Fréttir

Mjög vel heppnaðir samráðsfundir

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís, Matvælastofnun (MAST) og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið buðu í gær til samráðsfundar um örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Gríðarlega góð mæting var á fundinn sem haldinn var í Sjávarútvegshúsinu Skúlagötu 4, sem og samskonar fund sem Matvælastofnun bauð til eftir hádegi á Selfossi. Húsfyllir var á báðum fundum og miklar og góðar umræður sköpuðust. Tilgangur þessara samráðsfunda var að kynna verkefnið Örugg matvæli og ræða stöðu matvælaöryggis á Íslandi.

Verkefnið Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB, en hefur nú verið hrint úr vör í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Staða matvælaöryggis á Íslandi verður rædd í ljósi þess að geta selt matvæli bæði innanlands og á alþjóðlegum markaði.Fundargestum verður gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum og fyrirspurnum á framfæri í pallborðsumræðum í lok fundar.

Verkefninu Örugg matvæli er ætlað að tryggja matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Örugg matvæli er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Örugg matvæli | Food safety

Verkefnið Örugg matvæli verður án vafa mikill stökkpallur fyrir íslenska neytendur, eftirlitsaðila og ekki hvað síst fyrir framleiðendur og söluaðila. Neytendur vilja nánari upplýsingar um efnin sem eru og eru ekki í matvælum sem þeir neyta og framleiðendur og söluaðilar vilja einnig fá þessar upplýsingar til að auka enn frekar traust neytenda á þeirra vörum.

Nánari upplýsingar má nálgast í skjalinu Örugg matvæli | Aðgerðir og afrakstur og hjá Margréti Björk Sigurðardóttur frá Matvælastofnun (MAST) og hjá Helgu Gunnlaugsdóttur frá Matís.