Fréttir

Vinnufundur um laxeldi – skýrslan er komin út

Vinnufundur um laxeldi var haldin í húnæði Ölfus Cluster í Þorlákshöfn 27. Október 2021. Viðfangsefni fundarins voru málefni sem skipta laxeldi í sjó miklu máli og reynt að draga fram allar helstu og nýjustu lausnir á þeim sviðum.

Rætt var um fyrirbyggandi aðgerðir gegn laxalús, nýjungar í fóðurgerð þar sem nýting fóðurs er hámörkuð miðað við umhverfi fiskeldis í sjó, og seiðaeldi í stýrðum aðstæðum á landi; svo kölluð Recirculating Aquaculture Systems (RAS). Fræðimenn og sérfræðingar á þessum sviðum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku og Finlandi héldu erindi um nýjustu strauma og stefnur í viðfangsefnum fundarins. Verkefnið var styrkt að AG Fisk, sem er norrænn styrktarsjóður, og stýrt af eftirfarandi vísindamönnum, sérfræðingum og eldismönnum frá öllum Norðurlöndunum.

  • Gunnar Thordarson, verkefnastjóri, Matís, Ísafirði, Íslandi
  • Björgolfur Hávardsson, NCE Seafood Innovation Cluster AS Noregi
  • Gunnvør á Norði and Jóhanna Lava Kötlum, Fiskaaling, Færeyjum
  • Kurt Buchmann, Department of Veterinary and Animal Sciences, University of Copenhagen, Frederiksberg, Danmörku
  • Henrik Henriksen, The Danish Aquaculture Organisation, Aarhus, Danmörku
  • Marko Koivuenva, Finnish Fish Farmers’ Association, Helsinki, Finlandi.

Um 60 manns sóttu fundinn sem hófst snemma morguns og stóð yfir fram eftir miðjum degi. Var mjög vel látið af erindum flytjenda sem upplýstu fundarmenn um allt það nýjasta sem er að gerast við þessi mikilvægu atriði í eldi í sjókvíum. Mikil ánægja var með flytjendur og þau erindi sem flutt voru, og mikið um spurningar og athugasemdir til þeirra.

 Vinnufundurinn var haldin í tengslum við Lagarlíf, sem er ráðstefna eldis og ræktunar á Íslandi, sem haldin var dagana 28 -29 október. Tæpt stóð að hægt væri að halda vinnufundinn og ráðstefnuna vegna sóttvarnaaðgerða, en stuttur gluggi myndaðist þó yfir þennan tíma til að halda þessar samkomur. Eins og gengur heltist fólk úr lestinni sem halda átti erindi vegna sóttkvíar, en tímalega tókst að fá aðra sérfræðinga inn til að fylla í skarðið.

Verkefnið var með tengingu inn á heimasíðu Matís og þar má nálgast öll erindi fundarins. Síðan er aðgengileg hér: Nordic Salmon.

Að fundi loknum var skrifuð skýrsla um erindi flytjenda og kynning á viðkomandi aðilum: Nordic Salmon – Skýrsla.

Fréttir

Verkefnið Krakkakropp tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Verkefnið Krakkakropp var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og var unnið í tengslum við verkefnið „Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju grænmetis“ hjá Matís. Krakkakropp er tilbúinn barnamatur unninn úr íslensku grænmeti.

Verkefnið var unnið af þeim Arnkeli Arasyni, Sigrún Önnu Magnúsdóttur og Vöku Mar Valsdóttur, nemum í matvælafræði við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru veitt þann 10. febrúar sl. Verðlaunin hlaut verkefnið „Betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá.“

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. 

Krakkakropp var meðal 6 verkefna sem tilnefnd voru til verðlaunanna og hlutu sérstaka viðurkenningu. Það telst mjög góður árangur þar sem fjöldi verkefna kom til greina. Þá hafa nemendur í kjölfar verkefnisins nú stofnað fyrirtækið Sifmar ehf. Fyrirtækið hefur einnig hlotið fleiri styrki, nemendur tekið þátt í viðskipta-og markaðshröðlum og hefur Landsvirkjun fjárfest í fyrirtækinu.

Vaka Mar Valsdóttir, Sigrún Anna Magnúsdóttir og Arnkell Arason taka við viðurkenningum fyrir öndvegisverkefnið „Krakkakropp.“ Ljósmynd / Arnar Valdimarsson.

Nánari upplýsingar um verkefnið:

Krakkakreistur og Krakkakropp: Íslenskur barnamatur.

Verkefnið var unnið af Vöku Mar Valsdóttur, Sigrúnu Önnu Magnúsdóttur og Arnkeli Arasyni, nemum í matvælafræði við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís. Kveikjan að verkefninu var stórt gat á markaði, en sem stendur er enginn tilbúinn íslenskur barnamatur fáanlegur. Á sama tíma hleypur innflutningur á erlendum barnamat árlega á hundruðum tonna.

Á Íslandi er til staðar græn orka, unnin með sjálfbærum hætti, hreint vatn, framúrskarandi hráefni og hverfandi notkun varnarefna við grænmetisframleiðslu. Því höfum við á Íslandi fulla burði til þess að framleiða góðan og heilsusamlegan barnamat fyrir börnin okkar.

Hugsjón nemenda var sameiginleg að nýta reynslu sína úr námi til þess að þróa frumgerðir af íslenskum barnamat sem framleiða mætti á ábyrgan hátt með umhverfissjónarmið og hollustu í fyrirrúmi. Lýðheilsa barna er brýnt vandamál en u.þ.b. fjórðungur íslenskra barna mælist yfir kjörþyngd. Mikilvægt er því að bregðast við með hollum og hentugum lausnum fyrir barnafjölskyldur. Þá hefur matarsóun gríðarlega mikil áhrif á loftslagsbreytingar, en um 45% grænmetis heimsins er talið fara spillis. Í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna þróuðu nemendur barnamat úr m.a. grænmeti sem ýmist er of smátt, of stórt, bogið eða brotið. Slíkt grænmeti myndi ekki nýtast í hefðbundnar söluvörur en er að öðru leyti í fullkomnum gæðum og því tilvalið til framleiðslu á maukuðum og þurrkuðum barnamat.

Að verkefni loknu stóðu eftir fimm frumgerðir af Krakkakreistum – hentugum barnamat í pokum og þrjár frumgerðir af Krakkakroppi – barnanasli sem bráðnar í munni.

Þá hafa nemendur í kjölfar verkefnisins nú stofnað fyrirtækið Sifmar ehf. Fyrirtækið hefur einnig hlotið fleiri styrki, nemendur tekið þátt í viðskipta-og markaðshröðlum og hefur Landsvirkjun fjárfest í fyrirtækinu. Á döfinni hjá Sifmar ehf. er áframhaldandi fjármögnunarferli svo bjóða megi upp á öruggari og umhverfisvænni framleiðslu hér á landi.

Það má því með sanni segja að íslensk framleiðsla, sjálfbærni, lýðheilsa barna, spornun gegn matarsóun, jákvæð umhverfisáhrif, landbúnaður og tækniþróun séu allt málefni sem verkefnið snertir og helst í hendur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Fréttir

Símkerfi Matís liggur niðri

Símkerfi Matís liggur niðri þessa stundina vegna bilunar sem kom upp í búnaði þegar rafmagn datt út í nótt sökum óveðurs. Unnið er að viðgerð en við bendum á að senda má tölvupóst á eftirfarandi netföng:

  • Matis@matis.is
  • Mottaka@matis.is

Við biðjumst velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að valda.

Fréttir

Viljayfirlýsing um samstarf Matís, Reykhólahrepps og Þörungaverksmiðjunnar

Matís, Reykhólahreppur og Þörungaverksmiðjan hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum á vegum nýstofnaðrar Þörungamiðstöðvar Íslands á Reykhólum.

Í dag rituðu Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. f.h. Þörungamiðstöðvar Íslands annars vegar, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, hins vegar undir viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og vöktun í tengslum við Þörungamiðstöð Íslands á Reykhólum í þeim tilgangi að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun úr þangi og þara með rannsóknum, fræðslu, nýsköpun og vöruþróun. 

Þörungamiðstöð Íslands er ætlað að vera hlutafélag með lögheimili í Reykhólahreppi í eigu Þörungaverksmiðjunnar hf. og Reykhólahrepps sem og fleiri aðila. Samkvæmt drögum að stofnsamningi er tilgangur félagsins m.a. að stuðla að aukinni þekkingu og safna í þekkingarbanka um öflun og nýtingu sjávarþörunga við Ísland, bæði ræktaðra og villtra, stunda rannsóknir með áherslu á sjávarþörunga, vera í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fyrirtæki, veita þjónustu til rannsóknarstofnana og fyrirtækja  taka þátt í mennta- og fræðastarfi, efla ræktun þörunga og þróa afurðir úr þeim til að auka verðmætasköpun úr þessu sjávarfangi um leið og  stuðlað er að fjölbreyttari atvinnu í Reykhólahreppi. 

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands. Hólmfríður stýrði uppbyggingu á rannsóknastarfssemi í kringum sjávarútveg í Verinu á Sauðárkróki þar sem starfstöð Matís á Sauðárkróki var mikilvæg svo að sprotafyrirtækið Protis var hleypt af stokkunum.  Hólmfríður var hugmyndarsmiður Protis Fiskprótín framleiðslunnar. Protis var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem setti upp framleiðsluferil fyrir þurrkað fiskprótín og fiskkollagen sem unnið er úr hliðarafurðum fiskvinnslu og selt undir vörumerkinu Protis Fiskprótín.

Saga þörungavinnslu á Reykhólum er orðin 50 ára og staðbundin þekking á auðlindinni hefur safnast upp. Leitun er að heppilegri stað á landinu fyrir rannsóknastarfssemi og hagnýtri vöruþróun á sjávarþörungum. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök. Fram til þessa hefur Þörungaverksmiðjan stutt rannsóknir í firðinum með því að bjóða farartæki, reynda sæfara og öryggisbúnað til að athafna sig við rannsóknir. Byggst hefur upp mikil þekking á vinnsluferli  innan Þörungaverksmiðjunnar. Með þátttöku í stofnun Þörungamiðstöðvar Íslands vill Þörungaverksmiðjan hf. efla stuðning við rannsóknir á auðlindinni og nýjar úrvinnsluleiðir, enda er  Reykhólahreppur heimavöllur hennar og íbúarnir undirstaða starfseminnar. Þörungaverksmiðjan  framleiðir og selur hágæða þurrkað og malað klóþang og hrossaþara úr Breiðafirði. Þörungamjölið er vottað sem óblönduð lífræn vara og sjálfbær uppskera. Með aukinni tækniþróun hafa skapast gríðarleg tækifæri til fjölbreyttari nýtingar á þörungum og vinnslu verðmætra efna í matvæla-, snyrti og lyfjaiðnað með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun.

Þörungamiðstöð Íslands í samstarfi við atvinnulífið, háskóla og rannsóknastofnanir er einmitt ætlað að stuðla að sjálfbærrri nýtingu sem hvílir á niðurstöðum rannsókna, auka þekkingu, veita fræðslu, fjölga atvinnutækifærum og verðmæti vöru sem unnin er úr þangi og þara.

Reykhólahreppur stefnir að því að styðja við fjölbreyttara atvinnulíf, betri nýtingu auðlinda svæðisins, breiðara mannlíf í sveitarfélaginu með aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi og góðri aðstöðu fyrir nýbúa og þá sem fyrir eru.

Undirritunin í dag er mikilvægt skref í uppbyggingu á rannsókna- og þróunarstarfsemi á Reykhólum þar sem mikil þekking og reynsla er til staðar hjá Matís í rannsóknum á þörungum þar sem áhersla hefur verið lögð á vísindalega nýsköpun og hagnýta þekkingu og verðmætaaukningu.

Í viljayfirlýsingunni segir að sameiginlegt markmið aðilana sem að samkomulaginu standa sé að efla rannsókna- og þróunarstarfsemi í tengslum við sjálfbæra nýtingu þörunga og stuðla þannig að aukinni þekkingu, verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu á sviði sjávarþörunga. 

Fréttir

Upphafsfundur í verkefninu Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu

Í dag fór fram upphafsfundur í verkefninu Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu. Um er að ræða spennandi samstarfsverkefni Matís og Kjarnafæðis/Norðlenska sem snýst um nýtingu hliðarafurða úr kjötframleiðslu

Fundurinn tók að sjálfsögðu mið af gildandi sóttvarnarreglum og fór fram í gegnum fjarfundarbúnað eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Markmið verkefnisins er að bæta framleiðslu og meðhöndlun hráefnis með því að greina sóknarfæri í nýtingu hliðarafurða úr slátrun. Út frá niðurstöðum greiningar sem þegar hefur átt sér stað á hliðarafurðum hjá Kjarnafæði/Norðlenska er lagt upp með að rannsaka tvo meginkosti í verkefninu; annars vegar að kanna möguleika á nýtingu og vinnslu dýrablóðs og hins vegar nýtingu almenns sláturúrgangs sem hráefni til gæludýrafóðurframleiðslu. Einnig verður framkvæmd lífsferilsgreining á núverandi ferlum og þeim nýju ferlum sem greindir verða. Nýnæmi verkefnisins snýr að notkun þekktra lausna til að bæta innlenda nýtingu og framleiðslu og þróa afurðir sem eru nýjar á Íslandi.

Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnisins á verkefnasíðu þess hér: Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu

Fréttir

Verndandi arfgerðin ARR loksins fundin í íslensku sauðfé

Hin viðurkennda verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með víða í Evrópu við útrýmingu riðu með góðum árangri.

Arfgerðin hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Matís hefur allt frá árinu 2004 boðið uppá greiningar á riðugeni. Matís hefur í gengum tíðina raðgreint riðugenið í um 3.500 kindum og aldrei áður fundið þennan breytileika. Sérfræðingar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hafa janframt stundað markvissa leit að þessari arfgerð um árabil.

Matís fékk sýni til greiningar úr umfangsmiklu rannsóknaverkefni á vegum RML, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð. Þær greiningar staðfestu fyrri niðurstöðu en jafnframt fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð.

Matís vinnur nú í samstarfi við Stefaníu Þorgeirsdóttur, sérfræðing á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, að innleiðingu nýrra aðferða við greiningu á riðugeninu. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að bæta inn fleiri erfðasætum í reglubundnar greiningar, m.a. hinni ný uppgötvuðu verndandi arfgerð (sæti 171) og mögulega fleiri breytilegum sætum innan riðugensins. Í öðru lagi verður leitað leiða til að auka skilvirkni og afkastagetu riðugensgreininga, með það að markmiði að lækka kostnað við greiningar svo mögulegt verði að lækka verð á greiningum til bænda.

Nánari upplýsingar um þessa merku uppgötvun má finna á heimasíðu RML: Verndandi arfgerðin ARR fundin

Fréttir

Stykkishólmsbær gerir samkomulag við Matís um aukna verðmætasköpun í Stykkishólmi

Stykkishólmsbær og Matís hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu samstarfs í sveitafélagi Stykkishólms með áherslu á fræðslu, nýsköpun, rannsóknir og atvinnuuppbyggingu innan sveitafélagsins. Báðir aðilar samkomulagsins munu nýta styrkleika sína og innviði viðkomandi aðila eins og kostur er.

Stykkishólmsbær stofnaði til hugarflugsfundar með Matís, KPMG og fulltrúum atvinnulífsins á svæðinu þann 26. nóvember síðastliðinn. Fulltrúar atvinnulífsins fjölmenntu og sköpuðust  líflegar umræður um tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar og eflingu atvinnulífsins er varðar sjálfbæra matvælaframleiðslu á svæðinu.

Gróska í atvinnu- og nýsköpunarmálum í Stykkishólmi

Bæjarstjóri heimsótti, ásamt formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, fyrirtæki í Stykkishólmi í þeim tilgangi að kynnast betur starfsemi fyrirtækja og stofnana í bænum auk fyrirliggjandi áskorana og tækifæra og kanna með hvaða móti Stykkishólmsbær geti betur stutt við hagsmuni atvinnulífs í sinni stefnumótun og hagsmunagæslu.

„Atvinnulífið er grundvöllur byggðar á hverjum stað og lífæð allra samfélaga. Að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og skilja þarfir þess er mikilvægt,“ að sögn Jakobs.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skipaði starfshóp um eflingu atvinnulífs í bænum sem vinnur nú að því að greina tækifæri til eflingar atvinnulífsins á grunni svæðisbundinna styrkleika sem mun nýtast við stefnumörkun bæjarins í atvinnumálum. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Byggðastofnun. Þar er m.a. horft til verðmætasköpunar í tengslum við sjálfbæra nýtingu auðlinda Breiðafjarðar. Er samkomulag Matís ohf. og Stykkishólmsbæjar liður í sömu vegferð.

„Með þessu vill Stykkishólmsbær tryggja fyrirtækjum hagstæð skilyrði, vera hreyfiafl góðra verka og styðja við rannsóknir og nýsköpun,“ undirstrikar Jakob.

Samningur undirritaður á hugarflugsfundi í Stykkishólmi

Nokkrir fulltrúar atvinnulífsins í Stykkishólmi áttu, ásamt bæjarstjóra og formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, hugaflugsfund með fulltrúum frá Matís og KPMG þann 26. nóvember síðastliðinn.

Á fundinum voru til umræðu rannsóknir, nýsköpun, sprotastarfsemi, matvælaframleiðsla og ábyrg nýting auðlinda Breiðafjarðar með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og aukinni verðmætasköpun á svæðinu. Að loknum fundi rituðu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, undir samkomulag um samstarf Stykkishólmsbæjar og Matís.

Mikil gróska og uppbygging á sér stað á sviði sjálfbærrar afurða- og matvælaframleiðslu í Stykkishólmsbæ og er það markmið Stykkishólmsbæjar og Matís að styðja eftir megni við einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu til verðmæta- og nýsköpunar í matvælaiðnaði og frekari vinnslu svæðisbundinna afurða, og þannig stuðla að aukinni hagsæld, fæðuöryggi, matvælaöryggi og bættri lýðheilsu fyrir íslenskt samfélag.

Fréttir

Skýrsla um niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi fyrir árið 2021 er komin út

Á dögunum birtist skýrsla um niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni fyrir árið 2021. Matís hefur um árabil séð um verkefni sem snýr að því að safna gögnum og gefa út skýrslu vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar.

Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. 

Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum, það er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg.

Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni. Jafnframt voru öll sýni af sjávarafurðum til manneldis vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Einnig reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB.

Frekari útlistun á niðurstöðum auk skýrslunnar í heild má finna hér:

Fréttir

Nærumst og njótum – mikilvægt innleg í umræðu um lýðheilsu

Í gærkvöldi hóf þáttaröðin Nærumst og njótum göngu sína á RÚV en í þáttunum verður fylgst með fjölbreyttum hópi fólks taka næringar- og matarvenjur sínar til gagngerrar endurskoðunar í þeim tilgangi að skoða hvernig mögulegt er að sameina þessi tvö atriði, þ.e. að nærast og njóta.

þættirnir Nærumst og njótum eru hugmyndasmíð og í umsjón Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringafræði og eru mikilvægt innlegg í lýðheilsumál á Íslandi. Í þessum fyrsta þætti fengu áhorfendur að kynnast viðfangsefninu, þátttakendum og álitsgjöfum en í næstu þáttum verður fylgst með matarlífi sjö heimila á Íslandi. Heimilin eru fjölbreytt, allt frá fólki sem býr eitt upp í samsettar stórfjölskyldur og þátttakendur eru á aldursbilinu 10 vikna til sjötugs.

„Matur er rauður þráður í gegnum líf okkar en fæst borðum við þó bara til þess að halda lífi. Matur er nefnilega órjúfanlegur þáttur líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu. Við erum tilfinningalega tengd mat og hann er stór hluti menningar okkar.”

Kolbrún Sveinsdóttir, matvælafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís er einn þeirra sérfræðinga sem fengnir voru til að gefa álit og fjalla um ýmis málefni tengd mat og matarvenjum. Hún tók sérstaklega fyrir unnin matvæli, muninn á þeim og ferskum matvælum og hinar ýmsu vinnsluaðferðir sem geta bæði verið af hinu góða og slæma.

Þættirnir verða á dagskrá RÚV næstu vikurnar en fyrsti þátturinn er þegar orðinn aðgengilegur í spilaranum hér: Nærumst og njótum, fyrsti þáttur.

Fréttir

Sigurjón Arason yfirverkfræðingur hjá Matís sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Á nýársdag 2022 fór fram hátíðleg athöfn á Bessastöðum þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sæmdi 12 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal var yfirverkfræðingur Matís, Sigurjón Arason, en hann hlaut orðuna fyrir rannsóknir og þróun á vinnslu sjávarafurða.

Sigurjón Arason hefur starfað hjá Matís frá upphafi en fyrir það starfaði hann sem sérfræðingur og yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem rann saman við fleiri fyrirtæki og stofnanir þegar Matís var stofnað.  Sigurjón er einnig prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hefur í gegnum tíðina kennt ótal námskeið og leiðbeint fjölda nemenda í grunn-, meistara- og doktorsnámi.

Sigurjón hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og var meðal annars haldið málþing honum til heiðurs í Háskóla Íslands í haust.

Í viðtali sem tekið var við Sigurjón og birtist á vef Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Nýjungasmiðurinn frá Neskaupstað er eftirfarandi tekið fram:

„Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl, sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna. Þá hefur hann stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti, unnið að bættri meðhöndlun afla og bættu geymsluþoli fisks, bætt stýringu á veiðum og notkun veiðarfæra. Enn fremur hefur hann fundið leiðir til að nýta betur aukaafurðir úr hráefnum sem jafnvel var hent en undir þetta falla fiskinnyfli, lifur, svil, hausar, hryggir, sundmagi og roð sem breytt var í verðmætar afurðir. Hér er fátt eitt talið.“

Sigurjón er vel að þessum heiðri kominn og óskar starfsfólk Matís honum til hamingju með fálkaorðuna.

Sigurjón Arason og Guðni Th. Jóhannesson við orðuveitinguna á Bessastöðum
IS