Fréttir

Óléttupróf fyrir þorsk?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Stór þáttur í starfsemi Matís tengist fiskeldi og eru rannsóknir á því sviði af ýmsum toga og unnin í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Nýlega voru gangsettir verkefnavefir í tveimur Evrópuverkefnum sem Matís tekur þátt í.

Annars vegar er um að ræða verkefnið Codlight-Tech þar sem markmiðið er að þróa nýja gerð ljósa til notkunar í sjókvíaeldi – en með því móti er ætlunin að koma í veg fyrir að þorskur verði kynþroska á eldistímanum. Kynþroski þorsks í eldi, það sem eldismenn kalla “ótímabæran” kynþroska, veldur stöðnun í vöðvavexti þar sem fiskurinn notar alla orku í þroska kynkirtla. Ennfremur er það óæskilegt að þorskurinn hrygni í sjókvíum þar sem þá getur átt sér stað blöndun erfðaefnis úr eldisfiski og villtum fiski.Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins verður ennfremur að þróa “óléttupróf” fyrir þorsk – þ.e. að tæki til að greina á einfaldan hátt og með mikilli nákvæmni stöðu fiska m.t.t. kynþroska. Með því móti verður auðveldara fyrir eldismenn að skipuleggja eldi fram í tímann. Heildarvelta verkefnisins eru um 170 milljónir króna og stendur verkefnið í tvö og hálft ár og eru dr. Þorleifur Ágústsson hjá Matís og dr. Herve Migaud hjá háskólanum i Stirling í Skotlandi upphafsmenn verkefnisins. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins sem unnin er í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða http://www.codlight-tech.com

Sjá frétt mbl.is um “óléttupróf” fyrir þorska. Þá má einnig vekja athygli vestfirska vefmiðilsins Bæjarins besta um sama mál.Hins vegar er um að ræða verkefni á sviði velferðar eldisfisks í Evrópu. Hér er um að ræða mjög stórt verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu og með þátttakendum frá 16 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru þátttakendur í verkefninu, dr. Þorleifur Ágústsson hjá Matís ohf. og dr. Helgi Thorarensen hjá Háskólanum á Hólum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins sem unnin er í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða. http://www.fishwelfare.com