,,Við getum haldið áfram að segja að íslenskt lambakjöt sé best“

Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Íslenskt lambakjöt og Óli Þór Hilmarsson verkefnastjóri hjá Matís eru viðmælendur í Matvælinu að þessu sinni en fyrr á árinu luku þeir vinnu við rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða.

Verkefnið var unnið af Matís og markaðsstofunni Íslenskt lambakjöt í nánu samstarfi við afurðastöðvar bæði á norður- og suðurlandi. Verkefninu var hrundið af stað til þess að mögulegt væri að leggja fram ný og traust gögn til að koma í stað þeirra 20-30 ára gömlu gagna sem alla jafna var stuðst við og voru orðin úrelt. Skortur á nýjum og uppfærðum gögnum um nýtingu og næringargildi var farinn að há markaðsstarfi á lambakjöti og hliðarafurðum bæði á innanlandsmarkaði og útflutningsmörkuðum.

Það er bæði skemmtilegt og fróðlegt að hlusta á þessa fagmenn ræða um málið sem er þeim greinilega kært. Þátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig má hlusta á hann í spilaranum hér að neðan.

Plastrannsóknir ,,Það þurfa öll lönd að gyrða sig í brók, fara að mæla þetta og segja stopp“

Sophie Jensen, verkefnastjóri í faghópi Matís sem fæst við lífefni, hefur unnið að flestum plasttengdum verkefnum sem unnin hafa verið hjá fyrirtækinu.

Hún er algjör viskubrunnur í málum sem tengjast plastvandanum í samfélaginu, umhverfisvænum lausnum þegar kemur að pökkunarefnum fyrir matvæli, leiðum til að minnka plast á heimilum og áhrifum plasts á fólk.

Þessi þáttur er sérlega fróðlegur og fjallar um málefni sem snertir okkur öll – plast!

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

„Þetta eru eiginlega faðernispróf“ Erfðagreiningar á eldislaxi á Íslandi

Sæmundur Sveinsson er fagstjóri erfða hjá Matís og í þessum þætti af Matvælinu ræðir hann um erfðagreiningar á laxi og verkefni þeim tengd.

Atlantshafs laxinn er merkileg lífvera og lífsferill hans hefur mjög áhugaverðrar afleiðingar á erfðafræði tegundarinnar. Hinn villti íslenski laxastofn er um margt ólíkur eldislaxi og það er afar mikilvægt að þekkja einkenni þessara tegunda vel til að geta viðhaldið fjölbreytileika þó að umhverfisaðstæður breytist, t.a.m. við hlýnun jarðar.

Í þættinum ræðir Sæmundur lífsferil íslenska laxins og erfðafjölbreytileika hans eftir vatnasvæðum, erfðagreiningar á strokulöxum úr sjókvíaeldi og erfðagreiningar á laxi fyrir svokallaða fiskrækt svo eitthvað sé nefnt. Sæmundi er lagið að fjalla um þessi mál á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt svo að óhætt er að mæla með hlustun fyrir öll!

Þátturinn er aðgengilegur í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum og í spilaranum hér að neðan:

Betri nýting hliðarhráefna „þetta er ekki bara eitthvað drasl sem við þurfum að díla við“

Hildur Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís er viðmælandi í þessum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Hún fjallar um verðmætin sem leynast í hráefnum sem við getum fengið út úr matvælavinnslu en eru þó ekki aðal efnið sem við erum að vinna með; svokölluð hliðarhráefni. Allt þetta tengir hún við evrópska samstarfsverkefnið Accelwater sem hún vinnur að um þessar mundir.

Ísland hefur lengi verið framarlega í nýtingu hliðarhráefna og eitt af þeim hráefnum sem áhugavert er að meta bæði með tækifæri til verðmætasköpunar og umhverfismál fyrir augum er vatn frá t.d. fiskvinnslum og landeldisstöðvum. Verkefnið Accelwater snýr að því að finna lausnir til þess að nýta verðmæti úr vinnsluvatni og besta vatnsnotkun í sjávarútvegi og eldi.

Ástríða Hildar fyrir því að koma inntaki Accelwater verkefnisins skýrt og örugglega til skila skín í gegn í þessu viðtali og mega hlustendur því eiga von á fróðlegri og hressandi hlustun.

Þátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum og einnig í spilaranum hér að neðan.

Íslenskar búfjártegundir – erfðagreiningar og kynbótastarf

Sæmundur Sveinsson, fagstjóri erfða hjá Matís er viðmælandi í þessum þætti af Matvælinu og hann fjallar um erfðarannsóknir og kynbætur á íslenskum búfjártegundum á þann hátt að öll geta skilið og haldið athyglinni vel!

Á Íslandi eru sumir búfjárstofnar séríslenskir á meðan aðrir eru innfluttir. Nautgripir, hestar, sauðfé og geitur eru alfarið af íslenskum stofnum og það felur í sér að íslenskir aðilar eru þeir einu í heiminum sem sinna kynbótum á þessum fjórum búfjártegundum.

Hjá Matís hefur aðallega verið unnið með þrjár tegundir, þ.e. nautgripi, hesta og sauðfé og rannsóknir á þessum stofnum eru til umræðu hér.

Þátturinn er aðgengilegur í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum og í spilaranum hér að neðan:

Verkaður hákarl – þjóðarréttur íslendinga?

Snorri Páll Ólason er viðmælandi í Matvælinu að þessu sinni. Hann ræðir meistaraverkefnið sitt, Hákarlsverkun, sem unnið var í samstarfi við Bjarnarhöfn ferðaþjónustu, stærsta framleiðanda á kæstum hákarli á Íslandi með styrk frá Matvælasjóði.

Hefð fyrir hákarlsáti á Íslandi er rík og hægt er að rekja hana langt aftur í aldir. Þrátt fyrir það hafa sárafáar vísindalegar rannsóknir verið gerðar til þess að skoða eða bæta verkunarferil þessara matvæla. Snorri ásamt fleria starfsfólki Matís vann að úrbótum þar á.

Spjallið við Snorra er létt og skemmtilegt þar sem hann fer til dæmis yfir menninguna í kringum hákarlsát, vísindin sem liggja að baki því að verkun á hákarli er nauðsynleg þar sem kæsingin er bæði varðveisluaðferð og afeitrunarferill, lífseigar mýtur um kæsingu og margt fleira.

Hlustið á þáttinn í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum eða í spilaranum hér að neðan:

ÍSGEM: Upplýsingaveita um næringargildi matvæla

Ólafur Reykdal og Eydís Ylfa Erlendsdóttir eru sérfræðingar í Íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla sem alla jafna er kallaður ÍSGEM. Þau eru viðmælendur í þessum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Í þættinum ræða þau um sögu ÍSGEM og tilgang gagnagrunnsins en sögu hans má rekja aftur til ársins 1987 þegar næringarefni ýmissa matvæla voru skráð í fyrsta skipti á Íslandi. Þau ræða jafnframt um gildi ÍSGEM og koma inn á það hvers vegna mikilvægt er að fólk á Íslandi hafi aðgang að sannreyndum, og gæðametnum  upplýsingum um matvæli og næringarefni í opnum aðgangi.

Þau koma einnig inn á það hvernig nálgast má gögnin og nýta þau, hver staðan er á gögnunum í dag, hvar tækifærin liggja og ekki síst hvernig bæta mætti við grunninn og víkka hann út svo hann verði allsherjar upplýsingaveita fyrir matvæli.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér:

Fréttir

Skynmat: Við reynum að nota fólk eins og mælitæki

Aðalheiður Ólafsdóttir, skynmatsstjóri Matís er viðmælandi í nýjum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Hún ræddi allt það sem í skynmatinu felst, af hverju það er mikilvægt og fyrir hver. Hún sagði auk þess sögur af þeim fjölbreyttu verkefnum sem hún hefur fengist við sem skynmatsstjóri, allt frá því að meta mýkt og lykt af andlitskremi yfir í að meta galtarlykt af kjöti, eiginleika próteindufts úr krybbum og bragð og áferð af þara.

Spjallið er létt og skemmtilegt og afar fróðlegt fyrir þau sem velta fyrir sér spurningum á borð við:

  • Hvað er skynmat og hvernig fer það fram?
  • Af hverju er mikilvægt að skynmeta neysluvörur?
  • Hvaða eiginleikum þurfa skynmatsdómarar hjá Matís að vera gæddir?
  • Hver geta nýtt sér skynmatsþjónustu Matís?

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

Fréttir

Saltfiskur fyrr og nú

Kolbrún Sveinsdóttir verkefnastjóri hjá Matís er gestur í Matvælinu, hlaðvarpsþætti Matís. Í þættinum er farið um víðan völl þegar kemur að saltfiski, sögu hans og menningu.

Kolbrún segir okkur frá þeim verkefnum sem Matís hefur unnið að í tengslum við saltfiskinn og hvað vakti áhuga hennar á þeirri vinnu. Farið er yfir algengan misskilning um að saltfiskur eigi að vera mjög saltur og spáð er í það afhverju fullsaltaðar fiskiafurðir séu ein af verðmætustu útflutningsvörum okkar Íslendinga, en þó nýtur saltfiskurinn ekki vinsælda hér heima.

Ætti saltfiskurinn að vera Íslendingum líkt og parmaskinka er Ítölum og hvað þarf að gerast til að saltfiskinum sé gert hærra undir höfði hjá landsmönnum?

Ekki láta þennan þátt framhjá þér fara. Hlustaðu í þáttinn í heild sinni hér:

Þáttastjórnandi: Hildur Ýr Þráinsdóttir

Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Íslandsstofa, Íslenskir saltfiskframleiðendur, Klúbbur matreiðslumeistara, Møreforsking AS.

Verkefnið er styrkt af: AG-Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, AVS Rannsóknasjóður.

Fréttir

Skítamix! Sjálfbær áburðarframleiðsla

Jónas Baldursson verkefnastjóri hjá Matís og Eva Margrét Jónudóttir sérfræðingur hjá Matís ræða hér verkefnið Sjálfbær áburðarframleiðsla, heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfið.

Rætt er um næringarefni áburðar, frumniðurstöður tilrauna og hvort að verkefnið hefði í raun átt að heita Skítamix.  Farið er yfir sjálfbærni ferla með því að nýta aukaafurði úr ýmsum iðnaði, meðal annars moltu, kjötmjöl, kúamykju, fiskeldiseyru, kjúklingaskít og mannaseyru.

Við fáum að heyra hvað kom á óvart og mikilvægi þess að gera áburðarframleiðslu sjálfbæra.

Ekki láta þennan þátt framhjá þér fara. Hlustaðu í þáttinn í heild sinni hér:

Þáttastjórnandi: Hildur Ýr Þráinsdóttir

Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Atmonia, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan og Landsvirkjun.

Verkefnið er styrkt af: Markáætlun Rannís

IS