Þriðjudaginn 16. desember 2025 varði Clara Maria Vasquez-Mejia doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Umhverfisáhrif eldis á Atlantshafslaxi á Íslandi, með áherslu á vatnsskortsfótspor. Environmental impacts of Atlantic salmon aquaculture in Iceland, with focus on water scarcity footprint.
Andmælendur voru dr. Alexis Laurent, prófessor við Danmarks Tekniske Universitet, DTU, og dr. Giacomo Falcone, dósent við Universita Mediterranea di Reggio Calabria.
Umsjónarkennarar og leiðbeinendur voru Ólafur Ögmundarson og María Guðjónsdóttir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Alessandro Manzardo, dósent og Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Abstract
Fiskeldi gegnir sífellt mikilvægara hlutverki í alþjóðlegu fæðuöryggi. Sérstaklega hefur eldi á laxi vaxið hratt á Íslandi, meðal annars vegna aðgengis að hreinu vatni og endurnýjanlegri orku. Í þessari doktorsrannsókn var vistferilsgreiningu (Life Cycle Assessment, LCA) beitt til að meta umhverfisáhrif íslensks laxeldis, með sérstakri áherslu á vatnsskort og kolefnisspor í gegnum alla virðiskeðjuna. Rannsóknin samanstóð af þremur vísindagreinum. Sú fyrsta var kerfisbundin yfirlitsgrein á LCA-rannsóknum á fiskeldi með áherslu á magnbundna vatnsnotkun. Í annarri greininni var vistferilsgreiningu beitt frá vöggu til eldisstöðvar á landeldi á laxi á Íslandi, þar sem áhrif raforkublöndu voru könnuð ásamt mögulegum umhverfislegum ávinningi af nýtingu úrgangs frá fiskeldi sem áburð var metinn út frá á innihaldi hans af köfnunarefni, fosfór og kalíum (NPK). Í þriðju greininni var að lokum beitt landsvíslegri greiningu þar sem innbyggt vatns- og kolefnisspor fóðurhráefna sem notuð eru í land- og sjóeldi á laxi var borið saman, með tilliti til rekjanleika hráefna til upprunalanda þeirra. Niðurstöðurnar sýna að þótt Ísland njóti góðs af endurnýjanlegri orku og gnægð ferskvatns leggur fiskeldisiðnaðurinn óbeint umhverfisálag á önnur lönd í gegnum framleiðslu og innflutningi á fóðri frá öðrum löndum. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að velja sjálfbærari innihaldsefni fóðurs og þess að taka vatnsskort og tengd umhverfisáhrif með í reikninginn við þróun framtíðarfiskeldis á Íslandi.
