Fréttir

Lífshættulegur faraldur á vesturlöndum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hvernig á að bregðast við lífsstílstengdum sjúkdómum? – Viðtal við Svein Margeirsson forstjóra Matís.

Í dag er talið að rúmlega 2 milljarðar einstaklinga í heiminum þurfi að kljást við afleiðingar ofþyngdar og offitu á sama tíma og tæplega milljarður manna er vannærður. Langstærstur hluti þeirra sem kljást við offitu búa á vesturlöndum, en þar eru lífsstíls tengdir sjúkdómar nú helsta ógnin á meðan malaría og HIV er helsti áhættu þátturinn á vannærðari svæðum heims. Ógn lífsstílssjúkdóma er raunveruleg og hefur vaxið mikið síðastliðinn  áratug.  Í dag er talið að 86% dauðsfalla í Evrópu megi rekja til þeirra.[1] En hvað er til ráða? þarf að efla lyfjaiðnaðinn eða má finna aðrar lausnir?

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís telur að til þess að snúa þróuninni við þurfi hugarfarsbreytingu almennings og samstillt átak á sviði rannsókna og nýsköpunar í matvæla- og líftækniiðnaði. Hann segir lýðheilsu vera viðfangsefni morgundagsins, ef stemma eigi stigu við lífsstílssjúkdómum sem eru raunverulegur faraldur á Vesturlöndum. En eitt af megin hlutverkum Matís er einmitt að stuðla að bættri lýðheilsu.

Hvernig er hægt að bregðast við ástandinu?

„Í baráttunni við sjúkdóma á borð við skyrbjúg, berkla og mislinga spilaði menntun og upplýsing lykilhlutverk sem og rannsóknir. Það sama á við um lífstílssjúkdómana.  Við ættum  horfa til menntunar og rannsókna, í takti við atvinnulífið.  Með rannsóknum vísindamanna, í samstarfi við lyfja-og matvælafyrirtæki má ná umtalsverðum árangri. En til að það sé raunhæft þarf að leita nýrra leiða og forgangsraða rétt og vel má vera að meiri árangur fyrir heildina náist með því að rannsaka, þróa og mennta, til að koma í veg fyrir lífstílssjúkdómana í stað þess að takast á við þá í risavöxnu og sífellt stækkandi heilbrigðiskerfi. Og í raun ættu allir mennta-, fjármála- og nýsköpunarráðherrar hins vestræna heims spyrja sig hvor leiðin sé fýsilegri og skili meiru til samfélagsins til langtíma litið.“

Hvað hefur Matís lagt á vogaskálarnar? 

„Við lítum svo á að öflugt atvinnulíf, í formi stofnana og fyrirtækja sé forsenda velferðar og lífsgæða. Sjálfbær nýting auðlinda er önnur forsenda og til þess að hægt sé að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt þarf mikla þekkingu. Því haldast „þekkingariðnaðurinn“ og „hráefnaiðnaðurinn“ hönd í hönd en eru ekki andstæður eins og stundum er lagt upp með.

„Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknarfyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar. Auk þess þá fer matvælaframleiðsla á Íslandi að stórum hluta fram utan höfuðborgarsvæðisins og frá stofnun Matís hefur verið lögð áhersla á rekstur starfsstöðva út um land allt til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn, sem hefur gefið góða raun.“ 

Hvernig sér Matís fyrir sér að hægt verði að breyta neyslu mynstri fólks?

„Við getum án efa horft til Noregs og lært af því hvernig þeir hafa þróað rannsóknar- og þróunarprógramm sem gengur út á að nýta og undirbyggja styrkleika Norðmanna; sjávarútveg, á sama tíma og horft er til framtíðar og sjónum beint að því hvernig norskur sjávarútvegur getur stuðlað að því að leysa úr þeirri áskorun sem lífstílssjúkdómar eru. Norðmenn meta hlutina svo að framtíðarneytendur matvæla muni horfa til heilsufarslegra áhrifa þeirra, ekki síður en til þess að fá magafylli. Fiskeri og Havbruksfonden, sem í raun er risavaxin markáætlun Norðmanna í sjávarútvegi, undir stjórn greinarinnar þar í landi er drifkraftur þessa átaks, í góðu samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla, norska sjávarútvegsráðuneytið og norska heilbrigðisráðuneytið.“

 „Hér á landi vantar töluvert upp á að við nýtum okkur sjávarafurðir til neyslu og til þess að það verði þarf að breyta orðræðunni um sjávarútveg í samfélaginu sem um þessar mundir snýst aðallega um kvóta og veiðileyfagjald, en ekki ávinninginn af neyslu sjávarafurða. Í dag borðar ungt fólk, á aldrinum 17-26 ára að meðaltali rúm 30-40 g af fiski á dag, sem samsvarar um það bil einum munnbita, sem er merkilegt í ljósi þess hvað við vitum mikið um heilnæmi sjávarfangs og áhrif lífstílssjúkdóma á heilbrigðiskerfið.[2] Aukin neysla sjávarfangs er vitaskuld einungis eitt dæmi um aðgerð sem gæti stuðlað að bættri lýðheilsu.“

„Það felast mikil tækifæri í því að virkja alla virðiskeðju menntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar á þessu sviði.  Við eigum markvisst að takast á við hin stóru viðfangsefni á sviði lýðheilsu, með rannsóknir og þróun í vopnabúrinu.  Annars er hætt við að heilbrigðiskerfið ráði ekki við vandamálið, sem sligi þjóðfélagið.  Við eigum að geta gert betur en það.“


[1] Hannes Hrafnkelsson: „Langvinnir lífsstílssjúkdómar – mesta ógn nútímans við heilbrigði“, Læknablaðið 5. tbl, 99. árg 2013.

[2] Gunnþórunn Einarsdóttir, „Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða“, Ritgerð til MA prófs frá Háskóla Íslands 2008. Sjá: http://www.avs.is/media/avs/Vidhorf_og_fiskneysla.pdf