Fréttir

Vel gengur að vinna lýsi úr uppsjávarfiski

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Margildi sérhæfir sig í fullvinnslu lýsis og Omega-3 til manneldis með áherslu á afurðir sem unnar eru úr loðnu, síld og makríl. Fyrirtækið fékk styrk frá AVS sjóðnum til þess að sinna markaðsmálum á lýsi úr uppsjávarfiski í samvinnu við Matís, Háskólann á Akureyri og HB Granda.

Mikið hefur gerst í verkefninu „Markaðssetning á Marlýsi“ og er sú vinna að renna frekari stoðum undir starfsemi Margildis. Mike O´Shea hefur verið ráðinn sölu- og markaðsstjóri hjá fyrirtækinu. Hann hefur ríflega 25 ára alþjóðlega reynslu á sviði sölu- og markaðsstjórnunar, vöru- og viðskiptaþróunar á sviði lýsis og Omega-3.

Margildi_Conference_LoResMargildi á einni ráðstefnu 

Margildi hefur verið að kynna framleiðslu sína á erlendum sýningum undafarin misseri og ber þar hæst sýningarnar VitaFoods í Genf og Supplyside West í Las Vegas. Einnig tók Margildi þátt í  sýningunni Matur og Nýsköpun í Sjávarklasanum og að auki í Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn er af Verkmenntaskóla Austurlands og Austurbrú.

Margildi hefur þróað nýja aðferð til að fullvinna lýsi úr ofangreindum fisktegundum,
svokallaða hraðkaldhreinsitækni, sem er einkaleyfisvarin.

Margildi hefur útbúið kynningarefni fyrir sýningar í samstarfi við Matís og er Háskólinn á Akureyri nú að vinna að markaðsgreiningu á lýsismarkaðnum fyrir Margildi sem mun nýtast fyrirtækinu við markaðsstarfið.

Framundan er svo neytandakannanir fyrir Marlýsið í samstarfi við Matís og hefur nú þegar verið framleitt lýsi sem notað verður við þá vinnu.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Margildis.

IS