Fréttir

Örverumæliþjónusta Matís fær endurvottun á faggildingu NYSDOH

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Örverumæliþjónusta Matís fékk nýverið úttektaraðila frá NYSDOH (New York State Department of Health) í heimsókn. Þessi úttekt er liður í að viðhalda faggildingu rannsóknarstofunnar til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni sem er ætlað til sölu á Ameríku markað.

Örverumæliþjónusta Matís er eina rannsóknarstofan hér á landi sem uppfyllir þessar NYSDOH kröfur samkvæmt NELAC staðlinum. Að auki uppfyllir Matís kröfur ÍST EN ISO / IEC 17025 staðalsins og er einnig með faggildingu á vegum Swedac (Swedish Board for Accreditation and Conformity).

Heimsóknin stóð yfir frá 8. mars til 9. mars og gerði úttektaraðilinn ítarlega könnun á gæðakerfinu í heild sinni auk þess að taka fyrir þær rannsóknaraðferðir sem faggiltar eru samkvæmt NELAC staðlinum. Eins og áður kom fram eru þetta aðferðir til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni.

Úttektir eins og þessar bjóða upp á frábær tækifæri, og starfsfólk Örverumæliþjónustunnar leggur metnað í að nýta þær til að betrumbæta gæðakerfið og alla þjónustu við sína viðskiptavini í heild sinni.

Halla Halldórsdóttir gæðastjóri rannsóknastofa

Kynnið ykkur faggiltar rannsóknaraðferðir sem í boði eru hjá Örverumæliþjónustu Matís með því að smella hér.