Fréttir

Viltu keppa í matarhandverki?

Kunstens mat, Mathantverk / Rannikon ruoka, Artesaaniruoka – Opna Finnska meistarakeppnin í Matarhandverki fer fram í Ekenäs 10.-13. október 2016

Finnland fer með formennsku í Norræna ráðherraráðinu í ár. Í ljósi þess er tilvalið að vekja athygli á Finnsku meistarakeppninni í Matarhandverki. Þátttökurétt hafa finnskir sem og norrænir aðilar og eru Íslendingar hvattir til að taka þátt.

Skráning þátttöku fer fram á vefslóðinni www.novia.fi/mathantverkfm.

Keppnin er öllum opin og er þetta kjörin vettvangur til að hitta aðra matarhandverksmenn. Auk keppninnar stendur áhugasömum til boða að sitja sérhæfð námskeið, heimsækja áhugaverða aðila í nærumhverfi keppnisvettvangsins og taka þátt í fleiri viðburðum. Allir þátttakendur í keppninni fá skriflegar umsagnir dómnefndar. Þátttökugjald í matarhandverkskeppninni er 30€ (u.þ.b. 3900 ISK) fyrir hverja vöru sem skráð er. Einnig er mögulegt að hafa samband við Jonas Harald í síma +358 (0) 50 548 3400 eða Ann-Louise Erlund í síma +358 (0) 44 799 8406 til að gefa til kynna áhuga á þátttöku í keppninni eða með því að senda tölvupóst á netfangið mathantverk2016@novia.fi fyrir lok dags 5. september.

Keppnisflokkar taka til mjólkurvöru, kjöts, fisks, brauðmetis, berja og ávaxta, grænmetis og sveppa afurðakrydda, nýsköpunar í matarhandverki, drykkja, krydda og matarsósa, nánari upplýsingar um Keppnisreglur má finna hér.  

Öllum er heimil þátttaka í námskeiðum og námsferðum, óháð þátttöku matarhandverkskeppninni, skráningar frestur þátttöku í þeim viðburðum varir til 30. September n.k. og er mælst til þess að áhugasamir skrái sig til slíkrar þátttöku á vefslóðinni www.novia.fi/mathantverkfm/anmalan-till-seminarieprogram.

Finnska meistarakeppnin í matarhandverki er skipulögð í breiðu samstarfsverkefni Landbúnaðar og skógræktarráðuneyti Finnlands, Novia skólans auk verkefnisins Kunstens Mat.

Kunstens_mat_2016

Fréttir

Matvæladagur MNÍ – tilnefningar til Fjöreggsins

Matvæladagur MNÍ 2016 verður haldinn á Hótel Natura fimmtudaginn 20. október. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Áhrif matvælarannsókna í breyttum heimi og verður fjallað um væntanlegar neyslubreytingar á heimsvísu og mikilvægi menntunar og rannsókna í því samhengi.

Að venju verður „FJÖREGG MNÍ,“ veitt á Matvæladegi fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Fjöreggið, íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík, verður eins og áður veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins.

Öllum er frjálst að tilnefna vörur eða gott framtak fyrirtækja, stofnana eða félagasamtaka sem sýnt hafa frumkvæði og skarað fram úr á matvæla- og/eða næringarsviði og eru þess verðug að keppa um verðlaunin. Mikilvægt er að setja fram rökstuðning með tilnefningunni.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að láta vita af því sem þeir telja að vel sé gert á þessu sviði.

Tilnefningar, merktar „Fjöregg MNÍ“, á að senda á netfangið mni@mni.is ekki seinna en 20. september.

Fréttir

Þrír doktorsnemendur – Matís, Hafrannsóknastofnun og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Matís og Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna í samvinnu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands auglýsa eftir þremur doktorsnemendum til að vinna í öndvegisrannsóknaverkefninu Microbes in the Icelandic Marine Environment (MIME) sem styrk er af Rannsóknasjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís).

Eftirfarandi þrjú doktorsverkefni er um að ræða:

  1. Rannsóknir á örverufjölbreytileika í hafinu umhverfis Ísland með áherslu á frumbjarga örverur. Nemandi verður staðsettur hjá Matís.
  2. Rannsóknir á genamengjum og gena tjáningu genamengja örvera á Íslands miðum til að skilja betur lífeðlisfræðilega svörun vegna breytinga á umhverfisþáttum. Nemandi verður staðsettur hjá Matís.
  3. Rannsóknir á hlutverki plöntusvifs og pico-heilkjörnungum í samhengi við örverufjölbreytileika og dreifingu, og hlutverki þeirra í þeirra í efnahringrásum sjávar. Nemandi verður staðsettur hjá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna.

Fyrir nánari og mikilvægar upplýsingar um stöðurnar og hvernig sækja skal um er mikilvægt að lesa auglýsinguna um stöðurnar í heild sinni.

Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio

Ísland og Norræna ráðherranefndin boða til alþjóðlegrar ráðstefnu um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio verkefna í Hörpu 5.-6. október 2016.

Yfirskrift ráðstefnunar er: MINDING THE FUTURE. Bioeconomy in a changing Nordic reality.

Meðal fyrirlesara eru Christine Lang, formaður þýska lífhagkerfisráðsins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Lene Lange, prófessor í lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands og Bryan Alexander, framtíðarfræðingur og rithöfundur. Þá munu Gunnar Bragi Sveinsson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar flytja opnunarerindi. Ráðstefnustjórn verður í höndum Þóru Arnórsdóttur og Stefáns Gíslasonar.   

Ráðstefnan fer fram á ensku og skiptist í gagnvirka fyrirlestra og málstofur.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Þátttökugjald er 15.000. Innifalið eru kaffiveitingar og hádegisverður. Skráningargjaldið hækkar í 20.000 þann 10. september.

Mikilvægt er að skrá þátttöku hér.

Ráðstefnan er lokahnykkur NordBio áætlunarinnar, sem er þriggja ára verkefni (2014-2016 ) um lífhagkerfið undir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Undir merkjum NordBio hefur breiður hópur sérfræðinga á Norðurlöndum sameinað krafta sína og unnið að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Vinsamlegast áframsendið póstinn til þeirra sem áhuga kunna að hafa.                 

Vonumst til að sjá sem flesta í Hörpu 5. og 6. október.

MindingTheFuture

Fréttir

Endurskoðun ársreiknings Matís er athugasemdalaus enn eitt árið

Nú fyrir stuttu skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu vegna endurskoðunar á ársreikningi Matís fyrir árið 2015. Skemmst er frá því að skýrslan er athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar.

Í viðbót við hefðbundna endurskoðun eins og lög gera ráð fyrir var framkvæmd áhættugreining fyrir reikningsskilin og gerð greining á rekstri og efnahag ársins 2015 og í ljós kom að innra eftirlit Matis hvað varðar ársreikninginn er gott.

Unnið er að bókhaldsferlum og verklagsreglum í samvinnu við Ríkisendurskoðun og er það félaginu mikið keppikefli að reksturinn sé með þeim hætti að ekki séu gerðar athugasemdir hvorki hjá úttektaraðilum hér innanlands né erlendum aðilum sem taka félagið út vegna samstarfsverkefna. Heilindi skipta stjórnendur og starfsmenn miklu máli, hvort sem um er að ræða heilindi í vísindastarfi og rannsóknum eða heilindi þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri stjórnun Matís.

Stjórn félagsins fylgist auk þess reglulega með afkomunni og eru milliuppgjör unnin reglulega allt árið.

Eins og áður sagði var endurskoðunin athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar. Í vor fór fram umfangsmikil endurskoðun frá Evrópusambandinu er lýtur að öllu fjárhagslegu utanumhaldi Matís þegar kemur að verkefnum sem félagið hefur stýrt innan ramma rannsóknaáætlana Evrópu (FP7). Sú endurskoðun var einngi athugasemdalaus.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Kolbeinsson, fjármálastjóri Matís.

Fréttir

Nature birtir grein um lífhagkerfisstefnu

Hið virta vísindatímarit Nature, birti nýverið grein um fimm lykilatriði varðandi þróun lífhagkerfisins. Greinin byggir á afrakstri stórrar ráðstefnu, Global Bioeconomy Summit, sem fram fór í Berlín haustið 2015, en Sigrún Elsa Smáradóttir, forstöðumaður lausna og ráðgjafar hjá Matís, sat í stýrihópi ráðstefnunnar.

Nýlega voru birt drög að lífhagkerfisstefnu Íslands og hefur vinna við mótun þeirrar stefnu m.a. tekið mið af afrakstri Global Bioeconomy Summit.

Höfundar greinarinnar í Nature leggja m.a. áherslu á alþjóðlegt samstarf og fjárfestingar í lífmassaverum (biorefineries). Áhugasamir geta fræðst nánar á vef Nature.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir.

Fréttir

Rannsóknir á íslenskum makríll vekja athygli – umfjöllun í erlendum fagtímaritum

Undanfarin misseri hefur Matís, í samstarfi við helstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, staðið að viðamiklum rannsóknum á makríl. Þetta rannsóknasamstarf hefur snúist um umfangsmiklar rannsóknir á eðlis- og efniseiginleikum makrílsins sem hafa m.a. náð til veiða, árstíma, meðhöndlunar, vinnslu, frystitækni, geymslu og flutninga.

Þar var lögð áhersla á að rannsaka makrílinn jafnt og þétt yfir veiðiárið, sér í lagi þegar hann er hvað viðkvæmastur. Niðurstöður þessara rannsókna hafa skilað sér í auknum verðmætum og nýtingu makrílafurða. Eins hafa áhrif mismunandi hráefnisgæða á fullunnar vörur, s.s niðursoðinn og heitreyktan makríl, verið rannsökuð.

Niðurstöður makrílrannsókna Íslendinga hafa skapað talsvert umtal, en nú á vormánuðum hafa verið gefnar út þrjár vísindagreinar hjá virtum erlendum fagtímaritum (International Journal of Food Science and TechnologyJournal of Food Composition and AnalysisLWT – Food Science and Technology).

Nýlega lauk þremur stórum samstarfsrannsóknaverkefnum og hefur gífurleg þekking og færni skapast á þessum misserum. Ekkert lát er þó á makrílrannsóknum, en í farvatninu eru ný verkefni og nýjar áskoranir sem unnið verður markvisst að næstu misseri.

Þátttakendur í verkefnunum voru Síldarvinnslan, HB Grandi, Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Skinney Þinganes, Samherji og önnur fyrirtæki sem komu að þessari vinnu voru Brim, HG Hnífsdal, Eskja, VSV, IceThor, Skaginn, Frost og IceCan. Þátttakendur verkefnanna kunna AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi bestu þakkir fyrir stuðninginn við þessar makrílrannsóknir.

Nánari upplýsingar veitir dr. Magnea Guðrún Karlsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Ruglingslegar upplýsingar um léttsaltaða fiskinn!

Fyrstu fréttir af léttsöltuðum saltfiski í framleiðslu bárust í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Á þeim tíma var einn framleiðandi á Vestfjörðum sem framleiddi léttsöltuð og lausfryst flök fyrir Spánarmarkað. Léttsaltaður frosinn fiskur var fyrst og fremst hugsaður sem ódýrari valkostur en útvatnaður hefðbundinn saltfiskur, enda vinnsluferlið töluvert styttra og einfaldara.

Léttsaltaður fiskur er aðeins um 1,5% saltur og hefur saltið því engin áhrif á geymsluþol vörunnar og því nauðsynlegt að beita frystingu sem varðveisluaðferð. Tollayfirvöld á Spáni úrskurðuðu fyrir nokkrum misserum að þessi afurð skuli flokkast sem frosinn fiskur en ekki sem saltfiskur eins og íslensk yfirvöld töldu rétt að gera.

Það er með öllu vonlaust að vita hvernig útflutningur léttsaltaðra afurða hefur þróast ef eingöngu er stuðst við opinber gögn, því það voru engin sérstök tollskrárnúmer til fyrir léttsaltaðar afurðir fyrr en eftir 2007, en þá var búið flytja þessa vöru út í ríflega einn og hálfan áratug.

Í útflutningstölum frá 2008 er í fyrsta skipti greint frá útflutningi léttsaltaðra fiskafurða og þá voru 10 mismunandi tollnúmer til staðar í Tollskrá í kaflanum 0305 þar sem saltfisk er m.a. að finna. Þetta fyrsta ár sem upplýsingar um útflutning léttsaltaðra afurða eru sýnilegar voru flutt út 6.600 tonn að andvirði 4,6 milljarðar króna.

Lettsaltadur

Strax árið 2009 er skráð útflutt magn tæp 11.000 tonn og tæp 12.000 tonn árið 2010, en svo gerist eitthvað stórmerkilegt árið 2011 því þá hrapar útflutningurinn í 4.200 tonn.

Hvað í ósköpunum gerðist? Hrundi markaðurinn eða fóru útflytjendur að skrá útflutninginn með öðrum hætti? Það tók reyndar ekki langan tíma að fá það staðfest að markaðurinn hafði ekkert gefið eftir heldur höfðu útflytjendur tekið upp á því að skrá léttsaltaða fiskinn sem fryst fiskflök í kafla 0304.

Ástæðan fyrir þessum tilfærslum var víst sú að vörur í saltfiskkaflanum 0305 máttu ekki innihalda fosfat. Bann á notkun fosfats í þessum flokki afurða var eingöngu til þess að koma í veg fyrir aukið viðbætt vatn í hefðbundnum saltfiski, sem var þurrkaður hjá sumum kaupendum í Portúgal og víðar.

Fosfatnotkun í fiskafurðum í öðrum tollskrárköflum er ekki bönnuð, svo framalega sem notkunin sé innan leyfðra marka og að notkun fosfats sé merkt á umbúðum.

Þegar útflytjendum var ljóst að ekki mátti nota fosfat í saltfiski þá brugðu þeir á það ráð að flytja léttsaltaða fiskinn út sem fryst flök og staðfestu þar með notkun fosfats með óbeinum hætti. Þar með hvarf léttsaltaði fiskurinn að nýju og hefur ekki verið greinanlegur í útflutningi síðan nema að litlu leyti þrátt fyrir að tollskrárnúmerum í kaflanum 0305 fyrir léttsaltaðar afurðir hefur verið fjölgað umtalsvert.

Það var í raun óþarfi þetta upphlaup að hætta að skrá léttsaltaðar afurðir í saltfiskkaflann, því þessi númer sem notuð eru hér á landi nýtast ekki beint við skráningu innflutnings í viðskiptalandinu, heldur nýtast þau fyrst og fremst sem upplýsingar við skráningu útflutnings sjávarafurða héðan. Yfirvöld á Spáni voru búin að úrskurða að léttsaltaður frystur fiskur er ekki saltfiskur heldur frystur fiskur, því hafði þessi tilfærsla engar afleiðingar aðrar en þær að núna vitum við minna en ekki neitt um heildarmagn og verðmæti léttsaltaðra afurða, þar sem afurðirnar eru að hluta til komnar saman við hefðbundin frosin flök og skekkja þá mynd að auki umtalsvert.

Þess utan er hægt að taka umræðu um notkun tæknilegra hjálparefna á borð við fosfat við framleiðslu fisks, saltfisks eða léttsaltaðra afurða. Vitað er að margir nýta sér kosti fosfats við framleiðslu og þeim er skilt að greina frá því á umbúðum en ef einhverjir reyna að komast hjá því að tilgreina slíka notkun er það er í raun háalvarlegt mál eitt og sér ef rétt reynist.

Þessi samantekt um léttsaltaða fiskinn er fyrst og fremst ætluð til að sýna fram á hvað erfitt er að sjá hver þróunin er í framleiðslu sjávarafurða vegna þekkts misræmis í skráningu. Léttsaltaður fiskur verður ekki sýnilegur í úrflutningstölum fyrr en hálfum öðrum áratug eftir að útflutningur hófst og síðan taka framleiðendur þá ákvörðun að skrá vöruna í aðra tollflokka en íslensk yfirvöld ætluðust til.

Það er tiltölulega auðvelt að draga fram ýmis önnur dæmi um hæpna skráningu útflutnings og nægir þar að nefna að þriðja verðmætasta tegundin sem við flytjum út heitir „ýmsar tegundir“. Greinilegt er að ekki er vanþörf á að bæta úr sem fyrst svo hægt sé að sjá með auðveldum hætti hvað við framleiðum og hvernig við nýtum okkar sjávarauðlind til sjálfbærrar verðmætasköpunar.

Matís vinnur nú að verkefninu „Aukin verðmæti gagna“ ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Tollstjóraembættinu, Hagstofu Íslands, Iceland Seafood, Icelandic Group, Brim hf, Ögurvík hf og Markó Partners. Hið víðtæka samstarf sýnir vilja hagaðila í sjávarútvegi til að gera betur í skráningu útflutnings. Í verkefninu er unnið hörðum höndum að því að gera það mögulegt að skrá útflutning með mun áreiðanlegri hætti en áður og nýtur verkefnið styrks frá AVS sjóðnum. Starfsmenn verkefnisins eru Daníel Agnarsson og Friðrik Valdimarsson tölvunarfræðingar og nýta þeir sér þá hugmynd að byggja alla skráningu útflutnings á vörulýsingum þar sem staðlað hugtakasafn fiskiðnaðarins er lagt til grundvallar.

Með aukið verðmæti gagna að leiðarljósi verða ítarlegar upplýsingar til um leið og nýjar afurðir eru fluttar á erlenda markaði, þannig á ekki að þurfa að bíða eftir því að til verði ný tollskrárnúmer og hægt verður að fylgjast með þróun afurða þótt breytingar verði gerðar á tollskránúmerum og því á enginn að þurfa að velkjast lengur í vafa um hver verðmæti einstakra tegunda eru eða hvar tilteknar vörur eru skráðar í tollnúmerakerfinu.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Allt í land!

Komin er út skýrsla á vegum Matís er fjallar um hliðarafurðir frá bolfiskvinnslu á Íslandi. Í skýrslunni er greint frá hliðarafurðum sem unnar eru úr hráefni er til fellur við vinnslu á okkar helstu bolfisktegundum, hver þróun vinnslunnar hafi verið á síðastliðnum árum hvað varðar magn og verðmæti, auk þess sem fjallað er um lítið- eða ónýtt tækifæri í enn frekari fullvinnslu bolfisksafla.

Árið 2015 fór Danmörk með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og samhliða því var Færeyingum falið að móta vinnu á þeim vettvangi í kringum nýtingu í bláa lífhagkerfinu (e. Blue Bioeconomy). Sem hluti af formennskuáætluninni var hrundið af stað verkefninu „Alt i land“, þar sem kanna átti núverandi nýtingu og möguleika til bættrar nýtingar í bolfiskvinnslu í Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Íslandi. Færeyska fyrirtækinu Syntesa var falið að leiða verkefnið og má sjá upplýsingar um uppsetningu og markið verkefnisins á heimasíðu færeysku formennskuáætlunarinnar.

Haldnir voru raðir vinnufunda í löndunum fjórum með hagaðilum, gögn greind og möguleikar kannaðir. Þar með talið var gerð hagkvæmniathugun á nokkrum helstu möguleikunum til aukinnar nýtingar. Niðurstöður verkefnisins hafa nú verið gefnar út í skýrslu á vegum Norrænuráðherranefndarinnar sem nálgast má.

Samhliða aðkomu Matís að verkefninu „Alt i land“ var unnin Matís-skýrsla þar sem teknar eru saman upplýsingar um nýtingu á mikilvægum bolfisktegundum við Ísland, gerð grein fyrir hvaða afurðir séu unnar úr því hráefni sem til fellur og möguleikar til aukinnar nýtingar á hliðarhráefni kannaðir. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veita  Jónas R. Viðarsson eða Ásbjörn Jónsson

Fréttir

Athyglisverð grein í Icelandic Agricultural Sciences – fæðuval landsela

Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences (IAS) og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html  

Greinin nefnist „Diet of harbour seals in a salmon estuary in North-West Iceland“ og er eftir höfundana Söndru M. Granquist og Erling Hauksson.

Greinin fjallar um fæðuval landsela í ósum lax- og silungaveiðiáa í Húnaþingi vestra. Hugsanleg áhrif sela á laxfiska er stórt og umdeilt mál og því er þessi rannsókn mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu. Höfundar rannsökuðu fæðuval landsela á ósasvæðunum á árunum 2009 til 2011 með kvarna- og beinagreiningu úr selasaursýnum. Megin niðurstaðan var sú að engar vísbendingar voru um laxfiska í saursýnunum selanna. Það voru hinsvegar flatfiskar sem voru mikilvægastir í fæðu selanna í ósunum og næstmikilvægast var síli. Síli var einnig sú fisktegund sem fannst hlutfallslega mest öll árin (45% sýna) og það ásamt flatfiskum og loðnu voru ríkjandi í fjölda einstakra fiska. Breytileiki var þó nokkur á milli ára og einnig var árstíðabundin breytileiki í fæðuvali selanna. Þessar niðurstöður eru mjög áhugaverðar og mikilvægt innlegg í umræðu um meint neikvæð áhrif sela á lax- og silungsveiði hérlendis.

Nánari upplýsingar á vef IAS.

IS