Fréttir

Akureyri: B.Sc. verkefni við HA flýtir fyrir mælingum á PCB efnum í fiski hjá Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir skömmu varði Vordís Baldursdóttir lokaverkefni sitt til B.Sc. gráðu við Háskólann á Akureyri „Þróun aðferðar til mælinga PCB efna í fiski með ASE útdrætti“. Verkefnið vann hún undir leiðsögn Ástu M. Ásmundsdóttur sérfræðings hjá Matís.

Nýlega var nýtt tæki tekið í notkun á rannsóknarstofu Matís á Akureyri til að undirbúa sýni til mælinga á þrávirkum lífrænum efnum í matvælum ASE 300 (Accelerated Solvent Extraction). Tækið byggir á því að draga efnin úr sýninu undir hita og þrýstingi. Með nýja tækinu er hægt að undirbúa sýni til greiningar á mun skemmri tíma heldur en með eldri búnaði.

Þegar búið er að draga PCB efnin úr sýninu með þessum hætti er magn þeirra greint með GC-ECD tækni. Verkefni Vordísar var að öllu leyti unnið í rannsóknaraðstöðu Matís á Akureyri og snerist fyrst og fremst um þróun nýrra mæliaðferða með því að nýta ASE tækið auk þess sem hún endurbætti eldri aðferðir fyrir GC-ECD í þeim tilgangi að stytta greiningartímann.

Verkefnið leiddi til þess að nú er unnt að framkvæma mælingar á PCB efnum í 12 sýnum þannig að niðurstöður liggi fyrir u.þ.b. 2 sólahringum eftir að útdráttur hefst, en sami sýnafjöldi með eldri aðferð tók u.þ.b. 5 sólahringa oghefur þessi aðferðaþróun því leitt til verulegs tímasparnaðar.

Búnaðurinn mun verða notaður bæði fyrir sýni frá viðskiptavinum og fyrir rannsóknaverkefni Matís. Vordís verður sumarstarfsmaður á Efnarannsóknardeild Matís á Akureyr og mun m.a. vinna við PCB mælingar.