Fréttir

Kettir lækka blóðþrýsting hjá eigendum sínum – geta fiskar gert það sama?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Komin er út Matís lokaskýrsla í verkefninu “Einangrun, hreinsun og rannsóknir á blóðþrýstings-lækkandi peptíðum úr fiskpróteinum”. 

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengir á Íslandi og hafa verið ein langalgengasta dánarorsökin og er hækkaður blóðþrýstingur einn helsti áhættuþátturinn. Nýjustu rannsóknir benda til að áhrif próteina á heilsu séu meiri en að afla nauðsynlegrar orku og næringar. Við niðurbrot á próteinum við meltingu eða annað niðurbrot myndast smærri efni, peptíð. Þá verða amínósýruraðir sem voru óvirkar innan próteinkeðjunnar virkar þegar peptíðin eru “leyst úr læðingi”. Þessi peptíð gegna margþættum hlutverkum sem lífeðlisfræðilegir áhrifavaldar til dæmis áhrif á blóðþrýsting, meltingu, oxunarferla og fleira í líkamanum og eru kölluð lífvirk efni. Það er því mögulegt að nota peptíð í heilsufæði og jafnvel lyf.

Markmið verkefnisins var að rannsaka virkni í fiskpeptíðum og einangra, hreinsa og skilgreina peptíð sem hafa blóðþrýstingslækkandi áhrif. Í verkefninu var sett upp aðstaða og þekkingar aflað til þessa hjá Matis. Þar með er talin aðferð til að mæla virkni efna til að hindra Angiotensin Converting ensím (ACE) sem er mikilvægt við stjórnun blóðþrýstings ásamt búnaði til einangrunar og hreinsunar á peptíðum. Í samstarfi við Háskóla Ísland var HPLC og Maldi-Tof búnaður nýttur til að greina hvaða peptíð voru í hinum virku þáttum. Meðal annars fundust peptíð sem ekki hafa áður verið skilgreind sem ACE hindrar.

Niðurstöður verkefnisins sýna að íslensk fiskprótein gætu verið mikilvæg uppspretta peptíða með blóðþrýstingslækkandi eiginleika. Með þeirri þekkingu og aðstöðu sem hefur verið aflað í verkefninu eru mun meiri möguleikar á að þróa verðmætar fiskafurðir og heilsufæði.

Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.
Nánar upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís, mg@matis.is