Fréttir

Jólamarkaður með matvæli á Höfn

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mjög vinsæll jólamarkaður með matvæli og handverk hefur verið haldin á Höfn í Hornafirði í desembermánuði undanfarin misseri.

Þeir aðilar sem að markaðnum standa eru Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Ríki Vatnajökuls. Á markaðnum er á boðstólnum mikið af matvöru sem framleidd er í héraðinu svo sem þurrkað ærkjöt úr öræfum, heitreyktur makríll, reyktar svínaafurðir frá Miðskersbúinu, grænmetisafurðir frá Hólabrekku, heitreyktur áll, sjávarfang frá Skinney Þinganes, ís úr Árbæ, birkisalt og fleira. Markaðurinn verður opinn laugardagana 15. og 22. des næstkomandi  frá kl. 13:00 -16:00.

Jólamarkaðurinn er útimarkaður og er haldin í sölubásum sem smíðaðir voru í sumar. Mikið var vandað við smíði básana þar sem var lagt upp með að þeir myndu líta út eins og hákarlahjallar sem gerir það að verkum að markaðurinn hefur mjög íslenskt og gamaldags yfirbragð. Boðið er upp á ýmsa viðburði á markaðnum svo sem kórsöng og fl. til þess að skapa ekta Hornfirska jólastemmingu. Góð ásókn hefur verið á markaðinn og bera matvælaframleiðendur sem selja matvæli á markaðnum sig vel, enda hefur fólk verið að koma frá austurlandi á markaðinn til þess að ná sér í gómsæt matvæli sem framleidd eru í héraðinu í hátíðarmatinn.

Jólamarkaður Höfn 2012

Nánari upplýsingar veitir Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson hjá Matís.