Fréttir

Fiskirí: Glæsilegt framtak til að reyna að auka fiskneyslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Um næstu helgi, 15. – 17. sept. verður slegið upp mikilli fiskiveislu á um 80 veitingastöðum út um allt land, og er ætlunin að hvetja bæði unga og aldna til að fara út að snæða sjávarafurðir meðan á hátíðinni stendur. Um er að ræða sérstakt átaksverkefni á sjávarútvegsráðuneytisins í samstarfi við Klúbb matreiðslumeistara á Íslandi. Óhætt er að hvetja landsmenn til að skella sér í fjörið!

Á Dalvík hefur Fiskidagurinn mikili þegar náð að festa sig rækilega í sessi og hefur á fáeinum árum náð að verða ein helsta bæjarhátíð sem haldin er hér á landi og þar hefur verið boðið upp á fisk eins og gestir og gangandi hafa getað í sig látið. Hátíðin Fiskirí er þó ekki bæjarhátíð heldur átaksverkefni á landsvísu, sem hefur þann tilgang að efla neyslu fisks hér á landi.

Líkt og fram kemur í viðtali við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra í tilefni af Fiskirí-hátíðinni, þá sýna rannsóknir að neysla á fiski hefur farið minnkandi hér á landi undanfarin ár og þá aðallega á meðal unga fólksins. Vegna þessarar þóunar hafi “sjávarútvegsráðuneytið því ákveðið að efna til sérstaks átaksverkefnis um miðjan september undir nafninu Fiskirí. Ætlunin er að vekja athygli landsmanna á öllum aldri á því hversu hollur og góður fiskurinn er og gera fólki ljóst að það getur verið bæði einfalt og fljótlegt að matreiða fisk.”

Þess má geta í þessu sambandi að Rf hefur að undanförnu unnið að sérstöku verkefni í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði, Félagsvísindastofnun og SH- þjónustu sem ætlað er að finna leiðir til að efla áhuga ungs fólks á fiski sem heilnæmum kosti.  Verkefnið nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Á vefsíðunni er hægt að lesa meira um þetta þarfa átak og þau veitingahús sem þátt taka í verkefninu.