Fréttir

Fleira gert á Rimini en að flatmaga í sólinni…

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega var haldin ráðstefna á Rimini á Ítalíu, sem nefndist Mediterranean Seafood Expositon 2006 og er stærsta sjávarafurðasýning sem haldin er á Ítalíu. Í tengslum við sýninguna var haldinn þar fundur þar sem fjallað var um hvernig nýta megi nýjustu tækni til að tryggja gæði ög öryggi sjávarafurða. Á meðal þeirra sem boðið var að flytja þarna erindi var dr. Guðrún Ólafsdóttir, sérfræðingur á Rf.

Guðrún segir að ein af ástæðum þess að henni var boðið að halda fyrirlestur á fundinum sé að einn aðalskipuleggjari ráðstefnunnar hafi verið “Íslandsvinurinn” dr. Bianca Maria Poli, prófessor við háskólann í Flórens. Dr. Poli er einnig forseti Landsamtaka sjávarútvegsfyrirtækja á Ítalíu (L’Assoittica Italia – Associazione Nazionale delle Aziende Ittiche). Hún kom hingað fyrst á TAFT 2003 ráðstefnuna og heillaðist þá af landi, þjóð og – einnig hvernig Íslendingar standa að sínum sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Fyrirlesarar á fundinum komu frá ýmsum ítölskum háskólum, en tveimur erlendum fyrirlesurum var boðið að flytja erindi á fundinum. Fyrir utan Guðrúnu var þarna Joop Luten frá Fiskeriforskning í Noregi, og kynnti hann m.a.  rannsóknir úr Seafoodplus-verkefninu, m.a. neytendarannsóknir sem Rf tekur þátt í og sagt hefur verið frá áður hér á síðunni.

Að sögn Guðrúnar fjallaði erindi hennar um hraðvirkar aðferðir fyrir gæði, öryggi og tegundagreiningar fisks, þar sem hún gerði grein fyrir möguleikum þess að nota hraðvirkar mælingar með ýmiss konar tækni,  t.d.  rafnefi.  Þá ræddi hún aðrar nýjungar sem eru í farvatninu, s.s. “smart labels” til að setja á pakkningar,  t.d. TTI (time temperature intergrators) og rapid test kits m.a. fyrir sjúkdómavaldandi bakteríur og histamín sem varðar öryggi sjávarafurða. 

Guðrún segir að Ítalir virtust áfram um að nútímavæða fiskiðnaðinn hjá sér og voru áhugasamir um að heyra hvað aðrar þjóðir væru að gera á þessu sviði.