Fréttir

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs í matvælafræði við matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands verður haldinn mánudaginn 6. október kl. 12:00 í Árnagarði, stofa Á-201, við Háskóla Íslands.

Rannsóknarverkefnið var unnið á Matís ohf í samstarfi við Rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala – háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands ásamt Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Kl. 12:00 Gunnþórunn Einarsdóttir

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks:

Bætt ímynd sjávarafurða

Young consumer attitudes and fish consumption:

Improved image of seafood

Gunnþórunn Einarsdóttir útskrifaðist með BS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Árið 2005 hóf hún nám til meistaraprófs í matvælafræði við HÍ. 

Markmið verkefnisins var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks. Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð.  

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.  

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Dr. Ingu Þórsdóttur prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands og Emilíu Martinsdóttur (M.Sc) deildarstjóra hjá Matís ohf. Prófdómari var Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands.