Fréttir

Góður gestur kveður Rf

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rf hefur tekið virkan þátt í menntun nemenda á háskólastigi hér á landi um all langt skeið, t.d. fer B.S. nám í matvælafræði við H.Í. að hluta til fram á Rf og fastir kennarar H.Í. í matvælavinnslu og verkfræði eru með aðstöðu á Rf. Mörg verkefni í framhaldsnámi nemenda í matvælafræði, iðnaðarverkfræði og sjávarútvegsfræðum eru einnig unnin á og styrkt af Rf. Þá hafa á undanförnum árum nokkrir ungir, erlendir vísindamenn einnig dvalið tímabundið við starfsþjálfun hér á Rf. Einn slíkur, Judith Reichert frá Þýskalandi, lýkur tæplega hálf árs dvöl sinni á Rf í dag.

Judith kom hingað í mars s.l. á vegum Leonardo Da Vinci starfsmenntaáætlunar Evrópusambandsins og er dvöl hennar á Rf hluti af starfsþjálfun hennar vegna Diplómanáms í efnaverkfræði við Hochschule für Technik und Wirtschaft (University of Applied Science) í Dresden í Þýskalandi. Hún mun nú fara í nokkurra daga frí til heimalandsins áður en hún heldur til Danmerkur þar sem hún mun ljúka námi sínu við DTU – háskólann í Kaupmannahöfn snemma á næsta ári.

Á meðan á dvöl hennar á Rf stóð vann Judith m.a. að rannsóknum í tengslum við Rannís verkefni um Oxun í fiski og örverurannsóknir í tengslum við AVS verkefnið Forvarnir í fiskeldi.  Að sögn Guðrúnar Ólafsdóttur, eins fjögurra leiðbeinenda Judith hér á Rf, er reynsla Rf af þessu alþjóðlega samstarfi afar góð, þeir vísindamenn sem hingað hafa komið hafi yfirleitt reynst mjög áhugasamir og góðir starfskraftar og þar hafi Judith ekki verið nein undantekning.  Þá geti þau tengsl sem myndast með þessum hætti komið sér vel fyrir báða aðila í framtíðinni, enda hefur vísindasamfélagið ekki farið varhluta af þeirri alþjóðavæðingu sem átt hefur sér stað á flestum sviðum á undanförnum árum.