Hjá Matís er boðið upp á örugga og góða þjónustu sem stenst fyllilega samanburð við þjónustu sambærilegra erlendra fyrirtækja og stofnana.
Fleiri og fleiri átta sig á mikilvægi erfðagreininga. Hvort sem um er að ræða erfðagreiningar á fiski, t.d. vegna deilna um tegundastofna, greiningar á ætterni hunda þegar til stendur að kaupa hreinræktaðan hund eða greiningar á hestum vegna útflutnings þá er mikilvægi erfðagreiningar óumdeilt. Matís býður upp á slíkar greiningar og fleiri til og hafa ræktendur í auknu mæli leitað til Matís þegar kemur að kynbótum í ræktunarstarfi og hvernig best sé að para saman til að ná þeirri útkomu sem óskað er eftir.
Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan, hefur tengst þróunarverkefnum í rúm 10 ár í gegnum kennslu og leiðbeiningastarf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP). Þessi samvinna hefur leitt af sér frekari verkefni fyrir Matís með námskeiðahaldi í þróunarríkjum.
Frá Tanganyika vatni | From Lake Tanganyika
Alls hefur Matís haldið átta námskeið í fimm löndum, Víetnam (2005), Sri Lanka (2006), Kenía (2008 og 2013), Úganda (2011) og Tansaníu (2012, 2014 og 2015). Námskeiðin hafa verið ein til tvær vikur að lengd og sniðin að þörfum viðkomandi landa. Fyrrum UNU-FTP nemar hafa seinni ár tekið virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd námskeiðanna. Þessi samvinna hefur verið verðmæt öllum aðilum og nýst Matís við vaxandi verkefni í þróunarlöndum.
Tanganyikavatn í Tansaníu
Árið 2010 auglýstu stjórnvöld í Tansaníu eftir ráðgjöfum til að hanna rannsóknaskip, sjá um útboð vegna skipsins, framkvæma athugun á félagslegri stöðu fiskisamfélaga við Tanganyikavatn og koma með ráðleggingar varðandi bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski, sem veiddur er í vatninu. Matís sótti um að taka að sér verkefnið í samvinnu við Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, Ráðgarð skiparáðgjöf og verkfræðistofuna GOCH í Tansaníu og var því tilboði tekið. Matís tók að sér verkefnastýringu auk þess að annast ráðgjöf um bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski. Margeir Gissurarson annaðist verkefnastjórn fyrir hönd Matís en hann hefur mikla reynslu í þróunarverkefnum og hefur einnig búið í Mósambík í sex ár. Verkefnasvæðið voru fiskisamfélög í Tansaníu sem liggja að Tanganyikavatni, þar sem í fæstum samfélögum er rafmagn eða rennandi vatn og því starfsumhverfi ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Þetta svæði er eitt það fátækasta í Tansaníu og því styrkur fyrir Matís að geta boðið fram starfsmann sem búið hefur í þróunarlöndum í mörg ár og þekkir álíkar aðstæður.
Þurrkun fiska og annars sjávarfangs við erfiðar aðstæður
Helstu vinnsluaðferðir á fiski við Tanganyikavatn eru reyking og þurrkun. Þurrkunin er framkvæmd með því að dreifa fiski á jörðina og láta sólina þurrka hann. Fuglar og skordýr eru þar í harðri samkeppni við mannfólkið um fæðuna sem liggur óvarin á jörðinni og á regntímum skolast fiskurinn burt og/eða skemmist vegna mikillar bleytu. Þannig er áætlað að um 30% aflans úr vatninu tapist eða milli 10 og 20 þúsund tonn. Reyking á fiski er framkvæmd yfir opnum eldi og því er fiskurinn frekar brenndur en reyktur. Vinnslan er yfirleitt framkvæmd af konum sem standa í reykjarkófi alla daga og afleiðing þess eru særindi í augum og erfiðleikar í öndunarfærum. Áskorun Matís var því ekki einungis að leysa tæknileg vinnslumál heldur einnig að bæta heilsufar íbúa á svæðinu.
Þurrkofn kominn í notkun
Afrakstur verkefnisins varð vinnslueining sem bæði gat þurrkað og reykt fisk í lokuðu umhverfi Viðarnotkun í nýju einingunni er einungis um 20% af því sem notað er við hefðbundna reykingu og afföll á fiski eru hverfandi. Nýju vinnslueiningunni var vel tekið og þess óskað að Matís aðstoðaði við að breiða út boðskapinn. Verkefninu var þá lokið og ekki hægt að vinna meir í því að sinni. Árið 2014 var auglýst eftir verkefnum af Nordic Climate Facility, sem er sjóður undir Norræna þróunarsjóðnum. Matís sótti þar um styrk til að endurbæta reyk- og þurrkeininguna úr fyrra verkefni og smíða 100 einingar sem dreift væri til fiskisamfélaga í Tansaníu við Tanganyikavatn. Sá styrkur fékkst og er nú unnið í því verkefni í samvinnu við UNU-FTP og Tansania Fish Research Institute (TAFIRI). Markmið verkefnisins er að minnka viðarnotkun við reykingu á fisk um 80% og bæta afkomu fiskisamfélaganna. Í Tansaníu eru notaðir um 450 þúsund rúmmetrar af viði á ári til að reykja fisk og því má áætla að ef vinnslueining Matís kemst í almenna notkun þar í landi sé hægt að draga úr viðarnotkun um 350 þúsund rúmmetra á ári.
Notkun jarðvarma við matvælaframleiðslu
Matís hefur ennfremur tengst þróunarverkefni varðandi notkun jarðvarma við framleiðslu matvæla. Árið 2014 fóru tveir starfmenn Matís til Kenía og Rúanda í tvær vikur til að framkvæma hagkvæmisathugun á notkun lághita við matvælavinnslu. Í Kenía er töluverður jarðvarmi en Rúanda hefur enn ekki fundið orkumiklar lindir þó þar séu til staðar hverir á nokkrum stöðum, sem hugsanlega má nýta til matvælavinnslu.
Matís við Karabíska hafiðÁrið 2015 tók Matís að sér verkefni í Karabíska hafinu varðandi mat á því hvernig lönd innan CARIFORUM ríkja standa gagnvart alþjóðlegum kröfum um matvælaöryggi, með áherslu á villtan fisk og fiskeldi. Meginmarkmið verksins var að setja fram vegvísi eða tillögur að því hvað löndin geta gert sameiginlega og hvert fyrir sig til að tryggja aðgengi að mikilvægum markaðslöndum eins og Evrópu og Bandaríkjunum. Heimsótt voru átta lönd þar sem aðstæður og eftirlit var skoðað og niðurstöður kynntar yfirvöldum og hagsmunaaðilum. Lokatillögum var skilað í október 2015.
Undanfarin ár hefur verkefnum Matís í þróunarlöndum farið fjölgandi og með hverju verkefni hefur orðstír fyrirtækisins sem traustur og faglegur ráðgjafi í þróunarlöndum vaxið.
Undanfarna daga hefur átt sér stað mikil umræða um heilindi í viðskiptum með sjávarfang. Upphaf umræðunnar má rekja til málstofu sem Matís hélt miðvikdaginn 16. mars en þar var greint frá niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem Matís er þátttakandi í.
Rannsóknin nær til tegundagreininga á fiski, hvort fisktegund, sbr. niðurstöður erfðarannsókna, sé í samræmi við það sem gefið er upp, og eru yfir 40 aðilar sem taka þátt um alla Evrópu. Rannsóknin er ekki hluti af matvælaeftirliti landanna þar sem rannsóknirnar fara fram heldur er um að ræða upplýsingaöflun og stöðumat á hvernig þessum málum er háttað í mismunandi ríkjum Evrópu.
Í íslenska hluta rannsóknarinnar, sem ekki er lokið, kom meðal annars fram að um 30% allra sýna sem tekin hafa verið á veitingastöðum innihéldu annan fisk en tilgreint var á matseðli, eins og fram hefur komið í frétt Matís.
Það er mikið hagsmunamál að heilindi séu viðhöfð í viðskiptum með mat, hvort sem það er fiskur eða önnur matvæli. Það er hagsmunamál fyrir framleiðendur, söluaðila, neytendur og ekki síst þau lönd sem keppa um markaðshlutdeild á alþjóðlegum mörkuðum.
Íslendingar byggja afkomu sína að verulegu leyti á útflutningi á fiski og fiskafurða og á sama tíma og við bendum á hreinleika og heilnæmi okkar fisktegunda, eru ódýrari og óheilnæmari tegundir settar til höfuðs okkar, en undir fölsku flaggi. Eitt þessara dæma er þegar ódýr hvítfiskur er seldur sem þorskur úr Norður-Atlantshafi. Verðmunurinn getur verið mjög mikill og leitt af sér lægra verð fyrir þorskinn og þorskafurðir. Marine Stewardship Council (MSC, www.msc.org/) hefur bent á að hefðbundið verð fyrir brauðaðan pangasíus sé um fjórar evrur á hvert kg þegar verðið á þorski geti verið um 25 evrur á hvert kg.
Því má ljóst vera að heilindi með sjávarfang er mikið efnahagslegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og mikilvægt að taka umræðuna um tegundasvindl föstum tökum.
Heilindi og traust neytenda er ein af megin áskorunum nútíma viðskipta með matvæli, ekki síst í kjölfar hneykslismála á borð við svokallað „hrossakjötsmál“, en á undanförnum árum hafa komið upp fjöldi tilvika á alþjóðlega vísu þar sem milliliðir og neytendur eru blekktir í viðskiptum með sjávarfang.
Dæmi um slíkar blekkingar eru þegar ódýrar tegundir eru seldar sem dýrari, frystar afurðir seldar sem ferskar, efnum bætt í afurðir til að auka þyngd, breyta útliti, lengja líftíma eða fela að varan sé skemmd án þess að þeirra sé getið í innihaldslýsingu, tegundir í útrýmingarhættu eru seldar undir fölsku flaggi o.s.frv.
Síðastliðinn miðvikudag stóð Matís fyrir málstofu um hvernig erfðatækni getur nýst við að tryggja heilindi í viðskiptum með sjávar- og fiskeldisafurðir. Málstofunni var skipt upp í fjóra hluta, þar sem hver hluti hófst með stuttum inngangi um afmarkað umfjöllunarefni og í framhaldi voru svo almennar umræður. Kynningar sem fylgdu inngangi hvers hluta má nálgast hér að neðan.
Málstofan var vel sótt, þar sem á fimmta tug hagaðila víðsvegar úr virðiskeðju sjávarafurða mættu á fundinn og spunnust upp mjög góðar umræður. Var samdóma álit þátttakenda að hér væri um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska matvælaframleiðendur.
30% sýna sem starfsmenn Matís tóku á tíu veitingastöðum í Reykjavík sýndu að ekki var um þá fisktegund að ræða sem pöntuð hafði verið af matseðli.
Í fyrirlestri Jónasar R. Viðarssonar, fagstjóra hjá Matís, kom fram að rannsóknir á tegundasvikum (mislabelling) í viðskiptum með sjávarfang í Evrópu og Bandaríkjunum sýna að um þriðjungur af seldum fiski er af annarri tegund en staðhæft er á pakkningum eða matseðli. Vandamálið er mismikið eftir tegundum og sölustöðum, þar sem tegundir eins og túnfiskur og glefsari (e. snapper) eru í mikilli áhættu að vera skipt út fyrir aðrar tegundir án þess að um það sé upplýst. Atlantshafsþorskur er einnig ofarlega á listanum. Tegundasvik virðast sérstaklega algeng á Sushi veitingastöðum og á veitingastöðum sem selja brauðaðan fisk, til dæmis „fish & chips“.
Matís er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknum, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net, þar sem m.a. er safnað sýnum á íslenskum veitingahúsum og í kjölfarið kannað með erfðatækni hvort sýni séu í samræmi við það sem tilgreint er á matseðli. Ávallt er leitað staðfestingar hjá starfsfólki veitingastaðar um tegund fisks. Rannsóknaverkefnin eru enn í gangi, en af þeim 27 sýnum sem þegar hafa verið greind eru átta sem ekki voru í samræmi við matseðil.
Matís er samstarfsaðili að nýrri námslínu í haftengdri nýsköpun sem kennd verður í Vestmannaeyjum haustið 2016. Í nýju námi er áhersla lögð á samspil nýsköpunar, viðskipta og sjávarútvegs og þar með á tækifæri og möguleika til sköpunar og atvinnu í faginu. Sannkallað menntaævintýri í Eyjum í eitt ár sem leiðir af sér diplóma gráðu og grunn til áframhaldandi náms fyrir þá sem vilja nema meira. Frábært tækifæri til menntunar í nánu samstarfi við atvinnulífið og þar á meðal okkur.
Um er að ræða diplómanám (84 ECTS) sem þjálfar nemendur í að nýta þekkingu viðskipta- og sjávarútvegsfræða til að vinna að raunhæfum verkefnum. Kennsla fer fram í Vestmannaeyjum og er áhersla lögð á sterk tengsl við atvinnulífið. Námið er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri en
Mikillar fagþekkingar og kunnáttu er krafist í íslenskum sjávarútvegi. Velgengni atvinnugreinarinnar byggist á öflugri virðiskeðju sem nær allt frá veiðum til markaðssetningar og sölu erlendis.
Að námi loknu hlýtur nemandi diplómagráðu sem nýtist á vinnumarkaði og getur jafnframt fengið einingar metnar í áframhaldandi nám við HR eða HA.
Raunverkefni
Nemendur vinna styttri og lengri verkefni sem snúa meðal annars að vinnslutækni, skráningu, ferlum, markaðsmálum og mannauðsstjórnun.
Þátttaka í tímum
Sérfræðingar og stjórnendur fyrirtækja taka virkan þátt í kennslustundum með því að deila reynslu sinni og fagþekkingu.
Samvinna í verkefnum
Nemendur vinna verkefni í samstarfi við fyrirtæki. Fyrirtækin eru jafnframt tilbúin til að veita nemendum starfsaðstöðu og ýmsa aðra aðstoð, aðgang að framleiðslutækjum og upplýsingum eftir samkomulagi.
Á undanförnum árum hafa komið upp fjöldi tilvika þar sem milliliðir og neytendur eru blekktir í viðskiptum með sjávarfang. Dæmi um slíkar blekkingar eru þegar ódýrar tegundir eru seldar sem dýrari, frystar afurðir seldar sem ferskar, aukaefnum bætt í afurðir til að auka þyngd, breyta útliti, lengja líftíma eða fela að varan sé skemmd, tegundir í útrýmingarhættu eru seldar undir fölsku flaggi o.s.frv.
Matís stendur fyrir málstofu um hvernig erfðatækni geti nýst við að tryggja heilindi í viðskiptum með sjávar- og fiskeldisafurðir. Málstofunni er skipt upp í fjóra hluta. Hver hluti hefst með stuttum inngangi um hvert umfjöllunarefni og í framhaldi verða svo almennar umræður.
Aðferðir til að fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs fyrir fiskeldi.
Aðferðir til að greina óæskilegar örverur í sjávarfangi.
Erfðafræðilegar aðferðir til að tegundagreina og rekja uppruna.
Kröfur markaða og hagnýting erfðaupplýsinga með tilliti til regluverks og efnahagslegra áhrifaþátta.
Stór og öflugur hópur nemenda við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) útskrifaðist frá skólanum núna á mánudaginn eftir sex mánaða sérnám á Íslandi. UNU-FTP er mikilvægur hlekkur í þróunarsamvinnu Íslendinga en þetta er í 18. skiptið sem skólinn útskrifar nemendur.
Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana/fyrirtækja: Hafrannsóknastofnunar, Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess kemur Háskólinn á Hólum að samstarfinu og fer skólastarfið fram góðu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki um allt land. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er Tumi Tómasson forstöðumaður skólans.
Nemendurnir sem voru í náminu hjá Matís ásamt nokkrum starfsmönnum fyrirtækisins
Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans fengið kennslu og verklega þjálfun. Nemendurnir vinna verkefni sín að jafnaði með þarfir í eigin heimalandi í huga.
Efni sem Kontor Reykjavík bjó til fyrir Matís hlaut tvær tilnefningar til hinna árlegu FÍT-verðlauna, sem veitt eru af Félagi íslenskra teiknara, en verðlaunin verða afhent næstkomandi miðvikudag, 9. mars. FÍT verðlaunin eru veitt ár hvert fyrir þau verk sem skara fram úr á sviði grafískrar hönnunar og myndskreytingar.
Önnur tilnefningin var vegna myndbands sem fjallar um þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað síðastliðna áratugi í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn hefur tekið stórstígum framförum á þessum tíma í virðisaukningu afla m.a. vegna aukinnar áherslu greinarinnar á rannsóknir og þróun og hafa Matís og fyrirrennarar, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf,) verið mikilvægur samstarfsaðili margra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í þeim rannsóknum.
Value Creation in the Icelandic Fishing Industry
Hin tilnefningin kom vegna myndar, teiknimyndar, sem gerð var til þess að varpa ljósi á lífhagkerfið og hvernig lífhagkerfið spilar stórt hlutverk í lífi fólks á hverjum einasta degi. Myndin var upphaflega einungis hugsuð fyrir sjávarútveg og tengdist stóru verkefni sem Matís stjórnar innan rannsóknaráætlun Evrópu (MareFrame) en sú mynd var svo vel gerð að ákveðið var að útfæra hana fyrir landbúnaðinn einnig, enda er lífhagkerfið alls staðar.
Smelltu á Bioeconomy til að skoða myndina, en hún er einnig sem smámynd við þessa frétt.
Um FÍT verðlaunin
Í ár er bryddað upp á þeirri nýjung að birta tilnefningar til verðlaunanna, en dómnefndina skipar breiður hópur fagmanna á sviði grafískrar hönnunar. Tilnefnt er í 17 flokkum og ná þeir yfir helstu undirflokka grafískrar hönnunar, svo sem skjágrafík, vefhönnun, prentverk, auglýsingahönnun og myndskreytingar.
Matís og Þoran ehf munu halda kynningarfund fyrir bruggmeistara og aðra áhugamenn um möltun og bruggun miðvikudaginn 9. mars í höfuðstöðvum Matís á Vínlandsleið 12 og mun fundurinn standa frá 15:00 til 16:15.
Um þessar mundir stýrir Matís verkefni um hagnýtingu korns til matvælaframleiðslu og er það styrkt af Norðurslóðaáætluninni (e. Northern Periphery and Arctic Programme). Fyrirtækið Þoran á aðild að verkefninu. Þátttakendur koma frá löndunum við norðanvert Atlantshaf; Íslandi, Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi í Kanada. Nú er lokið fyrsta tímabili verkefnisins og voru upplýsingar og áform tekin saman á ráðstefnu í Orkneyjum í lok síðasta árs. Meginhlutverk verkefnisins er flutningur þekkingar milli landa og efling atvinnulífs á norðurslóðum. Meðal þátttakenda standa Orkneyingar fremst í að nýta korn af norðurslóðum við framleiðslu áfengra drykkja og á ráðstefnunni miðluðu þeir af þeirri þekkingu, þ.e. ræktun byggs og möltun þess fyrir framleiðslu á viskíi og bjór. Hlutverk Matís er að miðla þessari þekkingu til fyrirtækja á Íslandi. Á fundinum verða leiðbeiningar frá Orkneyingum kynntar svo og möguleikar kynnir á að afla upplýsinga frá sérfræðingum í Orkneyjum. Þess má geta að fulltrúi Þoran sótti ráðstefnuna í Orkneyjum og fékk starfsþjálfun hjá maltgerð og viskíframleiðanda og mun hann tala um veru sína þar á fundinum.
Víða erlendis hefur áhugi á svæðisbundnum matvælum vaxið mikið. Fjölgun ferðamanna skiptir einnig máli í þessu sambandi. Á Íslandi er áhugi á að nýta þessi atriði til að auka tekjur af framleiðslu áfengra drykkja. Þá skiptir máli hvernig og hvort hægt er að framleiða malt úr íslenska bygginu. Einnig er ástæða til að beina athyglinni að humlunum en Norðmenn hafa um árabil rannsakað afbrigði af humlum sem henta við norðlægar aðstæður og þeir hafa einnig rannsakað kryddjurtir sem hægt er að nýta til að gefa nýjum bjórtegundum sérstöðu. Niðurstöður Norðmannanna verða kynntar á fræðslufundinum.
Kornrækt og drykkjarvöruframleiðsla á Orkneyjum á sér djúpar rætur. Hægt er að rekja kornrækt í Orkneyjum aftur til 3000 fyrir Krist. Drykkjarvöruiðnaðurinn skiptir nú miklu máli fyrir fjárhag eyjanna. Tvö fyrirtæki sem framleiða viskí eru mjög þekkt alþjóðlega en þau eru Highland Park Distillery og Scapa Distillery. Einnig starfa brugghúsin Orkney Brewery og Swannay Brewery á Orkneyjum. Mikill áhugi er á að nýta hið forna byggafbrigði Bere til að gefa vörum sterka ímyndar sérstöðu. Bruichladdich viskíframleiðandinn hefur í nokkur ár framleitt viskí úr Bere byggi með góðum árangri og má um þessar mundir finna flöskur af því m.a. á Keflavíkurflugvelli. Einnig hefur Arran viskíframleiðandinn fengið Bere bygg frá Orkneyjum til að brugga úr. Á Hjaltlandseyjum norðan Orkneyja er Valhalla Brewery sem framleiðir bjórinn Island Bere. Markaðssetning Orkneyinga byggir oft á arfleifð víkinganna og eru dæmi um afar velheppnaðar markaðssetningar.
Fyrir stuttu komu nemendur Matvælabrúarinnar frá Háskólafélagi Suðurlands í heimsókn í Matís og dvöldust hér daglangt á námskeiði í skynmati. Kennarar voru Kolbrún Sveinsdóttir og Aðalheiður Ólafsdóttir.
Í námskeiðinu fengu nemendur yfirsýn yfir hvað skynmat er og hvernig það er notað í matvælaframleiðslu, og gæðaeftirliti.
Kennslan var bæði bókleg og verkleg, nemendur lærðu að þekkja grunnbragðefni, nota lyktarskyn og kynntust ólíkum aðferðum við skynmat. Að auki var nemendum kynnt hvernig prófanir á bragði, lykt og áferð vöru eru notaðar við neytendakannanir og mismunandi aðferðir við neytendakannanir. Niðurstöður verklegu æfinganna voru teknar saman með sömu aðferðum og beitt er við rannsóknir Matís og urðu umræður fjörugar og fróðlegar.
Nánari upplýsingar veita Kolbrún Sveinsdóttir og Aðalheiður Ólafsdóttir hjá Matís og Ingunn Jónsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands.
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.