Fréttir

Blendingshvalur milli steypireyðar og langreyðar erfðagreindur

Hvalur sem veiddist við Ísland nýlega sem hafði útlitseinkenni bæði steypireyðar og langreyðar kom til greiningar á arfgerð til Matís. Mikil óvissa var um hvort hvalurinn væri steypireyður sem er alfriðuð tegund eða blendingur milli steypireyðar og langreyðar þar sem dýrið hafði útlits- einkenni beggja tegunda. Innlendum og erlendum sérfæðingum kom ekki saman um hvort væri, en veiðar á steypireyð eru algerlega ólöglegar. Því var mikilvægt að skera sem fyrst úr því hvaða tegund dýrið væri.

Sýni úr dýrinu ásamt öðrum sýnum úr langreyðum, steypireyðum og þeim fjórum blendingum langreyðar og steypireyðar sem áður hafa veiðst hér við land komu til Matís til erfðagreiningar. Greiningin byggist annarsvegar á raðgreiningu á hvatberalitningi sem er einstakur fyrir hverja tegund og erfist aðeins frá móður og arfgreiningu á 15 erfðamörkum þar sem notast var við breytileika í tafsröðum (microsatellite).

Erfðagreining Matís leiddi í ljós að hér var um blendingshval að ræða. Hvatberalitnings-greiningin sýndi að móðir blendingsins var steypireyður, en greiningin með 15 erfðamörkum að um blending var að ræða. Sérfræðingar Matís og Hafrannsóknastofnunar greindu gögnin og unnu niðurstöðurnar.

Meira má fræðast um þessa erfðagreiningu og rannsókn á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Tengiliður Davíð Gíslason sérfræðingur, davidg@matis.is.

Fréttir

Bændamarkaðurinn Hofsósi

Markaðurinn verður næst opinn í Pakkhúsinu laugardaginn 28. júlí kl. 13-16.

Bændamarkaðurinn Hofsósi í hinu sögulega Pakkhúsi Hofsósi var opinn síðastliðinn laugardag, 14. júlí, með ýmislegt góðgæti beint frá býli, lambakjöt, nautakjöt, geitakjöt, reykt kjöt, grafið kjöt, grænmeti, sumarblóm, afskornar rósir, siginn fisk, harðfisk, hákarl, kornhænuegg, andaregg, hænuegg, hunang, smyrsl og krem og fleira.

Markaðurinn var vel sóttur og kom fólk langt að til að ná í afurðir beint frá bændum og framleiðendum Skagafjarðar.

Verið velkomin!

Fréttir

Verðmætaaukning bolfiskafla

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Samstarfsverkefni Skagans 3X, Matís og útgerðanna FISK Seafood, Brims, Skinneyjar Þinganess, Þorbjarnar, Ögurvíkur og HB Granda miðaði að því að þróa tækni til verðmætaaukningar bolfiskafla.

Frá því að lagt var til að leggja áherslu á þróun búnaðar með aukna verðmætasköpun bolfiskafla í skýrslu starfshóps Sjávarútvegsráðuneytisins um bæta nýtingu bolfiskafla í október 2010,  hafa orðið viss straumhvörf í sjávarútvegi með breyttu útgerðarmynstri. Minni áhersla er á vinnslu/frystingu um borð í verksmiðjuskipum en meiri áhersla á fullvinnslu í landi. Mikil aukning hefur orðið á vinnslu á ferskum flakastykkjum til útflutnings sem má með réttu kalla fullvinnslu þar sem afurðin er tilbúin á borð neytanda og til notkunar á veitingahúsum og mötuneytum. Ferskfiskvinnsla á þorski og ýsu skilar mestum verðmætum í dag og með aukinni tíðni og fjölda áfangastaða flugfélaga hafa opnast fleiri tækifæri í markaðsetningu á ferskum fiski. Eins hefur viss þróun átt sér stað í kjölfar vinnu innan verkefna um ofurkælingu m.a. verkefnisins „Superchilling of Fish“ sem unnið var með stuðningi Nordic Marine Innovation 2.0 og Rannís. Á Íslandi hafa fimm togarar verið útbúnir með ofurkælingarbúnaði frá Skaganum 3X, tvær laxavinnslur hafa tekið búnaðinn í notkun og norskar laxavinnslur eru í startholunum.

Verkefnið gekk út á hönnun og aðlögun vinnslubúnaðar að ofurkældu hráefni og þróun roðflettivélar (Sub-Zero Skinner) sem gæti unnið á ofurkældum flökum, en hefðbundnar vélar hafa illa ráðið við verkefnið. Hugmyndin er að nota ofurkælingu til að tryggja einsleitni í hráefni sem tekið er gegnum vinnslu, þ.e. hausun, flökun, snyrtingu, skurð (vatnskurð) og pökkun í ferskfiskpakkningar.

Í verkefninu var m.a. framkvæmd tilraun þar sem sex daga gömul ýsa, sem er sérstaklega viðkvæmt hráefni til vinnslu, var ofurkæld að hluta og borin saman við hefðbundið kældan afla sem unnin var með hefðbundnum hætti. Þar var ekki verið að ofurkæla frá veiðum, en árangurinn skilar miklum upplýsingum um hvort hægt sé að tryggja einsleitt hráefni. Með kælingunni verður fiskurinn stífari og þolir alla meðferð mun betur.

Einnig var prófað að bera saman vinnslu á ofurkældum afla af Engey RE og hefðbundnum afla af Helgu Maríu RE í vinnslu HB Granda á Vopnafirði. Afli Engeyjar var ekki ísaður um borð né í flutningi frá Reykjavík, þar sem honum var landað og til Vopnafjarðar þar sem tilraunin var gerð. Vinnslan notar Sub-Zero Skinner roðflettivél og SUPER-CHILLER™ flakafrysti. Jafnframt var prófað að ofurkæla þorsk í krapa fyrir vinnslu til að fylgjast með virkni vélbúnaðar og hitastig í afurð skráð í gegnum vinnsluferli.

Niðurstöður rannsóknanna bentu til þess að unnt væri að roðfletta flök af ofurkældum fiski eða roðfletta ofurkæld flök með Sub-Zero Skinner á skilvirkari hátt en með hefðbundnum roðflettivélum, sem styður notkun aðferðarinnar. Til mikils er að vinna ef hægt er að draga úr flakagöllum við vinnslu og auka gæði og nýtingu framleiðslunnar. Einnig skiptir miklu máli að hægt sé að halda hitastigi í afurð nálægt 0 °C og pakka ferskum afurðum undir eða við það hitastig. Lágt hitastig við pökkun tryggir nauðsynlegan líftíma vöru í ferskum fiski og gerir notkun á þurrís óþarfan til að ná hitastigi niður fyrir flutning. Notkun á þurrís er bæði kostnaðarsamt og getur valdið frostskemmdum á afurðinni.

Með íslausum afla og flutningi á ferskum afurðum í útflutningi má bæði spara fjármuni ásamt því að lækka sótspor fiskafurða umtalsvert, sérstaklega þegar um er að ræða flutning með flugi á fjarlæga markaði.

Samstarfsaðilar þakka Tækniþróunarsjóði og AVS Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi fyrir stuðning við verkefnið. 

Fréttir

Hvaða máli skiptir heimaslátrun fyrir bændur?

Í dag er vaxandi ásókn í að kaupa vörur beint frá býli, bæði af íslenskum neytendum en einnig af ferðamönnum, þar sem myndast tengsl milli bónda og neytanda. Bændur geta skapað sér töluverðan virðisauka í sjá sjálfir um öll stig framleiðslunnar á landbúnaðarafurðum. En til að slíkt sé hagkvæmt þá vantar möguleikann á að bændur geti séð sjálfir um aflífun dýranna svo að allur virðisaukinn skapist á býlunum sjálfum. 

Í dag er afkoma margra bænda, og sérstaklega sauðfjárbænda, mjög slæm og mikilvægt er að skapa umhverfi sem veitir bændum fjölbreytta möguleika að skapa sér lífsviðurværi sem þó er tryggt að ógni ekki öryggi neytenda. Þetta kom meðal annars fram í fyrirlestrum Atla Más Traustasonar og Þrastar Heiðars Erlingssonar á fundi Matís í Miðgarði, Varmahlíð, 5. júlí síðastliðinn. Með að styðja bændur til að skapa eigin verðmæti geta bændur og byggðir markað sér frekari sérstöðu, stundað nýsköpun og skapað störf fyrir ungt fólk sem er að skila sér heim í byggðirnar. Eins er mikilvægt að viðhalda verkþekkingu sem nú er til staðar ásamt því að þjálfa bændur í meðferð afurða til að viðhalda gæðum og matvælaöryggi.

Samkvæmt Atla Má er nauðsynlegt að framtíðar sláturkerfi sé samansett af þrem stærðum sláturleyfishafa, en slíkt kerfi gefi bændum raunverulegt val til að stýra sinni eigin framleiðslu og þjónusta markaðinn betur. Stór sláturhús tækju við mesta magninu og myndi áfram framleiða fyrir heildarmarkaðinn. Minni handverkssláturhús eru ný af nálinni í dag og geta framleitt sérafurðir til að mynda fyrir hótel og veitingastaði. Smásláturhús eða örsláturhús væru þá nýr möguleiki þar sem bændur geta þjónustað sína kúnna beint og veittu bændum meiri sveigjanleika, þjónusta ferðamenn og framleiða smáhandverk, myndi efla nýsköpun og styrkja byggðir og mannlíf til sveita.  Samkvæmt Þresti Heiðari er samstarf milli einstakra bænda en eins milli bænda og stærri afurðastöðva á þessum vettvangi lykilatriði til að viðhalda farsælu slátur- og framleiðslukerfi. Aðlögun eftirlit er einnig mikilvægt, og nauðsynlegt að eftirlit og reglur taki mið af raunverulegri áhættu til að vernda neytandann og tryggja matvælaöryggi.

Myndbönd, með því helsta sem fram kom í máli Atla og Þrastar, má finna hér neðar en auk þess er fundur sem haldinn var nú nýverið í Miðgarði, aðgengilegur í heild sinni á YouTube rás Matís.

Atli Már Traustason
Þröstur Heiðar Erlingsson

Fréttir

Fjör á fyrsta degi Bændamarkaðar!

Fyrsti opnunardagur Bændamarkaðar í Pakkhúsinu á Hofsósi var laugardaginn 30. júní sl. Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum Matís, í samvinnu við bændur og framleiðendur í Skagafirði og Þjóðminjasafn Íslands, en Pakkhúsið er menningarsögulegt hús frá um 1777 og tilheyrir Húsasafni Þjóðminjasafnsins.

Markaðurinn var afar vel sóttur og mikil stemning allan opnunartímann, en harmonikkuleikari var á staðnum og spilaði íslensk lög.

Tíu skagfirskir bændur og framleiðendur seldu afurðir sínar á markaðnum og var ýmislegt á boðstólnum, þar á meðal lambakjöt, nautakjöt, geitakjöt, grafið og reykt kjöt, siginn fiskur, harðfiskur, hákarl, skagfirskt hunang, hænuegg, andaregg, kornhænuegg, grænmeti, kryddjurtir, sumarblóm, afskornar rósir og handverk. Markaðurinn verður opinn í sumar á auglýstum laugardögum kl. 13-16, með áherslu á afurðir beint frá bændum og framleiðendum í Skagafirði.

Næsti markaður verður haldinn næstkomandi laugardag 14. júlí, kl. 13-16. Vöruframboð verður svipað og áður, en til viðbótar má gera ráð fyrir nýjum afurðum, svo sem ferskum rabarbara, ferskum fiski, skagfirskum smyrslum og fleiru, auk þess sem Veitingastaðurinn Sólvík, gegnt Pakkhúsinu, mun í tilefni markaðarins selja bjór frá siglfirskum nágranna, Segull 67.

Nánari upplýsingar um Bændamarkaðinn Hofsósi og opnunartíma eru aðgengilega á Facebook síðu markaðarins ( Bændamarkaður Hofsósi ) og á Facebook síðu Matís ( MatisIceland )

Fréttir

Hvað segir FAO um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi?

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) gaf á þriðjudaginn út ítarlega skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi. Skýrslan, sem telur fyrir sex hundruð blaðsíður af efni frá yfir tvö hundruð höfundum, hefur að geyma eina umfangsmestu úttekt á málefninu sem birt hefur verið til þessa og leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þróunar á aðgerða- og aðlögunaráætlunum og framkvæmd þeirra.

Styrkur koldíoxíðs hefur aukist um 40% frá upphafi iðnbyltingar. Aðal orsakavaldurinn er útblástur frá bruna jarðefnaeldsneytis, eyðing skóga og landbúnaður.  Það er því varla um að villast að þessi gífurlega aukning er af mannavöldum. Höf heimsins hafa bundið um 25-30% af þessu koldíoxíði og hafa auk þess dregið í sig um 93% af þeirri hitastigsaukningu sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingar, sem leitt hefur til hlýnunar sjávar auk hækkunar á yfirborði sjávar um 0.19 m að meðaltali. Þar að auki veldur þessi mikla upptaka hafsins á CO2aukinni súrnun sjávar, en sýrustig sjávar hefur aukist um að meðaltali 26% frá iðnbyltingu, sem m.a. er talið geta haft skaðleg áhrif á skelmyndandi lífverur. Í kjölfar þessarar þróunar er ljóst að höf heimsins, sem og vötn og vatnakerfi, eru að fara í gegnum miklar breytingar. Nýjustu spár benda til að þessar breytingar muni aukast enn frekar í náinni framtíð sem gæti haft umtalsverð áhrif á getu hafs og ferskvatnskerfa til að standa undir þeim fiskveiðum og fiskeldisframleiðslu sem við treystum á í dag.

Hvaða breytingar eru að eiga sér stað?

Áhrif loftslagsbreytinga á mögulegan heimsafla var metinn undir tveimur mismunandi sviðsmyndum, annars vegar þeirri bjartsýnustu, RCP2.6, og hins vegar þeirri svartsýnustu, RCP8.5. Niðurstöðurnar eru þær að undir báðum þessum sviðsmyndum muni geta hafsins til að standa undir fiskveiðum minnka. Undir RCP2.6 er talið að mögulegur heimafli dragist saman um 2,8 – 5,3% til ársins 2050 (í samanburði við árið 2000) og undir RCP8.5 muni hann dragast saman um 7 – 12,1%. Undir RCP8.5 munu þessar tölur svo hækka áfram í 16.2% – 25,2% til loka 21. aldar. Þessar breytingar munu hafa misjöfn áhrif milli heimshluta og í lögsögum ríka, þar sem sum svæði munu sjá aukningu en önnur samdrátt í afla. Talið er að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í suðrænum ríkjum, sér í lagi í suður Kyrrahafi. Skýrslan vitnar m.a. í rannsókn frá árinu 2010, þar sem niðurstöður sýndu að dreifing heimsafla (þ.e. hlutdeild mismunandi ríkja í heildarafla) muni breytast umtalsvert til ársins 2055. Þar er gert ráð fyrir meðal aukningu sem nemur um 30-70% á hærri breiddargráðum (norður af 50 °N) en samdrátt um 40% í suðrænum ríkjum. En þó svo að spárnar sýni að svæði á hærri breiddargráðum komi líklega til með að sjá aukningu í mögulegum afla (þ.á.m. Noregur, Rússlandi, Grænland og Kanada), er talið að um miðbik aldar muni afli sunnar í Norðaustur Atlantshafi hafa dregist saman um allt að 30%. Spár um aukningu á heildartekjum, tekjum sjómanna og heimila, fiskverð og önnur hagfræðileg gildi fylgja einnig að miklu leiti fyrrnefndum spám um breytingar í afla. Þess skal þó getið að töluverður breytileiki ríkti á milli niðurstaðna þeirra líkana sem beitt var á svæði á hærri breiddargráðum og því óvissan meiri á þeim svæðum.

Þegar litið er sérstaklega til breytinga sem orðið hafa nú þegar í Norður Atlantshafi af völdum loftslagsbreytinga, má meðal annars nefna hækkun á meðal yfirborðshitastigi sjávar um 0,1 til 0,5 °C á áratug. Þessi hlýnun var þó mismikil á milli svæða og örfá svæði, líkt og hafið austur af Grænlandi, kólnaði lítillega á árunum 1982-2010. Hraði þessarar hlýnunar jókst umtalsvert frá upphafi níunda áratugar og áætlað er að hún muni halda áfram að aukast í framtíðinni. Langtíma hækkun á sýrustigi sjávar hefur einnig orðið vart í Norður Atlantshafi, yfir tímabil sem spannar nú marga áratugi. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni fyrir norðlægari slóðir, þar sem leysanleiki koldíoxíðs er meiri í köldu vatni. Búist er við að þessi þróun muni halda áfram, en áhrif þessarar súrnunar á skelmyndandi lífverur og ungviði fiska eru þó enn að miklu leiti óljós. Breytingar á útbreiðslu- og farmynstri ýmissa tegunda hefur einnig verið greint, bæði í Norðaustur og Norðvestur Atlantshafi. Slíkar breytingar hafa í sumum tilfellum ollið töluverðu fjaðrafoki er varðar kvótaskiptingu deilistofna á milli strandríkja og flota, vandamál sem kemur að öllum líkindum til að aukast enn frekar í framtíðinni er fleiri tegundir taka að færast á milli lögsagna ríkja og fiskveiðistjórnunarsvæða.

Áhrif á fiskeldi

Megnið af þeim vexti í framleiðslu sjávarfangs sem talinn er þurfa til að mæta aukinni eftirspurn mun aðallega koma frá eldi í sjó og ferskvatni. Það er því gífurlega mikilvægt að skilja áhrif loftslagsbreytinga á iðnaðinn. Loftslagsbreytingar munu líklega hafa bein og óbein áhrif á fiskeldi, bæði í tíma og rúmi, en FAO skýrslan kallar sérstaklega eftir auknum rannsóknum á þessu sviði. Dæmi um möguleg skammtíma áhrif eru samdráttur í framleiðslu og tjón á innviðum vegna ofsaveðurs, sjúkdóma, eitraðra þörunga og sníkjudýra, auk minnkaðrar framleiðni vegna breytinga í eldisumhverfi. Dæmi um langtíma áhrif eru skortur á villtum lirfum (fyrir skelfiskrækt), takmarkað aðgengi að fersku vatni og fóðri, breytt eldisumhverfi, ofauðgun vatns eða annarskonar röskun á mikilvægum umhverfisþáttum.

Eldi í Asíu er talið viðkvæmast fyrir loftslagsbreytingum þegar litið er til ferskvatnseldis, en lönd eins og Víetnam, Bangladesh og Kína eru nefnd þar sérstaklega til sögunnar. Þegar litið er til sjóeldis eru það Noregur og Chíle sem eru talin viðkvæmust fyrir komandi breytingum, þá sérstaklega í ljósi umfangs eldis í þessum löndum og efnahagslegs mikilvægi þess. Þess skal þó getið að Færeyjar voru ekki teknar með inn í þetta mat vegna skorts á gögnum, en líklegt þykir að Færeyjar hefðu komið út á svipuðum stað og Chíle og Noregur í ljósi mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landið. Tjónnæmi (e. vulnerability) eldis í sjó og ferskvatni er beintengt við stjórnun þess, hvort sem á við um stjórnun á vegum stjórnvalda og/eða eldisfyrirtækjanna sjálfra. Í ljósi þess að fiskeldi getur verið sérstaklega berskjaldað fyrir skammtíma áföllum, t.d. vegna veðurs eða annarra ófyrirséðra umhverfisþátta, þá er mikilvægt að meta bæði skammtíma og langtíma áhrif við gerð viðbragðs- og aðlögunaráætlana við loftslagsbreytingum. 

FAO ályktar að svæðis- og hafskipulag, sem og vistkerfis-miðuð stjórnun geti aukið getu fiskeldis til að takast á við komandi loftslagsbreytingar, en slíkt krefjist aukinnar þekkingar á áhættuþáttum í tíma og rúmi, forgangsröðun þeirra og þróun aðlögunaráætlana í samstarfi við hagaðila sem hægt væri að innleiða í stjórnunarhætti.

Gerð viðbragðs- og aðlögunaráætlana

Geta útgerða, sjómanna og fiskeldisfyrirtækja til að takast á við komandi breytingar mun ákvarðast af hæfni þeirra til að aðlagast breyttum aðstæðum og skammtíma áföllum. Það er því nauðsynlegt að auka skilning okkar á undirstöðuatriðum aðlögunarhæfninnar til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við breytingarnar. Þetta er hægt að gera með því að leggjast í þróun viðbragðs- og aðlögunaráætlana. Þar er ekki bara mikilvægt að bera kennsl á helstu áhættur og aðlögunarmöguleika, heldur þarf einnig að hafa sig eftir því að bera kennsl á þau tækifæri sem felast í breytinunum fyrir iðnaðinn, ekki bara í heild sinni, heldur fyrir alla anga hans. Þannig er hægt að aðstoða þá sem helst eru berskjaldaðir fyrir loftslagsbreytingum við að viðhalda þeirra lífsviðurværum. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli þegar kemur að þróunarlöndum þar sem smábátaveiðar og fiskeldi á smærri skala er stór þáttur í lífsviðurværi fólks og samfélaga. Hæfni einstaklinga og samfélaga til að aðlagast loftslagsbreytingum byggist á tjónnæmi þeirra gagnvart breytingunum, hversu berskjölduð þau eru gagnvart þeim og hæfni þeirra til að aðlagast þeim. Fátækir einstaklingar og samfélög sem reiða sig á sjávarútveg og fiskeldi eru því viðkvæmustu hóparnir þar sem þeir eru síður færir um að aðlagast breyttum aðstæðum, bæði vegna landfræðilegrar staðsetningar þeirra og efnahagsstöðu.

Matís þátttakandi í ClimeFish verkefninu

ClimeFish er eitt af nokkrum stórum rannsóknarverkefnum undir regnhlíf rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópu er tengjast sjávarútvegi sem Matís tekur þátt í, en þetta verkefni skoðar áhrif yfirvofandi loftslagsbreytinga á veiðar og eldi í sjó og ferskvatni í Evrópu, ásamt því að setja upp viðbragðs- og aðlögunaráætlanir. Matís hefur yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins sem snýr að þróun aðferðafræði til að útbúa slíkar viðbragðs- og aðlögunaráætlanir. Þessi nýútkomna skýrsla FAO er því kærkomin samantekt yfir það sem er að gerast í heiminum í þessum efnum, en þess má geta að einn af sex meginhöfundum skýrslunnar er einnig þátttakandi í ClimeFish verkefninu. Lokaniðurstöður ClimeFish verkefnisins munu liggja fyrir apríl 2020 og munu þær fela í sér spár um áhrif komandi loftslagsbreytinga á veiðar og fiskeldi í 16 tilviksrannsóknum í Evrópu, auk áhættugreininga og aðlögunaráætlana fyrir 7 af þessum 16 tilviksrannsóknum. Loks mun aðferðafræðin sem þróuð var innan verkefnisins einnig nýtast í frekari greiningar.

Frekari upplýsingar má nálgast hjá Ragnhildi Friðriksdóttur hjá Matís og á heimasíðu ClimeFish verkefnisins www.climefish.eu.

Einnig má nálgast skýrslu FAO á heimsíðu þeirra http://www.fao.org/3/I9705EN/i9705en.pdf

Fréttir

Getur áhættumat stuðlað að beinum viðskiptum bænda með kjöt og kjötafurðir?

Dreifing og sala heimaslátraðra afurða er ekki leyfileg í dag en hver er raunverulega áhættan? Í Þýskalandi er eftirliti með slátrun bænda á lömbum undir þriggja mánaða aldri haldið í lágmarki þar sem áhættan fyrir neytendur er metin lítil. Bein viðskipti með afurðir af þeim lömbum eru ekki takmörkunum háð umfram hefðbundnar afurðir, en þetta kom fram í fyrirlestri Andreasar Hensel, forstjóra þýsku áhættumatsstofnuninni BfR á fundi Matís í Miðgarði, Varmahlíð, 5. júlí síðastliðinn.

Til þess að hægt sé að gera breytingar á reglugerðum og lögum varðandi matvælaframleiðslu þá verður að vera öruggt að þær breytingar ógni ekki öryggi og heilsu neytenda. Hins vegar felast fjölmörg tækifæri í að leyfa sölu heimaslátraðra afurða til að efla nýsköpun og vöruþróun landbúnaðarafurða. En við verðum að vita hver áhættan er, hversu mikil hún sé og hvað við getum gert til að lágmarka hana. Áhættumat sem er byggt á vísindalegum greiningum og útreikningum er tól sem veitir opinberum eftirlitsaðilum yfirlit yfir raunverulegar áhættur svo hægt sé að takmarka þær en einnig sveigjanleika til að leyfa bændum að framleiða afurðir í heima á bæ í viðurkenndri aðstöðu sem uppfyllir kröfur um hreinlæti og aðbúnað til matvælaframleiðslu. Áhættumat er því fyrsta skrefið til að sníða kerfi sem leyfir sölu vara og afurða frá heimaslátruðu sem byggir á raunhæfu eftirliti opinberra aðila, rekjanleika ásamt góðri þjálfun bænda til að tryggja gæði og öryggi afurða.

Í dag geta bændur sett upp litlar kjötvinnslur þar sem hægt er að vinna afurðir frá eigin búfénaði, en einn þáttur framleiðslukeðjunnar, þ.e. aflífun dýrana, verður að eiga sér stað í sláturhúsum. Áhugi neytandans á afurðum beint frá býli er sífellt að aukast ásamt því sem viðskipti með matvæli gegnum netið er orðinn veruleiki í dag. Erlendis er mögulegt að kaupa afurðir beint frá býli þar sem öll stig framleiðslunnar eiga sér raunverulega stað á býlinu. Til þess er vissulega nauðsynlegt að efla innviði býlanna til þess að tryggja að framleiðslan sé örugg. Innleiðing áhættumats með skipun áhættumatsnefndar er því löngu tímabært þar sem áhættumat á vegum hennar getur veitt bændum tækifæri til að stunda bein viðskipti með kjöt og kjötafurðir til íslenskra neytenda og ferðamanna beint frá býli, þar sem virðisaukinn og hagnaðurinn af framleiðslunni rennur beint til bóndans milliliðalaust.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn Jörundsdóttir, 858-5112.

Hér er hægt að sjá brot úr upptöku frá fundinum

Fréttir

Mikill áhugi á beinum viðskiptum með heimaslátrað kjöt

Nú fyrir helgi stóð Matís fyrir fundi um möguleika til beinna viðskipta með heimaslátrað kjöt og mikilvægi áhættumats í því samhengi.  Fundurinn var haldinn í Miðgarði í Skagafirði og var mjög vel sóttur, enda ljóst að mikill áhugi er á því meðal bænda að slátra á bæjum sínum og selja afurðirnar í beinum viðskiptum til neytenda.

Á meðal framsögumanna var Andreas Hensel, forseti þýsku áhættumatsstofnunarinnar BfR.  Í máli Andreasar kom m.a. fram að ýmsar undanþágur eru í gildi í Þýskalandi um bein viðskipti bænda, m.a. er seld ógerilsneydd mjólk á svokölluðum „Milchhaltestelle“ á bóndabæjum. Jafnframt er eftirliti með slátrun bænda á lömbum undir þriggja mánaða aldri haldið í lágmarki, þar sem áhættan fyrir neytendur er metin sem lítil. Bein viðskipti með afurðir af þeim lömum eru ekki takmörkunum háð umfram hefðbundnar afurðir. Grundvöllur þess að hægt væri að fá slíkar undanþágur væri að fyrir lægi vísindalegt áhættumat og aðgerðir til að lágmarka áhættu, svo sem þjálfun bænda í slátrun og meðferð kjötafurða.

Aðrir framsögumenn voru Freydís Dana Sigurðardóttir fagssviðsstjóri búfjáreftirlits hjá Matvælastofnun, Atli Már Traustason bóndi að Höfdölum, Þröstur Heiðar Erlingsson bóndi í Birkihlíð og Hrönn Jörundsdóttir sviðsstjóri hjá Matís. Líflegar umræður í kjölfar erinda endurspegluðu mikinn áhuga bænda og mikilvægi þess að bein viðskipti með heimaslátrað kjöt yrðu auðvelduð.

Nálgast má útsendingu af fundinum á facebook síðu Matís.  Á næstu dögum verður sagt betur frá efni fundarins en í kjölfar hans ákváðu starfsmenn Matís og Matvælastofnun að vinna sameiginlega að framgangi málsins.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn Jörundsdóttir, 858-5112.

Hér er hægt að sjá upptöku frá fundinum.

Og glærur frá fundinum má finna hér fyrir neðan:

Fréttir

Lífræn mysa – ný viðbót á snyrtivörumarkaði?

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæða- og öryggisstjóri og persónuverndarfulltrúi

halla.halldorsdottir@matis.is

Í Matís er unnið að verkefninu „Heilandi máttur lífrænnar mysu“. Markmið verkefnisins er að finna leið til að nýta vannýtta auðlind á sjálfbæran hátt, þ.e. íslenska lífræna mysu í húðvörur. Vonir standa til að rannsóknin leiði til aukins verðmætis mysu og að um leið minnki náttúruspjöll þar sem þessi afurð færi annars mikið til í sjóinn.

Verkefnið felur í sér mikið nýnæmi, en eiginleikar lífefna úr mysu verða sérstaklega skoðuð m.t.t. húðheilsu. Snyrtivörur sem innihalda lífefni úr íslenskri lífrænni mysu myndu verða alveg ný viðbót á snyrtivörumarkaði.

Verkefnið stendur yfir í apríl – desember 2018 og er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.  

Faglegur leiðtogi verkefnisins er Rósa Jónsdóttir og tengiliður er Halla Halldórsdóttir. 

Fréttir

Viltu kaupa heimaslátrað?

Matís býður til fundar í Miðgarði, Varmahlíð

Matís býður til fundar í Miðgarði, Varmahlíð, fimmtudaginn 5. júlí 2018 kl. 13:00, þar sem fjallað verður um áskoranir og möguleika tengda nýsköpun í landbúnaði, sölu og dreifingu afurða úr heimaslátrun og mikilvægi áhættumats. Allir eru velkomnir á fundinn.

Heimaslátrun hefur tíðkast frá upphafi landbúnaðar en dreifing og sala afurða af heimaslátruðu er ekki leyfileg, samkvæmt núgildandi lögum og reglum. 

En hver er áhættan? Er hægt að leyfa sölu og dreifingu á  heimaslátruðu, tryggja öryggi neytenda og auka verðmætasköpun bænda?

Á fundinum verður m.a. rætt um ávinning bænda af áhættumati og sjónarhorn bænda – tækifæri og áskoranir tekið fyrir, sjá nánar dagskrá fundarins.

Fundinum verður varpað út beint gegnum Facebook síðu Matís www.facebook.com/matisiceland og verður hægt að senda inn spurningar sem teknar verða fyrir. Fundarstjóri verður Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

IS