Fréttir

Er sjálfbær aukning í fiskveiðum möguleg í ljósi loftlagsbreytinga?

Loftlagsbreytingar eru raunverulegar og viðvarandi. Meðal þess sem veldur áhyggjum í tengslum við loftlagsbreytingar er ógn við sjálfbæran vöxt fiskeldis og fiskveiða á heimsvísu. Jarðarbúum fjölgar ört, kröfur um næringarríkan og hollan mat aukast og framtíðarspár benda til samdráttar í matvælaframleiðslu vegna loftlagsbreytinga

ClimeFish – Nýtt verkefni

ClimeFish er evrópskt rannsóknaverkefni styrkt af Rannsóknaáætlun Evrópu, Horizon 2020, og hófst vinna í verkefninu 1. apríl sl. Markmið með verkefninu er að tryggja að framleiðsla sjávarafurða geti aukist, bæði á tegundum og á svæðum þar sem sjálfbær aukning er möguleg að teknu tilliti til væntanlegra loftlagsbreytinga. Verkefnið verður þáttur í því að tryggja öruggt framboð matvæla, atvinnuöryggi og sjálfbæra þróun dreifbýlla strandsvæða.

Í ClimeFish verkefninu verða þróuð fráviksdæmi og gerð félagshagfræðileg greining til að bera kennsl áhættu og tækifæri fyrir fiskeldi í ljósi loftslagsbreytinga. Einnig verða þróaðar aðferðir til að draga úr áhættu og greina tækifæri í samstarfi við hagsmunaaðila. Þetta mun þjóna þeim tilgangi að styrkja vísindalega ráðgjöf og bæta langtíma framleiðsluáætlanir og stefnumótun. Í ClimeFish verkefninu verður framleiðsla skoðuð á þremur sviðum, í fiskveiðum, fiskeldi í sjó og fiskeldi í vötnum og tjörnum. Sextán ferlisathuganir (e. case study) verða framkvæmdar á meira en 25 fisktegundum víðsvegar í Evrópu. Hagsmunaaðilar í verkefninu eru 21 frá 16 löndum og eru frá háskólum, rannsóknastofnunum og meðalstórum fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Fyrir stuttu hlaut dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri IceProtein og Protis, hvatningarverðlaun sjávarútvegsins. Verðlaunin eru rós í hnappagat Hólmfríðar, starfsfólks IceProtein og Protis og FISK Seafood, eiganda IceProtein og Protis og viðurkenning á starfsemi þessara fyrirtækja í Skagafirði. Verðlaunin eru auk þess sérstakt ánægjuefni fyrir Matís því ekki er svo langt síðan Hólmfríður starfaði hjá við líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

En hvað er IceProtein og hverslags starfsemi er um að ræða hjá fyrirtækinu?

Saga IceProtein, Matís á Sauðárkróki og dr. Hólmfríðar Sveinsdóttur

IceProtein

Á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf), sem er forveri Matís, var árið 2005 stofnað nýsköpunarfyrirtæki kringum rannsóknaverkefni sem fólu í sér nýtingu á próteinum úr afurðum hafsins sem voru ekki fullnýtt í vinnslu. Árið 2006, vegna áhuga FISK Seafood á starfseminni, var verksmiðja IceProtein flutt til Sauðárkróks og og varð hluti af Verið Vísindagarðar.

FISK Seafood eignaðist síðan 64% hlut í Iceprotein árið 2009 á móti 36% hlut Matís. IceProtein hefur ásamt Matís verið þátttakandi í fjölda rannsóknaverkefna. Stefna IceProtein var að sækja um styrki til rannsókna og þróa þjónustuverkefni fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og önnur fyrirtæki. Kaupfélag Skagfirðinga stofnaði þróunarsjóð sem styðja átti við rannsóknir tengdar starfsemi félagsins árið 2010 og voru tekjur sjóðsins 0,15% af rekstrartekjum hverrar framleiðslueiningar. Frá stofnun þróunarsjóðsins hefur starfsemi IceProtein í auknum mæli verið tengd þjónustuverkefnum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. Í árslok 2012 Keypti FISK Seafood hlut Matís í IceProtein og réð dr. Hólmfríði Sigurðardóttur sem framkvæmdastjóra. Skömmu síðar voru fleiri starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins og rannsóknargetan og framleiðslan aukin.

Árið 2015 leiddi starfsemi IceProtein til stofnunar nýs fyrirtækis, Protis, sem annast framleiðslu og sölu á nýrri vörulínu undir nafni hins nýja félags. Í dag eru framleiddar þrjár tegundir af fæðubótarefnum undir nafni Protis og eru þær seldar í flestum verslunum hér á landi. Í janúar 2016 voru starfsmenn Protis og IceProtein fjórir og og hafa þeir allir menntun í líftækni og lífefnafræði.

Matís á Sauðárkróki

Í nóvember 2008 opnaði Matís líftæknismiðju á Sauðárkróki þar sem sérhæfð rannsóknastofa á sviði líftækni og lífefna var staðsett. Markmiðið var að leiða saman fyrirtæki í Skagafirði og beita háþróaðri rannsóknatækni við framleiðslu afurða úr vannýtum hráefnum. Líftæknismiðjan vann með IceProtein að tilraunaframleiðslu og byggð var upp aðstaða til greininga á lífvirkum efnum. Líftæknismiðjan á Sauðárkróki var sett á fót með stuðningi FISK Seafood  sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Í ársbyrjun 2016 voru starfsmenn Matís á Sauðárkróki fjórir.

Frá Verinu á Sauðárkróki

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Hólmfríður Sveinsdóttir varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í maí 2008 og hóf þá um haustið störf í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki ásamt öðrum starfsmönnum og meistaranemendum. Frá þeim tíma hefur Hólmfríður verið í forsvari fyrir rannsóknir og þróun á sviði líftækni og lífefna. Doktorsgráða Hólmfríðar er á sviði líftækni og í meistaranámi lagði hún stund á næringarfræði. Áhugasvið hennar hefur verið rannsóknir á lífefnum unnum úr hráefnum úr hafinu og með sérstakri áherslu á prótein og peptíð sem unnin eru úr þorski (Gadus morhua).

Árið 2011 fjárfesti FISK Seafood, sem þá hafði eignast meirihluta í IceProtein, í nýjum höfuðstöðvum og fluttu IceProtein og líftæknismiðja Matís í það húsnæði. Við það tækifæri jók Matís við tækjakost í líftæknismiðjunni. Árið 2013 þegar FISK Seafood hafði eignast IceProtein að fullu, flutti Hólmfríður sig um set frá Matís og gerðist framkvæmdastjóri IceProtein.

„Ég vona að þessi verðlaun séu ekki einungis vatn á myllu okkar Skagfirðinga til að halda áfram nánu samstarfi við alls kyns frumkvöðla í þágu nýsköpunar og framþróunar FISK Seafood og greinni til heilla heldur komi einnig til með að hvetja önnur sjávarútvegsfyrirtæki til að auka samstarf við frumkvöðla. Nýsköpun leiðir af sér betri gæði við veiðar og vinnslu, bætta ímynd, fjölbreyttari afsetningaleiðir og meiri verðmætasköpun innan fyrirtækjanna.“
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Fréttir

Allt í land – fundur um bætta nýtingu sjávarafla á norðurslóðum

Samhliða formennskuáætlun Færeyinga í Norrænu ráðherranefndinni hefur færeyska fyrirtækinu Syntesa verið falið að kanna möguleika hinna Norrænu þjóða á bættri nýtingu sjávarafla.

Sem hluti af þeirri vinnu hefur Syntesa, ásamt samstarfsaðilum í Noregi, Grænlandi og Íslandi, staðið fyrir vinnufundum með hagsmunaaðilum og greint ýmis gögn er snúa að nýtingu afla. Slíkur fundur var haldinn í húsakinnum Matís í nóvember sl. sem tókst með miklum ágætum.

Nú er komið að seinni fundinum hér á landi í þessari fundaröð og munu starfsmenn Syntesa greina þar frá helstu niðurstöðum vinnufundanna í Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Fundurinn fer fram í húsakynnum Matís, Vínlandsleið 12, klukkan 9:00-11:00, 14. apríl nk.

Þess er vænst að niðurstöður vinnufundanna muni móta að einhverju leyti þá stefnu sem Norræna ráðherranefndin mun taka varðandi fullnýtingu fiskafla og stuðning við rannsóknir og þróun á því sviði á næstu misserum. Því er mikilvægt að raddir sem flestra hagsmunaaðila heyrist á þessu fundum. Ljóst er að þegar kemur að (full)nýtingu sjávarafla standa Íslendingar mjög framarlega, en þó er alltaf hægt að gera betur. Því er mikilvægt að hagsmunaaðilar ræði saman um hvernig hægt sé að bæta tækni, aðlaga lagaumhverfi/fiskveiðistjórnun, þróa nýjar afurðir og markaði ofl. þannig að allur afli sem veiddur er komi að landi og verði að verðmætum afurðum.

Á síðustu misserum hefur sprottið upp fjöldi fyrirtækja sem stunda framleiðslu á svokölluðum hliðarafurðum. Þessi geiri er í mikilli sókn og er ljóst að mörg tækifæri leynast í nýtingu á hráefni sem áður var fleygt, urðað eða brætt. Mikilvægt er að þarfir þessa geira séu hafðar í huga þegar fullnýting er rædd.

Er það von þeirra sem standa að fundinum að sem flestir hagsmunaaðilar sjái sér fært að mæta og leggi sitt að mörkum þannig að sjónarhorn og þarfir sem flestra komi fram.

Bætt nýting sjávarafla á norðurslóðum

Staður: Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík
Tími: 14. apríl 2016 kl 9:00-11:00

Dagskrá

9:00       Fundarsetning (Jónas R. Viðarsson – Matís)
9:10       Helstu niðurstöður „alt í land“ (Unn Laksá – Syntesa)
9:40       Efnahagsleg greining á bættri nýtingu sjávarafla (Magni Laksafoss – Syntesa)
10:00     Fullnýting bolfisks á Íslandi (Ásbjörn Jónsson – Matís)
10:15     Umræður (Jónas R. Viðarsson – Matís)
11:00     Fundarlok

Nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku með því að senda tölvupóst á Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonas@matis.is

Fréttir

Hvað er í fóðri fiska?

Svik í viðskiptum með matvæli eru alvarlegt vandamál og fiskur meðal þeirra matvæla þar sem mest svindl virðist viðgangast. Matís efndi til málstofu þar sem fjallað var um matvælasvik frá ýmsum hliðum, og meðal annars skoðað á hvaða hátt erfðatækni getur nýst til að stuðla að auknum heilindum.

Er Matís einn af 38 þátttakendum í stóru samevrópsku verkefni, Food Integrity, sem ætlað er að greina svik með matvæli og þróa fyrirbyggjandi aðferðir. Hefur verkefninu verið úthlutað samtals 12 milljónum evra og snýr hlutur Matís að viðskiptum með sjávarafurðir.

Pálmaolía og melamín

Jón Árnason, verkefnastjóri hjá Matís, flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hann fjallaði um hvernig má fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs í fiskeldi. Hann segir vandamál með fiskeldisfóður sem betur fer vera fátíð, en samt þurfi að vera á verði. Þá geri neytendur vaxandi kröfu um að vita mikið um uppruna alls þess matar sem þeir borða. „Neytendur horfa ekki bara á gæðin og verðið heldur líka hvaðan maturinn kemur og hvað hann inniheldur. Þetta gerir það að verkum að enn brýnna verður fyrir fiskeldisfyrirtæki að geta með vissu rakið allt það hráefni sem notað er til eldisins.“

Nefnir Jón nokkur dæmi, eins og þær deilur sem komu upp í umræðunni um norskt laxeldi fyrir ári. „Þá spannst mikil umræða um notkun pálmaolíu í fiskafóðri vegna þess hvernig pálmaolía er framleidd víða um heim. Stunda bændur það að eyða villtum frumskógi til að greiða fyrir pálmaræktuninni og bitnar mjög á lífríkinu á þeim svæðum.“

Einnig nefnir Jón það uppnám sem varð í Evrópu á sínum tíma þegar upp komst að framleiðandi hafði blandað kjöt- og beinamjöli saman við hefðbundið fiskimjöl. „Þetta var þegar óttinn við Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn var hvað mestur og varð til þess að Evrópusambandið takmarkaði mjög notkun fiskimjöls á tímabili.“

Segir Jón jafnvel hugsanlegt að framleiðendur gætu tekið upp á því að bæta efninu melamín út í fiskeldisfóður til að búa til villandi niðurstöður um næringarinnihald. „Um er að ræða ólífrænt samband af köfnunarefni sem nýtist ekki sem næring og getur jafnvel virkað sem eitur, en ef gerð væri greining á köfnunarefnisinnihaldi melamín-blandaðs fóðurs myndi hún gefa til kynna að prótíninnihaldið væri hærra en það er í raun.“

Hvað er þá til ráða? Jón segir eina leið til að tryggja heilindin að stuðla að vönduðu upplýsingaflæði niður alla virðiskeðjuna. Önnur leið er að nýta alþjóðlega staðla og stóla á opinbert eftirlit. „Aquaculture Stewardship Council og ýmsir aðrir staðlar leitast við að votta ferla og gæði niður alla virðiskeðjuna.“
Þriðja leiðin er að nota erfðatækni og láta fóðursýnin segja söguna. „Ef grunur leikur á því að eitthvert hráefni sé í fóðrinu sem ekki á að vera þar þá getur erfðarannsókn skorið úr um hvort svo sé. Jafnvel í mjölformi er hægt að greina hvað hefur farið í fóðrið, s.s. hvaða plöntu- og dýrategundir er þar að finna.

Ofagreind frétt/viðtal birtist í Morgunblaðinu og á www.mbl.is 17. mars sl. / ai@mbl.is.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason hjá Matís.

Fréttir

Mikilvægi örvera fyrir íslenskan sjávarútveg – úthlutun öndvegisstyrkja Rannís

Rannís úthlutaði styrkjum úr Rannsóknasjóði fyrir styrkárið 2016 í síðasta mánuði. Matís hlaut tvo öndvegisstyrki, þar af er Matís með verkefnastjórn í öðru þeirra, en báðir styrkirnir tengjast örverurannsóknum. Matís hlaut einnig rannsóknastöðu- og doktorsnemastyrki sem  tengjast annarsvegar rannsóknum á örverum og hinsvegar makrílrannsóknum.

Verkefnin verða unnin í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, HÍ, Náttúrufræðistofnun, ÍSOR ásamt alþjóðlegum samstarfsaðlium. Annar öndvegisstyrkurinn, MIME, mun nýtast til þess að fá betri heildarsýn á fjölbreytileika örvera í hafinum í kringum Ísland og hlutverk þeirra í fæðukeðjunni. Upplýsingar um fjölbreytileika örvera á íslensku hafsvæði geta haft mikið hagnýtt gildi fyrir íslenskan sjávarútveg.

Um öndvegisverkefnið MIME

Rannsóknir á fjölbreytileika sjávarörvera hafa aukist mikið undanfarin ár en litlar upplýsingar eru til um örverur í hafinu umhverfis Ísland. Markmið verkefnisins er að rannsaka örverufjölbreytileika í sýnum sem hefur verið safnað árlega í sjö ár á skilgreindum sýnatökustöðvum í kringum landið. Í verkefninu verða áhrif hitnunar andrúmslofts og súrnun sjávar rannsökuð m.t.t. örverufjölbreytileika og efnahringrása í sjónum. Þrjár tilgátur hafa verið settar fram: „a) Mikill munur er á örverusamfélögum fyrir norðan, og sunnan við landið, b) Synechococcus finnst í Norður-Atlantshafi við Ísland og í köldum Pólsjó en gegnir þó ekki sambærilegu lykilhlutverki sem frumbjarga örvera eins og við lægri breiddargráður, og c) Súrnun sjávar gerist hraðar á norðlægum slóðum í samanburði við suðlæg (temperate og tropical) svæði og hefur þess vegna meiri áhrif á sjávarörverur á norðlægum breiddargráðum sem veldur breytingum á fjölbreytileika og fjölda þeirra“. Svör við þessum tilgátum fást með því að nota nýjustu tækni í DNA raðgreiningu á genamengjum og gena tjáningu ásamt notkun örverugreinis. Rannsóknaráherslur verða lagðar á að bera saman mismunandi einkenni hafsvæða eins og kaldan pólsjó úr norðri við heitari sjó sem kemur úr suðri með Irminger straumnum. Haffræði- og lífupplýsingagögn verða sett í samhengi með nýju forriti (MB3-IS) til að skoða samvirkni á milli örveranna og umhverfisbreyta. Nýir stofnar örvera verða einangraðir og þeim lýst.

Nánari upplýsingar veitir verkefnisstjóri MIME, dr. Viggó Þ. Marteinsson hjá Matís.

Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Nú rétt í þessu voru Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins afhent á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, sem stýrir fyrirtækinu IceProtein á Sauðárkróki, hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins sem veitt voru á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi árið 2016. IceProtein og Protis settu nýlega á markað nýja vörulínu byggða á áralöngum rannsóknum á heilsubætandi áhrifum fiskpróteina. Þetta þykir okkur afskaplega áhugavert framtak kröftugs frumkvöðuls á sviði rannsókna og þróunar á landsbyggðinni. 

Það voru þau Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem afhentu verðlaunin.

IceProtein á Sauðárkróki er öflugt fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum og þróun á vinnslu verðmætra efna, aðallega úr sjávarfangi, með það markmið að auka nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Hjá Iceprotein starfa fjórir starfsmenn auk nema í rannsóknarnámi.

Matís óskar Hólmfríði og starfsfólki IceProtein sem og FISK Seafood, innilega til hamingju með verðlaunin.

Frétt fyrst birt á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttir

Örugg og góð þjónusta hjá Matís

Hjá Matís er boðið upp á örugga og góða þjónustu sem stenst fyllilega samanburð við þjónustu sambærilegra erlendra fyrirtækja og stofnana.

Fleiri og fleiri átta sig á mikilvægi erfðagreininga. Hvort sem um er að ræða erfðagreiningar á fiski, t.d. vegna deilna um tegundastofna, greiningar á ætterni hunda þegar til stendur að kaupa hreinræktaðan hund eða greiningar á hestum vegna útflutnings þá er mikilvægi erfðagreiningar óumdeilt. Matís býður upp á slíkar greiningar og fleiri til og hafa ræktendur í auknu mæli leitað til Matís þegar kemur að kynbótum í ræktunarstarfi og hvernig best sé að para saman til að ná þeirri útkomu sem óskað er eftir.

Dæmi um þjónustumælingar

Dæmi um mælingar vegna erfðakynbóta

Nánari upplýsingar um þjónusturannsóknir og -mælingar

Fréttir

Fjölgun þróunarsamvinnuerkefna

Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan, hefur tengst þróunarverkefnum í rúm 10 ár í gegnum kennslu og leiðbeiningastarf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP). Þessi samvinna hefur leitt af sér frekari verkefni fyrir Matís með námskeiðahaldi í þróunarríkjum.

Developmental_cooperation_Margeir_Gissurarson_2
Frá Tanganyika vatni | From Lake Tanganyika

Alls hefur Matís haldið átta námskeið í fimm löndum, Víetnam (2005), Sri Lanka (2006), Kenía (2008 og 2013), Úganda (2011) og Tansaníu (2012, 2014 og 2015). Námskeiðin hafa verið ein til tvær vikur að lengd og sniðin að þörfum viðkomandi landa. Fyrrum UNU-FTP nemar hafa seinni ár tekið virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd námskeiðanna. Þessi samvinna hefur verið verðmæt öllum aðilum og nýst Matís við vaxandi verkefni í þróunarlöndum.

Tanganyikavatn í Tansaníu

Árið 2010 auglýstu stjórnvöld í Tansaníu eftir ráðgjöfum til að hanna rannsóknaskip, sjá um útboð vegna skipsins, framkvæma athugun á félagslegri stöðu fiskisamfélaga við Tanganyikavatn og koma með ráðleggingar varðandi bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski, sem veiddur er í vatninu. Matís sótti um að taka að sér verkefnið í samvinnu við Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, Ráðgarð skiparáðgjöf og verkfræðistofuna GOCH í Tansaníu og var því tilboði tekið. Matís tók að sér verkefnastýringu auk þess að annast ráðgjöf um bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski. Margeir Gissurarson annaðist verkefnastjórn fyrir hönd Matís en hann hefur mikla reynslu í þróunarverkefnum og hefur einnig búið í Mósambík í sex ár. Verkefnasvæðið voru fiskisamfélög í Tansaníu sem liggja að Tanganyikavatni, þar sem í fæstum samfélögum er rafmagn eða rennandi vatn og því starfsumhverfi ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Þetta svæði er eitt það fátækasta í Tansaníu og því styrkur fyrir Matís að geta boðið fram starfsmann sem búið hefur í þróunarlöndum í mörg ár og þekkir álíkar aðstæður.

Þurrkun fiska og annars sjávarfangs við erfiðar aðstæður

Helstu vinnsluaðferðir á fiski við Tanganyikavatn eru reyking og þurrkun. Þurrkunin er framkvæmd með því að dreifa fiski á jörðina og láta sólina þurrka hann. Fuglar og skordýr eru þar í harðri samkeppni við mannfólkið um fæðuna sem liggur óvarin á jörðinni og á regntímum skolast fiskurinn burt og/eða skemmist vegna mikillar bleytu. Þannig er áætlað að um 30% aflans úr vatninu tapist eða milli 10 og 20 þúsund tonn. Reyking á fiski er framkvæmd yfir opnum eldi og því er fiskurinn frekar brenndur en reyktur. Vinnslan er yfirleitt framkvæmd af konum sem standa í reykjarkófi alla daga og afleiðing þess eru særindi í augum og erfiðleikar í öndunarfærum. Áskorun Matís var því ekki einungis að leysa tæknileg vinnslumál heldur einnig að bæta heilsufar íbúa á svæðinu.

Þurrkofn kominn í notkun

Afrakstur verkefnisins varð vinnslueining sem bæði gat þurrkað og reykt fisk í lokuðu umhverfi Viðarnotkun í nýju einingunni er einungis um 20% af því sem notað er við hefðbundna reykingu og afföll á fiski eru hverfandi. Nýju vinnslueiningunni var vel tekið og þess óskað að Matís aðstoðaði við að breiða út boðskapinn. Verkefninu var þá lokið og ekki hægt að vinna meir í því að sinni. Árið 2014 var auglýst eftir verkefnum af Nordic Climate Facility, sem er sjóður undir Norræna þróunarsjóðnum. Matís sótti þar um styrk til að endurbæta reyk- og þurrkeininguna úr fyrra verkefni og smíða 100 einingar sem dreift
væri til fiskisamfélaga í Tansaníu við Tanganyikavatn. Sá styrkur fékkst og er nú unnið í því verkefni í samvinnu við UNU-FTP og Tansania Fish Research Institute (TAFIRI). Markmið verkefnisins er að minnka viðarnotkun við reykingu á fisk um 80% og bæta afkomu fiskisamfélaganna. Í Tansaníu eru notaðir um 450 þúsund rúmmetrar af viði á ári til að reykja fisk og því má áætla að ef vinnslueining Matís kemst í almenna notkun þar í landi sé hægt að draga úr viðarnotkun um 350 þúsund rúmmetra á ári.

Notkun jarðvarma við matvælaframleiðslu

Matís hefur ennfremur tengst þróunarverkefni varðandi notkun jarðvarma
við framleiðslu matvæla. Árið 2014 fóru tveir starfmenn Matís til Kenía og Rúanda í tvær vikur til að framkvæma hagkvæmisathugun á notkun lághita við matvælavinnslu. Í Kenía er töluverður jarðvarmi en Rúanda hefur enn ekki fundið orkumiklar lindir þó þar séu til staðar hverir á nokkrum stöðum, sem hugsanlega má nýta til matvælavinnslu.

Matís við Karabíska hafiðÁrið 2015 tók Matís að sér verkefni í Karabíska hafinu varðandi mat á því
hvernig lönd innan CARIFORUM ríkja standa gagnvart alþjóðlegum kröfum um matvælaöryggi, með áherslu á villtan fisk og fiskeldi. Meginmarkmið verksins var að setja fram vegvísi eða tillögur að því hvað löndin geta gert sameiginlega og hvert fyrir sig til að tryggja aðgengi að mikilvægum markaðslöndum eins og Evrópu og Bandaríkjunum. Heimsótt voru átta lönd þar sem aðstæður og eftirlit var skoðað og niðurstöður kynntar yfirvöldum og hagsmunaaðilum. Lokatillögum var skilað í október 2015.

Undanfarin ár hefur verkefnum Matís í þróunarlöndum farið fjölgandi og með hverju verkefni hefur orðstír fyrirtækisins sem traustur og faglegur ráðgjafi í þróunarlöndum vaxið.

Fréttir

Alþjóðleg rannsókn – heilindi í viðskiptum með sjávarfang

Undanfarna daga hefur átt sér stað mikil umræða um heilindi í viðskiptum með sjávarfang. Upphaf umræðunnar má rekja til málstofu sem Matís hélt miðvikdaginn 16. mars en þar var greint frá niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem Matís er þátttakandi í.

Rannsóknin nær til tegundagreininga á fiski, hvort fisktegund, sbr. niðurstöður erfðarannsókna, sé í samræmi við það sem gefið er upp, og eru yfir 40 aðilar sem taka þátt um alla Evrópu. Rannsóknin er ekki hluti af matvælaeftirliti landanna þar sem rannsóknirnar fara fram heldur er um að ræða upplýsingaöflun og stöðumat á hvernig þessum málum er háttað í mismunandi ríkjum Evrópu.

Í íslenska hluta rannsóknarinnar, sem ekki er lokið, kom meðal annars fram að um 30% allra sýna sem tekin hafa verið á veitingastöðum innihéldu annan fisk en tilgreint var á matseðli, eins og fram hefur komið í frétt Matís.

Svipaðar rannsóknir hafa verið framkvæmdar áður. Til að mynda hefur Oceana (www.oceana.org) rannsakað tegundasvik á fiski í 21 fylki í Bandaríkjunum. 1200 sýni voru rannsökuð og í 33% tilfella voru aðrar fisktegundir í pakkningum en merkingar sögðu til um. Oceana rannsakaði einnig hvernig málin stæðu á veitingastöðum í Brussel og í mötuneytum stofnana Evrópusambandsins. Í Brussel var um að ræða aðra tegund en fram kom á matseðli í 31,8% tilfella.

Það er mikið hagsmunamál að heilindi séu viðhöfð í viðskiptum með mat, hvort sem það er fiskur eða önnur matvæli. Það er hagsmunamál fyrir framleiðendur, söluaðila, neytendur og ekki síst þau lönd sem keppa um markaðshlutdeild á alþjóðlegum mörkuðum.

Íslendingar byggja afkomu sína að verulegu leyti á útflutningi á fiski og fiskafurða og á sama tíma og við bendum á hreinleika og heilnæmi okkar fisktegunda, eru ódýrari og óheilnæmari tegundir settar til höfuðs okkar, en undir fölsku flaggi. Eitt þessara dæma er þegar ódýr hvítfiskur er seldur sem þorskur úr Norður-Atlantshafi. Verðmunurinn getur verið mjög mikill og leitt af sér lægra verð fyrir þorskinn og þorskafurðir. Marine Stewardship Council (MSC, www.msc.org/) hefur bent á að hefðbundið verð fyrir brauðaðan pangasíus sé um fjórar evrur á hvert kg þegar verðið á þorski geti verið um 25 evrur á hvert kg.

Því má ljóst vera að heilindi með sjávarfang er mikið efnahagslegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og mikilvægt að taka umræðuna um tegundasvindl föstum tökum.

Fréttir

Heilindi í viðskiptum með sjávarfang til rannsóknar

Heilindi og traust neytenda er ein af megin áskorunum nútíma viðskipta með matvæli, ekki síst í kjölfar hneykslismála á borð við svokallað „hrossakjötsmál“, en á undanförnum árum hafa komið upp fjöldi tilvika á alþjóðlega vísu þar sem milliliðir og neytendur eru blekktir í viðskiptum með sjávarfang.

Dæmi um slíkar blekkingar eru þegar ódýrar tegundir eru seldar sem dýrari, frystar afurðir seldar sem ferskar, efnum bætt í afurðir til að auka þyngd, breyta útliti, lengja líftíma eða fela að varan sé skemmd án þess að þeirra sé getið í innihaldslýsingu, tegundir í útrýmingarhættu eru seldar undir fölsku flaggi o.s.frv.

Síðastliðinn miðvikudag stóð Matís fyrir málstofu um hvernig erfðatækni getur nýst við að tryggja heilindi í viðskiptum með sjávar- og fiskeldisafurðir. Málstofunni var skipt upp í fjóra hluta, þar sem hver hluti hófst með stuttum inngangi um afmarkað umfjöllunarefni og í framhaldi voru svo almennar umræður. Kynningar sem fylgdu inngangi hvers hluta má nálgast hér að neðan.

  1. Aðferðir til að fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs fyrir fiskeldi
  2. Aðferðir til að greina óæskilegar örverur í sjávarfangi
  3. Erfðafræðilegar aðferðir til að tegundagreina og rekja uppruna 
  4. Kröfur markaða og hagnýting erfðaupplýsinga með tilliti til regluverks og efnahagslegra áhrifaþátta

Málstofan var vel sótt, þar sem á fimmta tug hagaðila víðsvegar úr virðiskeðju sjávarafurða mættu á fundinn og spunnust upp mjög góðar umræður. Var samdóma álit þátttakenda að hér væri um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska matvælaframleiðendur.

30% sýna sem starfsmenn Matís tóku á tíu veitingastöðum í Reykjavík sýndu að ekki var um þá fisktegund að ræða sem pöntuð hafði verið af matseðli.

Í fyrirlestri Jónasar R. Viðarssonar, fagstjóra hjá Matís, kom fram að rannsóknir á tegundasvikum (mislabelling) í viðskiptum með sjávarfang í Evrópu og Bandaríkjunum sýna að um þriðjungur af seldum fiski er af annarri tegund en staðhæft er á pakkningum eða matseðli. Vandamálið er mismikið eftir tegundum og sölustöðum, þar sem tegundir eins og túnfiskur og glefsari (e. snapper) eru í mikilli áhættu að vera skipt út fyrir aðrar tegundir án þess að um það sé upplýst. Atlantshafsþorskur er einnig ofarlega á listanum. Tegundasvik virðast sérstaklega algeng á Sushi veitingastöðum og á veitingastöðum sem selja brauðaðan fisk, til dæmis „fish & chips“.

Matís er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknum, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net, þar sem m.a. er safnað sýnum á íslenskum veitingahúsum og í kjölfarið kannað með erfðatækni hvort sýni séu í samræmi við það sem tilgreint er á matseðli. Ávallt er leitað staðfestingar hjá starfsfólki veitingastaðar um tegund fisks. Rannsóknaverkefnin eru enn í gangi, en af þeim 27 sýnum sem þegar hafa verið greind eru átta sem ekki voru í samræmi við matseðil.

Nánari upplýsingar veitir Jónas

IS