Fréttir

Matísskýrsla um nýtingu kolmunna í markfæði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

1.4.2008

Komin er út skýrsla Matís sem hefur að geyma niðurstöður úr verkefninu Kolmunni sem markfæði sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (nú Matís) vann að í samstarfi við Háskóla Íslands og Flórídaháskóla. Í verkefninu, sem var styrkt af Rannís, var rannsakað hvort vinna megi gæðaprótein úr fiski, sem nýta má á sama hátt í matvælaiðnaði og mjólkur- og sojaprótein.

Mjólkur- og sojaprótein hafa víðtæka notkunarmöguleika í matvælaiðnaði og hafa lengi verið notuð með góðum árangri. Vitað er að í fiski er að finna gæðaprótein og því forvitnilegt að rannsaka hvort fiskprótein búi yfir sambærilegum eiginleikum og áðurnefnd prótein. Í verkefninu var athyglinni beint að vinnslu próteina úr kolmunna, sem hingað til hefur einkum verið bræddur í fiskimjöl. Tilgangurinn er að margfalda verðmæti hinna vannýttu afurða.

Markmið verkefnisins var að svara rannsóknaspurningunni: Hvaða lífvirkni er hægt að fá fram hjá peptíðum unnum úr kolmunna með ensímum? Lífvirkni er forsenda þess að unnt sé að nota kolmunna sem markfæði. Sem hráefni voru notuð einangruð kolmunnaprótein. Rannsóknin sýndi að niðurbrotin kolmunnaprótein hafa lífvirkni. Hins vegar reyndust skynmatseiginleikar afurða ekki nægjanlega góðir og heimtur lágar. Var það sérstaklega sökum þess hversu erfiðlega gekk að afla fersks kolmunna sem hráefnis.

Margrétar Geirsdóttir, sérfræðingur á Líftæknisviði Matís, og annar höfundur skýrslunnar segir að í verkefninu hafi verið aflað mikillar þekkingar á sviði ensímniðurbrots og lífvirknieiginleika próteinafurða og að sú þekking muni nýtast íslenskum iðnaði og vísindamönnum við framtíðarrannsóknir á sviði próteina, ensíma og lífvirkni og þar með auka verðmæti íslenskra afurða. Hún bendir m.a. á að um alþjóðlegt nýnæmi sé að ræða þ.e. að í verkefninu hafi samspil vatnsrofs með ensímum og vinnslueiginleikar og lífvirkni verið kannað og samspil vatnsrofs fiskpróteina einangruð með nýrri aðferð og lífvirkni þeirra könnuð. Þetta, hafi ekki verið gert áður, og því sé hér um nýmæli að ræða, að sögn Margrétar.

Skýrsla Matís Kolmunni sem markfæði