrvalshráefni en undirstaðan er auðvitað hornfirskur humar.
Eldað hægt – Lykilatriði í humarsúpugerðinni er natni. Ekki minna en fullur vinnudagur fer í humarsúpugerðina þar sem hið eina sanna humarbragð er galdrað fram með hægri suðu í langan tíma undir ströngu eftirliti faglærðra matreiðslumanna.

 
Matarmenning
Humarsúpa Kokksins er einstakur hágæðaskyndibiti sem hefur sterka vísun í upprunann og umhverfið en er um leið sælkeravara á alþjóðlega vísu.  Með vörunni er leitast við að kynna hina sterku humarhefð svæðisins.  Þannig er hægt að upplifa sælkerasúpu sem myndi sóma sér á hvaða veitingastað sem er, á fljótlegan, ódýran og nýstárlegan hátt.


Samstarf Matís og Kokksins
Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís sem selur heildstæða ráðgjöf og aðgang að vöruþróunaraðstöðu til að umbreyta hugmyndum yfir í gæðamatvæli.  Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika. 

 
Saga Kokksins
Bræðurnir Jón Sölvi og Valgeir, opnuðu skyndibitastaðinn Kokkur með stæl í nóvember 2007 en þar eru allar vörur afgreiddar í gegnum bílalúgu.  Það má segja að hugtakið „skyndibiti“ hafi við þetta öðlast nýja og innblásna merkingu en Jón Sölvi er þrautreyndur listakokkur sem hafði fram að þessu starfað við fínustu veitingastaði landsins. Að opna lítinn stað eins og Kokkur lýsir hugarfari Jóns fullkomlega.  Það er ekki stærðin heldur gæðin og frumleikinn sem skipta máli í hans huga.

Á myndinni sést er Guðumundur H. Gunnarsson, deildarstjóri Matís á Höfn, fær sér humarsúpu „beint í bílinn.“

Frekari upplýsingar um verkefnið veita:
Valgeir Ólafsson (Annar eigandi Kokksins):  899-4430 , valgeir@ogsvo.is
Brynhildur Pálsdóttir (matarhönnuður): 849-9764, brynhildur.palsdottir@matis.is
Guðmundur Gunnarsson (deildarstjóri hjá Matís): 858-5046, ghg@matis.is

Fréttir

Matís og Veiðimálastofnun í samstarf: rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxfiska

Matís Ohf og Veiðimálastofnun undirrituðu í gær, fimmtudaginn 3. júlí, rammasamning um eflingu samstarfs milli fyrirtækjanna. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti samninginn af því tilefni. Undirritunin fór fram í húsnæði Matís-Prokaria, líftæknisviðs Matís, að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Samstarf Matís og Veiðimálastofnunar verður einkum á sviði erfðarannsókna og í fiskeldi.

Matís–Prokaria sýndi við sama tækifæri nýja raðgreiningarvél en tækið getur raðgreint mikið magn erfðaefnis, t.d. fyrir stofnerfðagreiningar og við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem meðal annars má nota í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði.

Samvinnan er þegar hafin og í gangi er viðamikil rannsókn á stofnbreytileika íslenskra laxa og ferðir þeirra í hafinu umhverfis Ísland. Þetta er hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni á Atlantshafslaxi. Fyrstu niðurstöður benda til mikils breytileika á laxastofnum í ánum í kringum landið. Markmið vísindamanna er að geta svarað ýmsum spurningum með því að geta rakið uppruna laxa í Atlantshafinu til upprunaár eða árkefis. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið þar sem hvert land þarf að vinna mikla vinnu bæði í sýnasöfnun og erfðagreiningum. Íslendingar virðast komnir einna lengst með vinnu á þessu sviði og er nú stefnt að næsta skrefi rannsóknarinnar sem tengist sjógöngulaxinum. Þar er stefnt að samvinnu við fiskveiðiflotann um að safna sýnum úr laxi sem slæðist með í veiðiafla skipanna..

Mikil hnignun hefur átt sér stað í flestum stofnum Atlantshafslaxins og er hann víða á válista yfir tegund í útrýmingarhættu. Mjög lítið er vitað um sjógöngur laxa og hafa rannsóknir byggt annars vegar á hefðbundnum merkingum og rannsóknum á skipum á hafi úti. Auk þess hafa nýlegar verið hafnar rannsóknir með rafeindamerkjum hér á landi. Þessar rannsóknir sem nú er verið að kynna renna sterkari stoðum undir þekkingu manna á þessu sviði. Samvinna fyrirtækjanna kemur til með að auka þekkingu á erfða- og vistfræði laxfiska. Sú þekking nýtist síðan í frekari rannsóknum á nýtingu og verndun stofnanna landi og þjóð til hagsbóta.

Veiðimálastofnun hefur stundað stofnerfðarannsóknir á ferskvatnsfiskum og Matís stundað rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar og hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í erfðagreiningu á alls kyns lífverum úr umhverfinu. Veiðimálastofnun og Matís munu standa að nánu samstarfi um rannsóknir. Þessar rannsóknir spanna grunn- og hagnýtar rannsóknir í náttúru- og erfðafræði með sérstaka áherslu á stofnerfðafræði lax, urriða og bleikju. Slíkar rannsóknir nýtast við veiðistjórnun og við uppbyggingu í fiskrækt og fiskeldi.

Matís ohf er hlutafélag í eigu ríkisins, sem hefur það markmið að efla alþjóðlega samkeppnishæfni og þróun íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla og styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana, nýsköpun og sprotafyrirtæki, auk þess að sinna samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.
 
Veiðimálastofnun er rannsókna- og þjónustustofnun. Hlutverk Veiðimálastofnunar er að rannsaka lífríki í ám og vötnum, rannsaka fiskistofna í ferskvatni, veita ráðgjöf um veiðinýtingu og um lífríki og umhverfi áa og vatna t.d. í tengslum við mannvirkjagerð og halda gagnagrunn um náttúrufar í fersku vatni.

Myndin var tekin við undirritun samningsins.

Fréttir

Viltu læra af fremsta vísindafólkinu? – Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc)!

Efnarannsóknardeild Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga
Titill verkefnis er Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli með HPLC-ICP-MS

Stutt lýsing á verkefninu
Í lífríkinu er mikið til af efninu Arsen í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi sem kallast arsenobetaníð, sem er mönnum og dýrum með öllu hættulaust. Eins og í landbúnaðarafurðum koma önnur form arsens fyrir í sjávarafurðum, s.s. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat), metýlarsensambönd (mónó, dí, trí og tetra), sem eru mjög eitruð og þar með hættuleg heilsu manna.

Formgreining arsens í sjávarfangi er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arseni í sjávarfangi.

Markmið
Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli en ekki bara heildarmagn arsens eins og gert er í dag. Notaður verður HPLC-ICP-MS efnagreiningarbúnaður til greiningar á nýjum og þekktum arsenformum í fiskimjöli.

Þetta verkefni hlaut nýverið styrk úr rannsóknasjóði AVS og verður unnið í samstarfi við Síldarvinnslan hf. og Vinnslustöðin hf auk þess sem fleiri framleiðendur fiskimjöls koma að verkefninu.

Staðsetning
Matís & HÍ. Einnig er möguleiki er á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir sem Matís er í samstarfi við.

Leiðbeinandi hjá Matís er Dr Sasan Rabieh er sérfræðingur á þessu sviði og leiðir uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Matís. Í þessari uppbyggingu felst m.a. stuðningur við nemenda til mastersnáms á þessu sviði. Möguleiki er
á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir.

Tengiliður
Áhugasömum er bent á að hafa samband í síma 422 5112, sasan@matis.is eða helgag@matis.is

Fréttir

SAFEFOODERA heimsækir Matís

Þann 18. júní s.l. var haldinn fundur hér á landi á vegum SAFEFOODERA EraNet verkefnisins, en hér er um að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni sem hefur að markmiði að efla matvælaöryggi. Verkefnið heyrir undir 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins (7. RÁ ESB), en einn lykilþáttur í 7. RÁ er uppbygging Evrópska rannsóknasvæðisins (ERA).

Tæplega 50 manna hópur kom hingað til lands til að vera viðstaddur fundinn og byrjaði Íslandsheimsókn hópsins á heimsókn í aðalstöðvar Matís við Borgartún, þar sem hann fræddist m.a. um starfsemi Matís og naut kvöldhressingar með útsýni yfir sundin blá.

Meðal þeirra sem kváðu sér hljóðs við þetta tilefni var Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstóri Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og síðan Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís, sem bauð hópinn velkominn til landsins. Þá tóku þeir Johs Kjosbakken frá Norska rannsóknaráðinu (RCN), formaður stýrihóps SAFEFOODERA og Mads Peter Schreiber frá NICe einnig til máls. Gerðu þeir góðan róm að landi og þjóð við komuna og sögðust hlakka til dvalarinnar. Að loknum stuttum ávörpum gerðu gestirnir veitingum skil og héldu svo með áætlunarbíl áleiðis til Stykkishólms, þar sem fundurinn var haldinn.

Þess má geta að búið er að auglýsa eftir styrkumsóknum úr SAFEFOODERA verkefninu og hyggst Matís leggja inn umsóknir. Umsóknarfrestur er til 15. september 2008.

Fundur´hjá Matís í Safefoodera-verkefninu 18. júní 2008

Á myndinni eru þeir Johs Kjosbakken (tv) og Sigurgeir Þorgeirsson.

Fréttir

Rannsókn á Matís: nýting makríls sem veiðist á Íslandsmiðum

Makríll hefur hingað til ekki talist til nytjastofna á Íslandsmiðum, enda eru heimkynni hans einkum út af Austurstönd N-Ameríku, í Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi. Á síðustu árum hafa íslensk síldveiðiskip hins vegar orðið vör við makríl í auknum mæli og hafa skipin veitt makríl í bland við norsk-íslensku síldina austur af landinu síðsumars. Makríll er mjög verðmikill fiskur og verðið er oft yfir 100 kr/kg. fyrir ferskan haustveiddan fisk í vinnslu og fyrir frosinn slægðan fisk veiddan yfir sumartímann. Á Matís er nú að fara af stað verkefni sem kallast Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum.

Markmiðið með þessu verkefni er að kanna veiðar uppsjávarfiskiskipa á makríl á Íslandsmiðum, gera mælingar á lögun, koma með lausnir hvernig flokka megi makrílinn frá öðrum fiski um borð og hvernig vinnslu skuli háttað í frystiskipum. Greindur verður tækjakostur sem nauðsynlegur er við vinnsluna, einnig verða markaðir kannaðir fyrir makríl veiddan á Íslandsmiðum eftir árstímum. Stefnt er að því að afrakstur verkefnisins verði sjófrystar íslenskar makrílafurðir en þær hafa ekki verið framleiddar hingað til.
 
Útgerðir munu geta nýtt sér niðurstöður verkefnisins sem stuðning ef þær hyggjast hefja makrílveiðar með síldveiðum hér við land, einnig mun þetta verkefni undirbúa útgerðirnar ef vaxandi makrílgengd á Íslandsmiðum reynist til langframa.

Verkefnisstjóri er Ragnheiður Sveinþórsdóttir.

Fréttir

Búið að opna formlega annað kallið í SAFEFOODERA

Meðfylgjandi eru rannsóknaráherslurnar og umsóknarleiðbeiningar. Alls eru 6 milljón evrur í pottinum. Lesið meira til að kynna ykkur nánari upplýsingar um helstu rannsóknaráherslur.

Rannsóknaráherslur:

  • DETECTION OF TRACES OF ALLERGENS IN FOOD
  • BIOACTIVE INGREDIENTS: Safety of bioactive ingredients in functional foods
  • CHEMICAL FOOD CONTAMINANTS
  • EMERGING RISK: Effects [Consequences] of climate change on [for] feed and food safety
  • GMO: Development of screening methods of GMO
  • MRSA: The zoonotic potential of methicillin-resistant Staphylococcus aureus (MRSA) – antibiotic resistance and non-typable (NT) strains
  • RISK-BENEFIT ANALYSIS
  • RISK ASSESSMENT OF FOOD-BORNE PATHOGENS
  • TRACEABILITY

TIME SCHEDULE

20th of June 2008: SAFEFOODERA 2nd Call officially announced

15th of September 2008: Deadline for proposal submission (17:00 Brussels time)

1st of March 2009: Latest date for project start

Leiðbeiningar fyrir væntanlega umsækjendur er að finna hér 

SAFEFOODERA logo

Fréttir

Nýtt, athyglisvert verkefni á Matís

Á Matís er að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: “Nýr vinnsluferill fyrir framleiðslu á Lútfiski”. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og verður unnið með Fram Foods sem er með stóra markaðshlutdeild á lútfiski á Norðurlöndunum.

Lútfiskur er mjög sérstök afurð sem byggir á aldagömlum aðferðum og hefðum við varðveislu hráefnis. Hráefnið er þurrkað niður í um 15-16% raka og er um 80% nýtingartap við þurrkunina. Þurrkaða hráefnið er geymt fram á haust þar til vinnsla fer fram sem er frá lokum september og fram í miðjan desember. Í hefbundnu vinnsluferli eru flökin lögð í bleyti, svo lútuð og skoluð sem veldur því að þyngd flakanna margfaldast. Við lútun hækkar sýrustig vörunnar mikið og geta þau því dregið í sig mikið vatn sem er skýringin á útþenslu fisksins við lútunina.  Að lokum eru flökin þverskorin í stykki og pakkað í 1 kg lofttæmdar einingar. 
 
Sumir telja að lútfiskur sé frá tímum Víkinga, á meðan aðrir telja að lútfiskur hafi fyrst skotið upp kollinum á 16 öld í Hollandi og fljótlega fundið sér leið til Norðurlanda þar sem neyslan er mest nú til dags.  Heildarmarkaðurinn á Norðurlöndum fyrir lútfisk er talin vera 5200 tonn.  Þar af eru 2200 tonn af þorski í Noregi, 2500 tonn af löngu í Svíþjóð og 500 tonn af löngu í Finnlandi.  Neyslan er hefðbundin og nánast einungis um jólaleitið, en eitthvað er borðað af lútfiski um páskana.  Við neyslu eru fiskstykkin soðin og borin fram með soðnum kartöflum, jafningi og grænum baunum, ekki ósvipað hangikjötsmeðlæti.  Fiskurinn er sem slíkur með mjög sérstaka áferð sem líkist soðinni eggjahvítu og er bragðlítill eftir verkunina og eitthvað er um að bragðgjafar s.s sinnep eða beikon sé bætt í sósuna, eða sem meðlæti
 
Hugmyndin á bak við rannsóknarverkefnið er að leita eftir meiri sveiganleika við framleiðsluna með því að stytta framleiðslutímann, þannig er hægt að bjóða stórmörkuðunum ferskari vöru með því að stytta verkunartímann.

Verkefnisstjóri er Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri á Matís.

Fréttir

Matís – Prokaria kaupir öfluga raðgreiningavél frá Roche/454 Life Science

Matís–Prokaria keypti nýlega raðgreiningarvél af gerðinni Roche/454 Life Science. Að sögn Ragnars Jóhannssonar, sviðsstjóra Líftæknisviðs Matís, getur tækið raðgreint mikið magn erfðaefnis í einu og opnar nýja vídd við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem nota má í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði. Þessi gen er að finna í örverum sem lifa í heitum hverum í allt að 100 stiga hita og við mjög mismunandi seltu og sýrustig, segir Ragnar.

Áður var notuð svokölluð Gen-Mining aðferð en nýja vélin lækkar kostnað við leit að genum nálega 20-falt. En stóri plúsinn er að öll gen lífverunnar sem kóða fyrir öll ensím hennar, sem skipta hundruðum, nást í einni keyrslu. Til að setja afkastagetu í samhengi þá raðgreinir vélin 1.000.000.000 basapör á einni nóttu – vélin sem fyrir var greinir 100.000 basapör á sama tíma. Hér er því um 10.000 faldan mun að ræða í afkastagetu. Nýja tækið var keypt í samvinnu við Miðstöð í kerfislíffræði við Háskóla Íslands og Tilraunastöð HÍ að Keldum

Sem fyrr segir er tækið af gerðinni FLX frá Roche/454 Life Science og mun það nýtast til ýmissa rannsókna og verður það til dæmis notað við rannsóknir í kerfislíffræði, sem snúast um að greina heildarmynd í starfsemi lífvera, það er samspili efnaskipta og tjáningu gena. Það er nauðsynlegt ef hanna á framleiðslulífverur sem geta stundað flóknar efnasmíðar.

Einnig mun tækið nýtast við rannsóknir á æðri dýrum svo sem á genamengi þorsks, við leit að erfðamörkum og lykilgenum sem stjórna mikilvægum eiginleikum svo sem vaxahraða og sjúkdómsþoli.

Einnig er verður tækið notað við rannsóknir á tjáningu gena sem er mikilvægt í ýmsum rannsóknum tengdum heilsu og heilbrigði, svo sem krabbameinsrannsóknum og rannsóknum á bólgusjúkdómum. Þar er átt við sjúkdóma á borð við gigt, hjarta- og æðasjúkdóma .

Stór kostur sem þetta tæki hefur fram yfir önnur sambærileg tæki er sá að unnt er að raðgreina erfðamengi óþekktra baktería og jafnvel blöndu erfðamengja, sem er mikilvægt í umhverfisrannsóknum. Í nýrri grein í Nature er viðtal við þekkta vísindamenn á því sviði þar sem þeir staðhæfa að þetta sé eina tækið í heiminum í dag sem geti  slíkt.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Ragnar (tv) og Ólaf H. Friðjónsson við nýju raðgreiningarvélina.

Fréttir

Nýr fjármálstjóri á Matís

Nýr fjármálastjóri hóf störf á Matís um s.l. mánaðarmót, Sigríður Hrönn Theódórsdóttir, og tók hún við starfinu af Aðalbjörgu Halldórsdóttur. Sigríður er rekstrarhagfræðingur frá Fachhochschule Munchen, og hefur víðtæka reynslu af atvinnulífinu.

Sem fyrr segir hefur Sigríður mikla reynslu af atvinnulífinu og má þar nefna að hún starfaði hjá Nýsi hf. sem framkvæmdarstjóri Artes, Café Konditori Copenhagen og jafnframt sem rekstrarstjóri Heilsugæslunnar í Salahverfi. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Brú Venture Capital og hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Sigríður hefur ferðast víða og dvalið langdvölum erlendis, hún bjó í Munchen í 13 ár, þar sem hún var við nám og störf, en hún starfaði þar m.a. fyrir stórfyrirtækin Allianz og Siemens Nixdorf.

Hún hefur einnig ferðast til margra framandi slóða s.s. Braselíu, Zimbabve, Botsvana, Suður-Afríku, Filippseyja, Taílands, Egyptalands svo fátt eitt sé nefnt.

IS