Í sumar hefur Matís, í samstarfi við Íslenska sjávarklasann, staðið fyrir spennandi rannsóknarverkefni þar sem áhrif lífkola á jarðveg og plöntuvöxt voru könnuð. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en fellur líka undir stærra rannsóknarverkefni sem kannar möguleikan á því að nota lífkol sem jarðvegsbætandi efni; verkefnið Soil improving biomaterials sem stýrt er af Íslenska sjávarklasanum.
Verkefnið var unnið af nemanda sem hafði umsjón með daglegri framkvæmd tilraunarinnar í sumar, Ásdísi Öglu Sigurðardóttur. Hún hefur m.a. fylgst með vöxt plantna, vökvað, haldið utan um gögn og mun hún skila niðurstöðum í lokaskýrslu á næstu vikum. Um verkefnið hafði hún þetta að segja:
„Í námi mínu í matvælafræði vaknaði áhugi minn á sjálfbærni og hvernig rannsóknir stuðla að þróun sjáflbærni og nýsköpunar í matvælaframleiðslu. Þegar ég kynntist verkefninu Lífkol: brú milli fiskeldis og landbúnaðar sá ég kjörið tækifæri til að tengja saman þessi áhugasvið.“
Í tilrauninni, sem fór fram á þaki starfstöðvar Matís við Vínlandsleið, voru kálplöntur ræktaðar í mismunandi blöndum af mold og lífkolum. Meðal annars voru notuð lífkol sem unnin voru úr fiskeldisseyru. Markmiðið var að sjá hvort þessi óhefðbundnu lífkol hafi sambærileg eða jafnvel betri áhrif en hefðbundin lífkol úr viðarafgöngum.

„Það kom mér á óvart hve breytileg áhrifin geta verið eftir lífkolum framleiddum úr mismunandi hráefni, þá virðist vera greinilegur munur á lífkolum úr fiskeldismykju úr saltvatni annars vegar og ferskvatni hins vegar. Það var einnig áhugavert að sjá áhrif mismunandi styrkleika, þ.e. hlutfalls lífkola í moldinni og hvernig það hafði áhrif á plöntuvöxt.“ segir Ásdís.
Með þessu verkefni er stigið mikilvægt skref í átt að sjálfbærri nýtingu lífrænna aukaafurða og betri nýtingu jarðvegs. Niðurstöðurnar gætu haft jákvæð áhrif á hvernig við hugsum um úrgangsstrauma og landbúnað í framtíðinni og hver veit nema lífkol úr fiskeldismykju verði hluti af lausninni. Við hlökkum til að deila niðurstöðum þegar þær liggja fyrir. Niðurstöðurnar nýtast einnig fyrir evrópuverkefnið OCCAM sem fór af stað í maí 2025.
Styrkir til nemenda, eins og þessi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, skipta sköpum fyrir ungt fólk sem vill öðlast reynslu af raunverulegum rannsóknarverkefnum og leggja sitt af mörkum til nýsköpunar og sjálfbærni.
„Reynslan hefur verið mjög lærdómsrík og skemmtileg. Ég fékk að vinna sjálfstætt, taka þátt í ákvörðunum og fá uppbyggilega gagnrýni. Ég lærði mikið um alla þætti rannsóknarvinnu, frá tilraunasetningu til gagnagreiningar, og efldi sjálfsöryggi mitt til að starfa innan rannsóknarsviðs.“ Segir Ásdís svo í lokinn.
Matís tekur reglulega á móti nemendum í fjölbreytt verkefni og hvetur áhugasama til að hafa samband, kannski verður það einmitt þú sem tekur þátt í tilraun næsta sumar!
Niðurstöður verkefnisns verða birtar í skýrslu seinna í haust.
Frekari upplýsingar veita:
Jónas Baldursson – jonasb@matis.is
Katrín Hulda Gunnarsdóttir – katrinh@matis.is