Fréttir

Fyrirlestur um laxeldi í Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fimmtudaginn 19. desember verður fyrirlestur í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12 Reykjavík, um fyrirkomulag og áhrif laxeldis í norður-Noregi. Fyrirlesari verður Gunnar Davíðsson sem starfar sem deildarstjóri hjá fylkisstjórn Troms fylkis í Noregi.

Troms fylki er um helmingur af stærð Íslands með um helming af íbúafjölda hérlendis. Laxeldi er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein í fylkinu, með framleiðslu upp á 190 þúsund tonn á ári.

Alls eru 10 seiðaeldisstöðvar starfræktar í Troms og 16 eldisfyrirtæki sem reka níu sláturhús og eldi á rúmlega 100 eldissvæðum. Eldisfyrirtækin kaupa vörur og þjónustu í fylkinu fyrir um 40 milljarða ISK á ári. Störf í fiskeldi í fylkinu dreifast vel um strjálbýl sveitarfélög fylkisins, sem eru 24 í dag. Um 70% vöru og þjónustu eru keypt frá fyrirtækjum í Troms og nágrannafylkinu Nordland. Eldið og þjónustan í kringum atvinnugreinina kallar á bæði verkmenntun og sérfræðiþekkingu og laðar að ungt fólk enda launin góð og starfsemin arðvæn. Fiskeldið hefur aukið aðsókn í verkmenntun og háskólanám tengt greininni og jafnframt haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu í fylkinu.

Á fundinum verður farið yfir áhrif fiskeldis á efnahag og þróun í Troms og reynt að svara þeirri spurningu hvaða lærdóm íslendingar geta dregið af reynslu íbúa Troms fylkis. Hver er reynsla Norðmanna af laxeldi í norður-Noregi, þar sem aðstæðum svipar oft til aðstæðna á Vestfjörðum og Austfjörðum? Getur reynsla Norðmanna hjálpað til að meta áhrif laxeldis á efnahag og mannlíf fjarðarbyggða á Íslandi?

Allir sem áhuga hafa á laxeldi sem atvinnugrein og eiga heimangengt eru hvattir til að koma og hluta á upplýsandi fyrirlestur.

Fundurinn verður haldin í salarkynnum Matís á þriðju hæð kl. 15:00 til 16:30. Fundargestum verður boðið upp á hressingu meðan á fundi stendur.

Fundarstjórn verður í höndum Gunnars Þórðarsonar.