Fréttir

Nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Svandís Svavarsdóttir heimsótti Matís

Svandís Svavarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti Matís í upphafi vikunnar ásamt Iðunni Garðarsdóttur aðstoðarmanni ráðherra, Benedikt Árnasyni ráðuneytisstjóra og fleira starfsfólki ráðuneytisins.

Hópurinn hitti Odd Má Gunnarsson, forstjóra Matís, auk fleira starfsfólks og fékk kynningu á starfseminni. Sérstaklega var rætt um landbúnað, sjávarútveg, menntamál og umhverfismál en ljóst er að ýmis tækifæri eru fyrir hendi í starfi fyrirtækisins sem kallast vel á við nýkynntar áherslur ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fjögur árin. Að lokum gekk hópurinn svo um húsakynni Matís þar sem fagstjórar og starfsfólk faghópa kynnti starfsemina, verkefnin sem unnin eru og aðstöðuna sem er til staðar.    

Heimsóknin var hin ánægjulegasta og hlakkar starfsfólk Matís til áframhaldandi farsæls samstarfs við ráðuneytið með Svandísi Svavarsdóttur í broddi fylkingar.

Fréttir

Verkefninu „Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum“ lokið

Niðurstöður verkefnisins Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum endurspeglast í MS verkefni sem unnið var af Craig Clapcot, nema í matvælafræði við Háskóla Íslands fyrr á árinu.

Markmið verkefnisins var að bera saman tvær aðferðir til að framleiða gerjanlegan vökva úr íslensku byggi til innlendrar viskíframleiðslu. Fyrri aðferðin byggðist á framleiðslu maltvökva úr íslensku byggi, hin síðari byggðist á því að vinna íslenskt bygg eingöngu með viðbættum ensímum. Innflutt byggmalt var einnig rannsakað til samanburðar. Mælingar voru gerðar á sykurtegundum við upphaf og lok gerjunar ásamt alkóhóli í lok gerjunar. Sýni voru sérstaklega útbúin fyrir skynmat og til að meta möguleika á framleiðslu áfengra drykkja. 

Á Íslandi eru tækifæri til að skilgreina íslenskar aðferðir við framleiðslu áfengra drykkja og þessar aðferðir þurfa ekki endilega að fylgja hefðbundnum aðferðum í Skotlandi og á Írlandi. Innan drykkjarvöruiðnaðarins á Íslandi er hafin skoðun á því hvernig hægt verði að vernda heitið „íslenskt viskí“ bæði á Íslandi og í Evrópu (sjá grein í Bændablaðinu frá nóvember 2020: Eimverk sækir um vernd fyrir „Íslenskt viskí).

Hluti af þessu ferli er að skilgreina hvað íslenskt viskí er og hvernig það er framleitt, alveg eins og Skotar þurftu að gera í byrjun 19. aldar fyrir eigin framleiðslu. Þetta gerðu þeir með því að spyrja spurningarinnar: Hvað er viskí?

Nauðsynlegt er að skilgreina íslenskt viskí svo hægt verði að nota innlent bygg í fleira en fóður og hægt verði að ganga úr skugga um hvort mögulegt verði að auka virði byggsins. Vonast er til þess að þessi vinna auðveldi nýjum aðilum að nýta íslenskt bygg til framleiðslu á viskíi og öðrum áfengum drykkjum.

Niðurstöður MS verkefnisins eru þær að báðar framleiðsluaðferðirnar eru vænlegar til framleiðslu á áfengum drykkjum á Íslandi. Þó fékkst ekki eins mikill sykur úr möltuðu íslensku byggi og innfluttu malti eða íslensku byggi sem hafði verið meðhöndlað með viðbættum ensímum við háan hita. Það kann að vera að gerð eimingartækjanna hafi meiri áhrif á bragð viskísins en það hvort byggið hafi verið maltað eða unnið með ensímum. Hugsanlegt er að ekki verði hægt að malta íslenskt bygg á hverju ári þar sem þroski byggsins er háður veðurfari. Iðnaðurinn þarf því að hafa önnur ráð en möltun í slíkum árum til að tryggja framleiðslu á áfengum drykkjum. Verkefnið mun vonandi leggja til þekkingu og hugmundir fyrir drykkjarvöruiðnað í örri þróun á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á verkefnasíðu þess hér: Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum

Fréttir

Íslenskt grænmeti gegni mikilvægu hlutverki fyrir ímynd landsins og sjálfbærni

Á dögunum birtist grein í Bændablaðinu þar sem einu af grænmetisverkefnum Matís; Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis, voru gerð skil auk þess sem rætt var við verkefnastjórann Ólaf Reykdal.  

Verkefnið um virðiskeðju íslensks grænmetis hlaut styrk úr Matvælasjóði og hófst á þessu ári en lýkur á því næsta.  Meginviðfangsefnin eru geymsluþolsrannsóknir, rannsóknir á leiðum til að gera verðmæti úr vannýttum hliðarafurðum garðyrkju og greiningar sem miða að því að draga úr sóun í allri viðriskeðju grænmetis. Unnið hefur verið að hinum ýmsu hlutum verkefnisins á síðustu misserum og starfsfólk Matís vonast til að geta skilað áhugaverðum niðurstöðum til grænmetisgeirans á næstu mánuðum, sagði Ólafur við blaðamann.

Verkefninu er ætlað að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu sem styður við uppbyggingu geirans og er þá átt við aukna framleiðslu, fleiri atvinnutækifæri og aukið framboð næringarríkra afurða. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og verslunarkeðjuna Samkaup en Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hafa einnig verið höfð með í ráðum.

Frétt Bændablaðsins má lesa í heild sinni hér: Aukið verðmæti íslenskrar grænmetisframleiðslu

Fylgjast má með framgangi verkefnisins á verkefnasíðu þess hér: Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis.

Matís hefur í gegnum tíðina stundað ýmsar rannsóknir á grænmeti og áhugaverðar umræður fóru fram um tengd málefni á áherslufundi sem haldinn var í vor um virðiskeðju grænmetis. Upptöku af fundinum má nálgast hér: Virðiskeðja grænmetis

Fréttir

Grænir Frumkvöðlar Framtíðar komnir í gírinn víða um land

Undanfarnar vikur hefur starfsfólk Matís verið í óða önn að koma fræðsluverkefninu Grænir Frumkvöðlar Framtíðar af stað í þeim þremur grunnskólum sem taka þátt í verkefninu í vetur. Farið var í heimsóknir í Árskóla á Sauðárkróki, Nesskóla í Neskaupsstað og Grunnskóla Bolungarvíkur, þar sem starfmenn Matís spjölluðu við nemendur 8.-10. bekkjar og kennara þeirra um loftslagsbreytingar, umhverfismál og verkefnið sjálft.

Fræðsluverkefnið Grænir Frumkvöðlar, sem styrkt er af Loftslagssjóði, hefur það að meginmarkmiði að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst, möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Verkefnið mun einnig miða að því að valdefla grunnskólanemendur með því að fræða þá um mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, ekki aðeins sem tól í baráttunni gegn loftslagsvandanum, heldur einnig fyrir þau sjálf og þeirra nærsamfélag. Ein helsta afurð verkefnisins verður kennsluefni fyrir íslenska kennara og nemendur þeirra, sem inniheldur m.a. um 40 mismunandi verkefni, leiki og tilraunir, svo eitthvað sé nefnt. Stútfullur pakki af fróðleik og ekki síst, skemmtun.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Matís, þær Ragnhildur Friðriksdóttir og Katrín Hulda Gunnarsdóttir, heimsótt grunnskólana þrjá sem taka þátt í verkefninu í vetur. Kennsluefnið verður prufukeyrt í þessum þremur skólum og verður sú reynsla nýtt til að þróa og endurbæta efnið og aðferðirnar. Í þessum heimsóknum var mikið spjallað við krakkana um loftslagsbreytingar, farið yfir hvað loftslagsbreytingar raunverulega eru og hvað þær þýða fyrir okkur, samfélagið okkar, jörðina og lífríkið.

Oft sköpuðust líflegar umræður og flott stemning, enda krakkarnir áhugasamir og fullir af eldmóði varðandi framtíð þeirra og náttúrunnar. Brugðið var á leik með loftslagstengdu ívafi í öllum skólunum þremur og á myndinni til hægri má sjá þegar nemendur prófuðu Lundaleikinn, sem er einn af 40 leikjum og verkefnum Grænna Frumkvöðla Framtíðar. Loks var verkefnið kynnt fyrir nemendum, þar sem farið var yfir hlutverk þeirra og bekkjarins.

Næstu vikur mun kennsla á vinnustofum fara fram í skólunum þremur og hvetjum við alla sem hafa áhuga að fylgjast með á heimasíðu verkefnisins, www.graenirfrumkvödlar.com og instagramsíðunni gff_matis. Þar verða settar inn myndir, myndbönd og annað sem tengist verkefninu. Að verkefninu loknu, eða um mitt næsta ár, verður kennsluefnið loks gert aðgengilegt til niðurhals á heimasíðu verkefnisins.

Teymið á bakvið Græna Frumkvöðla Framtíðar

Fréttir

Sjálfbær fóðurhráefni fyrir evrópskt fiskeldi

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

SUSTAINFEED er verkefni til tveggja ára og að því standa fimm samtarfsaðilar, þar af tveir frá Íslandi. Verkefnið hlaut styrk European Institute of Innovation and Technology (EIT Food) fyrr á þessu ári og hófst formlega í síðustu viku með fundi samstarfsaðila á Matís í Reykjavík.

Í verkefninu á að þróa innihaldsefni í fóður fyrir fisk með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Lækkun hlutfalls fiskimjöls og olíu í fiskafóðri hefur verið markmið í Evrópu í yfir 20 ár. Þessu hlutfalli er skipt út með hráefnum úr plönturíkinu eins og soja, hveiti og maís. Aukin eftirspurn eftir þessum hráefnum í fóður og matvæli þýðir að þróun á umhverfisvænum og sjálfbærum innihaldsefnum halda áfram. Hluta lausnarinnar er hægt að finna í hliðarafurðum korn- og grænmetisframleiðslu sem og nýjum hráefnum sem framleidd eru í skilvirkum framleiðslukerfum sem eru óháð árstíðarsveiflum og skila jöfnum gæðum.

SUSTAINFEED mun einblína á þróun örþörunga úr hátækni framleiðslukerfi VAXA sem nýtir koltvíoxið útblástur frá Hellisheiðarvirkjun fyrir vöxt, sem og endurnýjanlega orku og heitt og kalt vatn sem rennur til og frá virkjuninni, sem og þróun aukaafurða frá korn- og grænmetisfarmleiðslu. Hráefnin munu vera blönduð í hágæða fóður fyrir fiskeldi og skipta út hráefnum sem gætu annars verið nýtt í matvæli.

Markmiðið er að hið nýja fóður verði eins umhverfisvænt og kostur er, með mun minni kolefnisspor en þekkist, en jafnframt innihalda öll helstu næringarefni fyrir vöxt fiska.

Á næstu tveimur árum munu því fjöldi tilrauna fara fram með þróun innihaldsefnanna, blöndun þeirra í fóður og mati á vexti og velferð fiska.

Vefsíða verkefnisins er enn í vinnslu en á næstu mánuðum verður hægt að fylgjast með framgangi verkefnisins hér: SUSTAINFEED vefsíða.

Samstarfsaðilar SUSTAINFEED á upphafsfundi á Vínlandsleið.

Fréttir

Innlent korn til matvælaframleiðslu

Matís hefur í mörg ár unnið með kornbændum og Landbúnaðarháskólanum að nýtingu innlends korns til matvælaframleiðslu.

Bygg er ræktað víða hér á landi, mest til fóðurgerðar en það hefur einnig verið nýtt í ýmis matvæli. Nú á síðustu árum hefur náðst góður árangur við ræktun hafra og eru hafrar frá Sandhóli seldir í matvöruverslunum. Neytendur hafa tekið höfrunum mjög vel og ástæða er til að ætla að vöruþróun byggð á íslenskum höfrum leiði til fjölbreytts úrvals af matvörum. Ekki má gleyma íslensku repjuolíunni sem hefur talsvert verið rannsökuð. Ætla má að repjuolían verði hráefni í margar vörur í framtíðinni. 

Ánægjulegt er að sjá umfjöllun frá Erni Karlssyni á Sandhóli um kosti íslensku hafranna á visir.is.

Frekari upplýsingar um rannsóknir Matís á nýtingu innlends korns til matvælaframleiðslu.

Fréttir

LAURENTIC FORUM – tækifæri og áskoranir sjávarbyggða á norðurslóðum

Dagana 2.-4. nóvember fer fram netráðstefnan LAURENTIC FORUM, en þetta er í þrettánda sinn sem ráðstefnan fer fram. Markmið ráðstefnunnar er að ræða tækifæri og áskoranir sjávarbyggða á norðurslóðum. Skiptist dagskráinn upp í tvo hluta þ.e. ferðaþjónusta (2. Nóv) og sjávarútvegur (3. & 4. Nóv).

Ráðstefnan fer fram á netinu og geta áhugasamir tekið þátt sér að kostnaðarlausu, en þörf er á að skrá sig á heimasíðu ráðstefnunnar þar sem einnig má nálgast dagskrána.

Dagskráin skiptist upp í fimm málstofur og í hverri þeirra eru kynningar frá fulltrúum Íslands, Noregs, Írlands og Nýfundnalands & Labrador. Málstofurnar og framsögumenn má sjá hér að neðan.

Session 1: Sustainable Tourism: Looking Forward

  • Minister Steve Crocker, Department of Tourism, Culture, Arts & Recreation, Newfoundland and Labrador
  • Councillor Jack Murray, Mayor of Donegal
  • Sigrid Engen, Researcher, Norwegian Institute for Nature Research
  • Dale Jarvis, Executive Director of Heritage Newfoundland & Labrador
  • Johann Vidar Ivarsson, Project Manager at the Icelandic Tourist Board
  • Maurice Bergin Managing Director, GreenHospitality.ie (Ireland)
  • Margaret Story, TIDE Project Officer

Session 2: The value of the Blue Economy

  • Andrew Ward, Joint CEO of Inishowen Development Partnership
  • Charlie McConalogue, Irish Minister for Agriculture, Food and the Marine
  • Sunniva Løviknes, Troms and Finnmark County
  • Bente Olsen Husby, West – Finnmark Council
  • Iris Petten President, Port de Grave Historical Society, NL
  • Karl Bonar, Manager, Donegal Blue Economy Marine Cluster
  • Sveinn Agnarsson, Professor, University of Iceland School of Business

Session 3: The Engine That Does Not Stop: Changing Course Through Innovation & Technology

  • Paul Winger Director, Centre for Sustainable Aquatic Resources, Fisheries and Marine Institute ofMemorial University
  • Þór Sigfusson, Founder and Chairman of the Icelandic Ocean Cluster
  • Joanne Gaffney Aquaculture Technical Manager, BIM
  • Pål Arne Bjørn, IMR and Jo Inge Hesjevik Fisherman and Regional Political Representative

Session 4: The New Frontier: Sustainable Wealth & Health Through Blue Bioeconomy

  • Nils Kristian Sorkem Nilsen, Director Arctic, regional policy, state aid, North Norway EU Office, Brussels
  • Jón Þrándur Stefánsson, Ministry of Industries and Innovation (Department of fisheries), Iceland
  • Jón Garðar Steingrímsson,Cheif Operating Officer, Genis
  • Line Kjelstrup, Cluster Manager, BIOTEC NORTH
  • Jason Whooley, Chief Executive Officer, Bio-Marine Ingredients Ireland Ltd.
  • Heather Burke Director, Centre for Aquaculture and Seafood Development, Fisheries and Marine Institute of Memorial University.

Session 5: The Whale in the Room: Climate Change

  • Jónas R. Viðarsson, Director of Division of Value Creation, Matís, Iceland
  • Glenn Nolan, Head of Oceanographic and Climate Services at the Marine Institute, Galway
  • Darrell Mullowney, Shellfish Research Scientist, Fisheries & Oceans, Canada.
  • Ragnhildur Friðriksdóttir, Matís, Iceland
  • Stein Arne Rånes Senior Policy Advisor for Troms and Finnmark County Council

Fréttir

Riðugensgreiningar Matís í Bændablaðinu

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist viðtal við Sæmund Sveinsson, fagstjóra erfðarannsókna hjá Matís og var umfjöllunarefnið rannsóknarverkefni sem hann vinnur nú að um leit að verndandi genabreytileika í sauðfé gegn riðu.

Í frétt Bændablaðsins „Verkefni um leit að verndandi genabreytileika í sauðfé gegn riðu“ var fjallað um verkefni Matís sem styrkt er af Fagráði í sauðfjárrækt og er unnið í samstarfi við Keldur. Verkefnið snýst um að betrumbæta riðugensgreiningar á Íslandi með því að bæta við arfgerðagreiningum á þeim verndandi breytileika sem þekktastur er fyrir að veita mikla vernd gegn riðu í sauðfé. Um er að ræða annað verkefni af tveimur á Íslandi í dag sem ganga út á riðugensgreiningar.

Í viðtalinu fjallar Sæmundur um möguleikana sem felast í þessum betrumbótum en áréttar þó að hér sé ekki um neina skyndilausn að ræða heldur muni verkefnið mögulega skila verkfæri sem geti nýst í baráttunni við riðu til lengri tíma litið.

Fréttina má lesa í heild sinni í síðasta tölublaði Bændablaðsins eða á vefsíðunni bbl.is hér: Verkefni um leit að verndandi genabreytileika í sauðfé gegn riðu

Fréttir

Matís og Hafrannsóknastofnun undirrita samstarfssamning

Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Oddur M. Gunnarsson forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning 27. október sl. til að styrkja og efla samstarf stofnananna um rannsóknir og samnýtingu innviða.

Lykilstoðir farsæls árangurs í vísindum og nýsköpun er gott aðgengi að rannsóknarinnviðum og skapar aukið samstarf án efa veruleg tækifæri fyrir báða aðila á tímum mikilla áskoranna, t.d í fiskeldi, erfðafræði og vegna umhverfisbreytinga á norðurslóðum.

Gott samstarf stofnananna hefur um langan tíma átt sér stað, allt frá þeim árum sem þær deildu saman húsnæði að Skúlagöu 4 í Reykjavík. Þá hefur einnig mikil og góð samvinna átt sér stað milli Matís og Sjávarútvegsskóla GRÓ sem Hafrannsóknastofnun heftur hýst í fjölda ára. Samningurinn formfestir það góða samstarf auk þess að skapa frekari tækifæri í rannsóknum hafs og vatna.

Fréttir

Koffínneysla framhaldsskólanema – ný skýrsla Áhættumatsnefndar

Tengiliður

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir

Verkefnastjóri

asta.h.petursdottir@matis.is

Að beiðni Matvælastofnunar hefur Áhættumatsnefnd á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru rannsakað hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum.

Skýrslan sýnir að vægi orkudrykkja í heildarkoffínneyslu íslenskra ungmenna er meira en sést hefur í sambærilegum erlendum rannsóknum. Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar og 10-20% framhaldsskólanema drekka orkudrykki daglega. Þeir nemendur sem neyta orkudrykkja eru um sex sinnum líklegri til að fara yfir viðmiðunarmörk Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um það magn koffíns sem hefur áhrif á svefn og öryggismörk koffíns fyrir hjarta og æðakerfið til samanburðar við þá nemendur sem ekki neyta orkudrykkja.

Niðurstöður nefndarinnar gefa til kynna að tilefni sé til að takmarka aðgengi framhaldsskólanemenda að orkudrykkjum þar sem framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja virðist skila sér í að neysla íslenskra framhaldsskólanema er meiri en æskilegt er.

Áhættumatsnefndin gaf út sambærilega skýrslu fyrir ári síðan sem tekur til neyslu ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum. Niðurstöður sýna að hlutfall nemenda sem neytir orkudrykkja tvisvar sinnum í viku eða oftar eykst með aldri, þar sem um tíundi hver nemandi í áttunda bekk neytti orkudrykkja oftar en tvisvar sinnum í viku en annar hver framhaldsskólanemi á aldrinum 18-20 ára. Athygli vekur að yngri ungmenni eru líklegri til að fá orkudrykki að gjöf í tengslum við íþróttir og hópastarf (40-70%) en eldri ungmenni (10%). Nýlega hafa fjölmiðlar fjallað um skýrslu áhættumatsnefndar frá 2020 annars vegar hér: Algengt að börn fái orkudrykki gefins og hins vegar hér: Innbyrða tólffalt koffínmagn og upplifa vanlíðan.

Fjallað hefur verið um skýrsluna í fréttum undanfarið en umfjöllun Rúv má finna hér: Íslensk ungmenni þamba orkudrykki sem aldrei fyrr og umfjöllun Vísis hér: Börn þurft að leita á bráða­mót­töku eftir neyslu orku­drykkja

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, sviðstjóri hjá Matís, er formaður áhættumatsnefndar.

Frekari upplýsingar og helstu niðurstöður má finna í frétt Matvælastofnunar hér: Mikil neysla framhaldsskólanema á orkudrykkjum gefur tilefni til að takmarka aðgengi.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér: Skýrsla um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í framhaldsskólum á koffíni í drykkjarvörum.

IS