Fréttir

Breyting á starfsemi Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú um mánaðarmót munu verða breytingar á starfsemi Matís, á sviði efnagreininga. Markmið breytinganna er að auka fjárhagslega hagkvæmni og efla faglegan grundvöll efnagreininga enn frekar. Mikill samdráttur hefur því miður verið í kaupum hins opinbera á sviði efnagreininga tengdum matvælaeftirliti, þrátt fyrir auknar kröfur í kjölfar innleiðingar matvælalöggjafarinnar árið 2011.

Mikilvægt er fyrir Matís að gæta ýtrustu hagkvæmni í rekstri, án þess að það bitni á faglegum þætti þessara sérhæfðu mælinga. Nú stendur fyrir dyrum uppbygging tækjabúnaðar til varnarefnamælinga sem Matís hefur fjármagnað með styrkumsóknum, en til að möguelgt sé að reka slíkan tækjabúnað er nauðsynlegt að öll sérfræðiþekking nýtist sem best. Því er sérfræðiþekkingu á sviði efnagreininga safnað saman á einn stað í Reykjavík. Varnarefnamælingar á ávöxtum og grænmeti eru mjög mikilvægar til að tryggja öryggi neytenda.

Há húsaleiga Matís að Borgum hefur auk þess haft áhrif á þessa niðurstöðu en það liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir um aðrar breytingar á starfsemi fyrirtækisins á Akureyri. Matís hefur lagt áherslu á að hafa öfluga starfsemi sem víðast á landinu eins og sjá má á fjölda starfstöðva fyrirtækisins.