Fréttir

Afurðum ætlað að mæta þörfum á mörkuðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Umbreyting afla í útflutningsverðmæti skiptir sköpum fyrir þjóðarbúið. Nýting og vinnsla sjávarafurða koma þar við sögu. Eins og vinnslan snýst um virðingu fyrir neytendum og hráefnum, snýst nýtingin um virðingu fyrir hráefnum og umhverfi að samaskapi snýst verðmætasköpunin um virðingu fyrir samfélagi og auðlindum. Fullmargir fullyrða fullmikið um fullvinnslu og fullnýtingu. Samhliða fullyrðingaflaumi ber á óþarfa mismunun, þar sem afurðir eru flokkaðar nokkuð frjálslega sem aðalatriði og aukaatriði.

Grá(upplögð)lúða

Vissulega er markmiðið að nýta öll aðföng sem best á sem arðbærastan hátt. Keppikeflið má ekki vera nýtingarhlutfallið eitt og sér, verðmætin knýja þjóðfélagið áfram. Bræðsla, vinnsluaðferð sem notar allt hráefnið, þó heimtur séu ekki mikið umfram fitu og prótein innihald hráefnisins, aflanum er öllum ráðstafað til einnar og sömu vinnsluaðferðarinnar, og ekkert er skilið eftir, sama gildir um heilfrystingu fisks, vinnslu sem skilar háu hlutfalli afurða af hráefni en verðmætin eru tæpast eftirsóknarverð, ef frekari vinnsla er möguleg.

Er fullvinnsla að meðhöndla allt hráefni eða sú meðhöndlun sem er nauðsynleg þannig að neytandinn þurfi sem minnst að handleika matinn? Er fullnýting að lágmarka það sem fer forgörðum við meðhöndlun hvers hlekks í keðjunni frá báti að áti? Veltur nýtingin á notkun hráefna, flækjustigi vinnslu, notkun vinnslubúnaðar eða nýtingu á tækifærum til verðmætasköpunar? Nýting eins aðila, fyrirtækja samstæðu eða samanlagt allra þeirra sem höndla með sjávarfang hér á landi?

Eðlilega falla aukaafurðir vel að hugarheimi Íslendinga sem eru gefnir fyrir að velta aukaatriðum fyrir sér. Menn leggja áherslu á það sem skapar hverjum og einum mestar tekjur, fjölbreytt samfélag rúmar ólíkar áherslur, það sem er aukaatriði eins er aðalafurð annars. Hver og einn kappkostar að gera vel það sem hann gerir og sumir hafa náð miklum árangri. Þar sem hagtölur sýna mikil verðmæti þorsks er hægt að spyrja hvort ýsa sé aukaafurð þorsks? Líta ber á allan fisk sem hráefni fyrir verðmætar vörur. Aðstæður hverju sinni takmarka getu manna til athafna og hafa áhrif á nýtingu og verðmætasköpun. Nærtækara er að minna fólk á að taka lýsi en að taka aukaafurð.

Allt það framsýna fólk sem tekst verðmætasköpun úr vannýttum tækifærum sem liggja í því sem alla jafnan er ekki er neytt á hrós skilið fyrir hugvitssemi. Þó hægt sé að sníða klæði úr roði þá verður róið til fiskjar eftir hinum æta hluta, enn um sinn. Takmarkað magn hráefna krefst þess að mest verðmæti séu sköpuð úr hverjum fiski, þar skiptir framsýni máli.

Tækifæri til að gera betur

Þeir sem vilja reyna að eyða tíma sínum í að sannfæra fólk um að slor sé jákvætt, því það rími við þor, mega reyna það. En líklegra er að fleirum þyki slor neikvætt, kannski vegna þess það rímar við gor, því þarf það að vera á hreinu að Íslenskur sjávarútvegur er ekkert slor, heldur er íslenskur sjávarútvegur spennandi vettvangur ábyrgrar verðmætasköpunar á sjálfbæran hátt úr tækifærum sem ólíkar þarfir á fjölbreyttum mörkuðum skapa.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís.